• Hvað er þroskafrávik og fötlun?

      Evald Sæmundsen; Páll Magnússon (Mál og menning, 1993-04-01)
      Hér verður ekki eytt mörgum orðum í að skilgreina hvað þroski er, svo skýra mynd hafa flestir í huga sér af því fyrirbæri. Nægir að nefna stöðugar breytingar, tengdar aldri, sem sýnilegar eru í útliti og hegðun einstaklings. Um allan heim er atburðarásin svipuð, einkum framan af ævinni, enda er hún skráð í erfðavísa hvers og eins, þótt umhverfisáhrif geti ráðið miklu um hvernig rætist úr því sem menn fá í vöggugjöf. Framvinda þroskans er gjarnan miðuð við vissa þroskaáfanga, en röð þeirra er tiltölulega fastbundin. Allir kannast við slíkar raðir þroskaáfanga, til dæmis í hreyfiþroska barna sem fara að sitja áður en þau standa og ganga með stuðningi áður en þau ganga óstudd. Ekki einasta er röðin tiltölulega fastbundin heldur einnig tímasetning hvers áfanga. Hugtökin þroskafrávik og fötlun eru nátengd þar sem algengt er að þroskafrávik valdi fötlun. Þegar hér er talað um þroskafrávik er einungis átt við frávik sem birtast sem skerðing í þroska. Ekkert er því til fyrirstöðu að ræða um þroskafrávik þegar börn eru óvenjufljót til á einhverju sviði, en hér verður hugtakið notað yfir þau frávik sem koma fram í þroskaseinkun og vitna um afbrigðilegan þroska miðtaugakerfisins.