Recent Submissions

 • Gagnsemi serum-tryptasamælinga hjá sjúklingum með möguleg einkenni bráðaofnæmiskasts á bráðamóttöku 2011–2018

  Karólína Hansen1; Hjalti Már Björnsson; María I. Gunnbjörnsdóttir; 1 Læknadeild Háskóla Íslands, 2 Bráðadeild Landspítala, 3 Ofnæmisdeild Landspítala (Læknafélag Íslands, 2021-10)
  INNGANGUR Tiltölulega einfalt er að greina bráðaofnæmiskast í dæmigerðum tilfellum en birtingarmyndin getur þó verið fjölbreytt. Sýnt hefur verið fram á að hjá einstaklingum með ódæmigerð einkenni getur mæling á s-tryptasa verið gagnleg til viðbótar við klíníska greiningu læknis. Einnig nýtist mæling á s-tryptasa til að greina sjúkdóminn mastfrumnager. Byrjað var að nota s-tryptasamælingar á bráðamóttöku Landspítala árið 2011. Markmið rannsóknarinnar var að meta tíðni og gagnsemi s-tryptasamælinga hjá sjúklingum á bráðamóttöku. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Með leyfi siðanefndar heilbrigðisrannsókna á Landspítala voru skoðuð öll þau tilvik þar sem blóðsýni var sent frá bráðamóttöku til mælingar á s-tryptasa á ónæmisfræðideild á árunum 2011-2018. Upplýsingum var safnað úr sjúkraskrám um uppvinnslu og meðferð sjúklinga á bráðamóttöku og hjá ofnæmislækni. NIÐURSTÖÐUR Alls voru 214 sýni send til s-tryptasamælingar. Tryptasi var hækkaður (>12 μg/L) í 36 tilvikum. Konur voru 131 (61,2%) og meðalaldur var 40,6 ár. Algengi einkenna voru: húð- og slímhúðareinkenni 86,4%, blóðrásareinkenni 48,1%, öndunarfæraeinkenni 49,5% og meltingarfæraeinkenni 36,0%. Af 126 endurkomusjúklingum mat ofnæmislæknir 65 tilfelli sem bráðaofnæmiskast. Af þeim uppfylltu fjórir einstaklingar ekki klínísk greiningarskilmerki bráðaofnæmiskasts en voru með hækkuð tryptasagildi. Næmi s-tryptasamælingar var 40,9% og sértæki 97,1%. Ekkert tilfelli leiddi til greiningar mastfrumnagers. ÁLYKTANIR Mælingar á s-tryptasa hjá sjúklingum á bráðamóttöku með möguleg einkenni bráðaofnæmiskasts virðast veita gagnlegar upplýsingar til greiningar sjúkdómsins til viðbótar við klínískt mat. Mælingin er sértæk en með lágt næmi. Mælingarnar hafa ekki leitt til fjölgunar greininga á mastfrumnageri.
 • Breytingar í lungnavef á tölvusneiðmyndum sjúklinga með kórónuveirusjúkdóm 2019 (COVID-19)

  Arnljótur Björn Halldórsson; Gísli Þór Axelsson; Helgi Már Jónsson; Jóhann Davíð Ísaksson; Hrönn Harðardóttir; Gunnar Guðmundsson; Sif Hansdóttir; 1 Myndgreiningardeild Landspítala, 2 Læknadeild Háskóla Íslands, 3 Lungnadeild Landspítala (Læknafélag Íslands, 2021-10)
  INNGANGUR Sýking af völdum kórónuveiru sem veldur kórónuveirusjúkdómi 2019 (COVID-19) getur leitt til lungnabólgu sem í sumum tilvikum er lífshættuleg eða jafnvel banvæn. Þekkt er að þeir sem fá alvarlegri sjúkdóm hafa meiri breytingar í lungnavef á tölvusneiðmyndum (TS) af brjóstholi. Tilgangur rannsóknarinnar var að lýsa myndbreytingum í lungum í bráðafasa COVID-19 og í eftirliti og um leið að meta hvort umfang lungnabreytinga á TS hefði tengsl við alvarleika sjúkdómsins, bakgrunnsþætti og fyrra heilsufar. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Rannsóknin náði til allra einstaklinga með staðfest COVID-19 sem komu í eftirlit á göngudeild og fóru í TS eftirlitsrannsókn af brjóstholi á Landspítala frá 6. maí 2020 til 24. september 2020. Upplýsingar um sjúkrasögu sjúklinga voru fengnar úr gagnagrunni Landspítala á afturskyggnan máta. Allar tölvusneiðmyndir voru endurskoðaðar og notað var við alþjóðlegt stigunarkerfi til að meta umfang lungnabreytinga. NIÐURSTÖÐUR Alls voru 85 þátttakendur í rannsókninni, meðalaldur var 59 ár og karlar í meirihluta (52%). Sextíu (71%) lögðust inn á sjúkrahús, þar af 18 (21%) á gjörgæslu. Útbreiddari lungnabreytingar sáust oftar hjá karlmönnum og sjúklingum sem voru inniliggjandi á gjörgæslu. Jafnframt voru þeir líklegri til að þurfa öndunarvélameðferð. Í eftirliti sáust marktæk tengsl færri TS-stiga við kvenkyn en marktæk tengsl fleiri TS-stiga voru við hækkandi aldur, gjörgæslulegu og lengd gjörgæslulegu. Lungnabreytingar voru horfnar hjá tæplega þriðjungi þátttakenda við eftirlit (að miðgildi 68,5 dögum eftir bráðarannsókn). ÁLYKTUN Einstaklingar með alvarlegan COVID-19 hafa umfangsmeiri lungnabreytingar í bráðum veikindum og við eftirlit en þeir sem fá vægari sjúkdóm. Eldri einstaklingar og karlmenn eru í aukinni áhættu.
 • Þróun lyfjaávísana á ópíóíðalyf í heilsugæslu á árabilinu 2008 til 2017

  Sigríður Óladóttir; Jón Steinar Jónsson; Margrét Ólafía Tómasdóttir1; Hannes Hrafnkelsson; Emil Lárus Sigurðsson; 1 Læknadeild Háskóla Íslands, 2 Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, 3 Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu (Læknafélag Íslands, 2021-10)
  BAKGRUNNUR Undanfarna áratugi hefur ávísunum á ópíóíðalyf fjölgað mikið á Vesturlöndum. Aukinni notkun fylgir hætta á aukaverkunum, fíkn í ópíóíðalyf og andlátum tengdum ópíóíðum. Aukning ávísana á ópíóíðalyf hefur meðal annars verið rakin til breyttra viðhorfa til verkjameðferðar. Rannsóknir hafa sýnt að verkir eru meðal algengustu ástæðna þess að fólk leitar til lækna og langvinnir verkir eru algengir. Samanborið við önnur norræn lönd eru ávísanir á ópíóíða hlutfallslega flestar á Íslandi. Tilgangurinn var að kanna þróun ávísana á ópíóíðalyf í heilsugæslunni fyrir alla aldurshópa á tímabilinu 2008–2017. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Rannsóknin náði til allra ávísana á ópíóíðalyf hjá öllum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu 2008–2017. Íbúafjöldi á höfuðborgarsvæðinu var á þessu tímabili um 201 til 222 þúsund. Gögn voru fengin úr Sögukerfi heilsugæslunnar og rúmlega 68.000 einstaklingar höfðu fengið ávísun á ópíóíðalyf á rannsóknartímabilinu. NIÐURSTÖÐUR Á rannsóknartímabilinu varð 17,2% (p<0,01) aukning á skilgreindum sólarhringsskömmtum/1000 íbúa/dag á ópíóíðum. Um þriðjungur þeirra sem fengu ávísun voru karlar og var hlutfallið óbreytt milli ára. Hlutfallslega varð mest aukning í SSS/1000 íbúa/dag í aldurshópnum 90 ára og eldri, eða 40,5% (p<0,01). Hlutfallslega fjölgaði mest einstaklingum sem fengu ópíóíðalyf í aldursflokknum 30–39 ára, eða um 25,5% (p<0,01). Ávísunum fjölgaði í öllum lyfjaflokkum, mælt í SSS/1000 íbúa/dag, um 15,3% (p<0,01) á parkódín, 20,7% (p<0,01) á parkódín forte, 4,7% (p<0,01) á tramadól og 85,6% (p<0,01) á mjög sterk ópíóíðalyf. ÁLYKTANIR Þróun lyfjaávísana á allar tegundir ópíóíðalyfja til skjólstæðinga heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu á árunum 2008–2017, þar sem ávísunum á mjög sterk ópíóíðalyf fjölgaði mest hlutfallslega, ætti að hvetja til endurskoðunar á verkjameðferð innan heilsugæslunnar og gæðaþróunar á því sviði. Jafnframt ættu niðurstöðurnar að hvetja til endurmats á vinnulagi við endurnýjum ávísana á ópíóíðalyf í heilsugæslu.
 • Skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi. Yfirlitsgrein um nýgengi, dánartíðni, kostnað og árangur.

  Helgi Birgisson; Elínborg J. Ólafsdóttir; Anna Sverrisdóttir; Sigurður Einarsson; Agnes Smáradóttir; Laufey Tryggvadóttir; 1 Rannsókna- og skráningarsetur Krabbameinsfélagsins. Ristil og endaþarmsskurðdeild, Akademiska sjúkrahúsið, Uppsölum, Svíþjóð, 2 Rannsóknaog skráningarsetur Krabbameinsfélagsins, 3 Miðstöð meltingarlækninga, Læknastöðin Glæsibæ. Fagráð Embættis landlæknis um skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi árin 2018-2020, 4 Meltingarlækningadeild Landspítalans. Meltingarsetrið, 5 Krabbameinslækningadeild Landspítalans, 6 Rannsókna- og skráningarsetur Krabbameinsfélagsins. Læknadeild og Lífvísindasetur Háskóla Íslands (Læknafélag Íslands, 2021-09)
  Nýgengi krabbameina í ristli og endaþarmi hefur aukist hjá bæði konum og körlum síðustu áratugina en dánartíðni hefur heldur lækkað frá sjötta áratugnum og lifun batnað vegna betri greiningar og meðferðar. Fjöldi þeirra sem látast úr ristil- og endaþarmskrabbameini er þó meiri en úr brjósta- og leghálskrabbameinum samanlagt. Viðfangsefni greinarinnar eru nýgengi og dánartíðni krabbameina í ristli og endaþarmi hérlendis. Fjallað er um tvær algengustu skimunaraðferðirnar, leit að blóði í hægðum og ristilspeglun. Þá er lagt mat á ætlaðan kostnað og ávinninning íslensks samfélags af því að skima fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi. Líklegt er að á Íslandi geti skipulögð lýðgrunduð skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi komið í veg fyrir að minnsta kosti 6 dauðsföll af þeim 28 á ári sem verða úr sjúkdómnum meðal fólks á skimunaraldri, ef skimunaraldur verður 50-74 ára. Umframkostnaður fyrir samfélagið vegna skimunar fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi er talinn mjög ásættanlegur í ljósi þess að sparnaður verður vegna einfaldari meðferðar, lækkunar nýgengis og fækkunar dauðsfalla.
 • Einstaklingar sem nota vímuefni í æð á Íslandi: Bráðakomur og innlagnir á Landspítala og dánartíðni

  Bjarni Össurarson Rafnar; Magnús Haraldsson; Guðrún Dóra Bjarnadóttir; Geðdeild Landspítala, Læknadeild Háskóla Íslands, Háskóli Íslands, heilbrigðisvísindasvið (Læknafélag Íslands, 2021-09)
  INNGANGUR Misnotkun vímuefna er stór áhrifaþáttur í ótímabærum veikindum og dauða í heiminum. Verst settir eru þeir sem nota vímuefni í æð. Hópurinn á erfitt með að nýta sér hefðbundna heilbrigðisþjónustu og leitar frekar á bráðamóttökur spítala með sín vandamál. Þessir einstaklingar leita sér oft seint aðstoðar og eiga erfitt með að fylgja ráðleggingum, með ærnum kostnaði fyrir einstaklinginn og samfélagið. MARKMIÐ Tilgangur rannsóknar var að kanna notkun einstaklinga sem nota vímuefni í æð á bráðamóttökum og innlagnardeildum Landspítala yfir tveggja ára tímabil og rannsaka dánartíðni þeirra 7 árum eftir komuviðtal. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Rannsóknin er afturskyggn og hluti af stærri rannsókn á 108 einstaklingum með sögu um að misnota vímuefni í æð. Inntökuviðtölin voru tekin á árunum 2012-2013 þegar rannsóknarhópurinn lagðist inn til fíknimeðferðar á einhverjum af þremur stöðum: Fíknigeðdeild Landspítala (45%), Vog (30%) eða Hlaðgerðarkot (25%). Til að meta þjónustuþunga voru komur, innlagnir og innlagnardagar taldir. Fjöldi koma á bráðamóttökur Landspítala var borinn saman við parað úrtak almennings. Komuástæður á bráðamóttökur voru greindar og gerður samanburður milli þeirra sem notuðu aðallega metylfenidat og annarra. Að lokum var dánartíðni rannsóknarhópsins skoðuð 7 árum eftir inntökuviðtal. NIÐURSTÖÐUR Rannsóknarhópurinn kom marktækt oftar á bráðamóttökur Landspítala en almenningur. Meðalfjöldi koma rannsóknarhópsins á ári var 4,8 og 43% komu fjórum sinnum eða oftar á ári. Meirihluti koma var vegna geðrænna einkenna (65%) og þar af var þriðjungur vegna alvarlegra geðrænna einkenna. Algengustu líkamlegu vandamálin voru húðsýkingar og slys/ofbeldi. Ekki reyndist marktækur munur á þeim hluta hópsins sem notaði aðallega metylfenidat og önnur vímuefni. Dánartíðni var marktækt hækkuð hjá rannsóknarhópnum og áhættuhlutfall fyrir andláti var 26,4 (vikmörk 16,7-41,5). ÁLYKTUN Einstaklingar sem nota vímuefni í æð tilheyra viðkvæmum hópi með flókin geðræn og líkamleg vandamál. Mikilvægt er að þessir einstaklingar hafi greiðan aðgang að gagnreyndri fíknimeðferð en ekki síður að almennri heilbrigðisþjónustu. Þá þjónustu þarf að laga að þörfum hópsins og hafa að markmiði að draga úr skaðsemi vímuefnanotkunar þannig að viðkomandi hafi heilsu og öðlist getu og áhugahvöt til að hætta vímuefnanotkun.
 • Viðhorf hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra á Sjúkrahúsinu á Akureyri til fjölskylduhjúkrunar

  Áslaug Felixdóttir; Eydís Kristín Sveinbjarnardóttir; Snæbjörn Ómar Guðjónsson; 1)3)Sjúkrahús Akureyrar 2)Hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri (Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, 2021)
  Fjölskylduhjúkrun bætir samskipti innan fjölskyldu, hefur áhrif á gæði hjúkrunar og verkferla á sjúkradeildum, eykur samvinnu við fjölskyldur, leiðir til styttri innlagna og getur jafnvel komið í veg fyrir endurinnlagnir. Viðhorf hjúkrunarfræðinga geta haft áhrif á það hvort og hvernig þeir veita fjölskylduhjúkrun. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta og dýpka skilning á viðhorfum hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra á Sjúkrahúsinu á Akureyri til fjölskylduhjúkrunar fyrir og á meðan á innleiðingu á Calgary fjölskylduhjúkrunar stóð. Rannsóknin var íhlutunarrannsókn án samanburðarhóps. Í megindlega hlutanum svöruðu þátttakendur spurningalista um viðhorf hjúkrunarfræðinga til mikilvægis fjölskyldna í hjúkrun (FINC-NA – Families’ Importance in Nursing Care – Nurses’ Attitudes) ásamt bakgrunnsspurningum. Rannsóknargögnum og bakgrunnsupplýsingum var safnað hjá öllum hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum á SAk á tveimur tímabilum. Í megindlega hlutanum var unnið með gögn hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra á deildum þar sem fjölskylduhjúkrun var innleidd (n=145). Á tíma 1 svöruðu 133 þátttakendur (92%) og á tíma 2 svöruðu 132 (89%). Úrvinnsla megindlegra gagna fór fram í SPSS. Í eigindlega hlutanum svöruðu þátttakendur þremur opnum spurningum skriflega. Af öllu þýðinu (N=205) svöruðu 87 þátttakendur skriflega spurningum við báðar fyrirlagnir sem voru greindar og flokkaðar með aðferðum innihaldsgreiningar. Viðhorf hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra á SAk til fjölskylduhjúkrunar var almennt jákvætt. Það breyttist ekki í innleiðingarferlinu. Þátttakendur með hærra menntunarstig og lengri starfsreynslu litu síður á fjölskyldu sem byrði (p<0,05). Þátttakendur sem töldu að það væri almenn stefna að hlúa að fjölskyldum á sinni deild höfðu jákvæðara viðhorf (p<0,05). Þátttakendur töldu helsta ávinning og hvata fjölskylduhjúkrunar stuðla að auknum gæðum hjúkrunar. En hins vegar töldu þeir helstu hindranir í því að veita fjölskylduhjúkrun vera álagsþættir í starfi, starfsumhverfi og vinnuskipulagi. Það er mikilvægt að styðja áfram við jákvæðviðhorf hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra á SAk til fjölskylduhjúkrunar. Það hefur sýnt sig að jákvætt viðhorf stuðlar að árangursríkari fjölskylduhjúkrun til sjúklinga og aðstandenda.
 • „Þetta breytti lífi mínu“. Reynsla fólks af dáleiðslumeðferð við afleiðingum sálrænna áfalla

  María Albína Tryggvadóttir; Sigrún Sigurðardóttir; Þorbjörg Jónsdóttir; 1)Verkmenntaskólinn á Akureyri 2)3)Háskólinn á Akureyri (Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, 2021)
  Að skoða reynslu fólks af dáleiðslumeðferð við afleiðingum sálrænna áfalla með það að markmiði að auka þekkingu og dýpka skilning fagfólks og almennings á dáleiðslumeðferð sem meðferðarmöguleika. Unnið var eftir Vancouver-skólanum í fyrirbærafræði í tólf meginþrepum og sjö þrepa vitrænu ferli fylgt. Þátttakendur voru níu, sex konur og þrír karlar, sem höfðu fengið dáleiðslumeðferð hjá geðhjúkrunarfræðingi með dáleiðslumenntun. Tvö viðtöl voru tekin við hvern þátttakanda. Yfirþemað „Þetta breytti lífi mínu“ lýsir vel reynslu þátttakenda í þeim tilvikum þar sem árangur dáleiðslumeðferðarinnar hafði jákvæð áhrif á líf þeirra. Niðurstöður voru greindar í fimm undirþemu: reynsla af áföllum, heilsufarslegar afleiðingar áfalla, reynsla af öðrum meðferðarleiðum, reynsla af dáleiðslumeðferð og reynsla af árangri dáleiðslumeðferðar. Þátttakendur fundu að unnið var djúpt í tilfinningalífi þeirra og sú vinna bætti líðan þeirra. Þeir lýstu því að dáleiðslumeðferðin hefði hjálpað þeim að kryfja og vinna með tilfinningar og komist að rót áhrifanna sem áfallareynslan hafði haft á heilsu þeirra og líðan. Það leiddi til betri skilnings og þekkingar á tengslum eigin tilfinninga og líðanar. Auk þess skilaði dáleiðslumeðferðin betri sjálfsmynd, bættum svefni, minni kvíða og þunglyndi, betri hvíld, minni verkjum, bættri tilfinningastjórn og því að slæmar endurminningar hurfu. Dáleiðsla getur reynst vel við úrvinnslu sálrænna áfalla og neikvæðum heilsufarslegum afleiðingum þeirra. Mikilvægt er að í boði séu fjölbreytt meðferðarúrræði fyrir fólk með heilsufarsvandamál sem gætu verið afleiðingar af áföllum, því misjafnt er hvað hentar hverjum og einum.
 • Fræðsluþarfir og sjúkdómstengd þekking einstaklinga með kransæðasjúkdóm: Þversniðsrannsókn við útskrift af sjúkrahúsi

  Auður Ketilsdóttir; Hulda Halldórsdóttir; Kolbrún Sigurlásdóttir; Brynja Ingadóttir; Margrét Hrönn Svavarsdóttir; 1)Landspítala, hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands 2)Landspítala 3)Sjúkrahúsi Akureyrar og hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyr 4)hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og Landspítala 5)hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyr (Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, 2021)
  Vegna forvarna og betri meðferðar lifa fleiri með kransæðasjúkdóm en áður og eykur það þörf fyrir fræðslu frá heilbrigðisstarfsfólki. Tilgangur rannsóknarinnar var að lýsa sjúkdómstengdri þekkingu og fræðsluþörfum sjúklinga með kransæðasjúkdóm við útskrift af sjúkrahúsi. Í þessari lýsandi þversniðsrannsókn, sem gerð var 2017- 2018, tóku þátt fullorðnir einstaklingar sem lögðust inn á sjúkrahús vegna bráðs kransæðaheilkennis, kransæðavíkkunar eða kransæðahjáveituaðgerðar. Við útskrift af sjúkrahúsi var gögnum safnað úr sjúkraskrá, með mælingum og þátttakendur svöruðu spurningalistum. Sjúkdómstengd þekking var metin með mælitækinu Þekking-KRANS sem inniheldur 20 fullyrðingar, flokkaðar í fimm þekkingarsvið. Möguleg stig á heildarkvarða eru 0-20 og á hverju þekkingarsviði 0-4. Þátttakendur voru einnig beðnir um að meta fræðsluþarfir sínar varðandi 15 atriði er tengjast kransæðasjúkdómi á 4 stiga kvarða (1 = mjög lítil þörf, til 4 = mjög mikil þörf). Þekking þátttakenda (N = 445, 80% karlar, meðalaldur 64,1 ár (sf 9,1)) mældist að meðaltali 13,6 (sf 3,3), þekking mældist mest á sviði næringar (M 3,2; sf 10,0) og minnst á sviði sálfélagslegrar áhættu sem tengist kransæðasjúkdómi (M 2,4; sf 1,0) (p < 0,001). Menntun, reykingar, trú á eigin getu, aldur og fyrri sjúkrahúslega vegna kransæðasjúkdóms skýrðu 16% af breytileika í þekkingu (F 14,223; R2 0,159; p < 0,001). Yfir 70% sjúklinga höfðu mikla eða mjög mikla þörf fyrir fræðslu um sjúkdóminn og meðferð hans. Við útskrift af sjúkrahúsi mældist sjúkdómstengd þekking einstaklinga með kransæðasjúkdóm viðunandi en þó höfðu þeir enn miklar fræðsluþarfir sem mikilvægt er að uppfylla. Við sjúklingafræðslu þurfa hjúkrunarfræðingar að hafa í huga að aldur, menntun, fyrri saga um kransæðasjúkdóm, reykingar og trú á eigin getu eru þættir sem geta haft áhrif á hvernig fræðsla skilar sér í betri þekkingu. Eftirfylgd hjúkrunarfræðinga á göngudeild og aukin fjarheilbrigðisþjónusta gætu verið fýsilegir kostir til að uppfylla fræðsluþarfir eftir útskrift af sjúkrahúsi. Tilgangur ÚTDRÁTTUR Aðferð Niðurstöður Lykilorð: Fræðsluþarfir, kransæðasjúkdómur, sjálfsumönnun, sjúklingafræðsla, þekking.
 • Óráð og hiti: sjaldgæf en hættuleg orsök - Sjúkratilfelli

  Jón Magnús Jóhannesson; Hrönn Harðardóttir; Bjarni Guðmundsson; Gunnar Guðmundsson; 1) Lyflækninga- og endurhæfingarþjónusta, 2) lungnadeild, 3) taugadeild Landspítala, 4) læknadeild Háskóla Íslands. (Læknafélag Íslands, 2021-07)
  Sótthiti með óráði er algengt vandamál á bráðamóttökum og legudeildum sjúkrahúsa. Mismunagreiningar eru fjöldamargar og við uppvinnslu þessara sjúklinga er mikilvægt að hafa þær allar í huga. Sýkingar eru ofarlega á lista vegna bráð- og alvarleika en aðrar mismunagreiningar geta einnig verið hættulegar heilsu og þarfnast skjótrar greiningar og meðferðar. Hér er rakin sjúkrasaga 58 ára gamals manns sem kom á bráðamóttöku með hækkaðan líkamshita og óráð. Vönduð sögutaka og skoðun ásamt hnitmiðuðum rannsóknum gaf sjúkdómsgreiningu sem leiddi til viðeigandi meðferðar.
 • ,,Það dundi yfir líkama og sál“ - Reynsla einstaklinga í heilsueflandi móttöku heilsugæslu af sálrænum áföllum og heilsufarsvandamálum

  Rósíka Gestsdóttir; Margrét Ólafía Tómasdóttir; Sigrún Sigurðardóttir; 1 Háskólanum á Akureyri, 2 Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, 3 læknadeild Háskóla Íslands, 4 Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu. (Læknafélag Íslands, 2021-07)
  INNGANGUR Rannsóknir sýna að einstaklingar sem hafa orðið fyrir sálrænum áföllum glíma oft við fjölþætt heilsufarsvandamál. Heilsueflandi móttaka heilsugæslu beinist að skjólstæðingum sem glíma við slík heilsufarsvandamál þar sem veitt er einstaklingsmiðuð meðferð og stuðningur. Áfallamiðuð nálgun er mikilvæg í heilbrigðisþjónustu og getur eflt lífsgæði einstaklinga eftir sálræn áföll. Tilgangur rannsóknar var að skoða reynslu einstaklinga í heilsueflandi móttöku heilsugæslu af sálrænum áföllum og heilsufarsvandamálum. AÐFERÐ Eigindleg viðtalsrannsókn þar sem stuðst var við Vancouver-skólann í fyrirbærafræði. Þátttakendur voru 5 karlmenn og 5 konur, valin í gegnum heilsueflandi móttöku heilsugæslu. Viðtöl við hvern þátttakanda voru tvö. Stuðst var við ACE-spurningalistann sem skimunartæki fyrir sálrænum áföllum í bernsku ásamt viðtalsramma rannsakenda, með opnum spurningum. NIÐURSTÖÐUR Niðurstöður voru greindar í 6 meginþemu: Upplifun af áföllum, Endurtekin áföll, Vanræksla í æsku, Líkamleg heilsufarsvandamál í æsku og á fullorðinsárum, Geðræn heilsufarsvandamál í æsku og á fullorðinsárum, Úrvinnsla og áfallamiðuð nálgun. Þátttakendur höfðu flestir orðið fyrir fjölþættum sálrænum áföllum og flóknum heilsufarsvandamálum, bæði í æsku og á fullorðinsárum. Rauði þráður rannsóknarinnar: ,,Það dundi yfir líkama og sál“ endurspeglar reynslu þátttakenda af áföllum og heilsufarsvandamálum. ÁLYKTANIR Mikilvægt er að heilbrigðisstarfsfólk taki mið af sálrænum áföllum þegar hugað er að heilsufarsvandamálum skjólstæðinga, geti veitt stuðning og viðeigandi aðstoð. Heilsugæslan er oftast fyrsti viðkomustaður skjólstæðinga í heilbrigðiskerfinu og því mikilvægt að þar sé innleidd áfallamiðuð nálgun. Innan heilsueflandi móttöku heilsugæslu er mikilvægt að kortleggja heilsufarsvandamál í tengslum við sálræn áföll og þar er tækifæri til að efla áfallamiðaða nálgun.
 • Sjúkraskrármál á Landspítala: staða og framtíðarsýn

  Klara Katrín Friðriksdóttir; Jóhanna Gunnlaugsdóttir; Ragna Kemp Haraldsdóttir; 1) Sjúkraskrár- og skjaladeild Landspítala, 2) Félagsvísindasviði Háskóla Íslands (Læknafélag Íslands, 2021-07)
  INNGANGUR Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvernig staðið væri að sjúkraskrármálum á Landspítala og skoða stefnumótun varðandi þessi mál meðal stjórnenda og starfsfólks. Rannsókn sem þessi hefur ekki áður verið gerð. Hún leggur til nýja þekkingu varðandi kerfisbundna skjalastjórn sjúkraskráa og fræðilegt gildi hennar felst í að kanna hvernig staðið er að viðkvæmum málaflokki út frá lagalegum sjónarmiðum og upplýsingaöryggi. Hagnýtt gildi rannsóknarinnar felst í því að hægt er að nýta niðurstöðurnar sem stöðumat á yfirstandandi verkefnum og áætlunum innan Landspítala. EFNIVIÐUR Beitt var eigindlegri aðferðafræði við gagnaöflun og greiningu og stuðst við margprófun og grundaða kenningu. Fyrirliggjandi rituð gögn voru skoðuð, viðtöl tekin, þátttökuathuganir framkvæmdar og loks var rýnihópur settur saman. Þó að ekki sé hægt að alhæfa um niðurstöðurnar gefa þær mikilvægar vísbendingar um ástand mála, ekki síst þar sem mettun virtist hafa náðst og ekki líklegt að viðbótargagnasöfnun hefði bætt við nýjum upplýsingum. NIÐURSTÖÐUR Rannsóknarniðurstöður sýna að unnið hefur verið ötullega að mótun og innleiðingu á upplýsingastefnu og aðgengisstefnu í samræmi við lög, reglur og alþjóðlega staðla og ljóst er að stjórnendur hafa sett sér háleit markmið. Þá hefur alþjóðleg vottun fengist innan heilbrigðis- og upplýsingatæknideildar varðandi upplýsingaöryggi. ÁLYKTUN Meginvandinn virðist vera tvíþættur: Í fyrsta lagi þyrfti yfirstjórn málaflokksins innan spítalans að vera skýrari og í öðru lagi hefur ekki tekist að afla nauðsynlegs fjár þannig að hægt sé að framfylgja markmiðum á árangursríkan hátt. Í ljós kom að skerpa þarf á stuðningi stjórnenda, bæta fræðslumálin til muna og efla öryggisvitund og ábyrgð starfsfólks í tengslum við sjúkraskrár.
 • Fertug kona með hósta og brjóstverk - Tilfelli mánaðarins

  Haukur Kristjánsson; Jón Gunnlaugur Jónasson; Per Martin Silverborn; Sigríður Ólína Haraldsdóttir; Tómas Guðbjartsson; 1 Landspítali, 2 meinafræðideild Landspítala, 3 læknadeild Háskóla Íslands, 4 hjartaog lungnaskurðdeild Sahlgrenska háskólasjúkrahússins, Gautaborg, Svíþjóð, 5 lungnadeild Landspítala, 6 hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala. (Læknafélag Íslands, 2021-06)
 • Fjölþætt svæðisbundið verkjaheilkenni - Yfirlitsgrein

  Kristján G. Guðmundsson; Reykjalundur (Læknafélag Íslands, 2021-06)
  Verkjaheilkennið er oftast í útlim með miklum hamlandi verkjum og breyttri skynjun, oft með snertiviðkvæmni (allodyniu). Þroti er oft samfara, ásamt litabreytingum á húð, breyttri svitamyndun og skertri hreyfigetu. Einkennin eru raunar fjölþætt og mismunandi. Verkirnir eru oftast til komnir eftir áverka og eru langt umfram upphaflega áverkann. Sjúkdómurinn er fátíður, og taldist nýgengi hans vera um 5,5 á 100.000 íbúa í erlendri rannsókn. Nýgengi sjúkdómsins hér á landi í gagnagrunnum Embættis landlæknis reyndist vera 1,3 á hverja 100.000 íbúa á ári sem vekur grun um að sjúkdómurinn gæti verið vangreindur. Orsök sjúkdómsins er óþekkt. Talið er að um sé að ræða bólgusvörun eftir áverka sem leiðir til sjálfsofnæmisviðbragða. Þá er einnig rætt um verkjanæmingu í taugakerfinu. Bæði er um að ræða breytingar í úttaugakerfi og í miðtaugakerfi, meðal annars með tilfærslu á virkni svæða í heilaberki sem hafa að gera með sársaukaviðbrögð. Við greiningu er stuðst við skilmerki alþjóðafélagsins um verkjarannsóknir. Þverfagleg teymisvinna er talin vera markvissasta meðferðin þar sem unnið er eftir sálfélagslíkamlega módelinu. Einn þáttur í meðferð langt gengins sjúkdóms er speglameðferð. Lyfjameðferð sjúkdómsins er svipuð og við taugaverkjum. Vegna bólguviðbragða er hægt að nota bólgueyðandi lyf eða stera. Einnig er ábending á bisfosfonöt, einkum ef um beinþynningu er að ræða. NMDA-antagonistar eins og ketamín hafa einnig verið notaðir. Þá hefur raförvun bakhorns mænu með rafstreng virst gera gagn. Oftast gengur sjúkdómurinn yfir á nokkrum misserum, en í hluta tilfella er hann þrálátur og hamlandi, jafnvel árum og áratugum saman.
 • Langtímaárangur viðgerða vegna hrörnunartengds míturlokuleka á Íslandi

  Árni Steinn Steinþórsson; Árni Johnsen; Martin Ingi Sigurðsson; Sigurður Ragnarsson; Tómas Guðbjartsson; 1 Læknadeild Háskóla Íslands, 2 svæfinga- og gjörgæsludeild, 3 hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 4 hjarta- og lungnaskurðdeild háskólasjúkrahússins í Lundi, Svíþjóð. (Læknafélag Íslands, 2021-06)
  INNGANGUR Hrörnunartengdur míturlokuleki er helsta ábendingin fyrir míturlokuviðgerð á Vesturlöndum. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna langtímalifun og fylgikvilla míturlokuviðgerða vegna hrörnunartengds leka á Íslandi. EFNI OG AÐFERÐIR Rannsóknin var afturskyggn og náði til 101 sjúklings (meðalaldur 57,7 ár, 80,2% karlar) sem gengust undir míturlokuviðgerð vegna hrörnunartengds leka á Landspítala 2004-2018. Skráðar voru ábendingar fyrir aðgerð, niðurstöður hjartaómunar fyrir aðgerð og aðgerðartengdir þættir. Snemmkomnir (<30 daga) og síðkomnir fylgikvillar voru skráðir og reiknuð 30 daga dánartíðni. Langtímalifun og MACCE (major adverse cardiac and cerebrovascular event) frí lifun var áætluð með aðferð Kaplan-Meier og borin saman við almennt þýði af sama kyni og aldri. Miðgildi eftirfylgdartíma var 83 mánuðir. NIÐURSTÖÐUR Að meðaltali voru gerðar 6,7 (bil 1-14) míturlokuviðgerðir árlega og fengu 99% sjúklinga gervihring. Brottnám á aftara blaði var framkvæmt í 82,2% tilfella og Gore-Tex® gervistög notuð hjá 64,4% sjúklinga. Alvarlegir fylgikvillar greindust hjá 28,7% sjúklinga, algengastir voru hjartadrep tengt aðgerð (11,9%) og enduraðgerð vegna blæðingar (8,9%). Þrjátíu daga dánarhlutfall var 2%, miðgildi dvalar á gjörgæslu einn dagur og heildarlegutími 8 dagar. Einn sjúklingur þurfti enduraðgerð síðar vegna endurtekins míturlokuleka. Fimm ára lifun eftir aðgerð var 93,5% (95%-ÖB: 88,6-98,7) og 10 ára lifun 85,3% (95%-ÖB: 76,6- 94,9). Fimm ára MACCE-frí lifun var 91,1% (95%-ÖB: 85,3-97,2) og eftir 10 ár 81,0% (95%-ÖB: 71,6-91,6). Ekki reyndist marktækur munur á heildarlifun rannsóknarhópsins samanborið við samanburðarþýðið (p=0,135, log-rank próf). ÁLYKTUN Árangur míturlokuviðgerða vegna hrörnunartengds leka er sambærilegur við árangur á stærri hjartaskurðdeildum erlendis. Almennt farnast þessum sjúklingum ágætlega til lengri tíma þrátt fyrir að snemmkomnir fylgikvillar séu tíðir
 • Störf sjálfstætt starfandi sálfræðinga í samkomubanni í mars og apríl 2020

  Hafrún Kristjánsdóttir; Linda Bára Lýðsdóttir; María Kristín Jónsdóttir (Sálfræðingafélag Íslands, 2020)
  Í byrjun árs 2020 skall heimsfaraldur SARS-CoV-2 (COVID-19) skyndilega á í vestrænum ríkjum. Þann 28. febrúar greindist fyrsti Íslendingurinn með COVID-19 og í mars var sett á samkomubann hérlendis. Leiða má að því líkur að slíkur faraldur hafi áhrif á andlega líðan fólks en engu að síður hafa erlendar rannsóknir sýnt að áhrif fyrstu bylgju á líðan almennings voru ekki mikil. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna áhrif samkomubanns hér á landi í mars og apríl 2020 á störf sjálfstætt starfandi sálfræðinga. Alls tóku 98 sálfræðingar þátt í rannsókninni. Lagðar voru fyrir 36 spurningar sem sneru að eftirspurn eftir viðtölum, formi viðtala, mati sálfræðinga á líðan skjólstæðinga sinna og geðheilsu þjóðarinnar. Einnig var spurt um áhrif líðanar sálfræðinga á getu þeirra til þess að sinna meðferð og áhrif samkomubanns vegna COVID-19 á tekjur þeirra. Niðurstöður þessarar rannsóknar bentu til þess að eftirspurn eftir sálfræðiviðtölum hafi dregist saman í fyrstu bylgju faraldursins. Breyting varð á formi viðtala; viðtölum í lokuðu rými fækkaði en fjarviðtölum fjölgaði. Um þriðjungur sjálfstætt starfandi sálfræðinga taldi að geðheilsa skjólstæðinga sinna hefði versnað á tímabilinu. Mikill meirihluti taldi að COVID-19 myndi hafa áhrif á geðheilsu þjóðarinnar. Líðan sálfræðinga hafði, að þeirra mati, lítil áhrif á getu til þess að sinna meðferð. Vegna minni eftirspurnar lækkuðu tekjur hjá miklum meirihluta þátttakenda. Ljóst er að samkomubann í mars og apríl hafði áhrif á störf sálfræðinga. Ekki er vitað hvort samkomubann vegna þriðju bylgju COVID-19 muni hafa sambærileg áhrif og er frekari rannsókna þörf. Efnisorð: SARS-CoV-2, COVID-19, sálfræðingar, líðan, fjarþjónusta.
 • Þunglyndiskvarði fyrir börn (Children’s Depression Inventory) - Kerfisbundið yfirlit yfir próffræðilega eiginleika íslenskrar útgáfu

  Guðrún M. Jóhannesdóttir; Linda R. Jónsdóttir; Guðmundur Á. Skarphéðinsson; Háskóli Íslands (Sálfræðingafélag Íslands, 2020)
  Þunglyndiskvarði fyrir börn (e. Children‘s Depression Inventory (CDI)) er notaður til skimunar á þunglyndiseinkennum barna og er í töluverðri notkun hérlendis. Markmið þessarar greinar er að meta próffræðilega eiginleika kvarðans í íslenskum úrtökum með kerfisbundnu yfirliti. Af 2.873 heimildum, sem höfundar skimuðu, stóðu 28 heimildir eftir um próffræðilega eiginleika CDI á Íslandi. Niðurstöður voru almennt svipaðar og erlendis. Eins og búast mátti við mældist meðaltal hærra í klínískum úrtökum en almennum og stúlkur skoruðu hærra en drengir. Innra samræmi heildartölu CDI var nokkuð hátt bæði í almennu og klínísku úrtaki. Samleitniréttmæti kom vel út þar sem CDI var með háa fylgni við aðra þunglyndiskvarða en niðurstöður rannsókna á aðgreiningarréttmæti voru ekki allar á sama máli þar sem fylgni CDI sýndi í sumum tilvikum háa fylgni við kvíðakvarða en í öðrum lága fylgni. Í einni rannsókn með innlagnarúrtaki úr BUGL kom í ljós að forspárréttmæti CDI var gott við alvarlega þunglyndisgreiningu DSM-IV en ekki við þunglyndisgreiningu ICD-10. Niðurstöður tveggja leitandi þáttagreininga sýndu að atriði hlóðust á þrjá þætti en ekki fimm eins og niðurstöður í stöðlunarúrtaki bentu til. Þörf er á frekari rannsóknum á forspárréttmæti, til dæmis á heilsugæslustöðvum og á göngudeildarúrtaki á BUGL. Mikilvægt er að kanna forspárréttmæti betur til að kanna notagildi til skimunar á börnum með þunglyndi. Einnig er þörf á frekari rannsóknum á staðfestandi þáttagreiningu og engar rannsóknir fundust á endurtektaráreiðanleika í íslensku úrtaki. Almennt virðast próffræðilegir eiginleikar CDI vera viðunandi miðað við sambærilega kvarða sem notaðir eru hérlendis. Helstu styrkleikar eru innra samræmi og hátt samleitniréttmæti. Efnisorð: þunglyndiskvarði fyrir börn, þunglyndi, Children’s Depression Inventory, CDI, kerfisbundið yfirlit, próffræðilegir eiginleikar, íslensk börn.
 • Hugfræði og skynjunarvísindi í íslömskum vísindaheimi miðalda

  Árni Kristjánsson; Háskóli Íslands (Sálfræðingafélag Íslands, 2020)
  Aristóteles sagði að maðurinn mæti sjónskynjun öðrum skynfærum meira. Í gegnum heimspekiog vísindasöguna hefur miklum tíma verið varið í rannsóknir á sjónskynjun og eru rannsóknir og kenningar Keplers oft nefndar sem upphafspunktur nútímasjónskynjunarvísinda. En í þeirri frásögn er horft fram hjá merku framlagi vísindamanna innan íslamska menningarheimsins á miðöldum. Íslamskir vísindamenn varðveittu ekki einungis þekkingu Forn-Grikkja, heldur bættu þeir miklu við hana. Vísindamenn eins og Ibn-Ishaq, Al-Kindí, Avicenna og þó sér í lagi Alhazen lögðu mikið af mörkum til skilnings á sjónskynjun og vísindagrein þeirri sem nú er kölluð hugfræði og höfðu mikil áhrif á sporgöngumenn sína á endurreisnartímanum, þar á meðal Kepler. Raunar er Bók um ljósfræði eftir Alhazen eitthvert merkasta rit um sjónskynjun sem komið hefur út. Alhazen kynnti til sögunnar hugmyndir um hvernig sólarljós endurvarpast í umhverfinu og berst inn í augað og hvernig ímynd varpast á ljósnæm svæði innan augans, auk þess sem bókin er líklega fyrsta heildstæða ritið um sálfræði skynjunar. Víðfræg lausn Keplers á gátunni um endurvarp ljóss á sjónbotninn endurspeglar áhrif Alhazens úr ritum vísindamanna á 13. og 14. öld sem höfðu aðgang að hugmyndum hans. Efnisorð: saga sálfræðinnar, íslömsk sálfræði, skynjunarvísindi.
 • Algengi líkamsskynjunarröskunar á Íslandi

  Hrefna Harðardóttir; Arna Hauksdóttir; Heiðrún Hlöðversdóttir; Unnur Anna Valdimarsdóttir; Andri Steinþór Björnsson; Háskóli Íslands (Sálfræðingafélag Íslands, 2021)
  Líkamsskynjunarröskun (LSR; e. body dysmorphic disorder) er geðröskun sem einkennist af þráhyggju um útlitsgalla sem er ekki til staðar. Þessum hugsunum fylgir mikil vanlíðan og skerðing á virkni. Megintilgangur rannsóknarinnar var að (a) meta algengi LSR í almennu úrtaki á Íslandi og (b) bera saman bakgrunn og klínísk einkenni þeirra sem skimast með LSR við þá sem skimast með almenna kvíðaröskun (AKR) og þátttakendur sem ekki skimast með einkenni þessara geðraskana (samanburðarhópur). Þátttakendur voru 854. Alls skimuðust 34 (4%) þátttakendur með LSR (88% konur) og 50 (6%) með AKR (64% konur). Þátttakendur sem skimuðust með LSR voru líklegri til að vera einhleypir, atvinnulausir og í veikindaleyfi eða öryrkjar en þátttakendur án LSR eða AKR. Þeir sem skimuðust með LSR sýndu jafnframt fleiri einkenni þunglyndis og streitu en einstaklingar í samanburðarhópi og voru líklegri til að hafa sjálfsvígshugsanir og að hafa gert tilraun til sjálfsvígs. Að jafnaði var ekki munur á hópunum sem skimuðust með LSR og AKR en þó var hærra hlutfall einstaklinga, sem skimuðust með LSR, sem hafði gert sjálfsvígstilraun. Niðurstöður benda til þess að LSR sé algeng geðröskun í almennu þýði sem hafi margvísleg neikvæð áhrif á líf fólks. Það er mikilvægt að auka þekkingu meðal almennings og heilbrigðisstarfsfólks á LSR, helstu einkennum hennar og viðeigandi meðferð við röskuninni. Efnisorð: líkamsskynjunarröskun, útlitsgallar, algengi, skimun, almenn kvíðaröskun.
 • Endurtekið þunglyndi - Hvað einkennir það og hversu árangursrík er meðferð og forvörn gegn því?

  Ragnar P. Ólafsson; Háskóli Íslands (Sálfræðingafélag Íslands, 2020)
  Oft er skrifað að þunglyndi sé algeng og alvarleg geðröskun sem kosti samfélagið mikið. Þunglyndi er þó ekki einsleitt fyrirbæri. Þótt meiri athygli hafi beinst að stökum lotum þunglyndis og meðferð í bráðafasa hefur áhugi beinst í auknum mæli að því að hluti fólks upplifir endurteknar þunglyndislotur yfir ævina. Í þessari grein er lýst einkennum alvarlegs þunglyndis (e. major depressive disorder) hjá fullorðnum, sem hrjáir 15–18% fólks einhvern tíma ævinnar. Um helmingur upplifir þunglyndi aftur, oftast innan fimm ára. Hætta á nýrri lotu eykst með auknum lotufjölda en meðalfjöldi lota í úrtökum fólks með endurtekið þunglyndi er á bilinu fimm til níu. Í greininni er fjallað er um lýðfræðilega og sálfélagslega þætti sem tengjast þunglyndi og endurtekningu þess. Einnig er fjallað um árangur tveggja helstu meðferðarinngripa, lyfjameðferðar og hugrænnar atferlismeðferðar (HAM), ásamt árangri forvarnarmiðaðrar (ForHAM) og núvitundarmiðaðrar (NúHAM) hugrænnar atferlismeðferðar. Í lok greinarinnar er leitast við að draga saman atriði úr rannsóknum sem gætu verið gagnleg fyrir sálfræðinga að hafa í huga sem koma að mati og meðferð þunglyndis. Nokkur atriði eru einnig rædd sem geta verið mikilvæg í áframhaldandi rannsóknum á þunglyndi og þróun meðferðar við því. Efnisorð: þunglyndi, endurtekið þunglyndi, fullorðnir, meðferð, forvörn.
 • Hent í djúpu laugina - Áskoranir í starfi nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga, líðan þeirra og bjargráð

  Guðríður Ester Geirsdóttir; Telma Kjaran; Kristín Anna Jónsdóttir; Kristín Norðkvist Ragnarsdóttir; Hafdís Skúladótti; 1) Heilbrigðisstofnun Suðurlands 2) Landspítala 3) Heimahjúkrun Reykjavíkur og Rjóðri Landspítala 4) Heilbrigðisstofnun Vesturlands 5) Háskólanum á Akureyri (Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, 2021-03)
  Markmið: Nýútskrifaðir hjúkrunarfræðingar mæta ýmsum áskorunum þegar þeir hefja starfsferil sinn. Hjúkrunarstarfið krefst mikillar þekkingar, færni og öryggis sem þróast samhliða aukinnireynslu í starfi. Námið, eitt og sér, virðist ekki alltaf duga til að undirbúa hjúkrunarfræðinga fyrir allt sem starfið felur í sér og oftar en ekki finnst nýútskrifuðum hjúkrunarfræðingum að þeim sé hent út í djúpu laugina þegar þeir hefja störf. Markmið þessarar rannsóknar var að öðlast innsýn í hvaða áskoranir mæta nýútskrifuðum hjúkrunarfræðingum fyrsta árið í starfi, hversu tilbúnir þeir telja sig vera til að takast á við þær og hvaða bjargráð þeir nýta sér til að vinna úr þessum áskorunum til að stuðla að góðri líðan í starfi. Með því að átta sig á þeim áskorunum sem nýútskrifaðir hjúkrunarfræðingar mæta daglega í störfum sínum er hægt að styðja við þá í starfi og stuðla þar með að aukinni starfsánægju og sporna gegn kulnun í starfi og brottfalli úr stéttinni. Aðferð: Stuðst var við eigindlega rannsóknaraðferð þar sem sett voru þau skilyrði að þátttakendur hefðu brautskráðst frá hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri á árunum 2013–2017. Einnig voru sett þau skilyrði að þátttakendur væru starfandi á legudeildum sjúkrahúsa og hefðu unnið samfellt á sama vinnustað í a.m.k. þrjá mánuði. Niðurstöður: Niðurstöður sýndu að hjúkrunarfræðinámið undirbjó þátttakendur vel fyrir hjúkrunarstarfið og þær áskoranir sem mættu þeim þegar þeir hófu störf sem hjúkrunarfræðingar og töldu þeir að einstaklingsmiðuð aðlögun væri lykilatriði. Allir þátttakendur voru sammála um nauðsyn þess að tileinka sér jákvæð bjargráð í starfi og stuðla þannig að aukinni starfsánægju. Jákvætt viðhorf til starfsins var einkennandi meðal viðmælenda en samkvæmt þeim er það einn af þeim mikilvægu þáttum sem geta dregið úr líkum á kulnun ásamt brottfalli úr faginu. Ályktanir: Þrátt fyrir að hjúkrunarfræðingar nýti sér jákvæð bjargráð og séu meðvitaðir um streitutengda þætti starfsins er ekki síður mikilvægt að þeir njóti stuðnings vinnufélaga og stjórnunin sé góð. Lykilorð: Hjúkrunarfræðingur, nýútskrifaður, áskoranir og bjargráð, innihaldsgreining

View more