• Einhverfa

   Páll Magnússon (Mál og menning, 1993-04-01)
   Árið 1943 birti bandaríski læknirinn Leo Kanner tímaritsgrein sem hann nefndi Einhverfar truflanir tilfinningatengsla. Hann lýsti þar 11 börnum sem virtust eiga það sameiginlegt að lifa í eigin heimi, tengslalítil við annað fólk. Þau voru sein til í málþroska og sum lærðu reyndar aldrei að tala. Þau sem lærðu að tala notuðu ekki málið sem tæki til samskipta við annað fólk. Tal þeirra var ekki í samhengi við það sem var að gerast í kringum þau og sum þeirra stögluðust í sífellu á sömu orðunum og setningunum. Önnur bergmáluðu það sem við þau var sagt. Athafnir þeirra voru um margt sérkennilegar, leikir fábreyttir og fólust gjarnan í að endurtaka í sífellu sömu einföldu athafnirnar. Áhugamál þeirra voru undarleg og óvenjuleg. Kanner valdi þessu fyrirbæri heitið barnaeinhverfa. Í meginatriðum er lýsing Kanners á hegðunareinkennum einhverfu enn í fullu gildi. Hins vegar hefur skilningur manna á eðli og orsökum fyrirbærisins breyst verulega.
  • Hvað er þroskafrávik og fötlun?

   Evald Sæmundsen; Páll Magnússon (Mál og menning, 1993-04-01)
   Hér verður ekki eytt mörgum orðum í að skilgreina hvað þroski er, svo skýra mynd hafa flestir í huga sér af því fyrirbæri. Nægir að nefna stöðugar breytingar, tengdar aldri, sem sýnilegar eru í útliti og hegðun einstaklings. Um allan heim er atburðarásin svipuð, einkum framan af ævinni, enda er hún skráð í erfðavísa hvers og eins, þótt umhverfisáhrif geti ráðið miklu um hvernig rætist úr því sem menn fá í vöggugjöf. Framvinda þroskans er gjarnan miðuð við vissa þroskaáfanga, en röð þeirra er tiltölulega fastbundin. Allir kannast við slíkar raðir þroskaáfanga, til dæmis í hreyfiþroska barna sem fara að sitja áður en þau standa og ganga með stuðningi áður en þau ganga óstudd. Ekki einasta er röðin tiltölulega fastbundin heldur einnig tímasetning hvers áfanga. Hugtökin þroskafrávik og fötlun eru nátengd þar sem algengt er að þroskafrávik valdi fötlun. Þegar hér er talað um þroskafrávik er einungis átt við frávik sem birtast sem skerðing í þroska. Ekkert er því til fyrirstöðu að ræða um þroskafrávik þegar börn eru óvenjufljót til á einhverju sviði, en hér verður hugtakið notað yfir þau frávik sem koma fram í þroskaseinkun og vitna um afbrigðilegan þroska miðtaugakerfisins.
  • Próffræðilegt mat á DSM-IV einkennalista um athyglisbrest með ofvirkni (AMO) : algengi einkenna AMO meðal 18 til 70 ára Íslendinga

   Daníel Þór Ólason; Páll Magnússon; Sigurður J. Grétarsson (Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, 2006)
   Athyglisbrestur með ofvirkni (AMO) er röskun á taugaþroska sem yfirleitt greinist á barnsaldri. Einkenni eru hreyfiorvirkni, hvatvísi og athyglisbrestur sem eru í ósamræmi við aldur og þroska (APA, 2000; Gísli Baldursson, Páll Magnússon og Ólafur Ó. Guðmundsson, 2000; Margrét Valdimarsdóttir, Agnes Huld Hrafnsdóttir, Páll Magnússon og Ólafur Ó Guðmundsson, 2005). Samkvæmt DSM-IV greiningarkerfinu þurfa hamlandi einkenni að vera komin fram fyrir 7 ára aldur, koma fram í fleiri en einum aðstæðum (t.d. heimili, skóla eða vinnu) og útdloka þarf að önnur geðröskun eins og þunglyndi, kvíði, hugrof eða persónuleikaröskun séu líklegri skýring einkenna (APA, 2000). Þess vegna er undirstaða greiningar á AMO á fullorðinsárum ítarleg þroska- og sjúkrasaga. Greiningarviðrnið AMO, eins og þau eru skilgreind í fyrrnefndu greiningarkerfi, byggjast á rannsóknum á börnum (Lahey og fél.} 1994) og ekki fyllilega víst hversu vel þau henta í greiningu á fullorðnum.