Recent Submissions

 • Berskjöldun fyrir börn með kvíðaraskanir: Könnun meðal íslenskra sálfræðinga um notkun berskjöldunar í meðhöndlun kvíðaraskana hjá börnum og unglingum

  Ástrós Elma Sigmarsdóttir; Hrafnkatla Agnarsdóttir; Aron Eydal Sigurðarson; Sindri Lárusson; Guðmundur Skarphéðinsson; Háskóli Íslands (Sálfræðingafélag Íslands, 2019)
  Berskjöldun (exposure) er gagnreynd aðferð til að draga úr hamlandi kvíða hjá börnum með kvíðaraskanir og hafa rannsóknir sýnt að hún sé áhrifaríkasti hluti hugrænnar atferlismeðferðar. Bandarískar rannsóknir benda til þess að berskjöldun sé vannýtt á klínískum vettvangi en staðan innan Evrópu er enn óljós. Tilgangur rannsóknarinnar var að kortleggja stöðu íslenskra sálfræðinga í notkun berskjöldunar við kvíðaröskunum barna (almennri kvíðaröskun, aðskilnaðarkvíða og félagskvíða). Önnur markmið rannsóknarinnar voru að meta viðhorf meðferðaraðila til berskjöldunar, þjálfun þeirra í beitingu aðferðarinnar og val á aðferðum í meðferð. Allir sálfræðingar innan Sálfræðingafélags Íslands fengu sendan spurningalista og til að geta tekið þátt þurfti viðkomandi að hafa meðhöndlað að minnsta kosti eitt barn á aldrinum fimm til 17 ára með kvíðaröskun sem aðalröskun á síðastliðnum 12 mánuðum. Samtals svöruðu 50 félagsmenn könnuninni. Í ljós kom að flestir þátttakendur voru með meistaragráðu og flestir unnu á heilsugæslustöð, Barnaog unglingageðdeild eða á einkarekinni stofu. Niðurstöður sýndu að langflestir nota HAM og berskjöldun (94%) til þess að meðhöndla börn og unglinga með kvíðaröskun. Einnig voru viðhorf gagnvart aðferðinni að öllu jöfnu jákvæð. Þrátt fyrir það virðist skorta þjálfun og innleiðingu á aðferðinni. Í samanburði við Bandaríkin virðist Ísland standa ágætlega hvað varðar notkun á berskjöldun þó svo að gæði aðferðinnar í meðferð séu óljós. Í framhaldi af þessari rannsókn væri gagnlegt að rannsaka meðferðarfylgni meðferðaraðila í því skyni að fá betri innsýn í það hvort verið sé að veita börnum á Íslandi meðferðarúrræði sem skilar árangri. Efnisorð: Hugræn atferlismeðferð, berskjöldun, kvíðaraskanir barna, meðferðaraðilar, gagnreyndar aðferðir
 • Notkun berskjöldunar meðal sálfræðinga á Íslandi fyrir börn með áráttu- og þráhyggjuröskun

  Aron Eydal Sigurðarson; Sindri Lárusson; Ástrós Elma Sigmarsdóttir; Hrafnkatla Agnarsdóttir; Guðmundur Skarphéðinsson; Háskóli Íslands (Sálfræðingafélag Íslands, 2019)
  Áráttu- og þráhyggjuröskun (ÁÞR) einkennist af áráttuhegðun og þráhyggjuhugsunum. Þráhyggja lýsir sér í óþægilegum, uppáþrengjandi og óviðeigandi hugsunum sem valda vanlíðan og kvíða. Árátta fylgir yfirleitt þráhyggju og einkennist af endurteknum athöfnum sem virka sem markviss leið til þess að draga úr óþægindum sem þráhyggjuhugsanirnar valda. Hugræn atferlismeðferð með berskjöldun og svarhömlun er fyrsti kostur sem meðferð við ÁÞR. Þessi rannsókn gengur út á að kanna viðhorf sálfræðinga á Íslandi til berskjöldunar við ÁÞR og kanna hve mikið og hvernig þeir beita berskjöldunarmeðferðinni þegar þeir vinna með börnum og unglingum með ÁÞR. Stuðst var við erlendan spurningalista sem var þróaður til að athuga meðferðaraðferðir sálfræðinga við kvíða og ÁÞR. Spurningalistinn var þýddur yfir á íslensku og sendur sálfræðingum í Sálfræðingafélagi Íslands og einungis þeir sem höfðu meðhöndlað ÁÞR barns síðastliðið ár voru þátttakendur, alls 26. Rannsóknin leiddi í ljós að almennt er viðhorf sálfræðinga á Íslandi jákvætt til meðferðarinnar. Allir þátttakendur rannsóknarinnar sögðust nota berskjöldun í meðferð við ÁÞR og eyddu 46,2% þátttakenda meira en 61% tíma meðferðar í berskjöldun. Í ljós kom þó að ekki voru allir að nota bestu mögulegu aðferðir berskjöldunar í sinni meðferð en rúm 43% sögðust ekki reyna að takmarka truflanir í æfingum, það er að segja truflanir í umhverfinu sem gætu komið niður á árangri meðferðarinnar. Þetta gerir það að verkum að börnin eru ekki að fá bestu mögulegu meðferðina vegna mögulegra truflana. Því þyrfti að auka kennslu og þjálfun í notkun berskjöldunar svo að sálfræðingar beiti henni rétt til að börn með ÁÞR á Íslandi eigi mestan möguleika á bata. Efnisorð: Þráhyggja, árátta, berskjöldun, svarhömlun
 • Sjálfsmatskvarðar Becks fyrir börn og unglinga: Kerfisbundið yfirlit yfir próffræðilega eiginleika íslenskrar útgáfu

  Rebekka Björg Guðmundsdóttir; Rebekka Aldís Kristinsdóttir Valberg; Guðmundur Skarphéðinsson; 1)2) Miðstöð í Lýðheilsuvísindum, Háskóli Íslands 3) Sálfræðideild, Háskóli Íslands (Sálfræðingafélag Íslands, 2019)
  Markmið þessarar greinar var að kanna próffræðilega stöðu Sjálfsmatskvarða Becks fyrir börn og unglinga (BYI) í íslenskri útgáfu með aðferð kerfisbundins yfirlits (e. systematic review). Sjálfsmatskvarðar Becks samanstanda af fimm undirkvörðum með 20 atriðum hver, sem meta sjálfsmynd, kvíða, þunglyndi, reiði og hegðunarvanda hjá ungmennum á aldrinum 7-18 ára. Leitað var kerfisbundið að öllum rannsóknum sem lögðu kvarðana fyrir íslenskt úrtak í gagnagrunnum Google Scholar, PubMed og Skemmunnar og þær teknar saman. Alls fundust níu greinar og handrit sem fjölluðu um próffræðilega eiginleika kvarðanna. Niðurstöður gáfu til kynna gott innra samræmi á bilinu 0,71-0,96. Aðgreiningar- og samleitniréttmæti var óviðunandi þar sem meðal annars var há innbyrðis fylgni á milli undirkvarða BYI og fylgni við aðra lista sem mátu ólíkar hugsmíðar. Einnig bentu niðurstöður þáttagreiningar til þess að listinn aðgreindi ekki með fullnægjandi hætti á milli hugsmíðanna kvíða, þunglyndis og reiði, en niðurstöður íslenskra rannsókna hafa bent til þess að þessar þrjár hugsmíðir myndi saman einn þátt. Þessar niðurstöður eru í samræmi við erlendar rannsóknir, en helsti styrkleiki listans er mikið innra samræmi. Hins vegar er aðgreiningar- og samleitniréttmæti listans óviðunandi. Einnig er ekki vitað hvaða notagildi kvarðarnir hafa í klínísku úrtaki með tilliti til viðmiðsréttmætis og hvort kvarðarnir henti til að meta árangur meðferðar eða breytingar á einkennum yfir tíma. Próffræðilegir eiginleikar sjálfsmyndar- og hegðunarvandakvarða BYI meðal íslenskra rannsókna eru að mestu viðunandi til góðir. Hvað varðar kvíða-, þunglyndis- og reiðikvarða BYI getum við ekki mælt með notkun þeirra, hvorki í almennum né klínískum tilgangi en hins vegar mælum við með endurskoðun þessara þriggja undirkvarða. Efnisorð: Sjálfsmatskvarðar Becks, skimun, próffræðilegir eiginleikar, börn, unglingar
 • Kerfisbundið yfirlit yfir próffræðilega eiginleika Fjölþáttakvíðakvarða fyrir börn (Multidimensional Anxiety Scale for Children) í íslensku úrtaki

  Theodóra Listalín Þrastardóttir; Guðmundur Ágúst Skarphéðinsson; Háskóli Íslands (Sálfræðingafélag Íslands, 2019)
  Fjölþáttakvíðakvarði fyrir börn (MASC) er skimunarlisti sem metur fjórar víddir kvíða, líkamleg einkenni, flótta og forðunarhegðun, félagskvíða og aðskilnaðarkvíða/felmtur. Markmið eftirfarandi rannsóknar var að meta próffræðilega eiginleika kvarðans í íslensku úrtaki með aðferðum kerfisbundins yfirlits (e. systematic review). Leitað var kerfisbundið að greinum sem fjölluðu um íslenskar rannsóknir á kvarðanum. Samtals voru 185 útdrættir skimaðir og að lokum voru 20 greinar valdar úr sem uppfylltu þátttökuviðmið. Meðaltöl og staðalfrávik voru svipuð og í erlendum rannsóknum, hærri í klínísku úrtaki en almennu og stúlkur skoruðu almennt hærra á öllum þáttum. Innra samræmi var viðunandi í öllum rannsóknum og í samræmi við erlendar rannsóknir, sem og aðgreiningar- og samleitisréttmæti. Ein íslensk rannsókn skoðaði forspárréttmæti og notast var við innlagnarúrtak á BUGL og voru niðurstöður í samræmi við erlendar niðurstöður að mestu leyti, félagskvíðaundirþáttur MASC spáði fyrir um félagskvíðaröskun og undirþátturinn aðskilnaðarkvíði/ felmtur spáði fyrir um aðskilnaðarkvíðaröskun en þar sem úrtakið var innlagnarúrtak gefa niðurstöður ekki eins skýra mynd og þær erlendu. Tvær íslenskar rannsóknir sýna að fjögurra þátta lausn sé best fyrir íslenskt úrtak. Á heildina litið er kvarðinn áreiðanlegur og gagnlegur listi sem fagfólk getur nýtt til að skima eftir kvíðaeinkennum hjá börnum og unglingum. Efnisorð: Fjölþáttakvíðakvarði, MASC, kerfisbundið yfirlit, próffræðilegir eiginleikar, íslensk börn
 • Áhrif jákvæðrar og neikvæðrar endurgjafar á námsástundun og félagslega hegðun nemenda

  Birna Pálsdóttir; Zuilma Gabriela Sigurðardóttir; Francesco Sulla; Háskóli Íslands og Parma University (Sálfræðingafélag Íslands, 2019)
  Áhrif endurgjafar kennara á námsástundun og félagslega hegðun nemenda hafa verið viðfangsefni fjölmargra rannsókna. Rannsóknir frá níunda áratug síðustu aldar sem hafa skoðað slík áhrif hafa sýnt fram á að hlutfall jákvæðrar endurgjafar á námsástundun hefur oftast verið hærra en hlutfall neikvæðrar endurgjafar á félagslega hegðun (t.d. Apter, Arnold og Swinson, 2010; Apter, 2016; Brophy, 1981; Harrop og Swinson, 2000; Nafpaktitis, Mayer og Butterworth, 1985; White, 1975). Markmið þessarar greinar er að fara yfir stöðu rannsókna á því hvernig yrtri endurgjöf kennara á hegðun nemenda á aldrinum 6-16 ára er háttað í enskumælandi löndum allt frá áttunda áratug síðustu aldar og fram til dagsins í dag. Flestir eru sammála um að álag í starfi kennara sé mikið og til lengri tíma getur slíkt leitt til uppgjafar og kulnunar (Ninness og Glenn, 1988). Rannsóknir hafa sýnt að nemendur á grunnskólaaldri virðast nýta tæplega helming af tíma kennslustundar í annað en fyrirliggjandi verkefni (Fredricks, Blumenfeld og Paris, 2004; Godwin o.fl., 2016). Rannsóknir hafa sýnt fram á að með því að auka færni kennara í jákvæðri endurgjöf hafi það jákvæð áhrif á námsástundun (t.d. Sulla, Armenia, Eramo og Rollo, 2015 og Wheldall, Merret og Borg, 1985). Lögmál hegðunar og náms má nýta til þess að útskýra þá hegðun sem oft birtist í kennslustofum í samskiptum kennara og nemenda og hefur áhrif á þær breytur sem stuðla að aukinni námsástundun og félagslega æskilegri hegðun. Efnisorð: námsástundun, jákvæð endurgjöf, neikvæð endurgjöf, atferlisgreining, beint áhorf, félagsleg hegðun
 • Staða rannsókna á heildstæðum stuðningi við jákvæða hegðun (PBS) í grunnskólum á Íslandi

  Auður Sif Kristjánsdóttir; Bergljót Gyða Guðmundsdóttir; 1) Háskóli Íslands 2) Þjónustumiðstöð Breiðholts og Háskóli Íslands (Sálfræðingafélag Íslands, 2019)
  Erfið hegðun nemenda í skólum er algengur vandi sem erfitt getur verið að takast á við. Heildstæður stuðningur við jákvæða hegðun (e. positive behavior support; PBS) er alhliða stuðningskerfi sem samanstendur af mismunandi úrræðum á þremur þrepum þar sem tekið er tillit til ólíkrar hegðunar nemenda og þeim veitt íhlutun í samræmi við þarfir hvers og eins. Rannsóknir hafa sýnt að PBS dregur meðal annars úr hegðunarvanda og bætir námsástundun. Á Íslandi hafa verið gerðar nokkrar rannsóknir á árangri af innleiðingu PBS í grunnskólum. Markmið þessarar yfirlitsrannsóknar var að kanna hvað niðurstöður þeirra rannsókna sýndu og varpa þannig skýrara ljósi á næstu skref í rannsóknum á PBS á Íslandi. Í heild virðist PBS yfirleitt áhrifaríkt, en þó eru ákveðnir vankantar á innleiðingunni í sumum tilfellum. Sömuleiðis þarf að gera fleiri og fjölbreyttari rannsóknir á Íslandi, sérstaklega á miðþrepi kerfisins. Efnisorð: Heildstæður stuðningur við jákvæða hegðun, PBS, grunnskólar, hegðun, hegðunarvandi
 • Skyndileg meðvitundarskerðing vegna lokunar á æð Percherons. Sjúkratilfelli

  Brynhildur Thors; Ólafur Sveinsson; 1 Taugalækningadeild Landspítala, 2 læknadeild Háskóla Íslands. (Læknafélag Íslands, 2021-04)
  Brátt heilaslag á grunni lokunar á Percheron-slagæð til miðheila og stúku er sjaldgæf og snúin greining vegna ósértækra klínískra einkenna. Skjót greining og meðferð er afar mikilvæg þar sem um er að ræða brátt og alvarlegt ástand. Hér er kynnt tilfelli ungrar konu sem fékk skyndilegan höfuðverk og skerta meðvitund. Sjáöldur voru misvíð og brugðust illa við ljósáreiti og iljaviðbrögð voru jákvæð beggja megin. Fram komu flogalíkar hreyfingar í öllum útlimum. Tölvusneiðmynd af heila og heilaæðum var eðlileg en bráð segulómun sýndi byrjandi drep í stúku beggja megin. Á grunni einkenna og segulómunar fékk sjúklingur segaleysandi meðferð í æð 70 mínútum eftir komu á bráðamóttöku og náði sér að fullu.
 • Áhrif lyfsins fampridíns á skerta göngugetu sjúklinga með MS (Multiple Sclerosis)

  Björg Guðjónsdóttir; Haukur Hjaltason; Guðbjörg Þóra Andrésdóttir; 1 Námsbraut í sjúkraþjálfun, heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands, 2 læknadeild Háskóla Íslands, 3 taugadeild Landspítala. (Læknafélag Íslands, 2021-04)
  INNGANGUR Fampridín er lyf sem virkar sem kalíumgangaloki og er ætlað sjúklingum með skerta göngugetu vegna MS (Multiple Sclerosis). Með því að loka á kalíumgöng dregur lyfið úr jónaleka, sem seinkar endurskautun og hvetur þannig myndun hrifspennu í afmýluðum taugasímum. Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á góð áhrif fampridíns á skerta göngugetu fólks með MS. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða áhrif lyfsins á göngugetu íslenskra sjúklinga með MS og athuga hve margir þeirra halda lyfjameðferð áfram eftir tveggja vikna reynslulyfjatímabil. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Þátttakendur voru 41 sjúklingur með MS sem reyndu fampridín á fyrstu 16 mánuðum notkunar þess á Íslandi. Unnið var úr sjúkraskrárgögnum Landspítala. Árangur var metinn með mælingum á gönguhraða (timed 25-foot walk, T25FW) og göngugetu (12-item multiple sclerosis walking scale, MSWS-12). NIÐURSTÖÐUR Niðurstöður sýndu að marktækur munur var á gönguhraða á T25FWgönguprófinu fyrir og undir lok reynslulyfjameðferðar (p<0,0001). Meðaltalsaukning gönguhraða var 22%. Einnig reyndist marktækur munur á stigagjöf á MSWS-12-göngumatsprófinu fyrir og undir lok reynslulyfjameðferðar (p<0,0001). Lækkun stigafjölda á MSWS-12 gönguprófinu var að meðaltali 11,4 stig. Átján sjúklingar (43,9%) héldu lyfjameðferð áfram eftir að reynslulyfjameðferð lauk. ÁLYKTUN Lyfið fampridín getur bætt skerta göngugetu hjá hluta sjúklinga með MS og getur verið mikilvæg viðbót í einkennameðferð þeirra.
 • Ég missti hluta af sjálfri mér og tilheyrði ekki ljósmæðrasamfélaginu lengur: Upplifun ljósmæðra af því að hætta störfum við fæðingar í kjölfar alvarlegra atvika í starfi

  Jóhanna Ólafsdóttir; Sigfríður Inga Karlsdóttir; 1) Heilbrigðisstofnun Vesturlands 2) Heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyr (Ljósmæðrafélag Íslands, 2020)
  Alvarleg atvik í starfi geta haft neikvæð áhrif á líðan ljósmæðra og rannsóknir hafa sýnt að ljósmæður sem upplifa slíkt eru líklegri til að hverfa frá störfum heldur en þær sem hafa ekki lent í slíkum atvikum. Tilgangur rannsóknarinnar var að afla upplýsinga um upplifun ljósmæðra af því að hætta störfum við fæðingar í kjölfar þess að þær upplifa alvarlegt atvik í starfi. Rannsóknarspurningarnar voru tvær; hver er upplifun ljósmæðra af því að hætta störfum við fæðingar í kjölfar alvarlegs atviks í starfi og hver var upplifun ljósmæðra af veittum stuðningi í kjölfar alvarlegs atviks í starfi? Rannsóknarsniðið var eigindlegt og stuðst var við aðferð Vancouver-skólans í fyrirbærafræði. Þátttakendur voru valdir með tilgangsúrtaki. Tekin voru 12 viðtöl við sjö ljósmæður, eitt til tvö viðtöl við hverja þeirra með opnum viðtalsramma. Greind voru þemu út frá frásögnum ljósmæðranna og varð yfirþema rannsóknarinnar nefnt; þetta lifir með manni, alltaf. Meginþemu voru sjö það er: stuðningur eða stuðningsleysi; ekki nógu sterk til að standa með sjálfri mér; að missa hluta af sjálfum sér eða verða maður sjálfur á ný; tækifæri til að læra; aðstæður og fyrri reynsla spilar inn í uppRitrýnd fræðigrein, tengiliður: inga@unak I lost a part of myself and felt like I did not belong to the midwifery community: Midwives experience of quit working on labour ward after attending traumatic childbirth 49 lifunina; endalaust álag í vinnu fer illa með mann og áfallið og áhrifin þegar frá líður. Meginniðurstöður rannsóknarinnar eru að þátttakendur upplifðu sig eina í áfallinu, stuðningurinn var takmarkaður og álag á vinnustað yfirþyrmandi. Alvarlegu atvikin höfðu bæði áhrif á andlega og líkamlega líðan ljósmæðranna. Þær upplifðu höfnun, skort á skilningi og jafnvel að hafa misst hluta af sjálfum sér, en aðrar sögðu að reynsla hefði þrátt fyrir allt þroskað þær. Að yfirgefa starf sitt í kjölfar alvarlegs atviks í starfi hefur gríðarleg áhrif á líf og líðan ljósmæðra. Skapa þarf styðjandi og hvetjandi umhverfi fyrir ljósmæður sem upplifa áföll í starfi og gefa rými til úrvinnslu og bata. Lykilhugtök: Ljósmæður, alvarleg atvik, stuðningur, áföll, fyrirbærafræði.
 • Útkoma ljósmæðrastýrðra eininga innan og utan sjúkrahúsa. Kerfisbundin fræðileg samantekt.

  Guðlaug Erla Vilhjálmsdóttir; Berglind Hálfdánsdóttir; Ólöf Ásta Ólafsdóttir; 1) Landspítala 2)3) Háskóla Íslands (Ljósmæðrafélag Íslands, 2020)
  Bakgrunnur: Ljósmæðrastýrðar einingar innan og utan sjúkrahúsa eru að ryðja sér til rúms, sérstaklega síðustu ár, sem valkostur fyrir heilbrigðar konur í eðlilegri meðgöngu. Ljósmæður eru í lykilhlutverki við að fræða konur um val á fæðingarstað en í mæðravernd er unnið eftir klínískum leiðbeiningum sem segja til um að konur eigi að fá faglegar upplýsingar þannig að þær geti tekið upplýsta ákvörðun um fæðingarstað. Til að geta sinnt fræðsluhlutverki sínu þurfa ljósmæður að hafa aðgang að áreiðanlegum upplýsingum um ávinning og áhættur ólíkra fæðingarstaða. Markmið: Að bera saman útkomu kvenna og barna og inngrip í fæðingar hjá heilbrigðum konum í eðlilegri meðgöngu sem ætla að fæða á ljósmæðrastýrðum einingum innan eða utan sjúkrahúsa, við útkomu kvenna sem ætla að fæða á þverfræðilegum fæðingardeildum sjúkrahúsa. Aðferð: Framkvæmd var kerfisbundin, fræðileg samantekt. Gerð var heimildaleit á leitarsíðunum Scopus, Cinahl, PubMed og Proquest. Notuð voru leitarorðin; ljósmæðrastýrð eining (e. midwifery unit), fæðingarheimili (e. birth center), fæðingarstaður (e. birthplace), útkoma (e. outcome) og Útkoma ljósmæðrastýrðra eininga innan og utan sjúkrahúsa Kerfisbundin fræðileg samantekt Outcomes of freestanding midwifery units and alongside midwifery units A systematic review Guðlaug Erla Vilhjálmsdóttir, ljósmóðir, fæðingarvakt Landspítala, Berglind Hálfdánsdóttir, ljósmóðir og dósent við Háskóla Íslands, Ólöf Ásta Ólafsdóttir, ljósmóðir og prófessor við Háskóla Íslands Ritrýnd fræðigrein, tengiliður: gudlauge@simnet.is 23 ljósmóðurfræði (e. midwifery). Eftir mat á 459 rannsóknum stóðu eftir tíu rannsóknir sem uppfylltu inntökuskilyrði og stóðust gæðamat. Rannsóknirnar skoðuðu útkomu hjá yfir 102.000 konum sem ætluðu að fæða á ljósmæðrastýrðum einingum, innan og utan sjúkrahúsa og báru saman við útkomu um 820.000 kvenna sem ætluðu að fæða á þverfræðilegum fæðingardeildum sjúkrahúsa. Niðurstöður: Rannsóknir benda til þess að betri útkoma sé hjá heilbrigðum konum í eðlilegri meðgöngu sem ætla að fæða á ljósmæðrastýrðum einingum en þeim sem ætla að fæða á þverfræðilegum fæðingardeildum sjúkrahúsa. Meiri líkur voru á sjálfkrafa, eðlilegri fæðingu og minni líkur á inngripum á borð við mænurótardeyfingu, hríðarörvun, áhaldafæðingu og keisaraskurði. Einnig voru almennt minni líkur á spangarklippingu og blæðingu eftir fæðingu á ljósmæðrastýrðum einingum. Flutningstíðnin var 14,8% – 33,9%, þar sem frumbyrjur voru frekar fluttar en fjölbyrjur. Ekki var marktækur munur á útkomu nýbura. Ályktun: Við val á fæðingarstað á meðgöngu ætti að upplýsa konur um ólíka útkomu fæðinga á ólíkum fæðingarstöðum, þar á meðal um lága inngripatíðni og jákvæða útkomu mæðra sem ætla að fæða á ljósmæðrastýrðum einingum. Lykilorð: ljósmæðrastýrð eining, útkoma fæðinga, eðlileg fæðing, ljósmóðurfræði.
 • „ÞETTA VAR FYRIR SÁLINA OG HJARTAÐ, ÞETTA VAR MITT ÖRYGGI“ - Reynsla íslenskra foreldra af hópmeðgönguvernd

  Emma Marie Swift; Inga María Hlíðar Thorsteinson; Una Kristín Guðmundsdóttir; Helga Gottfreðsdóttir; 1)4) Háskóla Íslands og Landspítala 2)3) Landspítala (Ljósmæðrafélag Íslands, 2020)
  Bakgrunnur: Vísbendingar eru um að bæta megi fræðslu í meðgönguvernd. Hópmeðgönguvernd hefur verið innleidd um heim allan til að koma til móts við fræðsluþarfir verðandi foreldra og stuðla að virkni þeirra í meðgönguverndinni. Veturinn 2017-2018 var boðið upp á hópmeðgönguvernd fyrir barnshafandi konur og maka þeirra á þremur heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Aðferð: Rannsóknin er eigindleg viðtalsrannsókn þar sem hálfstöðluð viðtöl voru tekin við 18 þátttakendur í sex rýnihópum. Allir þátttakendur höfðu eignast sitt fyrsta barn og tóku þátt í hópmeðgönguvernd. Notuð var innihaldsgreining við úrvinnslu og viðtölin þemagreind. Niðurstöður: Reynsla þátttakenda af því að taka þátt í hópmeðgönguvernd var mjög jákvæð. Þrjú meginþemu voru greind: 1) saman í þessu, 2) tilfinning um öryggi og 3) jákvæð breyting – gott jafnvægi. Þátttakendum þótti mikilvægt að tilheyra hópnum og sameiginleg upplifun veitti þeim hughreystingu og stuðning. Þátttakendur upplifðu einnig að umræða og fræðsla í hópmeðgönguvernd væri með áherslu á hið eðlilega barneignarferli og hefði það veitt þeim tilfinningu um öryggi. Þriðja þemað varpar ljósi á þá sameiginlegu reynslu þeirra að hópmeðgönguverndin kom þeim skemmtilega á óvart, hefði gagnast þeim vel og jafnvægi hefði verið gott milli hefðbundinnar meðgönguverndar og hópmeðgönguverndar. Ályktun: Þátttakendur voru ánægðir með upplifun sína af hópmeðgönguvernd og virtist fyrirkomulagið uppfylla vel þarfir þeirra hvað varðar fræðslu og samtal um meðgöngu, fæðingu og foreldrahlutverkið. Hópmeðgönguvernd gæti verið ákjósanlegur valkostur í meðgönguvernd hér á landi. Lykilhugtök: Meðgönguvernd, hópmeðgönguvernd, foreldrahópar, eðlilegt barneignarferli, stuðningur.
 • Öndunarhreyfingar, lungnarúmmál og styrkur öndunarvöðva eftir lungnaígræðslu. Forrannsókn með fjórum lungnaþegum

  G. Þóra Andrésdóttir; María Ragnarsdóttir; Sara Hafsteinsdóttir; Landspítala (Félag sjúkraþjálfara, 2018)
  Bakgrunnur. Við lungnaígræðslu er algengast að skorið sé þvert á bringubein og á báða millirifjavöðva beggja vegna frá bringubeini aftur að hryggsúlu. Rifbeinin fyrir ofan og neðan skurðinn eru spennt í sundur til að fá aðgang að lungunum. Við það verða áverkar á liðamótum aðliggjandi rifja og á þind sem gæti valdið óskilvirkri öndun. Markmið. Að gera forrannsókn á valtilgátunni: Lungnaþegar eru með skert lungnarúmmál, skertar öndunarhreyfingar og skertan styrk öndunarvöðva þrátt fyrir ígrædd heilbrigð lungu. Siðanefnd heilbrigðisrannsókna á Landspítala samþykkti rannsóknina (39/2016) og hún var tilkynnt Persónuvernd. Aðferðir. Þátttakendur voru fjórir lungnaþegar, þrjár konur og einn karl á aldrinum 40-62 ára, BMI 22 - 40, sem undirrituðu upplýst samþykki fyrir þátttöku. Mæld voru: Lungnarúmmál, öndunarhreyfingar, styrkur öndunarvöðva, hámarks innöndunarþrýstingur og hámarks útöndunarþrýstingur. Niðurstöður. Ástæða lungnaígræðslu var langvinn lungnateppa hjá einum, hjá hinum þremur lungnatrefjun, konurnar fengu bæði Öndunarhreyfingar, lungnarúmmál og styrkur öndunarvöðva eftir lungnaígræðslu. Forrannsókn með fjórum lungnaþegum Höfundar: Guðbjörg Þóra Andrésdóttir1, Sara Hafsteinsdóttir1 og dr. María Ragnarsdóttir2 Vinnustaður: 1Sjúkraþjálfun Landspítala Háskólasjúkrahúsi, Fossvogi 2Fyrrum starfandi í Sjúkraþjálfun Hringbraut, Landspítala Háskólasjúkrahúsi, nú sjálfstætt starfandi G. Þóra An d r é s d ót t i r Sérfræðingur í taugasjúkraþjál fun L an d s p í tala Fo s s v ogi Mar í a R agnar d ót t i r Sj ú k ra þ j á l far i P hD Fyrrum rannsóknasjúkraþjálfari LSH S ara Ha f s t e i n s d ót t i r Yf i r s j ú k ra þ j á l far i L an d s p í tala Fo s s v ogi Sjúkraþjálfarinn 43 Ritrýnd grein lungu ígrædd en karlinn vinstra lunga. Öll voru með hámarksfráblástur á einni sekúndu (FEV1) undir 80%, en mismikið og skertar lágrifja hreyfingar í hvíld, þrjú í djúpri öndun og sömu þrjú voru með skertan styrk í innöndunarvöðvum. Ályktanir. Niðurstöður forrannsóknar benda til að vert sé að kanna tilgátuna í stærri rannsókn þar sem mælt yrði fyrir og eftir ígræðslu. Ef til vill er nú þegar rétt að mæla með viðameiri skoðun og meðferð á öndunarmynstri og styrk öndunarvöðva hjá lungnaþegum en nú er gert. Það gæti leitt til skilvirkari starfsemi öndunarvöðva sem tækju til sín minna hlutfall heildarsúrefnisupptöku líkamans og skildi meira eftir fyrir aðra líkamsstarfssemi en að anda.
 • Validity and reliability of the Icelandic translation and transcultural adaptation of the Prosthetic Mobility Questionnaire in individuals with lower limb amputations

  Anna Lára Ármannsdóttir; Kristín Briem; Rannsóknarstofa í hreyfivísindum, læknadeild, Háskóla Íslands (Félag sjúkraþjálfara, 2021)
  Abstract: Background: An evidence-based documentation of an amputee’s mobility is a vital part of the rehabilitation setting as well as in research and in the development of new prosthetic devices. The Prosthetic Mobility Questionnaire (PMQ) has undergone several iterations to reach its current form, successfully addressing the mobility capabilities of a broad spectrum of amputees. Objectives: The aim of this study was to analyze the psychometric properties of an Icelandic translation and transcultural adaptation of the PMQ. Methods: Following standardized procedures of translation, the questionnaire was tested for validity and reliability. Participants (n=28) were transtibial and -femoral amputees recruited from prosthetic clinics or outpatient rehabilitation centers. Reliability of PMQ was tested by analyzing the internal consistency with Cronbach´s alpha. Convergent and discriminant validity were tested using the Spearman´s rank correlation coefficient and the Mann-Whitney test, respectively. Results: The internal consistency was high for the PMQ, indicating a high reliability. Moderate to strong correlation of the PMQ to other measures related to mobility indicate a high convergent validity, and the questionnaire was able to differentiate between age groups and between Medical Functional Classification Levels 2 and 3. Conclusions: This study presents the results of the first Icelandic translated questionnaire with validated transcultural adaptation procedures, specifically designed to address the needs of amputees. This version of the PMQ is a reliable and valid measure for Icelandic speaking amputees and can be used in the realm of the amputee rehabilitation, research, or development of prosthetic devices to evaluate mobility. Keywords: Prosthetic Mobility Questionnaire (PMQ), psychometric properties, lower limb amputation, mobility
 • D-vítamínbúskapur fyrir og eftir efnaskiptaaðgerðir á Landspítala

  Berglind Lilja Guðlaugsdóttir; Svava Engilbertsdóttir; Leifur Franzson; Hjörtur Gíslason; Ingibjörg Gunnarsdóttir; 1 Rannsóknastofu í næringarfræði við Háskóla Íslands, 2 næringarstofu Landspítala, 3 erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala, 4 lyfjafræðideild Háskóla Íslands, 5 skurðlækningakjarna Landspítala, 6 matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands (Læknafélag Íslands, 2021-03)
  TILGANGUR Langtímaárangur efnaskiptaaðgerða hjá einstaklingum með offitu er almennt góður, með tilliti til þyngdartaps, fylgisjúkdóma offitu og lífsgæða. Hins vegar geta aðgerðirnar aukið líkur á næringarefnaskorti. Markmið rannsóknarinnar var að kanna D-vítamínbúskap einstaklinga fyrir og eftir efnaskiptaaðgerðir á Landspítala. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Upplýsingar um mælingar á S-25(OH)D og kalkkirtilshormóni (PTH) voru fengnar úr sjúkraskrám þeirra sem fóru í efnaskiptaaðgerð á Landspítala á árunum 2001-2018 (n=539). Vegna breytinga á mæliaðferð á rannsóknartímabilinu var ófullnægjandi D-vítamínstaða skilgreind sem styrkur 25hydroxyvitamin D (25(OH)D) <45 nmól/L á árunum 2001-2012, en <50 nmól/L 2013-2018. D-vítamínskortur var skilgreindur sem 25(OH)D <30 nmól/L fyrir bæði tímabilin. Sjúklingar fá ráðleggingar um töku fæðubótarefna við útskrift og við endurkomur á móttöku efnaskiptaaðgerða á Landspítala. NIÐURSTÖÐUR Meðalstyrkur 25(OH)D fyrir aðgerð var 51 nmól/L (SF 30 nmól/L) og reyndust 278 (52%) vera með ófullnægjandi D-vítamínstöðu, þar af fjórðungur með D-vítamínskort. Styrkur 25(OH)D hækkaði eftir aðgerð hjá meirihluta einstaklinga (85%). Um þriðjungur einstaklinga sem mældist með ófullnægjandi D-vítamínstöðu fyrir aðgerð mældist einnig undir viðmiðum allt að 18 mánuðum eftir aðgerð. Þegar borin eru saman tímabilin 2001-2012 annars vegar og 2013-2018 hins vegar sést að ófullnægjandi D-vítamínstaða var óalgengari á síðara tímabilinu, en þó enn til staðar í um það bil 25% tilvika fyrir aðgerð og 8,5% 18 mánuðum eftir aðgerð. ÁLYKTUN Nokkuð algengt er að D-vítamínstaða einstaklinga á leið í efnaskiptaaðgerð sé ófullnægjandi, en styrkur 25(OH)D hækkar eftir aðgerð hjá meirihluta þeirra í kjölfar ráðlegginga um töku bætiefna. Niðurstöðurnar benda til þess að ástæða sé til að leggja aukna áherslu á leiðréttingu D-vítamínskorts fyrir efnaskiptaaðgerðir.
 • Heysjúkdómar á Íslandi II. Sjúkdómavaldar í heyi og rannsóknir á Íslandi

  Davíð Gíslason; Tryggvi Ásmundsson; Þórarinn Gíslason; 1 Lyfjadeild Landspítala, 2 læknadeild Háskóla Íslands (Læknafélag Íslands, 2021-03)
  Sjúkdómar tengdir vinnu í heyryki hafa lengi verið þekktir á Íslandi. Árið 1981 hófust rannsóknir á heysjúkdómum að beiðni bændasamtakanna og eru helstu niðurstöður þeirra dregnar saman í þessari grein. Í ljós kom að mikið magn af heymítlum, myglu og hitakærum geislagerlum (micropolyspora faeni) fannst í heyinu, auk ofnæmisvaka frá músum og frjókornum. Einkenni af heyryki voru oftast frá nefi og augum hjá þeim sem voru jákvæðir á húðprófum, en hósti, mæði og hitaköst voru álíka algeng hjá þeim sem voru neikvæðir á húðprófum. Algengustu ofnæmisvaldar meðal bændafjölskyldna voru heymítlar og nautgripir, en ofnæmi fyrir köttum, hundum og grasfrjóum var sjaldgæfara í sveitunum en á Reykjavíkursvæðinu. Þegar borin voru saman áhrif þess að vinna í miklu heyryki og litlu voru jákvæð fellipróf fyrir micropolyspora faeni, hitaköst eftir vinnu og lungnateppa algengari meðal þeirra sem unnu í miklu heyryki. Sýnt hefur verið fram á að íslenskir bændur fá oftar lungnaþembu en aðrir Íslendingar og er það óháð reykingum. Nánast engir mítlar fundust við umfangsmikla rannsókn á heimilum á Reykjavíkursvæðinu. Eigi að síður sýndi rannsókn að sértæk IgE-mótefni fyrir rykmítlum voru jafn algeng þar og í Uppsölum í Svíþjóð þar sem rykmítlar fundust á 16% heimila. Þegar nánar var að gætt höfðu 57% þeirra sem þátt tóku í rannsókninni haft meiri eða minni snertingu við heyryk, ýmist alist upp í sveit, verið send í sveit sem börn eða sinnt um hesta. Höfum við fært rök fyrir því að krossnæmi við heymítla geti átt þátt í nokkuð algengu næmi fyrir rykmítlum. Nýleg rannsókn á miðaldra einstaklingum hefur leitt í ljós að næmi fyrir heymítlum er heldur algengara á Reykjavíkursvæðinu en í Árósum, Bergen og Uppsölum, sem vafalítið skýrist af því hve algengt er að þeir séu eða hafi verið í snertingu við heyryk.
 • Eldri heimildir um heyöflun og heysjúkdóma á Íslandi

  Davíð Gíslason1; Einar G. Pétursson; Tryggvi Ásmundsson; 1 Lyfjadeild Landspítala, 2 læknadeild Háskóla Íslands, 3 Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, (Læknafélag Íslands, 2021-02)
  Heysjúkdómar hafa vafalaust fylgt búskaparháttum Íslendinga alveg frá landnámi í lok 9. aldar. Þó hafa aðstæður til heyöflunar verið betri á fyrstu öldum eftir landnám en seinna varð, þegar veðurfar kólnaði og landgæði versnuðu. Greinin fjallar um það sem skrifað hefur verið um heysjúkdóma á Íslandi frá byrjun 17. aldar og fram á miðja 20. öldina.
 • Heilkenni skammvinns höfuðverkjar með brottfallseinkennum og eitilfrumuhækkun í mænuvökva · Tvö sjúkratilfelli og yfirlit ·

  Helgi Kristjánsson; Ólafur Árni Sveinsson; 1 Taugalækningadeild Landspítala, 2 læknadeild Háskóla Íslands (Læknafélag Íslands, 2021-02)
  Hér er lýst tveimur tilfellum af HaNDL (Headache with Neurological Deficits and cerebrospinal fluid Lymphocytosis) eða heilkenni skammvinns höfuðverkjar með brottfallseinkennum og eitilfrumuhækkun í mænuvökva. Fyrra tilfellið var þrítugur maður sem fékk endurtekin köst með höfuðverk, helftareinkennum og mikilli óáttun. Hið síðara var 41 árs maður sem fékk höfuðverk, skyndilegt málstol og hægri helftareinkenni. Í báðum tilfellum var töluverð hækkun á eitilfrumum í mænuvökva. Leit að sýkingarvöldum var neikvæð og segulómskoðanir af höfði sýndu engar meinsemdir. Einkenni gengu að fullu til baka hjá báðum sjúklingum. Orsök HaNDL er óþekkt en sumir telja ástandið orsakast af bólguviðbrögðum í kjölfar veirusýkingar. Horfur eru góðar og sjúklingar verða einkennalausir á einni til þremur vikum. Mikilvægt er að útiloka alvarlegri orsakir eins og heilaslag, innanskúmsblæðingu eða sýkingar í miðtaugakerfi.
 • Tengsl þrálátra líkamlegra einkenna við þunglyndi og kvíða hjá þeim sem leituðu til heilsugæslu

  Sigrún Ólafsdóttir Flóvenz; Elín Broddadóttir; Sturla Brynjólfsson; Agnes Sigríður Agnarsdóttir; Paul M. Salkovskis; Jón Friðrik Sigurðsson; 1 Sálfræðideild Háskólans í Reykjavík, 2Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, 3 sálfræðideild háskólans í Oxford, 4 læknadeildHáskóla Íslands. (Læknafélag Íslands, 2021-02)
  INNGANGUR Þrálát líkamleg einkenni sem ekki eiga sér þekktar líkamlegar orsakir geta skert færni til að sinna athöfnum daglegs lífs. Markmið rannsóknarinnar var að meta algengi slíkra einkenna meðal fólks sem sækir heilsugæsluþjónustu á höfuðborgarsvæðinu, tengsl þeirra við færniskerðingu og einkenni þunglyndis, almenns kvíða og heilsukvíða, og meta hlutfall sjúklinga sem líklega hafi gagn af sálfræðimeðferð við þrálátum líkamlegum einkennum. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Spurningalistar sem meta þrálát líkamleg einkenni, færniskerðingu og einkenni þunglyndis, almenns kvíða og heilsukvíða voru lagðir fyrir 106 þátttakendur á tveimur heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu. NIÐURSTÖÐUR Tuttugu og níu (27,4%) þátttakendur reyndust vera með þrálát líkamleg einkenni og voru sterk tengsl á milli þeirra og einkenna geðraskana. Þátttakendur með þrálát líkamleg einkenni voru 8 sinnum líklegri til að vera með einkenni þunglyndis og almenns kvíða en þátttakendur án þeirra, fjórum sinnum líklegri til að vera með einkenni heilsukvíða og 13 sinnum líklegri til að vera með færniskerðingu yfir klínískum viðmiðunarmörkum. Rúmlega helmingur þátttakenda með þrálát líkamleg einkenni voru með tvær eða fleiri gerðir einkenna en þreyta og vöðvavandamál var algengasta gerðin. 65% þátttakenda greindu frá þrálátum líkamlegum einkennum og sálrænum einkennum yfir klínískum viðmiðunarmörkum. ÁLYKTUN Algengi þrálátra líkamlegra einkenna meðal notenda heilsugæsluþjónustu á höfuðborgarsvæðinu samræmist niðurstöðum erlendra rannsókna. Sama má segja um tengsl þeirra við einkenni þunglyndis og kvíða. Líklegt er að tveir þriðju heilsugæslusjúklinga með slík einkenni myndu njóta góðs af sálfræðilegri meðferð. Hugræn atferlismeðferð við þrálátum líkamlegum einkennum gæti gert þessum hópi gagn en í slíkri meðferð er unnið sérstaklega með samspil sálrænna og líkamlegra einkenna
 • Heimili hrumra eldri borgara sem þiggja heilbrigðisþjónustu: yfirlitsgrein

  Kristín Björnsdóttir; Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands (Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, 2020-11-16)
  Inngangur: Tilgangur þessarar greinar er að endurskoða hugmyndir um heimilið sem umhverfi sem mótar vellíðan og möguleika hrumra eldri borgara til að líða vel. Greinin byggist á fjölfaglegri umfjöllun um heimili þar sem hugmyndir, hugtök og skilningur sem mótað hafa umfjöllun um heimili fólks, sérstaklega hrumra eldri borgara, voru greindar og skýrðar. Gerð var leit í eftirtöldum gagnasöfnum: Google Scholar, Scopus, PubMed, CINAHL og Leitir.is á árinu 2019 og að auki voru heimildalistar og tilvitnanir í lykilgreinar kannaðar. Fram komu 1052 titlar sem voru skoðaðir nánar, en alls voru notuð 40 ritverk sem endurspegluðu lykilhugmyndir og hugtök sem tengdust tilgangi greinarinnar. Gögn voru greind með hliðsjón af hugtökum sem tengjast þessu fræðasviði, umhverfi, rými, stað, „að eiga heima“ og verndun einkalífs. Niðurstöður: Tvær meginhugmyndir voru greindar. Hin fyrri endurspeglar heimilið sem efnislegt og manngert umhverfi og hin síðari fjallar um það hvernig fólk tengist og skynjar heimili sitt sem stað með ríka merkingu. Rannsóknir um heimili fólks sem nýtur heilbrigðisþjónustu heima mótast annars vegar af skoðun rýmis, hönnunar og skipulags og því hve vel hið efnislega umhverfi fellur að þörfum og óskum einstaklingsins. Hins vegar fjalla rannsóknir sem beinast að tengslum fólks við heimilið og merkingu, um áhrif þess að „eiga heima“ á sjálfsmynd og líðan. Lokaorð: Þessi rannsókn samþættir fjölfaglegan skilning, kenningar og rannsóknir um áhrif hönnunar heimila, og tilfinninga og reynslu heimilismanna á möguleika fólks til að lifa góðu lífi heima. Niðurstöðurnar geta nýst til að skipuleggja og veita hjúkrun á einkaheimilum. Lykilorð: umhverfi, heimili, rými, staður, „að eiga heima“, heimahjúkrun
 • „Ég er einhvern veginn með metnaðinn í botni“ Reynsla ungra aðstoðardeildarstjóra í hjúkrun af stjórnunarstarfi sínu

  Sandra Sif Gunnarsdóttir; Sigríður Halldórsdóttir; 1) Landspítala 2) Háskólanum á Akureyri (Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, 2020-11-16)
  Tilgangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að auka þekkingu og dýpka skilning á reynslu ungra hjúkrunarfræðinga, sem tilheyra Ykynslóðinni (fæddir 1980–2000), af aðstoðardeildarstjórastarfi. Aðferð: Í þessari fyrirbærafræðilegu rannsókn voru tekin 1–2 viðtöl við níu unga aðstoðardeildarstjóra, samtals 12 viðtöl. Niðurstöður: „Ég er einhvern veginn með metnaðinn í botni“ er yfirþema rannsóknarinnar og lýsir vel þeim metnaði og krafti sem einkenndi þátttakendur. Meginþemun voru þrjú, „ég sá fleiri kosti út úr þessu en galla“: hvetjandi þættir, „verkefnin eru óteljandi einhvern veginn“: hindrandi þættir og „[Ég] vil vera aðgengileg en þetta er líka truflun“: vegið að samræmi milli einkalífs og vinnu. Þátttakendum fannst mikil tækifæri fólgin í stöðu aðstoðardeildarstjóra, sem þeim fannst skemmtilegt en krefjandi starf. Áberandi var hve litla aðlögun þátttakendur fengu en það olli auknu álagi. Þá skorti verulega stuðning í starfi, hlutverk þeirra var illa skilgreint og tímaskortur mikill. Lítill tími gafst til að sinna verkefnum á vinnutíma vegna skorts á starfsfólki og fjölda verkefna og það varð til þess að þau voru oft unnin heima. Margir þátttakenda greindu frá því að þeir væru að keyra sig út fyrir starfið vegna verkefna sem ekki gefst tími til að sinna. Þátttakendum fannst mikilvægt að hafa jafnvægi milli vinnu og einkalífs, en með togstreitunni sem myndaðist raskaðist það. Sumir urðu fyrir aldursfordómum og að fólk leyfði sér að vera mjög gagnrýnið og jafnvel dónalegt við þá eftir að þeir tóku við stöðu aðstoðardeildarstjóra. Ungu hjúkrunarfræðingunum fannst þeir búa yfir persónueiginleikum sem hjálpuðu þeim að takast á við krefjandi stjórnunarhlutverk en samt var um helmingur þeirra kominn með heilsutengda kvilla, eins og kvíða, of háan blóðþrýsting og kulnun, sem rekja má til álags. Ályktanir: Mikilvægt er að styðja vel við unga aðstoðardeildarstjóra með góðri aðlögun og skýru hlutverki en jafnframt að hjálpa þeim að takast á við álagið og stuðla að góðri heilsu. Lykilorð: Aðstoðardeildarstjórar í hjúkrun, Y-kynslóð, stuðningur, álag, fyrirbærafræði

View more