• Alzheimerssjúkdómur á miðjum aldri : rannsókn á aðstæðum fólks sem hefur greinst með Alzheimerssjúkdóm á Íslandi á aldrinum 45-65 ára

      Hanna Lára Steinsson (Landspítali - háskólasjúkarhús, 2005)
      Ekki er langt síðan talað var um að fólk væri kalkað eða ruglað þegar það í raun þjáðist af sjúkdómum sem heyra undir heilabilun í dag. Heilabilun er þýðing á enska orðinu dementia og felur ekki einungis í sér skerðingu á nærminni og fjarminni. Málstol, verkstol, skert dómgreind, skynstol og skert ratvísi eru gjarnan fylgifiskar heilabilunar. Færniskerðing verður í flóknari athöfnum eins og að annast fjármál, kaupa inn, ferðast um, aka bíl, annast lyfin sín, þvo þvott og þrífa, elda og nota heimilistæki. Frekari færniskerðing verður svo í frumathöfnum daglegs lífs eins og að klæðast, snyrta sig, matast, fara á salerni og ganga um innanhúss. Hegðun sjúklinga getur orðið erfið þeim sem umgangast þá og um 90% sjúklinga fá geðræn einkenni og atferlistruflanir einhvern tíma á sjúkdómsferlinu. Geðræn einkenni geta meðal annars verið þunglyndi, kvíði, ranghugmyndir, ofskynjanir og svefntruflanir. Atferlistruflanir lýsa sér gjarnan í rápi og ráfi, óróleika, hávaða, áreitni, reiði, árásargirni og ósæmilegri hegðun (Jón Snædal, 2001; Rabins, Lyketsos og Steele, 1999). Ýmsir sjúkdómar heyra undir heilabilun og er Alzheimerssjúkdómurinn algengastur eða um 60%. Aðrir sjúkdómar eru æðavitglöp, Lewy sjúkdómur og aðrir sjaldgæfari sjúkdómar (Rabins, Lyketsos og Steele, 1999). Heilabilun minnkar lífslíkur einstaklinga og talið er að sjúklingar með Alzheimerssjúkdóm lifi til dæmis að meðaltali 40% skemur en jafnaldrar þeirra (Jón Snædal, 1997). Algengar tölur um tíðni heilabilunar á Vesturlöndum benda til þess að um 1% fólks yngra en 65 ára fái heilabilunarsjúkdóm, um 8% fólks á aldrinum 65-75 ára, 20% fólks 75-85 ára og 35-40% fólks eldra en 85 ára (Rabins, Lyketsos og Steele, 1999). Greining á heilabilun er sífellt að verða nákvæmari og úrræði fyrir sjúklinga og aðstandendur hafa aukist, bæði læknisfræðileg og félagsleg. Þegar fjölskyldumeðlimur greinist með heilabilun hefur það áhrif á alla aðra nákomna og 5 álag á umönnunaraðila eins og maka eða börn eykst jafnt og þétt. Jafnframt er algengt að utanaðkomandi aðstoð eins og heimaþjónusta og heimahjúkrun sé aukin smátt og smátt þegar líður á sjúkdómsferlið. Engu að síður eru það ávallt nánustu aðstandendur sem bera mestan þungann af umönnuninni, sé þeim til að dreifa.