• Svæfingar á Íslandi í 150 ár : 1856-2006

      Jón Sigurðsson; Jón Sigurðsson, jsb24@internet.is (Jón Sigurðsson, 2010)
      - ÚR FORMÁLA - Leitast er við að lýsa þróun svæfinga hér á Íslandi og að kynna þá lækna og aðra heilbrigðisstarfsmenn sem mest hafa komið við sögu. Hins vegar er erlendum atburðum aðeins að mjög litlu leyti gerð skil. Að baki þróuninni hér á landi liggur þó yfirleitt flókin atburðarás og þróunarvinna sem íslenskir læknar hafa lesið um í erlendum læknatímaritum og bókum eða kynnst erlendis og tekið með sér til landsins. Gjörgæsludeildir voru settar á laggirnar í byrjun áttunda áratugar tuttugustu aldar. Þróun svæfinga og gjörgæslu hefur verið mjög samtvinnuð og því koma gjörgæsludeildir mikið við sögu í bókinni þótt þeirra sé ekki getið sérstaklega í bókartitli. Bókin er einkum skrifuð fyrir lækna og samstarfsfólk þeirra. Höfundur reiknar því með að lesandinn viti deili á helstu persónum í þessari sögu og hafi einhverja þekkingu á viðfangsefninu en fái við lestur bókarinnar gleggri mynd af atburðarásinni og geti jafnvel séð sjálfan sig sem sögupersónu eða þátttakanda í einhverjum kafla sögunnar. Einnig vonast höfundur til þess að í framtíðinni muni einhverjum finnast bókin hafa þýðingu sem heimild um sögu heilbrigðisþjónustunnar í landinu. Höfundur er læknir. Því er saga þessi einkum skrifuð frá sjónarhóli læknis. Jafnframt er þó reynt að skyggnast inn í heim annarra heilbrigðisstétta, einkum hjúkrunarfræðinga, sem gegna sínu hlutverki í sögunni. Höfundur er meðvitaður um að texti og myndaval hefur viljandi og óviljandi mótast af því umhverfi sem hann sjálfur starfaði í á svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut. Jafnvel kann að sýnast sem sumar myndanna séu úr eins konar „fjölskyldualbúmi“ höfundar. Lesendur bókarinnar munu einnig sjá að Margrét Jóhannsdóttir svæfingahjúkrunarfræðingur sem starfaði á svæfingadeild Landspítalans í 35 ár hefur lagt sitt að mörkum með ljósmyndum sínum til þess að gera sögu þessa myndrænni en ella hefði verið mögulegt. Færi ég henni bestu þakkir, svo og öðrum sem veittu mér upplýsingar og aðstoð við gerð bókarinnar. Meginmarkmið svæfinga er að svipta fólk meðvitund til þess að mögulegt sé að framkvæma tilteknar læknisfræðilegar aðgerðir á þægilegan og öruggan hátt. Bók þessi er alls ekki kennslubók í svæfingum. Því er hvorki útskýrt í bókinni hvaða eiginleika einstök svæfingarlyf hafa né á hvern hátt menn skuli bera sig að til þess að markmið góðra svæfinga náist.