• Samanburður á greiningu og meðferð ífarandi brjóstakrabbameina milli Íslands og Svíþjóðar

   Lilja Dögg Gísladóttir; Helgi Birgisson; Bjarni A. Agnarsson; Þorvaldur Jónsson; Laufey Tryggvadóttir; Ásgerður Sverrisdóttir; 1 Læknadeild Háskóla Íslands, 2 Landspítala, 3Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands. (Læknafélag Íslands, 2020-09)
   TILGANGUR Rannsóknin var liður í innleiðingu gæðaskráningar brjóstakrabbameina á Íslandi og markmiðið að bera saman greiningu og meðferð ífarandi brjóstakrabbameina á Íslandi og í Svíþjóð. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Upplýsingar um alla einstaklinga sem greindust með ífarandi brjóstakrabbamein á Íslandi 2016-2017 fengust frá Krabbameinsskrá. Breytur úr sjúkraskrám voru skráðar í eyðublöð í Heilsugátt að fyrirmynd sænsku gæðaskráningarinnar og voru niðurstöður bornar saman við niðurstöður fyrir ífarandi brjóstakrabbamein af heimasíðu sænsku krabbameinsskrárinnar. Notað var tvíhliða kí-kvaðrat-próf til að bera saman hlutföll. NIÐURSTÖÐUR Á rannsóknartímabilinu greindust 486 ífarandi brjóstakrabbamein á Íslandi og 15.325 í Svíþjóð. Hlutfallslega færri 40-69 ára konur greindust við hópleit á Íslandi (46%) en í Svíþjóð (60%) (p<0,01). Á Íslandi voru haldnir heldur færri samráðsfundir fyrir fyrstu meðferð (92%) og eftir aðgerð (96%) miðað við Svíþjóð árið 2016 (98% og 99%) (p<0,05) en ekki var marktækur munur 2017. Varðeitlataka var gerð í 69% aðgerða á Íslandi en í 94% aðgerða í Svíþjóð (p<0,01). Ef æxlið var ≤30 mm var á Íslandi gerður fleygskurður í 48% tilvika en í 80% tilvika í Svíþjóð (p<0,01). Á Íslandi fengu 87% geislameðferð eftir fleygskurð en 94% í Svíþjóð (p<0,01). Ef eitlameinvörp greindust í brottnámsaðgerð þá fengu 49% geislameðferð eftir aðgerð á Íslandi en 83% í Svíþjóð (p<0,01). ÁLYKTANIR Marktækur munur er á ýmsum þáttum greiningar og meðferðar ífarandi brjóstakrabbameina milli Íslands og Svíþjóðar. Með gæðaskráningu brjóstakrabbameina á Íslandi er hægt að fylgjast með og setja markmið um ákveðna þætti greiningar og meðferðar í því skyni að veita sem flestum einstaklingum bestu meðferð.
  • Þegar orkuna skortir – áhrif hlutfallslegs orkuskorts í íþróttum (RED-s) á heilsu og árangur

   Birna Varðardóttir; Sigríður Lára Guðmundsdóttir1; Anna Sigríður Ólafsdóttir; Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda, menntavísindasviði Háskóla Íslands (Læknafélag Íslands, 2020-09)
   Mikilvægt er að íþróttafólk á öllum aldri tileinki sér mataræði sem styður sem best við heilsu og vellíðan, þjálffræðilega aðlögun, endurheimt og meiðslaforvarnir. Tiltæk orka vísar til þeirrar orku sem stendur eftir fyrir grunnstarfsemi líkamans þegar búið er að draga þá orku sem varið er við líkamlega þjálfun frá orkunni sem fæst úr fæðunni sem neytt er dag hvern. Hlutfallslegur orkuskortur í íþróttum (Relative Energy Deficiency in Sport, RED-s) stafar af viðvarandi skorti á tiltækri orku og hefur víðtæk áhrif á íþróttafólk, óháð kyni og getustigi. Áhrif RED-s geta meðal annars falið í sér skerðingu á efnaskiptahraða, hormónastarfsemi og tíðahring kvenna, beinheilsu, ónæmisvörnum, nýmyndun próteina og starfsemi hjarta- og æðakerfis. Slíkar truflanir á líkamsstarfsemi geta haft neikvæð áhrif á heilsu og íþróttaárangur til lengri og skemmri tíma. Þekkt er að RED-s getur átt sér mismunandi orsakir og birtingarmyndir. Samkvæmt erlendum rannsóknum er algengi breytilegt eftir íþróttagreinum og sérhæfingum innan þeirra en áhættan er talin hvað mest í úthaldsíþróttum, fagurfræðilegum íþróttum og þyngdarflokkaíþróttum. Greinin tekur saman þekkingu á áhrifum RED-s á heilsu og árangur, mikilvægi skimunar og snemmbærs inngrips. Þörf er á rannsóknum á RED-s meðal íslensks íþróttafólks sem gætu lagt grunninn að íslenskum ráðleggingum auk þess að efla forvarnir og meðferð
  • Afdrif þeirra sem gengist hafa undir æxlisminnkandi skurðaðgerð og hitaða lyfjameðferð innan lífhimnu

   Ástríður Pétursdóttir; Örvar Gunnarsson; Elsa B. Valsdóttir; 1)3) Kviðarholsskurðdeild, 2) lyflækningar krabbameina Landspítala, 3) læknadeild Háskóla Íslands. (Læknafélag Íslands, 2020-07)
   Inngangur Krabbameinager í kviðarholi er oft afleiðing krabbameins í ristli eða endaþarmi og er illlæknanlegt ástand. Lifun sjúklinga með krabbameinager hefur að meðaltali verið undir tveimur árum eftir kerfislæga krabbameinslyfjameðferð með eða án skurðaðgerðar. Einn meðferðarmöguleikinn felst í æxlisminnkandi skurðmeðferð og lyfjameðferð innan kviðarhols og hefur verið sýnt fram á að þessi meðferð getur bætt horfur valinna sjúklinga. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna afdrif sjúklinga sem farið hafa frá Íslandi í þessa meðferð erlendis. Efniviður og aðferðir Afturskyggn rannsókn á öllum íslenskum sjúklingum sem gengust undir CRS-HIPEC-aðgerð erlendis á árunum 2008-2017. Upplýsingum var safnað frá Siglinganefnd Sjúkratrygginga Íslands og úr sjúkraskýrslum Landspítala. Niðurstöður Alls hafa 11 einstaklingar gengist undir CRS-HIPEC-meðferð eftir upphaflega meðferð á Landspítala. Allar aðgerðirnar voru framkvæmdar í Bandaríkjunum af sama skurðlækni. Hópurinn telur 10 konur og einn karl og var meðalaldur 53 ár. Orsök krabbameinagers var illkynja mein í botnlanga hjá 7 sjúklingum (67%) og illkynja mein í ristli hjá þremur sjúklingum (27%). Einn sjúklingur var með illkynja frummein í lífhimnu, iðraþekjuæxli. Þrír sjúklingar (27%) fengu fylgikvilla innan 30 daga frá aðgerð, tveir fengu sýkingu og einn garnatengingarleka. Einn sjúklingur fékk síðkominn fylgikvilla í formi þrenginga í görn og síðar fistilmyndunar. Fimm sjúklingar hafa lokið 5 ára eftirfylgd án endurkomu sjúkdóms en meðaltími eftirfylgdar eru 44 mánuðir. Af 11 sjúklingum eru 10 enn á lífi. Fimm manns hafa greinst með endurkomu krabbameins. Ályktanir Íslenskum sjúklingum sem gengist hafa undir CRS-HIPEC-aðgerð hefur í flestum tilvikum vegnað vel og lifun er sambærileg við erlendar rannsóknarniðurstöður. Helmingur sjúklinganna sem enn eru á lífi hafa lokið 5 ára eftirfylgd án endurkomu sjúkdóms. Horfur eru talsvert betri en þær voru áður en til þessarar meðferðar kom og því er full ástæða til að halda áfram að senda valda íslenska sjúklinga erlendis í þessa meðfer
  • Vatnsbornar hópsýkingar á Íslandi – greining á umfangi og ástæðum

   María J. Gunnarsdóttir; Ása St. Atladóttir; Sigurður M. Garðarsson; 1) 3) Vatnaverkfræðistofa umhverfis- og byggingarverkfræðideildar Háskóla Íslands, 2) Embætti landlæknis. (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2020-06)
   TILGANGUR Hreint neysluvatn er undirstaða lýðheilsu. Algengasta orsök sýkinga af völdum neysluvatns eru sýklar sem berast með saur manna eða dýra í vatnið. Markmið þessarar rannsóknar er að taka saman skráðar vatnsbornar hópsýkingar á 20 ára tímabili, 1998-2017, og greina hvað hafi valdið þeim. Jafnframt eru tekin saman tilvik þar sem neysluvatn hefur mengast þó sjaldan sé skráð hópsýking í tengslum við þau. AÐFERÐIR Gögn eru fengin úr gagnagrunnum rannsóknastofa, sóttvarnasviði Embættis landlæknis, Embætti sóttvarnarlæknis, skýrslum og viðtölum við viðkomandi heilbrigðiseftirlit og sóttvarnalækna. NIÐURSTÖÐUR Á tímabilinu 1998-2017 voru skráðar 15 vatnsbornar hópsýkingar, allar hjá minni vatnsveitum og sumar á fjölförnum ferðamannastöðum og í sumarhúsabyggðum. Sýkillinn er annaðhvort Campylobacter eða nóróveira og í einu tilfelli Cryptosporidium (launsporasýking). Um 500 manns urðu veikir í þessum hópsýkingum og þær höfðu áhrif á um 8000 manns, í lengri eða skemmri tíma. Rannsóknir hafa sýnt að einungis um 10% þeirra sem veikjast fara til læknis, og rata þannig í skrár, og því má leiða að því líkur að í það minnsta 250 manns hafi orðið veikir að meðaltali á ári hverju vegna mengaðs neysluvatns. Greining á niðurstöðum neysluvatnssýna leiddi í ljós að saurmengun greinist að meðaltali í um 50 vatnsveitum á ári hverju, sem er um 5% af skráðum vatnsveitum landsins. Helsta orsök vatnsbornu hópsýkinganna er lélegur frágangur og viðhald á vatnsbólum. ÁLYKTANIR Ýmislegt bendir til að vatnsbornar hópsýkingar séu fleiri en þær sem eru skráðar í opinberar skýrslur og þá sérstaklega hjá minni vatnsveitum. Einnig virðist heilbrigðisyfirvöldum á viðkomandi svæðum oft ekki gert viðvart þegar frávika verður vart í eftirliti. Nauðsynlegt er að bæta skráningu, upplýsingaflæði milli aðila, faraldsfræðilegar úttektir og eftirfylgni við hópsýkingar af völdum neysluvatns þannig að hægt sé að læra af reynslunni. Bæta þarf vatnsgæði hjá minni vatnsveitum og taka upp fyrirbyggjandi úttektir og hættumat á mengun.
  • Lokun í botn- og hryggslagæð heila - Sjúkratilfelli og yfirlit

   Albert Páll Sigurðsson; Þorsteinn Gunnarsson; Hjalti Már Þórisson; Ingvar Hákon Ólafsson; Gunnar Björn Gunnarsson; 1 Taugadeild Landspítala Fossvogi, 2 röntgendeild Sahlgrenska-sjúkrahússins, Gautaborg, Svíþjóð, 3 inngripsröntgen- og æðaþræðingardeild Landspítala, 4 heila- og taugaskurðlækningadeild Landspítala, 5 endurhæfingardeild Landspítala Grensási. (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2020-06)
   Hér er lýst sjúkratilfelli 22 ára gamallrar hraustrar konu sem komið var með meðvitundarlausa á bráðamóttöku Landspítala sumarið 2018. Tölvusneiðmynd af heila við komu sýndi stórt drep í litla heila hægra megin og mikinn bjúg sem þrengdi að fjórða heilahólfi. Æðamynd við komu vakti grun um flysjun í vinstri hryggslagæð og lokun botnslagæðar sem var staðfest síðar við innæðameðferð. Hafin var segaleysandi meðferð en síðan farið í segabrottnám og fékkst góð enduropnun æðar. Daginn eftir fór hún í skurðaðgerð vegna illvígs dreps í litla heila. Henni farnaðist vel og skoraði 1 stig á endurbættum Rankin-kvarða 90 dögum eftir úrskrift af sjúkrahúsi.
  • D-vítamínbúskapur íslenskra barna og ungmenna - Langtímarannsókn

   Berglind Gunnarsdóttir; Hannes Hrafnkelsson; Erlingur Jóhannsson; Emil L. Sigurðsson; 1 Heilsugæslunni Sólvangi, 2 Heilsugæslunni Seltjarnarnesi, 3 Rannsóknarstofu í íþrótta- og heilsufræðum‚ menntavísindasviði Háskóla Íslands‚ 4 Institutt for idrett‚ kosthold og naturfag‚ Høskulen på Vestlandet‚ Bergen‚ Norge, 5 Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, 6 læknadeild Háskóla Íslands. (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2020-05)
   TILGANGUR D-vítamín er mikilvægt fyrir vöxt og líkamlegan þroska barna, ekki eingöngu til að bæta beinheilsu heldur einnig vegna áhrifa þess á aðra starfsemi líkamans. Embætti landlæknis ráðleggur að D-vítamínþéttni í blóði sé minnst 50 nmól/l. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hve stór hluti íslenskra barna og ungmenna næðu ráðlagðri D-vítamínþéttni við 7, 9, 15 og 17 ára aldur, ásamt því að kanna breytingar á D-vítamínþéttni yfir tíma og tengsl við kalkvaka (parathyroid hormone status (S-PTH)). EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Rannsóknarhópurinn samanstóð af nemendum 6 grunnskóla í Reykjavík, fæddum árið 1999. Blóðprufur voru teknar fjórum sinnum árin 2006, 2008, 2015 og 2017. Að hluta til var um sömu börn að ræða en fleiri bættust í hópinn árið 2015 og 2017. NIÐURSTÖÐUR Í öllum mælingum voru um eða yfir 60% barna með lægri þéttni D-vítamíns í blóði en Embætti landlæknis ráðleggur. Einungis 13% náðu viðmiðum um þéttni yfir 50 nmól/l í endurteknum mælingum og 38,9% einstaklinganna voru með lægri en ráðlagða þéttni í minnst tveimur blóðprufum. Ekki var marktækur munur milli kynja nema hvað 17 ára stelpur höfðu marktækt hærra D-vítamínþéttni en strákar (p=0,04). S-PTH hafði neikvæða fylgni við D-vítamín við 7, 15 og 17 ára aldur en náði ekki marktækni við 9 ára aldur. Meðaltalsgildi S-PTH var lægst við 7 ára aldur en hækkaði síðan með aldri. ÁLYKTUN Þéttni D-vítamíns í blóði hjá meirihluta barna og ungmenna er undir ráðlögðum gildum Embættis landlæknis. Hjá stórum hluta er þéttnin endurtekið of lág. Ljóst er að auka þarf D-vítamíninntöku hjá þessum hópi ef markmið um æskilega þéttni á að nást. Áhrif D-vítamínskorts á lýðheilsu eru þó ekki að fullu þekkt.
  • Nýjungar í MS: Áhættuþættir, greining og meðferð

   Haukur Hjaltason; Ólafur Sveinsson; 1) Taugalækningadeild Landspítala, 2) Læknadeild Háskóla Íslands. (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2020-05)
   MS (multiple sclerosis) er algengasti bólgusjúkdómurinn í miðtaugakerfi og ein algengasta orsök fötlunar hjá ungu og miðaldra fólki. MS er sjálfsofnæmissjúkdómur sem orsakast af flóknu samspili erfða og umhverfis. Miklar framfarir hafa orðið í greiningu og meðferð sjúkdómsins á síðustu árum og mikilvægt er að læknar séu vel upplýstir um einkenni og meðferðarmöguleika til að tryggja skjóta greiningu og viðeigandi meðferð. Í þessari grein ræðum við nýjungar í orsökum, greiningu og meðferð MS.
  • Fyrsta meðferð með tocilizumab við COVID-19 hérlendis – sjúkratilfelli

   Aron Hjalti Björnsson; Þorbjörg Ólafsdóttir; Katrín María Þormar; Már Kristjánsson; Anna Sesselja Þórisdóttir; Björn Rúnar Lúðvíksson; Sigurður Guðmundsson; Magnús Gottfreðsson; 1 Lyflækningasviði Landspítala, 2 röntgendeild, 3 svæfinga- og gjörgæsludeild, 4 smitsjúkdómadeild, 5 ónæmisfræðideild Landspítala, 6 læknadeild Háskóla Íslands. (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2020-05)
   Rúmlega fimmtugur karlmaður sem hafði verið á ferðalagi erlendis veiktist við komuna til landsins með flensulíkum einkennum og greindist með COVID-19. Nokkrum dögum síðar versnandi honum af öndunarfæraeinkennum og lagðist inn á Landspítala. Hann reyndist vera súrefnisháður og með útbreiddar íferðir í lungum. Eftir innlögn fékk hann versnandi öndunarbilun og var fluttur á gjörgæsludeild þar sem hann var meðal annars meðhöndlaður með tocilizumab (IL-6 hemill). Hann sýndi batamerki í kjölfarið og þurfti ekki að fara í öndunarvél.
  • Sjónsviðsskerðing við fyrstu hjáveituaðgerð (trabeculectomiu) vegna gláku

   Elín Björk Tryggvadóttir; Sveinn Hákon Harðarson; María Soffía Gottfreðsdóttir; 1 Augndeild háskólasjúkrahússins á Skáni, Svíþjóð, 2 Háskóla Íslands, 3 augndeild Landspítala. (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2020-04)
   INNGANGUR Gláka er hrörnunarsjúkdómur í sjóntaug augans. Eina sannreynda meðferðin við gláku byggir á að lækka augnþrýsting og hægja þannig á hraða sjónsviðsskerðingar. Þegar lyfjameðferð dugir ekki eða gláka er langt gengin er skurðaðgerð beitt. Hjáveituaðgerð er algengasta skurðaðgerðin við gláku. Tilgangur þessarar rannsóknar er að meta alvarleika sjónsviðsskerðingar þegar sjúklingum er vísað í fyrstu hjáveituaðgerð en það hefur ekki verið rannsakað áður á Íslandi. AÐFERÐIR Afturskyggn rannsókn sem nær til allra sjúklinga með gleiðhornagláku sem undirgengust fyrstu hjáveituaðgerð á Íslandi í júní 2014 til mars 2016. Upplýsingar um 86 einstaklinga fengust úr sjúkraskrám. Alvarleiki glákuskemmda var metinn með mean defect (MD) tölugildi á sjónsviðsrannsókn og sjúklingar flokkaðir í þrjá hópa eftir því. NIÐURSTÖÐUR Meðalaldur var 75 ± 11 ár, 57% karlar. Sjúklingar notuðu að meðaltali 3,0 glákulyf við tilvísun í aðgerð og 64% sjúklinganna tóku þrjú lyf eða fleiri. Meðalgildi MD var 13,4 ± 7,7dB (bil: 0,8-26,2 dB), 21% augna höfðu milda sjónsviðsskerðingu (MD<6dB), 23% miðlungsalvarlega (MD 6-12 dB) og 56% alvarlega (MD >12). ÁLYKTUN Augu sem undirgengust hjáveituaðgerð á rannsóknartímabilinu höfðu allt frá mildri til alvarlegrar sjónsviðsskerðingar. Eins og klínískar leiðbeiningar mæla með, virðist meðferð gláku einstaklingsmiðuð og helsta ábending aðgerðar versnun á sjónsviði þrátt fyrir lyfjameðferð. Meðaltal sjónsviðsskerðingar reyndist hærra í okkar rannsókn en í erlendum samanburðarrannsóknum. Augu með alvarlega sjónsviðsskerðingu höfðu að meðaltali lægsta augnþrýstinginn og þynnstu hornhimnuna. Þetta getur bent til þess að mikil áhersla sé lögð á háan augnþrýsting sem ábendingu fyrir aðgerðarþörf en ef til vill of lítil áhersla á sjónsviðsskerðingu og þunna hornhimnu.
  • Þrek, holdafar og heilsutengd lífsgæði eftir krabbameinsmeðferð

   G. Haukur Guðmundsson; Erlingur Jóhannsson; 1 Rannsóknarstofu í íþrótta- og heilsufræðum, menntavísindasviði Háskóla Íslands, 2 Ljósið – endurhæfing fyrir fólk sem hefur greinst með krabbamein, 3 Institutt for idrett, kosthold og naturfag, Høskulen på Vestlandet, Bergen, Norge. (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2020-04)
   TILGANGUR Sífellt fleiri lifa lengi eftir meðferð vegna krabbameins. Þekking á langtímaáhrifum krabbameinsmeðferðar á þrek, holdafar og heilsutengd lífsgæði fólks, er mikilvæg fyrir þennan vaxandi samfélagshóp. Tilgangur rannsóknarinnar var tvíþættur: (a) að mæla þrek, holdafar, heilsutengd lífsgæði og persónueinkenni fólks sem hefur lokið við læknismeðferð vegna krabbameina undanfarin 10 ár; og (b) að athuga hvort þrek hafi fylgni við holdafar og heilsutengd lífsgæði fólks sem hefur lokið við læknismeðferð vegna krabbameina. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Áttatíu þátttakendur (25-77 ára) af báðum kynjum, sem voru í sjúkdómshléi eða álitnir læknaðir af krabbameini, svöruðu spurningalistum um heilsutengd lífsgæði (SF-36v2 og EQ-5D-3L) og persónuleika D (DS14). Blóðþrýstingur, líkamsþyngdarstuðull (LÞS), fituprósenta, þrek metið með 6 mínútna gönguprófi (6MWT) og ummál mittis og mjaðma var mælt. Notað var SPSS til að fá lýsandi tölfræði og við útreikning á fylgnistuðlum, miðað var við 95% marktektarmörk. NIÐURSTÖÐUR Tveir af hverjum þremur þátttakendum voru með einhverja þætti holdafars yfir viðmiðunarmörkum. Rúmlega helmingur þátttakenda var yfir kjörþyngd, 66,3% voru með mittisummál yfir viðmiðunarmörkum, 45,0% voru með hlutfall milli mittis og mjaðma yfir viðmiðunarmörkum. Gengin vegalengd í 6MWT var að meðaltali 634 m +/- 83 m. Marktæk fylgni (p<0,05) mældist á milli 6MWT og holdafars, ásamt 6MWT við flesta þætti heilsutengdra lífsgæða. Aðeins 13,8% þátttakenda mældust með persónuleika D. ÁLYKTANIR Holdafar fólks sem hefur lokið við krabbameinsmeðferð er almennt yfir viðmiðunarmörkum. Þrek hefur fylgni við heilsutengd lífsgæði og holdafar fólks sem hefur lokið við krabbameinsmeðferð.
  • Árangur ADHD-lyfjameðferðar fullorðinna hjá ADHD-teymi Landspítala 2015-2017

   Sólveig Bjarnadóttir; Halldóra Ólafsdóttir; Árni Johnsen; Magnús Haraldsson; Engilbert Sigurðsson; Sigurlín Hrund Kjartansdóttir; 1 Læknadeild Háskóla Íslands, 2 geðsviði Landspítala, 3 Landspítala, 4 Heilbrigðisstofnun Austurlands. (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2020-03)
   INNGANGUR Athyglisbrestur með ofvirkni (ADHD) er algengasta taugaþroskaröskunin sem greind er hjá börnum en einkenni geta varað fram á fullorðinsár. Á Landspítala starfar þverfaglegt teymi sem sér um greiningu og meðferð ADHD hjá fullorðnum. Markmið þessarar rannsóknar er að meta árangur lyfjameðferðar sem veitt er af teyminu og áhrif fylgiraskana. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Rannsóknin var afturskyggn og náði til allra 18 ára og eldri sem komu í fyrsta viðtal til læknis hjá ADHD-teymi Landspítala 2015- 2017 og þáðu lyfjameðferð. Einstaklingar sem höfðu áður fengið meðferð hjá teyminu eða voru þegar á lyfjameðferð voru undanskildir. Upplýsingar um einkenni og líðan fyrir og eftir meðferð fengust úr spurningalistunum ADHD-hegðunarmatskvarði, DASS og QOLS. NIÐURSTÖÐUR Af 211 sjúklingum sem uppfylltu skilyrði rannsóknarinnar voru 144 (68%) sem luku meðferð hjá ADHD-teyminu á að meðaltali 143 dögum. Hvatvísi/ofvirkni reyndist forspárþáttur fyrir að falla úr meðferð með OR=0,96 (p=0,015). Marktækur munur var á öllum breytum fyrir og eftir lyfjameðferð (p<0,001). Fyrir ADHD-einkenni var hrifstærð Cohens d=3,18 fyrir athyglisbrest og 1,40 fyrir hvatvísi/ofvirkni. Hrifstærð fyrir lífsgæði var 1,00 en af DASS-undirkvörðum var hrifstærðin hæst 1,43 fyrir streitu. Fylgni var milli aukinna lífsgæða og minnkandi einkenna. Hjá einstaklingum með fleiri geðgreiningar en ADHD var meðferðarárangur marktækt meiri fyrir DASS en ekki var marktækur munur fyrir athyglisbrest, hvatvísi/ ofvirkni og lífsgæði. Ekki var marktækur munur á meðferðarárangri eftir kyni. ÁLYKTUN Einstaklingar sem ljúka meðferð í ADHD-teymi ná miklum árangri sem felst í minnkun einkenna og betri lífsgæðum. Brottfall úr meðferð er hins vegar mikið vandamál.
  • Algengi og áhættuþættir lengdrar dvalar á gjörgæsludeild eftir kransæðahjáveituaðgerð

   Erla Liu Ting Gunnarsdóttir; Sunna Lu Xi Gunnarsdóttir; Alexandra Aldís Heimisdóttir; Sunna Rún Heiðarsdóttir; Sólveig Helgadóttir; Tómas Guðbjartsson; Martin Ingi Sigurðsson; 1 Læknadeild Háskóla Íslands, 2 svæfinga- og gjörgæsludeild Akademíska sjúkrahússins í Uppsölum í Svíþjóð, 3 hjarta- og lungnaskurðdeild, 4 svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2020-03)
   INNGANGUR Til að hámarka nýtingu gjörgæslurýma er mikilvægt að þekkja algengi og áhættuþætti lengdrar dvalar á gjörgæsludeild eftir kransæðahjáveituaðgerð en slík rannsókn hefur ekki verið gerð áður hér á landi. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Rannsóknin var afturskyggn og náði til allra sjúklinga sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala á árunum 2001-2018. Skráðar voru upplýsingar um heilsufar sjúklinganna, aðgerðartengda þætti og fylgikvilla eftir aðgerðina. Sjúklingar sem lágu á gjörgæslu í eina nótt voru bornir saman við þá sem lágu þar tvær nætur eða lengur. Lifun var áætluð með aðferð Kaplan-Meiers. Forspárþættir dvalarlengdar á gjörgæslu voru fundnir með lógistískri aðhvarfsgreiningu og niðurstöðurnar notaðar til að útbúa reiknivél sem áætlar líkur á lengri gjörgæsludvöl. NIÐURSTÖÐUR Af 2177 sjúklingum þurftu 20% gjörgæsludvöl í tvær nætur eða lengur. Sjúklingar sem lágu tvær eða fleiri nætur á gjörgæslu voru oftar konur (23% á móti 16%, p=0,001). Þessir sjúklingar höfðu einnig oftar áhættuþætti kransæðasjúkdóms og fyrri sögu um aðra hjartasjúkdóma eins og hjartabilun, lokusjúkdóma og skert útstreymisbrot vinstri slegils. Auk þess var EuroSCORE II gildi þeirra hærra (4,7 á móti 1,9, p<0,001) og höfðu þeir oftar skerta nýrnastarfsemi fyrir aðgerð (30% á móti 16%, p<0,001) og þurftu frekar á bráðaaðgerð að halda (18% á móti 2%, p<0,001). Sjúklingar sem dvöldu tvær nætur eða lengur höfðu hærri tíðni skammog langtímafylgikvilla og verri langtímalifun en sjúklingar í viðmiðunarhópi (78% á móti 93% lifun 5 árum frá aðgerð, p<0,0001). Sjálfstæðir áhættuþættir lengri gjörgæsludvalar voru aldur, kyn, EuroSCORE II gildi, fyrri saga um aðra hjartasjúkdóma, skert nýrnastarfsemi og bráðaaðgerð. ÁLYKTANIR Fimmti hver sjúklingur þarf gjörgæsludvöl í tvær eða fleiri nætur eftir kransæðahjáveitu á Landspítala. Ýmsir áhættuþættir spá fyrir um lengri gjörgæsludvöl eftir kransæðahjáveitu, sérstaklega undirliggjandi ástand sjúklings, EuroSCORE II gildi og hve brátt aðgerðin fer fram. Von okkar er að bætt þekking á áhættu á lengri gjörgæsludvöl nýtist til að bæta skipulagningu kransæðahjáveituaðgerða á Landspíta.
  • Alvarleg gula hjá nýburum – nýgengi og áhættuþættir

   Ása Unnur Bergmann; Þórður Þórkelsson; 1 Læknadeild Háskóla Íslands, 2 Barnaspítali Hringsins, Landspítala (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2020-03)
   INNGANGUR Nýburagula orsakast af auknu magni gallrauða í vefjum og blóði nýbura fyrstu dagana eftir fæðingu. Yfirleitt þarf ekki að meðhöndla nýburagulu en ef styrkur gallrauða í blóði verður of mikill getur hann valdið langvarandi heilaskaða. Vegna algengis nýburagulu er mikilvægt að meta áhættuþætti alvarlegrar gulu og vægi þeirra. Í þessari rannsókn var kannað nýgengi og áhættuþættir alvarlegrar nýburagulu hjá börnum sem fengu meðferð á Landspítala á tímabilinu 1997- 2018. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Gerð var afturskyggn tilfella-viðmiðarannsókn á fullburða nýburum sem hlutu meðferð á Landspítala á árunum 1997-2018 og mældust með ≥350 µmól/L af gallrauða í blóði. Almennum upplýsingum um meðgöngu, ástand barns við fæðingu og greiningu og meðferð gulu var safnað. Alls greindust 339 börn með alvarlega gulu og fundin voru jafnmörg viðmið. NIÐURSTÖÐUR Nýgengi alvarlegrar nýburagulu hjá börnum fæddum á Landspítala eftir fulla meðgöngu var 0,52% yfir allt tímabilið. Þrjátíu og þrjú prósent barnanna greindust við hefðbundna nýburaskoðun á fimmta degi eftir fæðingu. Þekktan meiriháttar áhættuþátt var að finna hjá 16% tilfella. Algengastir voru ABO-blóðflokkamisræmi og höfuðmargúll. Aðeins eitt barn var með alvarlega gulu vegna Rh-blóðflokkamisræmis. Við fjölþáttagreiningu voru marktækir áhættuþættir styttri meðgöngulengd, mar við fæðingu, karlkyn, heimför af spítalanum innan 36 klukkustunda og þyngdartap fyrstu dagana eftir fæðingu. ÁLYKTANIR Snemmútskrift af spítala og þyngdartap fyrstu dagana eftir fæðingu voru sjálfstæðir áhættuþættir fyrir alvarlegri nýburagulu. Flest barnanna greindust við 5 daga skoðun barnalæknis. Hvort tveggja er vísbending um að hægt sé að bæta eftirlit með nýburagulu í heimahúsi. Fylgjast þarf sérstaklega vel með gulu hjá snemmfullburða börnum (meðgöngulengd 37-38 vikur). Drengir voru í aukinni áhættu á að fá alvarlega nýburagulu, sem er athyglisvert í ljósi þess að neikvæð áhrif gallrauða á lærdómsgetu virðist meiri hjá drengjum en stúlkum.
  • Áhættuþættir og sjálfsumönnun einstaklinga með kransæðasjúkdóm

   Margrét Hrönn Svavarsdóttir; Kristín Guðný Sæmundsdóttir; Brynja Ingadóttir; 1) Hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri 2)Heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins 3) Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og Landspítala (Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, 2020-03)
   Tilgangur: góð sjálfsumönnun getur dregið úr lífsstílstengdum áhættuþáttum og hægt á framgangi kransæðasjúkdóms. Tilgangur rann sóknarinnar var að kanna stöðu áhættuþátta meðal einstaklinga með kransæðasjúkdóm, sjálfsumönnun þeirra og trú á eigin getu. Aðferð: Þversniðsrannsókn þar sem þátttakendur voru einstaklingar sem lögðust inn á Landspítala eða Sjúkrahúsið á akureyri vegna kransæðasjúkdóms. gögnum um áhættuþætti, sjúkdómstengda þekkingu og bakgrunn var safnað við útskrift, með spurningalistum, mælingum og úr sjúkraskrá. Sjálfsumönnun var metin með „Self- Care of Coronary heart Disease inventory“ (SC-ChDi) mælitækinu sem metur viðhald heilbrigðis, stjórnun sjálfsumönnunar og trú á eigin getu til sjálfsumönnunar (stig 0–100 fyrir hvern þátt, fleiri stig gefa til kynna betri sjálfsumönnun). Við gagnaúrvinnslu var notuð lýsandi tölfræði og ályktunartölfræði. Niðurstöður: Þátttakendur í rannsókninni voru 445 (80% karlar), meðalaldur var 64,1 ár (sf 9,1). Tæplega helmingur hafði áður legið á sjúkrahúsi vegna kransæðasjúkdóms (45%) og 47% komu brátt á sjúkrahús. Tæplega helmingur þátttakenda var í ofþyngd, 42% með offitu, 20% með sykursýki og 18% reyktu. Einkenni kvíða höfðu 23% og einkenni þunglyndis 18% þátttakenda. Viðhald heilbrigðis mældist að meðaltali 61,6 (sf 15,4), stjórnun sjálfsumönnunar 53,5 (sf 18,5) og trú á eigin getu 52,3 (sf 22,9). Viðhald heilbrigðis mældist betra hjá konum, þeim sem bjuggu með öðrum, þeim sem höfðu áður lagst inn á sjúkrahús vegna kransæðasjúkdóms og þeim sem höfðu betri sjúkdómstengda þekkingu (r2 = 0,149, p < 0,01). Stjórnun sjálfs - umönnunar mældist betri hjá þeim sem höfðu áður lagst inn á sjúkra hús vegna kransæðasjúkdóms (r2 = 0,018, p < 0,01). Trú á eigin getu var meiri hjá þeim sem voru yngri, með minni einkenni þunglyndis og meiri sjúkdómstengda þekkingu (r2 = 0,086, p < 0,01). Ályktanir: Sjálfsumönnun kransæðasjúklinga er ábótavant og staða áhættuþátta alvarleg. Einstaklingshæfður stuðningur og fræðsla eftir útskrift gætu eflt sjálfsumönnun og trú á eigin getu og þannig stuðlað að betri stöðu áhættuþátta.
  • Streita, kulnun og bjargráð á meðal hjúkrunarfræðinga á bráðalegudeildum

   Berglind Harpa Svavarsdóttir; Elísabet Hjörleifsdóttir; 1) Dagþjónustu aldraðra, Hlymsdölum, Egilsstöðum 2) Háskólanum á Akureyri (Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, 2020-03)
   Bakgrunnur: Streita og kulnun í starfi er algeng á meðal hjúkrunarfræðinga, sérstaklega í yngri aldurshópum. Afleiðingarnar geta leitt til heilsubrests ef ekki er brugðist við vandamálinu snemma. Tilgangur: Könnun á streitueinkennum meðal íslenskra hjúkrunarfræðinga mánuðinn áður en þeir svöruðu spurningalistum um persónu-, vinnu- og skjólstæðingstengd kulnunareinkenni og bjargráð við erfiðar aðstæður. Aðferð: Lýsandi þversniðsrannsókn með notkun mælitækjanna Perceived Stress Scale (PSS), Copenhagen Burnout inventory (CBi) og Ways of Coping (WOC). rannsóknin er hluti af stærri rannsókn á tveimur íslenskum sjúkrahúsum. Tölfræðileg úrvinnsla var framkvæmd á svörum frá 164 þátttakendum. Niðurstöður: Þátttakendur yngri en 40 ára sýndu marktækt meiri streitu en þeir sem voru 40 ára eða eldri (p = 0,001). Þátttakendur sem starfað höfðu 10 ár eða skemursýndu marktækt alvarlegri streitu en þátttakendur sem starfað höfðu lengur en 10 ár (p = 0,004). Þátttakendur yngri en 40 ára sýndu marktækt verri kulnunareinkenni en þeirsem eldri voru: persónutengd (p = 0,011), starfstengd (p = 0,018), skjólstæðingstengd (p = 0,017). Marktækur munur var á mati þátttakenda eftir sviðum á því hvort mönnun væri í góðu lagi á vinnustað, á skurðlækningasviði (60%), á lyflækningasviði (40%) (p < 0,001). Marktæk neikvæð fylgni kom fram á milli streitu, aldurs og starfsaldurs, og á milli kulnunarþátta og aldurs, starfsaldurs, menntunar og mönnunar. Marktæk neikvæð fylgni var á milli þess að flýja af hólmi og aldurs, starfsaldurs og þess að sækjast eftir og nýta sér félagslegan stuðning. Marktæk neikvæð fylgni var á milli þess að flýja í huganum og starfsaldurs. Ályktanir: Niðurstöðum ber að taka með varúð vegna lítils úrtaks. Þær gefa til kynna að yngri hjúkrunarfræðingar eigi frekar á hættu að finna fyrir streitu og kulnun. Mælitækin PSS og CBi henta í rannsóknir á streitu og kulnun hjá hjúkrunarfræðingum, en þörf er á frekari endurbótum á WOC-spurningalistanum.
  • Notkun ósæðardælu við kransæðahjáveituaðgerðir

   Sunna Lu Xi Gunnarsdóttir; Erla Liu Ting Gunnarsdóttir; Alexandra Aldís Heimisdóttir; Sunna Rún Heiðarsdóttir; Sólveig Helgadóttir; Martin Ingi Sigurðsson; Tómas Guðbjartsson1; 1 Læknadeild Háskóla Íslands, 2 svæfinga- og gjörgæsludeild Akademíska sjúkrahússins í Uppsölum, Svíþjóð, 3 svæfinga- og gjörgæsludeild, 4 hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala. (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2020-02)
   INNGANGUR Ósæðardæla eykur blóðflæði um kransæðar í þanbili og auðveldar vinnu hjartans við að tæma sig í slagbili. Hún er einkum notuð við bráða hjartabilun, en í minnkandi mæli við hjartabilun eftir opnar hjartaskurðaðgerðir þar sem umdeilt er hvort notkun hennar bæti horfur sjúklinga. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna tíðni, ábendingar og árangur notkunar ósæðardælu í tengslum við kransæðahjáveituaðgerðir á Íslandi. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Rannsóknin var afturskyggn og náði til 2177 sjúklinga sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala á tímabilinu 2001-2018. Sjúklingar sem fengu ósæðardælu voru bornir saman við sjúklinga í viðmiðunarhópi með ein- og fjölþáttagreiningu. Langtímalifun og langtímafylgikvillar voru áætluð með aðferð Kaplan- Meiers. NIÐURSTÖÐUR Alls fengu 99 (4,5%) sjúklingar ósæðardælu og var tíðnin hæst árið 2006 (8,9%) en lægst 2001 (1,7%) og breyttist ekki marktækt yfir rannsóknartímabilið (p=0,90). Flestir fengu ósæðardælu fyrir (58,6%) eða í (34,3%) aðgerð, en aðeins 6,1% eftir aðgerð. Heildartíðni fylgikvilla var 14,1% og var blæðing frá ísetningarstað algengasti kvillinn (4,0%). Tíðni fylgikvilla og 30 daga dánartíðni var hærri í ósæðardæluhópi en viðmiðunarhópi (22,2% á móti 1,3%, p<0,001) og heildarlifun 5 árum eftir aðgerð reyndist síðri (56,4% á móti 91,5%, 95% ÖB: 0,47-0,67) sem og 5 ára MACCE-frí lifun (46,9% á móti 83,0%, 95% ÖB: 0,38-0,58). ÁLYKTUN Innan við 5% sjúklinga fengu ósæðardælu í tengslum við kransæðahjáveitu á Íslandi og hefur hlutfallið lítið breyst á síðastliðnum 18 árum. Tíðni fylgikvilla og 30 daga dánartíðni var hærri hjá sjúklingum sem fengu ósæðardælu og bæði langtíma- og MACCE- frí lifun þeirra umtalsvert síðri, sem sennilega skýrist af alvarlegra sjúkdómsástandi þeirra sem fengu dæluna.
  • Þroski minnstu fyrirburanna á Íslandi 1988-2012

   Olga Sigurðardóttir; Kristín Leifsdóttir; Þórður Þórkelsson; Ingibjörg Georgsdóttir; 1 Karolinska-sjúkrahúsinu Stokkhólmi, Svíþjóð, 2 Barnaspítala Hringsins Landspítala, 3 læknadeild Háskóla Íslands, 4 Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2020-02)
   INNGANGUR Vanþroski minnstu fyrirburanna (fæðingarþyngd ≤1000 g) veldur aukinni hættu á röskun í þroska miðtaugakerfis. Afleiðingarnar geta verið skertur hreyfi- og vitsmunaþroski, sjón- og heyrnarskerðing, námserfiðleikar, hegðunarvandi og einhverfurófsröskun. Markmið rannsóknarinnar voru að kanna algengi þroskafrávika og hömlunar hjá minnstu fyrirburunum á Íslandi á 25 ára tímabili og meta hvaða klínísku þættir spá fyrir um hömlun hjá þeim. EFNIVIÐUR OGAÐFERÐIR Rannsóknin var afturskyggn og náði til allra barna sem fæddust á Íslandi 1988-2012, voru ≤1000 g við fæðingu og útskrifuðust á lífi. Rannsóknarhópurinn var sóttur í Vökuskrá Barnaspítala Hringsins. Upplýsingar voru fengnar úr Vökuskrá, sjúkraskrám barnanna og mæðra þeirra ásamt gagnagrunni Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins. NIÐURSTÖÐUR Af 189 börnum voru 45 (24%) með staðfest þroskafrávik, 13 (7%) með væg frávik og 32 (17%) alvarleg frávik (hömlun) við 3-6 ára aldur. Áhættuþættir fyrir hömlun voru fjölburafæðing (ÁH 2,21; 95% ÖB: 1,19-4,09), Apgar <5 eftir eina mínútu (ÁH 2,40; 95% ÖB: 1,14-5,07), ef fæðugjöf í sondu hófst meira en fjórum dögum eftir fæðingu (ÁH 2,14; 95% ÖB: 1,11-4,11), ef fullu fæði var náð eftir meira en 21 dag (ÁH 2,15; 95% ÖB: 1,11-4,15), lungnabólga á nýburaskeiði (ÁH 3,61; 95% ÖB: 1,98-6,57) og PVL (ÁH 4,84; 95% ÖB: 2,81-8,34). ÁLYKTUN Meirihluti minnstu fyrirburanna glímir ekki við alvarleg þroskafrávik. Hlutfall barna með hömlun í þessari rannsókn er sambærilegt við niðurstöður annarra íslenskra og erlendra rannsókna en hlutfall vægari þroskafrávika í þýðinu er líklega vanmetið. Áhættuþættir hömlunar í þessari rannsókn eiga sér hliðstæðu í erlendum rannsóknum.
  • Heilkenni afturkræfs æðasamdráttar í heilaæðum – ein helsta ástæða endurtekins þrumuhöfuðverkjar

   Ólafur Sveinsson; Áskell Löve; Vilhjálmur Vilmarsson; Ingvar H. Ólafsson; 1 Taugalækningadeild, 2 röntgendeild, 3 taugaskurðdeild Landspítala. (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2020-02)
   Heilkenni afturkræfs æðasamdráttar í heilaæðum (RCVS) einkennist af skyndilegum svæsnum höfuðverk (þrumuhöfuðverk) og þrengingu heilaæða, með eða án staðbundinna taugaeinkenna. Sjúkdómurinn er þrefalt algengari meðal kvenna og meðalaldurinn er um 45 ár. Í um 60% tilfella finnst orsök, oft eftir inntöku æðavirkra efna. Þótt meingerðin sé óþekkt er almennt talið að um tímabundna vanstillingu á æðaspennu sé að ræða. Sjúkdómurinn hefur yfirleitt góðar horfur en helstu fylgikvillar eru staðbundnar innanskúmsblæðingar yfir heilaberkinum og heiladrep eða heilablæðingar sem geta haft viðvarandi fötlun í för með sér. Æðamyndataka sýnir æðaþrengingar og æðavíkkanir á víxl sem ganga til baka á næstu 12 vikum. Kalsíumhemlar á borð við nímódipín minnka tíðni svæsinna höfuðverkjakasta en ekki er víst að lyfið hafi áhrif á algengi blæðinga eða heilablóðþurrðar.
  • Fósturgreining og meðgöngusjúkdómar, undirsérgrein fæðingaog kvensjúkdómalækninga - Yfirlitsgrein

   Hildur Harðardóttir; Kvennadeild Landspítala og læknadeild Háskóla Íslands. (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2020-01)
   Læknisfræði fósturs er undirsérgrein fæðinga- og kvensjúkdómalækninga og lýtur að rannsóknum á þróun, vexti og sjúkdómum fóstra. Það má telja eðlilegt að hafa eina sérgrein fyrir þá órjúfanlegu heild sem móðir og fóstur mynda og er íslenska undirsérgreinin í samræmi við það og ber heitið fósturgreining og meðgöngusjúkdómar (FM). Stórstígar framfarir hafa átt sér stað í FM hvað varðar myndgreiningu fóstra með ómskoðun og segulómun. Einnig á sviði erfða- og sameindalæknisfræði við sjúkdómsgreiningar með kjarnsýrutækni auk þess sem aðgerðir á fóstrum eru nú mögulegar í vissum tilfellum. Í vinnu við fósturgreiningar er samstarf við fjölmarga aðra sérfræðinga mikilvægt, til dæmis nýburalækna, barnalækna í ýmsum undirsérgreinum, barnaskurðlækna, erfðalækna og lækna sem vinna á sviði myndgreiningar. Í stærri samfélögum starfa FM-læknar gjarnan sem ráðgefandi fyrir fæðingalækna og aðra sérgreinalækna auk þess að vinna við fósturskimanir, greiningar og meðferð. Hér á landi er sérhæfing styttra á veg komin. Hér eru tekin dæmi um verkefni FM-lækna og lýst hvernig tækniframfarir hafa breytt fósturskimun fyrir litningafrávikum, eftirliti og meðferð við rhesus-varnir auk aðgerða á fósturskeiði. Þá er sagt frá samstarfi norrænna FM-lækna.
  • Heilsuhagfræðilegt mat á þverfaglegri verkjameðferð á Reykjalundi - Ein króna í endurhæfingu – átta til baka

   Magnús Ólason; Héðinn Jónsson; Rúnar H. Andrason; Inga H. Jónsdóttir; Hlín Kristbergsdóttir; 1) Reykjalundi, endurhæfingarmiðstöð SÍBS, 2) Embætti landlæknis, 3) sálfræðideild Háskólans í Reykjavík. (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2020-01)
   TILGANGUR Fáar rannsóknir hafa metið langtímaárangur þverfaglegrar verkjameðferðar þó árangur til skemmri tíma sé vel þekktur. Hér er lýst árangri slíkrar meðferðar á Reykjalundi, endurhæfingarmiðstöð SÍBS, með þriggja ára eftirfylgd. Sérstaklega er fjallað um heilsuhagfræðilegan ávinning af meðferðinni. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Um kerfisbundið slembiúrtak var að ræða þar sem fimmta hver beiðni um meðferð á verkjasviði Reykjalundar var valin til þátttöku. Gagnasöfnun stóð yfir í fjögur og hálft ár og eftirfylgd lauk þremur árum síðar. Heilsuhagfræðileg úttekt var gerð að rannsókn lokinni. NIÐURSTÖÐUR Helstu niðurstöður eru þær að sjúklingar upplifa minni verki, minni ótta og hliðrun tengda vinnufærni, færri þunglyndis- og kvíðaeinkenni og upplifa meiri félagslega færni eftir meðferð. Vinnugeta hópsins í heild jókst og fór vinnufærni úr 36% í 47% eftir meðferðina og við þriggja ára eftirfylgd voru 57% vinnufærir. Heilsuhagfræðileg úttekt sýndi að meðferðin hafði borgað sig upp á þremur árum og ávinningurinn jókst út lífið. ÁLYKTANIR Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að þverfagleg endurhæfingarmeðferð gegn þrálátum verkjum skilar árangri varðandi færni, verki og sálfélagslegar afleiðingar þeirra. Heilsuhagfræðilegur ávinningur af meðferðinni er verulegur og miðað við vísitölu neysluverðs í október 2018 skilar kostnaður af meðferðinni sér áttfalt til baka til samfélagsins.