• Skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi. Yfirlitsgrein um nýgengi, dánartíðni, kostnað og árangur.

   Helgi Birgisson; Elínborg J. Ólafsdóttir; Anna Sverrisdóttir; Sigurður Einarsson; Agnes Smáradóttir; Laufey Tryggvadóttir; 1 Rannsókna- og skráningarsetur Krabbameinsfélagsins. Ristil og endaþarmsskurðdeild, Akademiska sjúkrahúsið, Uppsölum, Svíþjóð, 2 Rannsóknaog skráningarsetur Krabbameinsfélagsins, 3 Miðstöð meltingarlækninga, Læknastöðin Glæsibæ. Fagráð Embættis landlæknis um skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi árin 2018-2020, 4 Meltingarlækningadeild Landspítalans. Meltingarsetrið, 5 Krabbameinslækningadeild Landspítalans, 6 Rannsókna- og skráningarsetur Krabbameinsfélagsins. Læknadeild og Lífvísindasetur Háskóla Íslands (Læknafélag Íslands, 2021-09)
   Nýgengi krabbameina í ristli og endaþarmi hefur aukist hjá bæði konum og körlum síðustu áratugina en dánartíðni hefur heldur lækkað frá sjötta áratugnum og lifun batnað vegna betri greiningar og meðferðar. Fjöldi þeirra sem látast úr ristil- og endaþarmskrabbameini er þó meiri en úr brjósta- og leghálskrabbameinum samanlagt. Viðfangsefni greinarinnar eru nýgengi og dánartíðni krabbameina í ristli og endaþarmi hérlendis. Fjallað er um tvær algengustu skimunaraðferðirnar, leit að blóði í hægðum og ristilspeglun. Þá er lagt mat á ætlaðan kostnað og ávinninning íslensks samfélags af því að skima fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi. Líklegt er að á Íslandi geti skipulögð lýðgrunduð skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi komið í veg fyrir að minnsta kosti 6 dauðsföll af þeim 28 á ári sem verða úr sjúkdómnum meðal fólks á skimunaraldri, ef skimunaraldur verður 50-74 ára. Umframkostnaður fyrir samfélagið vegna skimunar fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi er talinn mjög ásættanlegur í ljósi þess að sparnaður verður vegna einfaldari meðferðar, lækkunar nýgengis og fækkunar dauðsfalla.
  • Einstaklingar sem nota vímuefni í æð á Íslandi: Bráðakomur og innlagnir á Landspítala og dánartíðni

   Bjarni Össurarson Rafnar; Magnús Haraldsson; Guðrún Dóra Bjarnadóttir; Geðdeild Landspítala, Læknadeild Háskóla Íslands, Háskóli Íslands, heilbrigðisvísindasvið (Læknafélag Íslands, 2021-09)
   INNGANGUR Misnotkun vímuefna er stór áhrifaþáttur í ótímabærum veikindum og dauða í heiminum. Verst settir eru þeir sem nota vímuefni í æð. Hópurinn á erfitt með að nýta sér hefðbundna heilbrigðisþjónustu og leitar frekar á bráðamóttökur spítala með sín vandamál. Þessir einstaklingar leita sér oft seint aðstoðar og eiga erfitt með að fylgja ráðleggingum, með ærnum kostnaði fyrir einstaklinginn og samfélagið. MARKMIÐ Tilgangur rannsóknar var að kanna notkun einstaklinga sem nota vímuefni í æð á bráðamóttökum og innlagnardeildum Landspítala yfir tveggja ára tímabil og rannsaka dánartíðni þeirra 7 árum eftir komuviðtal. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Rannsóknin er afturskyggn og hluti af stærri rannsókn á 108 einstaklingum með sögu um að misnota vímuefni í æð. Inntökuviðtölin voru tekin á árunum 2012-2013 þegar rannsóknarhópurinn lagðist inn til fíknimeðferðar á einhverjum af þremur stöðum: Fíknigeðdeild Landspítala (45%), Vog (30%) eða Hlaðgerðarkot (25%). Til að meta þjónustuþunga voru komur, innlagnir og innlagnardagar taldir. Fjöldi koma á bráðamóttökur Landspítala var borinn saman við parað úrtak almennings. Komuástæður á bráðamóttökur voru greindar og gerður samanburður milli þeirra sem notuðu aðallega metylfenidat og annarra. Að lokum var dánartíðni rannsóknarhópsins skoðuð 7 árum eftir inntökuviðtal. NIÐURSTÖÐUR Rannsóknarhópurinn kom marktækt oftar á bráðamóttökur Landspítala en almenningur. Meðalfjöldi koma rannsóknarhópsins á ári var 4,8 og 43% komu fjórum sinnum eða oftar á ári. Meirihluti koma var vegna geðrænna einkenna (65%) og þar af var þriðjungur vegna alvarlegra geðrænna einkenna. Algengustu líkamlegu vandamálin voru húðsýkingar og slys/ofbeldi. Ekki reyndist marktækur munur á þeim hluta hópsins sem notaði aðallega metylfenidat og önnur vímuefni. Dánartíðni var marktækt hækkuð hjá rannsóknarhópnum og áhættuhlutfall fyrir andláti var 26,4 (vikmörk 16,7-41,5). ÁLYKTUN Einstaklingar sem nota vímuefni í æð tilheyra viðkvæmum hópi með flókin geðræn og líkamleg vandamál. Mikilvægt er að þessir einstaklingar hafi greiðan aðgang að gagnreyndri fíknimeðferð en ekki síður að almennri heilbrigðisþjónustu. Þá þjónustu þarf að laga að þörfum hópsins og hafa að markmiði að draga úr skaðsemi vímuefnanotkunar þannig að viðkomandi hafi heilsu og öðlist getu og áhugahvöt til að hætta vímuefnanotkun.
  • ,,Það dundi yfir líkama og sál“ - Reynsla einstaklinga í heilsueflandi móttöku heilsugæslu af sálrænum áföllum og heilsufarsvandamálum

   Rósíka Gestsdóttir; Margrét Ólafía Tómasdóttir; Sigrún Sigurðardóttir; 1 Háskólanum á Akureyri, 2 Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, 3 læknadeild Háskóla Íslands, 4 Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu. (Læknafélag Íslands, 2021-07)
   INNGANGUR Rannsóknir sýna að einstaklingar sem hafa orðið fyrir sálrænum áföllum glíma oft við fjölþætt heilsufarsvandamál. Heilsueflandi móttaka heilsugæslu beinist að skjólstæðingum sem glíma við slík heilsufarsvandamál þar sem veitt er einstaklingsmiðuð meðferð og stuðningur. Áfallamiðuð nálgun er mikilvæg í heilbrigðisþjónustu og getur eflt lífsgæði einstaklinga eftir sálræn áföll. Tilgangur rannsóknar var að skoða reynslu einstaklinga í heilsueflandi móttöku heilsugæslu af sálrænum áföllum og heilsufarsvandamálum. AÐFERÐ Eigindleg viðtalsrannsókn þar sem stuðst var við Vancouver-skólann í fyrirbærafræði. Þátttakendur voru 5 karlmenn og 5 konur, valin í gegnum heilsueflandi móttöku heilsugæslu. Viðtöl við hvern þátttakanda voru tvö. Stuðst var við ACE-spurningalistann sem skimunartæki fyrir sálrænum áföllum í bernsku ásamt viðtalsramma rannsakenda, með opnum spurningum. NIÐURSTÖÐUR Niðurstöður voru greindar í 6 meginþemu: Upplifun af áföllum, Endurtekin áföll, Vanræksla í æsku, Líkamleg heilsufarsvandamál í æsku og á fullorðinsárum, Geðræn heilsufarsvandamál í æsku og á fullorðinsárum, Úrvinnsla og áfallamiðuð nálgun. Þátttakendur höfðu flestir orðið fyrir fjölþættum sálrænum áföllum og flóknum heilsufarsvandamálum, bæði í æsku og á fullorðinsárum. Rauði þráður rannsóknarinnar: ,,Það dundi yfir líkama og sál“ endurspeglar reynslu þátttakenda af áföllum og heilsufarsvandamálum. ÁLYKTANIR Mikilvægt er að heilbrigðisstarfsfólk taki mið af sálrænum áföllum þegar hugað er að heilsufarsvandamálum skjólstæðinga, geti veitt stuðning og viðeigandi aðstoð. Heilsugæslan er oftast fyrsti viðkomustaður skjólstæðinga í heilbrigðiskerfinu og því mikilvægt að þar sé innleidd áfallamiðuð nálgun. Innan heilsueflandi móttöku heilsugæslu er mikilvægt að kortleggja heilsufarsvandamál í tengslum við sálræn áföll og þar er tækifæri til að efla áfallamiðaða nálgun.
  • Sjúkraskrármál á Landspítala: staða og framtíðarsýn

   Klara Katrín Friðriksdóttir; Jóhanna Gunnlaugsdóttir; Ragna Kemp Haraldsdóttir; 1) Sjúkraskrár- og skjaladeild Landspítala, 2) Félagsvísindasviði Háskóla Íslands (Læknafélag Íslands, 2021-07)
   INNGANGUR Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvernig staðið væri að sjúkraskrármálum á Landspítala og skoða stefnumótun varðandi þessi mál meðal stjórnenda og starfsfólks. Rannsókn sem þessi hefur ekki áður verið gerð. Hún leggur til nýja þekkingu varðandi kerfisbundna skjalastjórn sjúkraskráa og fræðilegt gildi hennar felst í að kanna hvernig staðið er að viðkvæmum málaflokki út frá lagalegum sjónarmiðum og upplýsingaöryggi. Hagnýtt gildi rannsóknarinnar felst í því að hægt er að nýta niðurstöðurnar sem stöðumat á yfirstandandi verkefnum og áætlunum innan Landspítala. EFNIVIÐUR Beitt var eigindlegri aðferðafræði við gagnaöflun og greiningu og stuðst við margprófun og grundaða kenningu. Fyrirliggjandi rituð gögn voru skoðuð, viðtöl tekin, þátttökuathuganir framkvæmdar og loks var rýnihópur settur saman. Þó að ekki sé hægt að alhæfa um niðurstöðurnar gefa þær mikilvægar vísbendingar um ástand mála, ekki síst þar sem mettun virtist hafa náðst og ekki líklegt að viðbótargagnasöfnun hefði bætt við nýjum upplýsingum. NIÐURSTÖÐUR Rannsóknarniðurstöður sýna að unnið hefur verið ötullega að mótun og innleiðingu á upplýsingastefnu og aðgengisstefnu í samræmi við lög, reglur og alþjóðlega staðla og ljóst er að stjórnendur hafa sett sér háleit markmið. Þá hefur alþjóðleg vottun fengist innan heilbrigðis- og upplýsingatæknideildar varðandi upplýsingaöryggi. ÁLYKTUN Meginvandinn virðist vera tvíþættur: Í fyrsta lagi þyrfti yfirstjórn málaflokksins innan spítalans að vera skýrari og í öðru lagi hefur ekki tekist að afla nauðsynlegs fjár þannig að hægt sé að framfylgja markmiðum á árangursríkan hátt. Í ljós kom að skerpa þarf á stuðningi stjórnenda, bæta fræðslumálin til muna og efla öryggisvitund og ábyrgð starfsfólks í tengslum við sjúkraskrár.
  • Óráð og hiti: sjaldgæf en hættuleg orsök - Sjúkratilfelli

   Jón Magnús Jóhannesson; Hrönn Harðardóttir; Bjarni Guðmundsson; Gunnar Guðmundsson; 1) Lyflækninga- og endurhæfingarþjónusta, 2) lungnadeild, 3) taugadeild Landspítala, 4) læknadeild Háskóla Íslands. (Læknafélag Íslands, 2021-07)
   Sótthiti með óráði er algengt vandamál á bráðamóttökum og legudeildum sjúkrahúsa. Mismunagreiningar eru fjöldamargar og við uppvinnslu þessara sjúklinga er mikilvægt að hafa þær allar í huga. Sýkingar eru ofarlega á lista vegna bráð- og alvarleika en aðrar mismunagreiningar geta einnig verið hættulegar heilsu og þarfnast skjótrar greiningar og meðferðar. Hér er rakin sjúkrasaga 58 ára gamals manns sem kom á bráðamóttöku með hækkaðan líkamshita og óráð. Vönduð sögutaka og skoðun ásamt hnitmiðuðum rannsóknum gaf sjúkdómsgreiningu sem leiddi til viðeigandi meðferðar.
  • Langtímaárangur viðgerða vegna hrörnunartengds míturlokuleka á Íslandi

   Árni Steinn Steinþórsson; Árni Johnsen; Martin Ingi Sigurðsson; Sigurður Ragnarsson; Tómas Guðbjartsson; 1 Læknadeild Háskóla Íslands, 2 svæfinga- og gjörgæsludeild, 3 hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 4 hjarta- og lungnaskurðdeild háskólasjúkrahússins í Lundi, Svíþjóð. (Læknafélag Íslands, 2021-06)
   INNGANGUR Hrörnunartengdur míturlokuleki er helsta ábendingin fyrir míturlokuviðgerð á Vesturlöndum. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna langtímalifun og fylgikvilla míturlokuviðgerða vegna hrörnunartengds leka á Íslandi. EFNI OG AÐFERÐIR Rannsóknin var afturskyggn og náði til 101 sjúklings (meðalaldur 57,7 ár, 80,2% karlar) sem gengust undir míturlokuviðgerð vegna hrörnunartengds leka á Landspítala 2004-2018. Skráðar voru ábendingar fyrir aðgerð, niðurstöður hjartaómunar fyrir aðgerð og aðgerðartengdir þættir. Snemmkomnir (<30 daga) og síðkomnir fylgikvillar voru skráðir og reiknuð 30 daga dánartíðni. Langtímalifun og MACCE (major adverse cardiac and cerebrovascular event) frí lifun var áætluð með aðferð Kaplan-Meier og borin saman við almennt þýði af sama kyni og aldri. Miðgildi eftirfylgdartíma var 83 mánuðir. NIÐURSTÖÐUR Að meðaltali voru gerðar 6,7 (bil 1-14) míturlokuviðgerðir árlega og fengu 99% sjúklinga gervihring. Brottnám á aftara blaði var framkvæmt í 82,2% tilfella og Gore-Tex® gervistög notuð hjá 64,4% sjúklinga. Alvarlegir fylgikvillar greindust hjá 28,7% sjúklinga, algengastir voru hjartadrep tengt aðgerð (11,9%) og enduraðgerð vegna blæðingar (8,9%). Þrjátíu daga dánarhlutfall var 2%, miðgildi dvalar á gjörgæslu einn dagur og heildarlegutími 8 dagar. Einn sjúklingur þurfti enduraðgerð síðar vegna endurtekins míturlokuleka. Fimm ára lifun eftir aðgerð var 93,5% (95%-ÖB: 88,6-98,7) og 10 ára lifun 85,3% (95%-ÖB: 76,6- 94,9). Fimm ára MACCE-frí lifun var 91,1% (95%-ÖB: 85,3-97,2) og eftir 10 ár 81,0% (95%-ÖB: 71,6-91,6). Ekki reyndist marktækur munur á heildarlifun rannsóknarhópsins samanborið við samanburðarþýðið (p=0,135, log-rank próf). ÁLYKTUN Árangur míturlokuviðgerða vegna hrörnunartengds leka er sambærilegur við árangur á stærri hjartaskurðdeildum erlendis. Almennt farnast þessum sjúklingum ágætlega til lengri tíma þrátt fyrir að snemmkomnir fylgikvillar séu tíðir
  • Fertug kona með hósta og brjóstverk - Tilfelli mánaðarins

   Haukur Kristjánsson; Jón Gunnlaugur Jónasson; Per Martin Silverborn; Sigríður Ólína Haraldsdóttir; Tómas Guðbjartsson; 1 Landspítali, 2 meinafræðideild Landspítala, 3 læknadeild Háskóla Íslands, 4 hjartaog lungnaskurðdeild Sahlgrenska háskólasjúkrahússins, Gautaborg, Svíþjóð, 5 lungnadeild Landspítala, 6 hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala. (Læknafélag Íslands, 2021-06)
  • Fjölþætt svæðisbundið verkjaheilkenni - Yfirlitsgrein

   Kristján G. Guðmundsson; Reykjalundur (Læknafélag Íslands, 2021-06)
   Verkjaheilkennið er oftast í útlim með miklum hamlandi verkjum og breyttri skynjun, oft með snertiviðkvæmni (allodyniu). Þroti er oft samfara, ásamt litabreytingum á húð, breyttri svitamyndun og skertri hreyfigetu. Einkennin eru raunar fjölþætt og mismunandi. Verkirnir eru oftast til komnir eftir áverka og eru langt umfram upphaflega áverkann. Sjúkdómurinn er fátíður, og taldist nýgengi hans vera um 5,5 á 100.000 íbúa í erlendri rannsókn. Nýgengi sjúkdómsins hér á landi í gagnagrunnum Embættis landlæknis reyndist vera 1,3 á hverja 100.000 íbúa á ári sem vekur grun um að sjúkdómurinn gæti verið vangreindur. Orsök sjúkdómsins er óþekkt. Talið er að um sé að ræða bólgusvörun eftir áverka sem leiðir til sjálfsofnæmisviðbragða. Þá er einnig rætt um verkjanæmingu í taugakerfinu. Bæði er um að ræða breytingar í úttaugakerfi og í miðtaugakerfi, meðal annars með tilfærslu á virkni svæða í heilaberki sem hafa að gera með sársaukaviðbrögð. Við greiningu er stuðst við skilmerki alþjóðafélagsins um verkjarannsóknir. Þverfagleg teymisvinna er talin vera markvissasta meðferðin þar sem unnið er eftir sálfélagslíkamlega módelinu. Einn þáttur í meðferð langt gengins sjúkdóms er speglameðferð. Lyfjameðferð sjúkdómsins er svipuð og við taugaverkjum. Vegna bólguviðbragða er hægt að nota bólgueyðandi lyf eða stera. Einnig er ábending á bisfosfonöt, einkum ef um beinþynningu er að ræða. NMDA-antagonistar eins og ketamín hafa einnig verið notaðir. Þá hefur raförvun bakhorns mænu með rafstreng virst gera gagn. Oftast gengur sjúkdómurinn yfir á nokkrum misserum, en í hluta tilfella er hann þrálátur og hamlandi, jafnvel árum og áratugum saman.
  • Algengi og nýgengi sykursýki 2 á Íslandi frá 2005 til 2018

   Bolli Þórsson; Elías Freyr Guðmundsson; Gunnar Sigurðsson; Thor Aspelund; Vilmundur Guðnason; 1 Icelandic Heart Association, 2 Landspitali- The National University Hospital of Iceland, 3 University of Iceland (Læknafélag Íslands, 2021-05)
   INNGANGUR Fjöldi fólks með sykursýki 2 hefur vaxið undanfarna áratugi á Íslandi. Í þessari rannsókn var notaður Lyfjagagnagrunnur Embættis landlæknis til að meta algengi og nýgengi sykursýki 2 og sett fram spá um algengi sykursýki 2 eftir 10 og 20 ár. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Algengi og nýgengi sykursýki á tímabilinu 2005-2018 var metið út frá ávísunum sykursýkilyfja samkvæmt skráningum í Lyfjagagnagrunni og borið saman við niðurstöður Áhættuþáttakönnunar Hjartaverndar frá 2004-2011 og birtar tölur frá Bandaríkjunum frá 1980-2016. NIÐURSTÖÐUR Algengi sykursýki 2 meira en tvöfaldaðist í nær öllum aldurshópum hjá bæði körlum og konum á tímabilinu (18-79 ára). Nýgengi jókst um 2,8% á ári (18-79 ára). Fólk með sykursýki 2 á Íslandi var 10.600 manns árið 2018 og hafði fjölgað úr um 4200 manns árið 2005. Gögn úr Lyfjagagnagrunni samanborið við Áhættuþáttakönnun Hjartaverndar sýna undirmat á nýgengi sykursýki (29% hjá körlum og konum). Haldi fólki með sykursýki á Íslandi áfram að fjölga með svipuðum hraða og varð á árabilinu frá 2005 til 2018 gæti fjöldinn verið kominn í tæp 24.000 manns árið 2040. ÁLYKTUN Línuleg aukning varð á algengi og nýgengi sykursýki 2 á Íslandi á árunum 2005-2018. Svipuð þróun sást í Bandaríkjunum frá 1984. Til að sporna gegn því að fjölgunin hér á landi fari inn á svipaða braut þarf að grípa til víðtækra og markvissra aðgerða.
  • Áhrif lyfsins fampridíns á skerta göngugetu sjúklinga með MS (Multiple Sclerosis)

   Björg Guðjónsdóttir; Haukur Hjaltason; Guðbjörg Þóra Andrésdóttir; 1 Námsbraut í sjúkraþjálfun, heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands, 2 læknadeild Háskóla Íslands, 3 taugadeild Landspítala. (Læknafélag Íslands, 2021-04)
   INNGANGUR Fampridín er lyf sem virkar sem kalíumgangaloki og er ætlað sjúklingum með skerta göngugetu vegna MS (Multiple Sclerosis). Með því að loka á kalíumgöng dregur lyfið úr jónaleka, sem seinkar endurskautun og hvetur þannig myndun hrifspennu í afmýluðum taugasímum. Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á góð áhrif fampridíns á skerta göngugetu fólks með MS. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða áhrif lyfsins á göngugetu íslenskra sjúklinga með MS og athuga hve margir þeirra halda lyfjameðferð áfram eftir tveggja vikna reynslulyfjatímabil. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Þátttakendur voru 41 sjúklingur með MS sem reyndu fampridín á fyrstu 16 mánuðum notkunar þess á Íslandi. Unnið var úr sjúkraskrárgögnum Landspítala. Árangur var metinn með mælingum á gönguhraða (timed 25-foot walk, T25FW) og göngugetu (12-item multiple sclerosis walking scale, MSWS-12). NIÐURSTÖÐUR Niðurstöður sýndu að marktækur munur var á gönguhraða á T25FWgönguprófinu fyrir og undir lok reynslulyfjameðferðar (p<0,0001). Meðaltalsaukning gönguhraða var 22%. Einnig reyndist marktækur munur á stigagjöf á MSWS-12-göngumatsprófinu fyrir og undir lok reynslulyfjameðferðar (p<0,0001). Lækkun stigafjölda á MSWS-12 gönguprófinu var að meðaltali 11,4 stig. Átján sjúklingar (43,9%) héldu lyfjameðferð áfram eftir að reynslulyfjameðferð lauk. ÁLYKTUN Lyfið fampridín getur bætt skerta göngugetu hjá hluta sjúklinga með MS og getur verið mikilvæg viðbót í einkennameðferð þeirra.
  • Skyndileg meðvitundarskerðing vegna lokunar á æð Percherons. Sjúkratilfelli

   Brynhildur Thors; Ólafur Sveinsson; 1 Taugalækningadeild Landspítala, 2 læknadeild Háskóla Íslands. (Læknafélag Íslands, 2021-04)
   Brátt heilaslag á grunni lokunar á Percheron-slagæð til miðheila og stúku er sjaldgæf og snúin greining vegna ósértækra klínískra einkenna. Skjót greining og meðferð er afar mikilvæg þar sem um er að ræða brátt og alvarlegt ástand. Hér er kynnt tilfelli ungrar konu sem fékk skyndilegan höfuðverk og skerta meðvitund. Sjáöldur voru misvíð og brugðust illa við ljósáreiti og iljaviðbrögð voru jákvæð beggja megin. Fram komu flogalíkar hreyfingar í öllum útlimum. Tölvusneiðmynd af heila og heilaæðum var eðlileg en bráð segulómun sýndi byrjandi drep í stúku beggja megin. Á grunni einkenna og segulómunar fékk sjúklingur segaleysandi meðferð í æð 70 mínútum eftir komu á bráðamóttöku og náði sér að fullu.
  • D-vítamínbúskapur fyrir og eftir efnaskiptaaðgerðir á Landspítala

   Berglind Lilja Guðlaugsdóttir; Svava Engilbertsdóttir; Leifur Franzson; Hjörtur Gíslason; Ingibjörg Gunnarsdóttir; 1 Rannsóknastofu í næringarfræði við Háskóla Íslands, 2 næringarstofu Landspítala, 3 erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala, 4 lyfjafræðideild Háskóla Íslands, 5 skurðlækningakjarna Landspítala, 6 matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands (Læknafélag Íslands, 2021-03)
   TILGANGUR Langtímaárangur efnaskiptaaðgerða hjá einstaklingum með offitu er almennt góður, með tilliti til þyngdartaps, fylgisjúkdóma offitu og lífsgæða. Hins vegar geta aðgerðirnar aukið líkur á næringarefnaskorti. Markmið rannsóknarinnar var að kanna D-vítamínbúskap einstaklinga fyrir og eftir efnaskiptaaðgerðir á Landspítala. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Upplýsingar um mælingar á S-25(OH)D og kalkkirtilshormóni (PTH) voru fengnar úr sjúkraskrám þeirra sem fóru í efnaskiptaaðgerð á Landspítala á árunum 2001-2018 (n=539). Vegna breytinga á mæliaðferð á rannsóknartímabilinu var ófullnægjandi D-vítamínstaða skilgreind sem styrkur 25hydroxyvitamin D (25(OH)D) <45 nmól/L á árunum 2001-2012, en <50 nmól/L 2013-2018. D-vítamínskortur var skilgreindur sem 25(OH)D <30 nmól/L fyrir bæði tímabilin. Sjúklingar fá ráðleggingar um töku fæðubótarefna við útskrift og við endurkomur á móttöku efnaskiptaaðgerða á Landspítala. NIÐURSTÖÐUR Meðalstyrkur 25(OH)D fyrir aðgerð var 51 nmól/L (SF 30 nmól/L) og reyndust 278 (52%) vera með ófullnægjandi D-vítamínstöðu, þar af fjórðungur með D-vítamínskort. Styrkur 25(OH)D hækkaði eftir aðgerð hjá meirihluta einstaklinga (85%). Um þriðjungur einstaklinga sem mældist með ófullnægjandi D-vítamínstöðu fyrir aðgerð mældist einnig undir viðmiðum allt að 18 mánuðum eftir aðgerð. Þegar borin eru saman tímabilin 2001-2012 annars vegar og 2013-2018 hins vegar sést að ófullnægjandi D-vítamínstaða var óalgengari á síðara tímabilinu, en þó enn til staðar í um það bil 25% tilvika fyrir aðgerð og 8,5% 18 mánuðum eftir aðgerð. ÁLYKTUN Nokkuð algengt er að D-vítamínstaða einstaklinga á leið í efnaskiptaaðgerð sé ófullnægjandi, en styrkur 25(OH)D hækkar eftir aðgerð hjá meirihluta þeirra í kjölfar ráðlegginga um töku bætiefna. Niðurstöðurnar benda til þess að ástæða sé til að leggja aukna áherslu á leiðréttingu D-vítamínskorts fyrir efnaskiptaaðgerðir.
  • Heysjúkdómar á Íslandi II. Sjúkdómavaldar í heyi og rannsóknir á Íslandi

   Davíð Gíslason; Tryggvi Ásmundsson; Þórarinn Gíslason; 1 Lyfjadeild Landspítala, 2 læknadeild Háskóla Íslands (Læknafélag Íslands, 2021-03)
   Sjúkdómar tengdir vinnu í heyryki hafa lengi verið þekktir á Íslandi. Árið 1981 hófust rannsóknir á heysjúkdómum að beiðni bændasamtakanna og eru helstu niðurstöður þeirra dregnar saman í þessari grein. Í ljós kom að mikið magn af heymítlum, myglu og hitakærum geislagerlum (micropolyspora faeni) fannst í heyinu, auk ofnæmisvaka frá músum og frjókornum. Einkenni af heyryki voru oftast frá nefi og augum hjá þeim sem voru jákvæðir á húðprófum, en hósti, mæði og hitaköst voru álíka algeng hjá þeim sem voru neikvæðir á húðprófum. Algengustu ofnæmisvaldar meðal bændafjölskyldna voru heymítlar og nautgripir, en ofnæmi fyrir köttum, hundum og grasfrjóum var sjaldgæfara í sveitunum en á Reykjavíkursvæðinu. Þegar borin voru saman áhrif þess að vinna í miklu heyryki og litlu voru jákvæð fellipróf fyrir micropolyspora faeni, hitaköst eftir vinnu og lungnateppa algengari meðal þeirra sem unnu í miklu heyryki. Sýnt hefur verið fram á að íslenskir bændur fá oftar lungnaþembu en aðrir Íslendingar og er það óháð reykingum. Nánast engir mítlar fundust við umfangsmikla rannsókn á heimilum á Reykjavíkursvæðinu. Eigi að síður sýndi rannsókn að sértæk IgE-mótefni fyrir rykmítlum voru jafn algeng þar og í Uppsölum í Svíþjóð þar sem rykmítlar fundust á 16% heimila. Þegar nánar var að gætt höfðu 57% þeirra sem þátt tóku í rannsókninni haft meiri eða minni snertingu við heyryk, ýmist alist upp í sveit, verið send í sveit sem börn eða sinnt um hesta. Höfum við fært rök fyrir því að krossnæmi við heymítla geti átt þátt í nokkuð algengu næmi fyrir rykmítlum. Nýleg rannsókn á miðaldra einstaklingum hefur leitt í ljós að næmi fyrir heymítlum er heldur algengara á Reykjavíkursvæðinu en í Árósum, Bergen og Uppsölum, sem vafalítið skýrist af því hve algengt er að þeir séu eða hafi verið í snertingu við heyryk.
  • Viðhorf foreldra til heimavitjana í ung- og smábarnavernd: Lýsandi þversniðsrannsókn

   Jórunn Edda Hafsteinsdóttir; Sesselja Guðmundsdóttir; Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir; Sigríður Sía Jónsdóttir; 1) 3) Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins 2) Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu 4) framhaldsnámsdeild Heilbrigðisvísindasviðs Háskólans á Akureyri (Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, 2021-03)
   Tilgangur: Heimavitjanir hjúkrunarfræðinga í ung- og smábarnavernd miða að því að veita foreldrum aðstoð og ráðgjöf eftir fæðingu barns, á tíma sem oft er viðkvæmur foreldrunum. Tilgangur rannsóknarinnar var að varpa ljósi á viðhorf foreldra til heimavitjana hjúkrunarfræðinga á vegum ung- og smábarnaverndar heilsugæslustöðva og meta hvort munur væri á viðhorfum foreldra með fyrsta barn og þeirra sem höfðu eignast barn áður. Aðferð: Lýsandi þversniðsrannsókn. Úrtakið voru foreldrar sem komu með börn í sex og níu vikna skoðun á heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu í upphafi árs 2020. Foreldrar sem samþykktu þátttöku fengu sendan rafrænan spurningalista með 27 opnum og lokuðum spurningum, 19 spurningum um heimavitjanir og átta spurningum um bakgrunn þátttakenda. Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu komu 390 börn í sex eða níu vikna skoðun. Foreldrar 136 barna (35%) svöruðu öllum spurningunum. Af þeim voru 93% konur og rétt tæpur helmingur var að eignast sitt fyrsta barn (49%). Flestir foreldrarnir (92%) voru ánægðir með heimavitjanir hjúkrunarfræðinga í ung- og smábarnavernd og kunnu að meta ráðgjöf, aðstoð og stuðning sem hjúkrunarfræðingar veittu þeim. Flestum fannst heimavitjanirnar hæfilega margar (84%) og hæfilega langar (96%). Lítill hluti foreldra (8,1%) var óánægður með heimavitjanir hjúkrunarfræðinga. Foreldrar með fyrsta barn voru marktækt óánægðari með aðstoð og ráðgjöf sem þeir fengu í heimavitjunum en foreldar sem höfðu eignast barn áður. Ekki var marktækur munur á viðhorfum foreldra með fyrsta barn og þeirra sem höfðu eignast barn áður varðandi tíðni eða lengd heimavitjana. Ályktanir: Niðurstöðurnar benda sterklega til þess að heimavitjanir hjúkrunarfræðinga í ung- og smábarnavernd séu mikilvægur þáttur í þjónustu við nýbakaða foreldra. Meirihluti þátttakenda var ánægður með heimavitjanir hjúkrunarfræðinga, fjölda þeirra og lengd en alltaf má gera betur. Huga þarf sérstakalega að þörfum foreldra með fyrsta barn þar sem þeir voru marktækt óánægðari með aðstoð og ráðgjöf sem þeir fengu en foreldrar sem höfðu eignast barn áður. Lykilorð: hjúkrunarfræðingar, heimavitjun, ung- og smábarnavernd, foreldrar, heilsugæsla.
  • Reynsluheimur kvenna í íslensku fangelsi og reynsla þeirra af meðferðarúrræðum innan og utan fangelsis

   Arndís Vilhjálmsdóttir; Sigríður Halldórsdóttir; Sigrún Sigurðardóttir; 1) Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins 2)3) Háskólinn á Akureyri (Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, 2021-03)
   Tilgangur: Konur sem hafa afplánað refsidóma hafa flestar, ef ekki nær allar, einhverja áfallasögu að baki. Þær glíma við flókinn vanda sem einkennist af vímuefnanotkun og afleiðingum hennar. Lítið er vitað um reynsluheim þeirra í íslenskum fangelsum og af meðferðarúrræðum innan og utan fangelsis. Tilgangur rannsóknarinnar er að auka þekkingu og dýpka skilning á þeirri reynslu þeirra. Aðferð: Í þessari fyrirbærafræðilegu rannsókn tóku þátt níu konur á aldrinum 20–45 ára. Þær áttu allar við vímuefnavanda að stríða og höfðu allar leitað sér meðferðar við honum. Tekin voru tvö viðtöl við allar nema tvær, samtals 16 viðtöl. Niðurstöður: Konurnar höfðu allar leitað sér aðstoðar vegna vímuefnavanda fyrir afplánun. Þær höfðu leitað í flest meðferðarúrræði sem í boði voru hér á landi, og höfðu einnig leitað sér vímuefnameðferðar erlendis. Flestar konurnar notuðu vímuefni um æð og glímdu við heilsufarsvanda því tengdan. Konurnar höfðu flestar orðið fyrir einhvers konar áföllum í æsku eða á fullorðinsárum. Var vímuefnaneyslan einhvers konar bjargráð til að flýja eða lifa af erfiðar aðstæður. Vímuefnaneyslunni fylgdi síðan mikil vanlíðan, depurð og kvíði. Meirihluti þeirra voru mæður og höfðu misst börn sín frá sér vegna vímuefnanotkunarinnar. Konurnar óskuðu þess flestallar að unnið væri úr áföllum þeirra meðan vímuefnameðferðin færi fram þar sem þær töldu vímuefnaneyslu sína vera nátengda þeim áföllum sem þær höfðu orðið fyrir. Þeim fannst mikilvægt að virkara meðferðarstarf væri í fangelsum og kvörtuðu undan iðjuleysi sem þeim fannst ekki einungis erfitt heldur einnig auka vanlíðan þeirra og fíkn í vímuefni. Ályktanir: Rannsókn þessi sýnir að mikilvægt er að nýta viturlegar en nú er gert þann tíma sem konur afplána refsidóm, t.d. með því að veita meðferð við vímuefnavanda og við þeim áföllum sem þær hafa orðið fyrir sem börn, unglingar og fullorðnar konur.
  • Hent í djúpu laugina - Áskoranir í starfi nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga, líðan þeirra og bjargráð

   Guðríður Ester Geirsdóttir; Telma Kjaran; Kristín Anna Jónsdóttir; Kristín Norðkvist Ragnarsdóttir; Hafdís Skúladótti; 1) Heilbrigðisstofnun Suðurlands 2) Landspítala 3) Heimahjúkrun Reykjavíkur og Rjóðri Landspítala 4) Heilbrigðisstofnun Vesturlands 5) Háskólanum á Akureyri (Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, 2021-03)
   Markmið: Nýútskrifaðir hjúkrunarfræðingar mæta ýmsum áskorunum þegar þeir hefja starfsferil sinn. Hjúkrunarstarfið krefst mikillar þekkingar, færni og öryggis sem þróast samhliða aukinnireynslu í starfi. Námið, eitt og sér, virðist ekki alltaf duga til að undirbúa hjúkrunarfræðinga fyrir allt sem starfið felur í sér og oftar en ekki finnst nýútskrifuðum hjúkrunarfræðingum að þeim sé hent út í djúpu laugina þegar þeir hefja störf. Markmið þessarar rannsóknar var að öðlast innsýn í hvaða áskoranir mæta nýútskrifuðum hjúkrunarfræðingum fyrsta árið í starfi, hversu tilbúnir þeir telja sig vera til að takast á við þær og hvaða bjargráð þeir nýta sér til að vinna úr þessum áskorunum til að stuðla að góðri líðan í starfi. Með því að átta sig á þeim áskorunum sem nýútskrifaðir hjúkrunarfræðingar mæta daglega í störfum sínum er hægt að styðja við þá í starfi og stuðla þar með að aukinni starfsánægju og sporna gegn kulnun í starfi og brottfalli úr stéttinni. Aðferð: Stuðst var við eigindlega rannsóknaraðferð þar sem sett voru þau skilyrði að þátttakendur hefðu brautskráðst frá hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri á árunum 2013–2017. Einnig voru sett þau skilyrði að þátttakendur væru starfandi á legudeildum sjúkrahúsa og hefðu unnið samfellt á sama vinnustað í a.m.k. þrjá mánuði. Niðurstöður: Niðurstöður sýndu að hjúkrunarfræðinámið undirbjó þátttakendur vel fyrir hjúkrunarstarfið og þær áskoranir sem mættu þeim þegar þeir hófu störf sem hjúkrunarfræðingar og töldu þeir að einstaklingsmiðuð aðlögun væri lykilatriði. Allir þátttakendur voru sammála um nauðsyn þess að tileinka sér jákvæð bjargráð í starfi og stuðla þannig að aukinni starfsánægju. Jákvætt viðhorf til starfsins var einkennandi meðal viðmælenda en samkvæmt þeim er það einn af þeim mikilvægu þáttum sem geta dregið úr líkum á kulnun ásamt brottfalli úr faginu. Ályktanir: Þrátt fyrir að hjúkrunarfræðingar nýti sér jákvæð bjargráð og séu meðvitaðir um streitutengda þætti starfsins er ekki síður mikilvægt að þeir njóti stuðnings vinnufélaga og stjórnunin sé góð. Lykilorð: Hjúkrunarfræðingur, nýútskrifaður, áskoranir og bjargráð, innihaldsgreining
  • Tengsl þrálátra líkamlegra einkenna við þunglyndi og kvíða hjá þeim sem leituðu til heilsugæslu

   Sigrún Ólafsdóttir Flóvenz; Elín Broddadóttir; Sturla Brynjólfsson; Agnes Sigríður Agnarsdóttir; Paul M. Salkovskis; Jón Friðrik Sigurðsson; 1 Sálfræðideild Háskólans í Reykjavík, 2Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, 3 sálfræðideild háskólans í Oxford, 4 læknadeildHáskóla Íslands. (Læknafélag Íslands, 2021-02)
   INNGANGUR Þrálát líkamleg einkenni sem ekki eiga sér þekktar líkamlegar orsakir geta skert færni til að sinna athöfnum daglegs lífs. Markmið rannsóknarinnar var að meta algengi slíkra einkenna meðal fólks sem sækir heilsugæsluþjónustu á höfuðborgarsvæðinu, tengsl þeirra við færniskerðingu og einkenni þunglyndis, almenns kvíða og heilsukvíða, og meta hlutfall sjúklinga sem líklega hafi gagn af sálfræðimeðferð við þrálátum líkamlegum einkennum. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Spurningalistar sem meta þrálát líkamleg einkenni, færniskerðingu og einkenni þunglyndis, almenns kvíða og heilsukvíða voru lagðir fyrir 106 þátttakendur á tveimur heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu. NIÐURSTÖÐUR Tuttugu og níu (27,4%) þátttakendur reyndust vera með þrálát líkamleg einkenni og voru sterk tengsl á milli þeirra og einkenna geðraskana. Þátttakendur með þrálát líkamleg einkenni voru 8 sinnum líklegri til að vera með einkenni þunglyndis og almenns kvíða en þátttakendur án þeirra, fjórum sinnum líklegri til að vera með einkenni heilsukvíða og 13 sinnum líklegri til að vera með færniskerðingu yfir klínískum viðmiðunarmörkum. Rúmlega helmingur þátttakenda með þrálát líkamleg einkenni voru með tvær eða fleiri gerðir einkenna en þreyta og vöðvavandamál var algengasta gerðin. 65% þátttakenda greindu frá þrálátum líkamlegum einkennum og sálrænum einkennum yfir klínískum viðmiðunarmörkum. ÁLYKTUN Algengi þrálátra líkamlegra einkenna meðal notenda heilsugæsluþjónustu á höfuðborgarsvæðinu samræmist niðurstöðum erlendra rannsókna. Sama má segja um tengsl þeirra við einkenni þunglyndis og kvíða. Líklegt er að tveir þriðju heilsugæslusjúklinga með slík einkenni myndu njóta góðs af sálfræðilegri meðferð. Hugræn atferlismeðferð við þrálátum líkamlegum einkennum gæti gert þessum hópi gagn en í slíkri meðferð er unnið sérstaklega með samspil sálrænna og líkamlegra einkenna
  • Eldri heimildir um heyöflun og heysjúkdóma á Íslandi

   Davíð Gíslason1; Einar G. Pétursson; Tryggvi Ásmundsson; 1 Lyfjadeild Landspítala, 2 læknadeild Háskóla Íslands, 3 Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, (Læknafélag Íslands, 2021-02)
   Heysjúkdómar hafa vafalaust fylgt búskaparháttum Íslendinga alveg frá landnámi í lok 9. aldar. Þó hafa aðstæður til heyöflunar verið betri á fyrstu öldum eftir landnám en seinna varð, þegar veðurfar kólnaði og landgæði versnuðu. Greinin fjallar um það sem skrifað hefur verið um heysjúkdóma á Íslandi frá byrjun 17. aldar og fram á miðja 20. öldina.
  • Heilkenni skammvinns höfuðverkjar með brottfallseinkennum og eitilfrumuhækkun í mænuvökva · Tvö sjúkratilfelli og yfirlit ·

   Helgi Kristjánsson; Ólafur Árni Sveinsson; 1 Taugalækningadeild Landspítala, 2 læknadeild Háskóla Íslands (Læknafélag Íslands, 2021-02)
   Hér er lýst tveimur tilfellum af HaNDL (Headache with Neurological Deficits and cerebrospinal fluid Lymphocytosis) eða heilkenni skammvinns höfuðverkjar með brottfallseinkennum og eitilfrumuhækkun í mænuvökva. Fyrra tilfellið var þrítugur maður sem fékk endurtekin köst með höfuðverk, helftareinkennum og mikilli óáttun. Hið síðara var 41 árs maður sem fékk höfuðverk, skyndilegt málstol og hægri helftareinkenni. Í báðum tilfellum var töluverð hækkun á eitilfrumum í mænuvökva. Leit að sýkingarvöldum var neikvæð og segulómskoðanir af höfði sýndu engar meinsemdir. Einkenni gengu að fullu til baka hjá báðum sjúklingum. Orsök HaNDL er óþekkt en sumir telja ástandið orsakast af bólguviðbrögðum í kjölfar veirusýkingar. Horfur eru góðar og sjúklingar verða einkennalausir á einni til þremur vikum. Mikilvægt er að útiloka alvarlegri orsakir eins og heilaslag, innanskúmsblæðingu eða sýkingar í miðtaugakerfi.
  • Algengi og þróun geðraskana og geðlyfjanotkunar meðal íbúa íslenskra hjúkrunarheimila frá 2003 til 2018

   Páll Biering; Ingibjörg Hjaltadóttir; 1)Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 2)meðferðarsviði Landspítala. (Læknafélag Íslands, 2021-01)
   INNGANGUR Faraldsfræðilegar rannsóknir sýna mikla útbreiðslu geðræns vanda og geðlyfjanotkunar meðal aldraðra í þróuðum löndum, ekki síst meðal þeirra sem búa á hjúkrunarheimilum. Þekkingu á geðrænum vanda og geðlyfjanotkun íbúa íslenskra hjúkrunarheimila er ábótavant, en mikilvæg fyrir stefnumótun í geðheilbrigðisþjónustu á heimilunum. Því var tilgangur rannsóknarinnar að kanna algengi geðsjúkdómsgreininga og geðlyfjanotkunar meðal íbúa íslenskra hjúkrunarheimila, samspil þessara þátta og hvernig þeir hafa þróast frá 2003 til 2018. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Rannsóknargögnin voru fengin úr niðurstöðum matsgerða með annarri útgáfu interRAI mælitækisins á tímabilinu frá 2003 til 2018. Í rannsókninni var stuðst við síðasta mat hvers árs (N=47,526). NIÐURSTÖÐUR Á tímabilinu hafði um það bil helmingur íbúanna kvíða- og/eða þunglyndisgreiningu; 49,4% árið 2003, en 54,5% 2018. Þessi tíðni jókst til ársins 2010 er hún var 60,9%. Hún hefur síðan farið hægt minnkandi. Neysla geðlyfja jókst úr 66,3% í 72,5%. þunglyndislyf eru algengust og jókst neysla þeirra úr 47,5% í 56,2. Neysla geðrofslyfja hefur haldist nær óbreytt, eða í kringum 26%. Nokkurt ósamræmi var á milli geðsjúkdómagreininga og geðlyfjanotkunar. Þannig fengu að meðaltali 18,2% geðlyf að staðaldri án þess að hafa greiningu og 22,3% tóku geðrofslyf í öðrum tilfellum en mælt er með. ÁLYKTANIR Aldursbreytingar hafa áhrif á verkun geðlyfja og rannsóknir hafa ekki staðfest jákvæða langtímaverkun þeirra fyrir aldraða. Þeir eru einnig viðkvæmir fyrir skaðlegum aukaverkunum lyfjanna sem aukast enn með fjöllyfjanotkun. Því er mikilvægt að geðlyfjanotkun aldraðra sé byggð á nákvæmri geðskoðun. Eins er mikilvægt að þróa önnur úrræði til að efla geðheilsu íbúa íslenskra hjúkrunarheimila.