Recent Submissions

 • Fertug kona með hósta og brjóstverk - Tilfelli mánaðarins

  Haukur Kristjánsson; Jón Gunnlaugur Jónasson; Per Martin Silverborn; Sigríður Ólína Haraldsdóttir; Tómas Guðbjartsson; 1 Landspítali, 2 meinafræðideild Landspítala, 3 læknadeild Háskóla Íslands, 4 hjartaog lungnaskurðdeild Sahlgrenska háskólasjúkrahússins, Gautaborg, Svíþjóð, 5 lungnadeild Landspítala, 6 hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala. (Læknafélag Íslands, 2021-06)
 • Fjölþætt svæðisbundið verkjaheilkenni - Yfirlitsgrein

  Kristján G. Guðmundsson; Reykjalundur (Læknafélag Íslands, 2021-06)
  Verkjaheilkennið er oftast í útlim með miklum hamlandi verkjum og breyttri skynjun, oft með snertiviðkvæmni (allodyniu). Þroti er oft samfara, ásamt litabreytingum á húð, breyttri svitamyndun og skertri hreyfigetu. Einkennin eru raunar fjölþætt og mismunandi. Verkirnir eru oftast til komnir eftir áverka og eru langt umfram upphaflega áverkann. Sjúkdómurinn er fátíður, og taldist nýgengi hans vera um 5,5 á 100.000 íbúa í erlendri rannsókn. Nýgengi sjúkdómsins hér á landi í gagnagrunnum Embættis landlæknis reyndist vera 1,3 á hverja 100.000 íbúa á ári sem vekur grun um að sjúkdómurinn gæti verið vangreindur. Orsök sjúkdómsins er óþekkt. Talið er að um sé að ræða bólgusvörun eftir áverka sem leiðir til sjálfsofnæmisviðbragða. Þá er einnig rætt um verkjanæmingu í taugakerfinu. Bæði er um að ræða breytingar í úttaugakerfi og í miðtaugakerfi, meðal annars með tilfærslu á virkni svæða í heilaberki sem hafa að gera með sársaukaviðbrögð. Við greiningu er stuðst við skilmerki alþjóðafélagsins um verkjarannsóknir. Þverfagleg teymisvinna er talin vera markvissasta meðferðin þar sem unnið er eftir sálfélagslíkamlega módelinu. Einn þáttur í meðferð langt gengins sjúkdóms er speglameðferð. Lyfjameðferð sjúkdómsins er svipuð og við taugaverkjum. Vegna bólguviðbragða er hægt að nota bólgueyðandi lyf eða stera. Einnig er ábending á bisfosfonöt, einkum ef um beinþynningu er að ræða. NMDA-antagonistar eins og ketamín hafa einnig verið notaðir. Þá hefur raförvun bakhorns mænu með rafstreng virst gera gagn. Oftast gengur sjúkdómurinn yfir á nokkrum misserum, en í hluta tilfella er hann þrálátur og hamlandi, jafnvel árum og áratugum saman.
 • Langtímaárangur viðgerða vegna hrörnunartengds míturlokuleka á Íslandi

  Árni Steinn Steinþórsson; Árni Johnsen; Martin Ingi Sigurðsson; Sigurður Ragnarsson; Tómas Guðbjartsson; 1 Læknadeild Háskóla Íslands, 2 svæfinga- og gjörgæsludeild, 3 hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 4 hjarta- og lungnaskurðdeild háskólasjúkrahússins í Lundi, Svíþjóð. (Læknafélag Íslands, 2021-06)
  INNGANGUR Hrörnunartengdur míturlokuleki er helsta ábendingin fyrir míturlokuviðgerð á Vesturlöndum. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna langtímalifun og fylgikvilla míturlokuviðgerða vegna hrörnunartengds leka á Íslandi. EFNI OG AÐFERÐIR Rannsóknin var afturskyggn og náði til 101 sjúklings (meðalaldur 57,7 ár, 80,2% karlar) sem gengust undir míturlokuviðgerð vegna hrörnunartengds leka á Landspítala 2004-2018. Skráðar voru ábendingar fyrir aðgerð, niðurstöður hjartaómunar fyrir aðgerð og aðgerðartengdir þættir. Snemmkomnir (<30 daga) og síðkomnir fylgikvillar voru skráðir og reiknuð 30 daga dánartíðni. Langtímalifun og MACCE (major adverse cardiac and cerebrovascular event) frí lifun var áætluð með aðferð Kaplan-Meier og borin saman við almennt þýði af sama kyni og aldri. Miðgildi eftirfylgdartíma var 83 mánuðir. NIÐURSTÖÐUR Að meðaltali voru gerðar 6,7 (bil 1-14) míturlokuviðgerðir árlega og fengu 99% sjúklinga gervihring. Brottnám á aftara blaði var framkvæmt í 82,2% tilfella og Gore-Tex® gervistög notuð hjá 64,4% sjúklinga. Alvarlegir fylgikvillar greindust hjá 28,7% sjúklinga, algengastir voru hjartadrep tengt aðgerð (11,9%) og enduraðgerð vegna blæðingar (8,9%). Þrjátíu daga dánarhlutfall var 2%, miðgildi dvalar á gjörgæslu einn dagur og heildarlegutími 8 dagar. Einn sjúklingur þurfti enduraðgerð síðar vegna endurtekins míturlokuleka. Fimm ára lifun eftir aðgerð var 93,5% (95%-ÖB: 88,6-98,7) og 10 ára lifun 85,3% (95%-ÖB: 76,6- 94,9). Fimm ára MACCE-frí lifun var 91,1% (95%-ÖB: 85,3-97,2) og eftir 10 ár 81,0% (95%-ÖB: 71,6-91,6). Ekki reyndist marktækur munur á heildarlifun rannsóknarhópsins samanborið við samanburðarþýðið (p=0,135, log-rank próf). ÁLYKTUN Árangur míturlokuviðgerða vegna hrörnunartengds leka er sambærilegur við árangur á stærri hjartaskurðdeildum erlendis. Almennt farnast þessum sjúklingum ágætlega til lengri tíma þrátt fyrir að snemmkomnir fylgikvillar séu tíðir
 • Störf sjálfstætt starfandi sálfræðinga í samkomubanni í mars og apríl 2020

  Hafrún Kristjánsdóttir; Linda Bára Lýðsdóttir; María Kristín Jónsdóttir (Sálfræðingafélag Íslands, 2020)
  Í byrjun árs 2020 skall heimsfaraldur SARS-CoV-2 (COVID-19) skyndilega á í vestrænum ríkjum. Þann 28. febrúar greindist fyrsti Íslendingurinn með COVID-19 og í mars var sett á samkomubann hérlendis. Leiða má að því líkur að slíkur faraldur hafi áhrif á andlega líðan fólks en engu að síður hafa erlendar rannsóknir sýnt að áhrif fyrstu bylgju á líðan almennings voru ekki mikil. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna áhrif samkomubanns hér á landi í mars og apríl 2020 á störf sjálfstætt starfandi sálfræðinga. Alls tóku 98 sálfræðingar þátt í rannsókninni. Lagðar voru fyrir 36 spurningar sem sneru að eftirspurn eftir viðtölum, formi viðtala, mati sálfræðinga á líðan skjólstæðinga sinna og geðheilsu þjóðarinnar. Einnig var spurt um áhrif líðanar sálfræðinga á getu þeirra til þess að sinna meðferð og áhrif samkomubanns vegna COVID-19 á tekjur þeirra. Niðurstöður þessarar rannsóknar bentu til þess að eftirspurn eftir sálfræðiviðtölum hafi dregist saman í fyrstu bylgju faraldursins. Breyting varð á formi viðtala; viðtölum í lokuðu rými fækkaði en fjarviðtölum fjölgaði. Um þriðjungur sjálfstætt starfandi sálfræðinga taldi að geðheilsa skjólstæðinga sinna hefði versnað á tímabilinu. Mikill meirihluti taldi að COVID-19 myndi hafa áhrif á geðheilsu þjóðarinnar. Líðan sálfræðinga hafði, að þeirra mati, lítil áhrif á getu til þess að sinna meðferð. Vegna minni eftirspurnar lækkuðu tekjur hjá miklum meirihluta þátttakenda. Ljóst er að samkomubann í mars og apríl hafði áhrif á störf sálfræðinga. Ekki er vitað hvort samkomubann vegna þriðju bylgju COVID-19 muni hafa sambærileg áhrif og er frekari rannsókna þörf. Efnisorð: SARS-CoV-2, COVID-19, sálfræðingar, líðan, fjarþjónusta.
 • Þunglyndiskvarði fyrir börn (Children’s Depression Inventory) - Kerfisbundið yfirlit yfir próffræðilega eiginleika íslenskrar útgáfu

  Guðrún M. Jóhannesdóttir; Linda R. Jónsdóttir; Guðmundur Á. Skarphéðinsson; Háskóli Íslands (Sálfræðingafélag Íslands, 2020)
  Þunglyndiskvarði fyrir börn (e. Children‘s Depression Inventory (CDI)) er notaður til skimunar á þunglyndiseinkennum barna og er í töluverðri notkun hérlendis. Markmið þessarar greinar er að meta próffræðilega eiginleika kvarðans í íslenskum úrtökum með kerfisbundnu yfirliti. Af 2.873 heimildum, sem höfundar skimuðu, stóðu 28 heimildir eftir um próffræðilega eiginleika CDI á Íslandi. Niðurstöður voru almennt svipaðar og erlendis. Eins og búast mátti við mældist meðaltal hærra í klínískum úrtökum en almennum og stúlkur skoruðu hærra en drengir. Innra samræmi heildartölu CDI var nokkuð hátt bæði í almennu og klínísku úrtaki. Samleitniréttmæti kom vel út þar sem CDI var með háa fylgni við aðra þunglyndiskvarða en niðurstöður rannsókna á aðgreiningarréttmæti voru ekki allar á sama máli þar sem fylgni CDI sýndi í sumum tilvikum háa fylgni við kvíðakvarða en í öðrum lága fylgni. Í einni rannsókn með innlagnarúrtaki úr BUGL kom í ljós að forspárréttmæti CDI var gott við alvarlega þunglyndisgreiningu DSM-IV en ekki við þunglyndisgreiningu ICD-10. Niðurstöður tveggja leitandi þáttagreininga sýndu að atriði hlóðust á þrjá þætti en ekki fimm eins og niðurstöður í stöðlunarúrtaki bentu til. Þörf er á frekari rannsóknum á forspárréttmæti, til dæmis á heilsugæslustöðvum og á göngudeildarúrtaki á BUGL. Mikilvægt er að kanna forspárréttmæti betur til að kanna notagildi til skimunar á börnum með þunglyndi. Einnig er þörf á frekari rannsóknum á staðfestandi þáttagreiningu og engar rannsóknir fundust á endurtektaráreiðanleika í íslensku úrtaki. Almennt virðast próffræðilegir eiginleikar CDI vera viðunandi miðað við sambærilega kvarða sem notaðir eru hérlendis. Helstu styrkleikar eru innra samræmi og hátt samleitniréttmæti. Efnisorð: þunglyndiskvarði fyrir börn, þunglyndi, Children’s Depression Inventory, CDI, kerfisbundið yfirlit, próffræðilegir eiginleikar, íslensk börn.
 • Hugfræði og skynjunarvísindi í íslömskum vísindaheimi miðalda

  Árni Kristjánsson; Háskóli Íslands (Sálfræðingafélag Íslands, 2020)
  Aristóteles sagði að maðurinn mæti sjónskynjun öðrum skynfærum meira. Í gegnum heimspekiog vísindasöguna hefur miklum tíma verið varið í rannsóknir á sjónskynjun og eru rannsóknir og kenningar Keplers oft nefndar sem upphafspunktur nútímasjónskynjunarvísinda. En í þeirri frásögn er horft fram hjá merku framlagi vísindamanna innan íslamska menningarheimsins á miðöldum. Íslamskir vísindamenn varðveittu ekki einungis þekkingu Forn-Grikkja, heldur bættu þeir miklu við hana. Vísindamenn eins og Ibn-Ishaq, Al-Kindí, Avicenna og þó sér í lagi Alhazen lögðu mikið af mörkum til skilnings á sjónskynjun og vísindagrein þeirri sem nú er kölluð hugfræði og höfðu mikil áhrif á sporgöngumenn sína á endurreisnartímanum, þar á meðal Kepler. Raunar er Bók um ljósfræði eftir Alhazen eitthvert merkasta rit um sjónskynjun sem komið hefur út. Alhazen kynnti til sögunnar hugmyndir um hvernig sólarljós endurvarpast í umhverfinu og berst inn í augað og hvernig ímynd varpast á ljósnæm svæði innan augans, auk þess sem bókin er líklega fyrsta heildstæða ritið um sálfræði skynjunar. Víðfræg lausn Keplers á gátunni um endurvarp ljóss á sjónbotninn endurspeglar áhrif Alhazens úr ritum vísindamanna á 13. og 14. öld sem höfðu aðgang að hugmyndum hans. Efnisorð: saga sálfræðinnar, íslömsk sálfræði, skynjunarvísindi.
 • Algengi líkamsskynjunarröskunar á Íslandi

  Hrefna Harðardóttir; Arna Hauksdóttir; Heiðrún Hlöðversdóttir; Unnur Anna Valdimarsdóttir; Andri Steinþór Björnsson; Háskóli Íslands (Sálfræðingafélag Íslands, 2021)
  Líkamsskynjunarröskun (LSR; e. body dysmorphic disorder) er geðröskun sem einkennist af þráhyggju um útlitsgalla sem er ekki til staðar. Þessum hugsunum fylgir mikil vanlíðan og skerðing á virkni. Megintilgangur rannsóknarinnar var að (a) meta algengi LSR í almennu úrtaki á Íslandi og (b) bera saman bakgrunn og klínísk einkenni þeirra sem skimast með LSR við þá sem skimast með almenna kvíðaröskun (AKR) og þátttakendur sem ekki skimast með einkenni þessara geðraskana (samanburðarhópur). Þátttakendur voru 854. Alls skimuðust 34 (4%) þátttakendur með LSR (88% konur) og 50 (6%) með AKR (64% konur). Þátttakendur sem skimuðust með LSR voru líklegri til að vera einhleypir, atvinnulausir og í veikindaleyfi eða öryrkjar en þátttakendur án LSR eða AKR. Þeir sem skimuðust með LSR sýndu jafnframt fleiri einkenni þunglyndis og streitu en einstaklingar í samanburðarhópi og voru líklegri til að hafa sjálfsvígshugsanir og að hafa gert tilraun til sjálfsvígs. Að jafnaði var ekki munur á hópunum sem skimuðust með LSR og AKR en þó var hærra hlutfall einstaklinga, sem skimuðust með LSR, sem hafði gert sjálfsvígstilraun. Niðurstöður benda til þess að LSR sé algeng geðröskun í almennu þýði sem hafi margvísleg neikvæð áhrif á líf fólks. Það er mikilvægt að auka þekkingu meðal almennings og heilbrigðisstarfsfólks á LSR, helstu einkennum hennar og viðeigandi meðferð við röskuninni. Efnisorð: líkamsskynjunarröskun, útlitsgallar, algengi, skimun, almenn kvíðaröskun.
 • Endurtekið þunglyndi - Hvað einkennir það og hversu árangursrík er meðferð og forvörn gegn því?

  Ragnar P. Ólafsson; Háskóli Íslands (Sálfræðingafélag Íslands, 2020)
  Oft er skrifað að þunglyndi sé algeng og alvarleg geðröskun sem kosti samfélagið mikið. Þunglyndi er þó ekki einsleitt fyrirbæri. Þótt meiri athygli hafi beinst að stökum lotum þunglyndis og meðferð í bráðafasa hefur áhugi beinst í auknum mæli að því að hluti fólks upplifir endurteknar þunglyndislotur yfir ævina. Í þessari grein er lýst einkennum alvarlegs þunglyndis (e. major depressive disorder) hjá fullorðnum, sem hrjáir 15–18% fólks einhvern tíma ævinnar. Um helmingur upplifir þunglyndi aftur, oftast innan fimm ára. Hætta á nýrri lotu eykst með auknum lotufjölda en meðalfjöldi lota í úrtökum fólks með endurtekið þunglyndi er á bilinu fimm til níu. Í greininni er fjallað er um lýðfræðilega og sálfélagslega þætti sem tengjast þunglyndi og endurtekningu þess. Einnig er fjallað um árangur tveggja helstu meðferðarinngripa, lyfjameðferðar og hugrænnar atferlismeðferðar (HAM), ásamt árangri forvarnarmiðaðrar (ForHAM) og núvitundarmiðaðrar (NúHAM) hugrænnar atferlismeðferðar. Í lok greinarinnar er leitast við að draga saman atriði úr rannsóknum sem gætu verið gagnleg fyrir sálfræðinga að hafa í huga sem koma að mati og meðferð þunglyndis. Nokkur atriði eru einnig rædd sem geta verið mikilvæg í áframhaldandi rannsóknum á þunglyndi og þróun meðferðar við því. Efnisorð: þunglyndi, endurtekið þunglyndi, fullorðnir, meðferð, forvörn.
 • Hent í djúpu laugina - Áskoranir í starfi nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga, líðan þeirra og bjargráð

  Guðríður Ester Geirsdóttir; Telma Kjaran; Kristín Anna Jónsdóttir; Kristín Norðkvist Ragnarsdóttir; Hafdís Skúladótti; 1) Heilbrigðisstofnun Suðurlands 2) Landspítala 3) Heimahjúkrun Reykjavíkur og Rjóðri Landspítala 4) Heilbrigðisstofnun Vesturlands 5) Háskólanum á Akureyri (Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, 2021-03)
  Markmið: Nýútskrifaðir hjúkrunarfræðingar mæta ýmsum áskorunum þegar þeir hefja starfsferil sinn. Hjúkrunarstarfið krefst mikillar þekkingar, færni og öryggis sem þróast samhliða aukinnireynslu í starfi. Námið, eitt og sér, virðist ekki alltaf duga til að undirbúa hjúkrunarfræðinga fyrir allt sem starfið felur í sér og oftar en ekki finnst nýútskrifuðum hjúkrunarfræðingum að þeim sé hent út í djúpu laugina þegar þeir hefja störf. Markmið þessarar rannsóknar var að öðlast innsýn í hvaða áskoranir mæta nýútskrifuðum hjúkrunarfræðingum fyrsta árið í starfi, hversu tilbúnir þeir telja sig vera til að takast á við þær og hvaða bjargráð þeir nýta sér til að vinna úr þessum áskorunum til að stuðla að góðri líðan í starfi. Með því að átta sig á þeim áskorunum sem nýútskrifaðir hjúkrunarfræðingar mæta daglega í störfum sínum er hægt að styðja við þá í starfi og stuðla þar með að aukinni starfsánægju og sporna gegn kulnun í starfi og brottfalli úr stéttinni. Aðferð: Stuðst var við eigindlega rannsóknaraðferð þar sem sett voru þau skilyrði að þátttakendur hefðu brautskráðst frá hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri á árunum 2013–2017. Einnig voru sett þau skilyrði að þátttakendur væru starfandi á legudeildum sjúkrahúsa og hefðu unnið samfellt á sama vinnustað í a.m.k. þrjá mánuði. Niðurstöður: Niðurstöður sýndu að hjúkrunarfræðinámið undirbjó þátttakendur vel fyrir hjúkrunarstarfið og þær áskoranir sem mættu þeim þegar þeir hófu störf sem hjúkrunarfræðingar og töldu þeir að einstaklingsmiðuð aðlögun væri lykilatriði. Allir þátttakendur voru sammála um nauðsyn þess að tileinka sér jákvæð bjargráð í starfi og stuðla þannig að aukinni starfsánægju. Jákvætt viðhorf til starfsins var einkennandi meðal viðmælenda en samkvæmt þeim er það einn af þeim mikilvægu þáttum sem geta dregið úr líkum á kulnun ásamt brottfalli úr faginu. Ályktanir: Þrátt fyrir að hjúkrunarfræðingar nýti sér jákvæð bjargráð og séu meðvitaðir um streitutengda þætti starfsins er ekki síður mikilvægt að þeir njóti stuðnings vinnufélaga og stjórnunin sé góð. Lykilorð: Hjúkrunarfræðingur, nýútskrifaður, áskoranir og bjargráð, innihaldsgreining
 • Reynsluheimur kvenna í íslensku fangelsi og reynsla þeirra af meðferðarúrræðum innan og utan fangelsis

  Arndís Vilhjálmsdóttir; Sigríður Halldórsdóttir; Sigrún Sigurðardóttir; 1) Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins 2)3) Háskólinn á Akureyri (Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, 2021-03)
  Tilgangur: Konur sem hafa afplánað refsidóma hafa flestar, ef ekki nær allar, einhverja áfallasögu að baki. Þær glíma við flókinn vanda sem einkennist af vímuefnanotkun og afleiðingum hennar. Lítið er vitað um reynsluheim þeirra í íslenskum fangelsum og af meðferðarúrræðum innan og utan fangelsis. Tilgangur rannsóknarinnar er að auka þekkingu og dýpka skilning á þeirri reynslu þeirra. Aðferð: Í þessari fyrirbærafræðilegu rannsókn tóku þátt níu konur á aldrinum 20–45 ára. Þær áttu allar við vímuefnavanda að stríða og höfðu allar leitað sér meðferðar við honum. Tekin voru tvö viðtöl við allar nema tvær, samtals 16 viðtöl. Niðurstöður: Konurnar höfðu allar leitað sér aðstoðar vegna vímuefnavanda fyrir afplánun. Þær höfðu leitað í flest meðferðarúrræði sem í boði voru hér á landi, og höfðu einnig leitað sér vímuefnameðferðar erlendis. Flestar konurnar notuðu vímuefni um æð og glímdu við heilsufarsvanda því tengdan. Konurnar höfðu flestar orðið fyrir einhvers konar áföllum í æsku eða á fullorðinsárum. Var vímuefnaneyslan einhvers konar bjargráð til að flýja eða lifa af erfiðar aðstæður. Vímuefnaneyslunni fylgdi síðan mikil vanlíðan, depurð og kvíði. Meirihluti þeirra voru mæður og höfðu misst börn sín frá sér vegna vímuefnanotkunarinnar. Konurnar óskuðu þess flestallar að unnið væri úr áföllum þeirra meðan vímuefnameðferðin færi fram þar sem þær töldu vímuefnaneyslu sína vera nátengda þeim áföllum sem þær höfðu orðið fyrir. Þeim fannst mikilvægt að virkara meðferðarstarf væri í fangelsum og kvörtuðu undan iðjuleysi sem þeim fannst ekki einungis erfitt heldur einnig auka vanlíðan þeirra og fíkn í vímuefni. Ályktanir: Rannsókn þessi sýnir að mikilvægt er að nýta viturlegar en nú er gert þann tíma sem konur afplána refsidóm, t.d. með því að veita meðferð við vímuefnavanda og við þeim áföllum sem þær hafa orðið fyrir sem börn, unglingar og fullorðnar konur.
 • Viðhorf foreldra til heimavitjana í ung- og smábarnavernd: Lýsandi þversniðsrannsókn

  Jórunn Edda Hafsteinsdóttir; Sesselja Guðmundsdóttir; Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir; Sigríður Sía Jónsdóttir; 1) 3) Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins 2) Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu 4) framhaldsnámsdeild Heilbrigðisvísindasviðs Háskólans á Akureyri (Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, 2021-03)
  Tilgangur: Heimavitjanir hjúkrunarfræðinga í ung- og smábarnavernd miða að því að veita foreldrum aðstoð og ráðgjöf eftir fæðingu barns, á tíma sem oft er viðkvæmur foreldrunum. Tilgangur rannsóknarinnar var að varpa ljósi á viðhorf foreldra til heimavitjana hjúkrunarfræðinga á vegum ung- og smábarnaverndar heilsugæslustöðva og meta hvort munur væri á viðhorfum foreldra með fyrsta barn og þeirra sem höfðu eignast barn áður. Aðferð: Lýsandi þversniðsrannsókn. Úrtakið voru foreldrar sem komu með börn í sex og níu vikna skoðun á heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu í upphafi árs 2020. Foreldrar sem samþykktu þátttöku fengu sendan rafrænan spurningalista með 27 opnum og lokuðum spurningum, 19 spurningum um heimavitjanir og átta spurningum um bakgrunn þátttakenda. Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu komu 390 börn í sex eða níu vikna skoðun. Foreldrar 136 barna (35%) svöruðu öllum spurningunum. Af þeim voru 93% konur og rétt tæpur helmingur var að eignast sitt fyrsta barn (49%). Flestir foreldrarnir (92%) voru ánægðir með heimavitjanir hjúkrunarfræðinga í ung- og smábarnavernd og kunnu að meta ráðgjöf, aðstoð og stuðning sem hjúkrunarfræðingar veittu þeim. Flestum fannst heimavitjanirnar hæfilega margar (84%) og hæfilega langar (96%). Lítill hluti foreldra (8,1%) var óánægður með heimavitjanir hjúkrunarfræðinga. Foreldrar með fyrsta barn voru marktækt óánægðari með aðstoð og ráðgjöf sem þeir fengu í heimavitjunum en foreldar sem höfðu eignast barn áður. Ekki var marktækur munur á viðhorfum foreldra með fyrsta barn og þeirra sem höfðu eignast barn áður varðandi tíðni eða lengd heimavitjana. Ályktanir: Niðurstöðurnar benda sterklega til þess að heimavitjanir hjúkrunarfræðinga í ung- og smábarnavernd séu mikilvægur þáttur í þjónustu við nýbakaða foreldra. Meirihluti þátttakenda var ánægður með heimavitjanir hjúkrunarfræðinga, fjölda þeirra og lengd en alltaf má gera betur. Huga þarf sérstakalega að þörfum foreldra með fyrsta barn þar sem þeir voru marktækt óánægðari með aðstoð og ráðgjöf sem þeir fengu en foreldrar sem höfðu eignast barn áður. Lykilorð: hjúkrunarfræðingar, heimavitjun, ung- og smábarnavernd, foreldrar, heilsugæsla.
 • Algengi og nýgengi sykursýki 2 á Íslandi frá 2005 til 2018

  Bolli Þórsson; Elías Freyr Guðmundsson; Gunnar Sigurðsson; Thor Aspelund; Vilmundur Guðnason; 1 Icelandic Heart Association, 2 Landspitali- The National University Hospital of Iceland, 3 University of Iceland (Læknafélag Íslands, 2021-05)
  INNGANGUR Fjöldi fólks með sykursýki 2 hefur vaxið undanfarna áratugi á Íslandi. Í þessari rannsókn var notaður Lyfjagagnagrunnur Embættis landlæknis til að meta algengi og nýgengi sykursýki 2 og sett fram spá um algengi sykursýki 2 eftir 10 og 20 ár. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Algengi og nýgengi sykursýki á tímabilinu 2005-2018 var metið út frá ávísunum sykursýkilyfja samkvæmt skráningum í Lyfjagagnagrunni og borið saman við niðurstöður Áhættuþáttakönnunar Hjartaverndar frá 2004-2011 og birtar tölur frá Bandaríkjunum frá 1980-2016. NIÐURSTÖÐUR Algengi sykursýki 2 meira en tvöfaldaðist í nær öllum aldurshópum hjá bæði körlum og konum á tímabilinu (18-79 ára). Nýgengi jókst um 2,8% á ári (18-79 ára). Fólk með sykursýki 2 á Íslandi var 10.600 manns árið 2018 og hafði fjölgað úr um 4200 manns árið 2005. Gögn úr Lyfjagagnagrunni samanborið við Áhættuþáttakönnun Hjartaverndar sýna undirmat á nýgengi sykursýki (29% hjá körlum og konum). Haldi fólki með sykursýki á Íslandi áfram að fjölga með svipuðum hraða og varð á árabilinu frá 2005 til 2018 gæti fjöldinn verið kominn í tæp 24.000 manns árið 2040. ÁLYKTUN Línuleg aukning varð á algengi og nýgengi sykursýki 2 á Íslandi á árunum 2005-2018. Svipuð þróun sást í Bandaríkjunum frá 1984. Til að sporna gegn því að fjölgunin hér á landi fari inn á svipaða braut þarf að grípa til víðtækra og markvissra aðgerða.
 • Berskjöldun fyrir börn með kvíðaraskanir: Könnun meðal íslenskra sálfræðinga um notkun berskjöldunar í meðhöndlun kvíðaraskana hjá börnum og unglingum

  Ástrós Elma Sigmarsdóttir; Hrafnkatla Agnarsdóttir; Aron Eydal Sigurðarson; Sindri Lárusson; Guðmundur Skarphéðinsson; Háskóli Íslands (Sálfræðingafélag Íslands, 2019)
  Berskjöldun (exposure) er gagnreynd aðferð til að draga úr hamlandi kvíða hjá börnum með kvíðaraskanir og hafa rannsóknir sýnt að hún sé áhrifaríkasti hluti hugrænnar atferlismeðferðar. Bandarískar rannsóknir benda til þess að berskjöldun sé vannýtt á klínískum vettvangi en staðan innan Evrópu er enn óljós. Tilgangur rannsóknarinnar var að kortleggja stöðu íslenskra sálfræðinga í notkun berskjöldunar við kvíðaröskunum barna (almennri kvíðaröskun, aðskilnaðarkvíða og félagskvíða). Önnur markmið rannsóknarinnar voru að meta viðhorf meðferðaraðila til berskjöldunar, þjálfun þeirra í beitingu aðferðarinnar og val á aðferðum í meðferð. Allir sálfræðingar innan Sálfræðingafélags Íslands fengu sendan spurningalista og til að geta tekið þátt þurfti viðkomandi að hafa meðhöndlað að minnsta kosti eitt barn á aldrinum fimm til 17 ára með kvíðaröskun sem aðalröskun á síðastliðnum 12 mánuðum. Samtals svöruðu 50 félagsmenn könnuninni. Í ljós kom að flestir þátttakendur voru með meistaragráðu og flestir unnu á heilsugæslustöð, Barnaog unglingageðdeild eða á einkarekinni stofu. Niðurstöður sýndu að langflestir nota HAM og berskjöldun (94%) til þess að meðhöndla börn og unglinga með kvíðaröskun. Einnig voru viðhorf gagnvart aðferðinni að öllu jöfnu jákvæð. Þrátt fyrir það virðist skorta þjálfun og innleiðingu á aðferðinni. Í samanburði við Bandaríkin virðist Ísland standa ágætlega hvað varðar notkun á berskjöldun þó svo að gæði aðferðinnar í meðferð séu óljós. Í framhaldi af þessari rannsókn væri gagnlegt að rannsaka meðferðarfylgni meðferðaraðila í því skyni að fá betri innsýn í það hvort verið sé að veita börnum á Íslandi meðferðarúrræði sem skilar árangri. Efnisorð: Hugræn atferlismeðferð, berskjöldun, kvíðaraskanir barna, meðferðaraðilar, gagnreyndar aðferðir
 • Notkun berskjöldunar meðal sálfræðinga á Íslandi fyrir börn með áráttu- og þráhyggjuröskun

  Aron Eydal Sigurðarson; Sindri Lárusson; Ástrós Elma Sigmarsdóttir; Hrafnkatla Agnarsdóttir; Guðmundur Skarphéðinsson; Háskóli Íslands (Sálfræðingafélag Íslands, 2019)
  Áráttu- og þráhyggjuröskun (ÁÞR) einkennist af áráttuhegðun og þráhyggjuhugsunum. Þráhyggja lýsir sér í óþægilegum, uppáþrengjandi og óviðeigandi hugsunum sem valda vanlíðan og kvíða. Árátta fylgir yfirleitt þráhyggju og einkennist af endurteknum athöfnum sem virka sem markviss leið til þess að draga úr óþægindum sem þráhyggjuhugsanirnar valda. Hugræn atferlismeðferð með berskjöldun og svarhömlun er fyrsti kostur sem meðferð við ÁÞR. Þessi rannsókn gengur út á að kanna viðhorf sálfræðinga á Íslandi til berskjöldunar við ÁÞR og kanna hve mikið og hvernig þeir beita berskjöldunarmeðferðinni þegar þeir vinna með börnum og unglingum með ÁÞR. Stuðst var við erlendan spurningalista sem var þróaður til að athuga meðferðaraðferðir sálfræðinga við kvíða og ÁÞR. Spurningalistinn var þýddur yfir á íslensku og sendur sálfræðingum í Sálfræðingafélagi Íslands og einungis þeir sem höfðu meðhöndlað ÁÞR barns síðastliðið ár voru þátttakendur, alls 26. Rannsóknin leiddi í ljós að almennt er viðhorf sálfræðinga á Íslandi jákvætt til meðferðarinnar. Allir þátttakendur rannsóknarinnar sögðust nota berskjöldun í meðferð við ÁÞR og eyddu 46,2% þátttakenda meira en 61% tíma meðferðar í berskjöldun. Í ljós kom þó að ekki voru allir að nota bestu mögulegu aðferðir berskjöldunar í sinni meðferð en rúm 43% sögðust ekki reyna að takmarka truflanir í æfingum, það er að segja truflanir í umhverfinu sem gætu komið niður á árangri meðferðarinnar. Þetta gerir það að verkum að börnin eru ekki að fá bestu mögulegu meðferðina vegna mögulegra truflana. Því þyrfti að auka kennslu og þjálfun í notkun berskjöldunar svo að sálfræðingar beiti henni rétt til að börn með ÁÞR á Íslandi eigi mestan möguleika á bata. Efnisorð: Þráhyggja, árátta, berskjöldun, svarhömlun
 • Sjálfsmatskvarðar Becks fyrir börn og unglinga: Kerfisbundið yfirlit yfir próffræðilega eiginleika íslenskrar útgáfu

  Rebekka Björg Guðmundsdóttir; Rebekka Aldís Kristinsdóttir Valberg; Guðmundur Skarphéðinsson; 1)2) Miðstöð í Lýðheilsuvísindum, Háskóli Íslands 3) Sálfræðideild, Háskóli Íslands (Sálfræðingafélag Íslands, 2019)
  Markmið þessarar greinar var að kanna próffræðilega stöðu Sjálfsmatskvarða Becks fyrir börn og unglinga (BYI) í íslenskri útgáfu með aðferð kerfisbundins yfirlits (e. systematic review). Sjálfsmatskvarðar Becks samanstanda af fimm undirkvörðum með 20 atriðum hver, sem meta sjálfsmynd, kvíða, þunglyndi, reiði og hegðunarvanda hjá ungmennum á aldrinum 7-18 ára. Leitað var kerfisbundið að öllum rannsóknum sem lögðu kvarðana fyrir íslenskt úrtak í gagnagrunnum Google Scholar, PubMed og Skemmunnar og þær teknar saman. Alls fundust níu greinar og handrit sem fjölluðu um próffræðilega eiginleika kvarðanna. Niðurstöður gáfu til kynna gott innra samræmi á bilinu 0,71-0,96. Aðgreiningar- og samleitniréttmæti var óviðunandi þar sem meðal annars var há innbyrðis fylgni á milli undirkvarða BYI og fylgni við aðra lista sem mátu ólíkar hugsmíðar. Einnig bentu niðurstöður þáttagreiningar til þess að listinn aðgreindi ekki með fullnægjandi hætti á milli hugsmíðanna kvíða, þunglyndis og reiði, en niðurstöður íslenskra rannsókna hafa bent til þess að þessar þrjár hugsmíðir myndi saman einn þátt. Þessar niðurstöður eru í samræmi við erlendar rannsóknir, en helsti styrkleiki listans er mikið innra samræmi. Hins vegar er aðgreiningar- og samleitniréttmæti listans óviðunandi. Einnig er ekki vitað hvaða notagildi kvarðarnir hafa í klínísku úrtaki með tilliti til viðmiðsréttmætis og hvort kvarðarnir henti til að meta árangur meðferðar eða breytingar á einkennum yfir tíma. Próffræðilegir eiginleikar sjálfsmyndar- og hegðunarvandakvarða BYI meðal íslenskra rannsókna eru að mestu viðunandi til góðir. Hvað varðar kvíða-, þunglyndis- og reiðikvarða BYI getum við ekki mælt með notkun þeirra, hvorki í almennum né klínískum tilgangi en hins vegar mælum við með endurskoðun þessara þriggja undirkvarða. Efnisorð: Sjálfsmatskvarðar Becks, skimun, próffræðilegir eiginleikar, börn, unglingar
 • Kerfisbundið yfirlit yfir próffræðilega eiginleika Fjölþáttakvíðakvarða fyrir börn (Multidimensional Anxiety Scale for Children) í íslensku úrtaki

  Theodóra Listalín Þrastardóttir; Guðmundur Ágúst Skarphéðinsson; Háskóli Íslands (Sálfræðingafélag Íslands, 2019)
  Fjölþáttakvíðakvarði fyrir börn (MASC) er skimunarlisti sem metur fjórar víddir kvíða, líkamleg einkenni, flótta og forðunarhegðun, félagskvíða og aðskilnaðarkvíða/felmtur. Markmið eftirfarandi rannsóknar var að meta próffræðilega eiginleika kvarðans í íslensku úrtaki með aðferðum kerfisbundins yfirlits (e. systematic review). Leitað var kerfisbundið að greinum sem fjölluðu um íslenskar rannsóknir á kvarðanum. Samtals voru 185 útdrættir skimaðir og að lokum voru 20 greinar valdar úr sem uppfylltu þátttökuviðmið. Meðaltöl og staðalfrávik voru svipuð og í erlendum rannsóknum, hærri í klínísku úrtaki en almennu og stúlkur skoruðu almennt hærra á öllum þáttum. Innra samræmi var viðunandi í öllum rannsóknum og í samræmi við erlendar rannsóknir, sem og aðgreiningar- og samleitisréttmæti. Ein íslensk rannsókn skoðaði forspárréttmæti og notast var við innlagnarúrtak á BUGL og voru niðurstöður í samræmi við erlendar niðurstöður að mestu leyti, félagskvíðaundirþáttur MASC spáði fyrir um félagskvíðaröskun og undirþátturinn aðskilnaðarkvíði/ felmtur spáði fyrir um aðskilnaðarkvíðaröskun en þar sem úrtakið var innlagnarúrtak gefa niðurstöður ekki eins skýra mynd og þær erlendu. Tvær íslenskar rannsóknir sýna að fjögurra þátta lausn sé best fyrir íslenskt úrtak. Á heildina litið er kvarðinn áreiðanlegur og gagnlegur listi sem fagfólk getur nýtt til að skima eftir kvíðaeinkennum hjá börnum og unglingum. Efnisorð: Fjölþáttakvíðakvarði, MASC, kerfisbundið yfirlit, próffræðilegir eiginleikar, íslensk börn
 • Áhrif jákvæðrar og neikvæðrar endurgjafar á námsástundun og félagslega hegðun nemenda

  Birna Pálsdóttir; Zuilma Gabriela Sigurðardóttir; Francesco Sulla; Háskóli Íslands og Parma University (Sálfræðingafélag Íslands, 2019)
  Áhrif endurgjafar kennara á námsástundun og félagslega hegðun nemenda hafa verið viðfangsefni fjölmargra rannsókna. Rannsóknir frá níunda áratug síðustu aldar sem hafa skoðað slík áhrif hafa sýnt fram á að hlutfall jákvæðrar endurgjafar á námsástundun hefur oftast verið hærra en hlutfall neikvæðrar endurgjafar á félagslega hegðun (t.d. Apter, Arnold og Swinson, 2010; Apter, 2016; Brophy, 1981; Harrop og Swinson, 2000; Nafpaktitis, Mayer og Butterworth, 1985; White, 1975). Markmið þessarar greinar er að fara yfir stöðu rannsókna á því hvernig yrtri endurgjöf kennara á hegðun nemenda á aldrinum 6-16 ára er háttað í enskumælandi löndum allt frá áttunda áratug síðustu aldar og fram til dagsins í dag. Flestir eru sammála um að álag í starfi kennara sé mikið og til lengri tíma getur slíkt leitt til uppgjafar og kulnunar (Ninness og Glenn, 1988). Rannsóknir hafa sýnt að nemendur á grunnskólaaldri virðast nýta tæplega helming af tíma kennslustundar í annað en fyrirliggjandi verkefni (Fredricks, Blumenfeld og Paris, 2004; Godwin o.fl., 2016). Rannsóknir hafa sýnt fram á að með því að auka færni kennara í jákvæðri endurgjöf hafi það jákvæð áhrif á námsástundun (t.d. Sulla, Armenia, Eramo og Rollo, 2015 og Wheldall, Merret og Borg, 1985). Lögmál hegðunar og náms má nýta til þess að útskýra þá hegðun sem oft birtist í kennslustofum í samskiptum kennara og nemenda og hefur áhrif á þær breytur sem stuðla að aukinni námsástundun og félagslega æskilegri hegðun. Efnisorð: námsástundun, jákvæð endurgjöf, neikvæð endurgjöf, atferlisgreining, beint áhorf, félagsleg hegðun
 • Staða rannsókna á heildstæðum stuðningi við jákvæða hegðun (PBS) í grunnskólum á Íslandi

  Auður Sif Kristjánsdóttir; Bergljót Gyða Guðmundsdóttir; 1) Háskóli Íslands 2) Þjónustumiðstöð Breiðholts og Háskóli Íslands (Sálfræðingafélag Íslands, 2019)
  Erfið hegðun nemenda í skólum er algengur vandi sem erfitt getur verið að takast á við. Heildstæður stuðningur við jákvæða hegðun (e. positive behavior support; PBS) er alhliða stuðningskerfi sem samanstendur af mismunandi úrræðum á þremur þrepum þar sem tekið er tillit til ólíkrar hegðunar nemenda og þeim veitt íhlutun í samræmi við þarfir hvers og eins. Rannsóknir hafa sýnt að PBS dregur meðal annars úr hegðunarvanda og bætir námsástundun. Á Íslandi hafa verið gerðar nokkrar rannsóknir á árangri af innleiðingu PBS í grunnskólum. Markmið þessarar yfirlitsrannsóknar var að kanna hvað niðurstöður þeirra rannsókna sýndu og varpa þannig skýrara ljósi á næstu skref í rannsóknum á PBS á Íslandi. Í heild virðist PBS yfirleitt áhrifaríkt, en þó eru ákveðnir vankantar á innleiðingunni í sumum tilfellum. Sömuleiðis þarf að gera fleiri og fjölbreyttari rannsóknir á Íslandi, sérstaklega á miðþrepi kerfisins. Efnisorð: Heildstæður stuðningur við jákvæða hegðun, PBS, grunnskólar, hegðun, hegðunarvandi
 • Skyndileg meðvitundarskerðing vegna lokunar á æð Percherons. Sjúkratilfelli

  Brynhildur Thors; Ólafur Sveinsson; 1 Taugalækningadeild Landspítala, 2 læknadeild Háskóla Íslands. (Læknafélag Íslands, 2021-04)
  Brátt heilaslag á grunni lokunar á Percheron-slagæð til miðheila og stúku er sjaldgæf og snúin greining vegna ósértækra klínískra einkenna. Skjót greining og meðferð er afar mikilvæg þar sem um er að ræða brátt og alvarlegt ástand. Hér er kynnt tilfelli ungrar konu sem fékk skyndilegan höfuðverk og skerta meðvitund. Sjáöldur voru misvíð og brugðust illa við ljósáreiti og iljaviðbrögð voru jákvæð beggja megin. Fram komu flogalíkar hreyfingar í öllum útlimum. Tölvusneiðmynd af heila og heilaæðum var eðlileg en bráð segulómun sýndi byrjandi drep í stúku beggja megin. Á grunni einkenna og segulómunar fékk sjúklingur segaleysandi meðferð í æð 70 mínútum eftir komu á bráðamóttöku og náði sér að fullu.
 • Áhrif lyfsins fampridíns á skerta göngugetu sjúklinga með MS (Multiple Sclerosis)

  Björg Guðjónsdóttir; Haukur Hjaltason; Guðbjörg Þóra Andrésdóttir; 1 Námsbraut í sjúkraþjálfun, heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands, 2 læknadeild Háskóla Íslands, 3 taugadeild Landspítala. (Læknafélag Íslands, 2021-04)
  INNGANGUR Fampridín er lyf sem virkar sem kalíumgangaloki og er ætlað sjúklingum með skerta göngugetu vegna MS (Multiple Sclerosis). Með því að loka á kalíumgöng dregur lyfið úr jónaleka, sem seinkar endurskautun og hvetur þannig myndun hrifspennu í afmýluðum taugasímum. Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á góð áhrif fampridíns á skerta göngugetu fólks með MS. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða áhrif lyfsins á göngugetu íslenskra sjúklinga með MS og athuga hve margir þeirra halda lyfjameðferð áfram eftir tveggja vikna reynslulyfjatímabil. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Þátttakendur voru 41 sjúklingur með MS sem reyndu fampridín á fyrstu 16 mánuðum notkunar þess á Íslandi. Unnið var úr sjúkraskrárgögnum Landspítala. Árangur var metinn með mælingum á gönguhraða (timed 25-foot walk, T25FW) og göngugetu (12-item multiple sclerosis walking scale, MSWS-12). NIÐURSTÖÐUR Niðurstöður sýndu að marktækur munur var á gönguhraða á T25FWgönguprófinu fyrir og undir lok reynslulyfjameðferðar (p<0,0001). Meðaltalsaukning gönguhraða var 22%. Einnig reyndist marktækur munur á stigagjöf á MSWS-12-göngumatsprófinu fyrir og undir lok reynslulyfjameðferðar (p<0,0001). Lækkun stigafjölda á MSWS-12 gönguprófinu var að meðaltali 11,4 stig. Átján sjúklingar (43,9%) héldu lyfjameðferð áfram eftir að reynslulyfjameðferð lauk. ÁLYKTUN Lyfið fampridín getur bætt skerta göngugetu hjá hluta sjúklinga með MS og getur verið mikilvæg viðbót í einkennameðferð þeirra.

View more