• Áhrif lyfsins fampridíns á skerta göngugetu sjúklinga með MS (Multiple Sclerosis)

   Björg Guðjónsdóttir; Haukur Hjaltason; Guðbjörg Þóra Andrésdóttir; 1 Námsbraut í sjúkraþjálfun, heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands, 2 læknadeild Háskóla Íslands, 3 taugadeild Landspítala. (Læknafélag Íslands, 2021-04)
   INNGANGUR Fampridín er lyf sem virkar sem kalíumgangaloki og er ætlað sjúklingum með skerta göngugetu vegna MS (Multiple Sclerosis). Með því að loka á kalíumgöng dregur lyfið úr jónaleka, sem seinkar endurskautun og hvetur þannig myndun hrifspennu í afmýluðum taugasímum. Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á góð áhrif fampridíns á skerta göngugetu fólks með MS. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða áhrif lyfsins á göngugetu íslenskra sjúklinga með MS og athuga hve margir þeirra halda lyfjameðferð áfram eftir tveggja vikna reynslulyfjatímabil. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Þátttakendur voru 41 sjúklingur með MS sem reyndu fampridín á fyrstu 16 mánuðum notkunar þess á Íslandi. Unnið var úr sjúkraskrárgögnum Landspítala. Árangur var metinn með mælingum á gönguhraða (timed 25-foot walk, T25FW) og göngugetu (12-item multiple sclerosis walking scale, MSWS-12). NIÐURSTÖÐUR Niðurstöður sýndu að marktækur munur var á gönguhraða á T25FWgönguprófinu fyrir og undir lok reynslulyfjameðferðar (p<0,0001). Meðaltalsaukning gönguhraða var 22%. Einnig reyndist marktækur munur á stigagjöf á MSWS-12-göngumatsprófinu fyrir og undir lok reynslulyfjameðferðar (p<0,0001). Lækkun stigafjölda á MSWS-12 gönguprófinu var að meðaltali 11,4 stig. Átján sjúklingar (43,9%) héldu lyfjameðferð áfram eftir að reynslulyfjameðferð lauk. ÁLYKTUN Lyfið fampridín getur bætt skerta göngugetu hjá hluta sjúklinga með MS og getur verið mikilvæg viðbót í einkennameðferð þeirra.
  • Skyndileg meðvitundarskerðing vegna lokunar á æð Percherons. Sjúkratilfelli

   Brynhildur Thors; Ólafur Sveinsson; 1 Taugalækningadeild Landspítala, 2 læknadeild Háskóla Íslands. (Læknafélag Íslands, 2021-04)
   Brátt heilaslag á grunni lokunar á Percheron-slagæð til miðheila og stúku er sjaldgæf og snúin greining vegna ósértækra klínískra einkenna. Skjót greining og meðferð er afar mikilvæg þar sem um er að ræða brátt og alvarlegt ástand. Hér er kynnt tilfelli ungrar konu sem fékk skyndilegan höfuðverk og skerta meðvitund. Sjáöldur voru misvíð og brugðust illa við ljósáreiti og iljaviðbrögð voru jákvæð beggja megin. Fram komu flogalíkar hreyfingar í öllum útlimum. Tölvusneiðmynd af heila og heilaæðum var eðlileg en bráð segulómun sýndi byrjandi drep í stúku beggja megin. Á grunni einkenna og segulómunar fékk sjúklingur segaleysandi meðferð í æð 70 mínútum eftir komu á bráðamóttöku og náði sér að fullu.
  • D-vítamínbúskapur fyrir og eftir efnaskiptaaðgerðir á Landspítala

   Berglind Lilja Guðlaugsdóttir; Svava Engilbertsdóttir; Leifur Franzson; Hjörtur Gíslason; Ingibjörg Gunnarsdóttir; 1 Rannsóknastofu í næringarfræði við Háskóla Íslands, 2 næringarstofu Landspítala, 3 erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala, 4 lyfjafræðideild Háskóla Íslands, 5 skurðlækningakjarna Landspítala, 6 matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands (Læknafélag Íslands, 2021-03)
   TILGANGUR Langtímaárangur efnaskiptaaðgerða hjá einstaklingum með offitu er almennt góður, með tilliti til þyngdartaps, fylgisjúkdóma offitu og lífsgæða. Hins vegar geta aðgerðirnar aukið líkur á næringarefnaskorti. Markmið rannsóknarinnar var að kanna D-vítamínbúskap einstaklinga fyrir og eftir efnaskiptaaðgerðir á Landspítala. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Upplýsingar um mælingar á S-25(OH)D og kalkkirtilshormóni (PTH) voru fengnar úr sjúkraskrám þeirra sem fóru í efnaskiptaaðgerð á Landspítala á árunum 2001-2018 (n=539). Vegna breytinga á mæliaðferð á rannsóknartímabilinu var ófullnægjandi D-vítamínstaða skilgreind sem styrkur 25hydroxyvitamin D (25(OH)D) <45 nmól/L á árunum 2001-2012, en <50 nmól/L 2013-2018. D-vítamínskortur var skilgreindur sem 25(OH)D <30 nmól/L fyrir bæði tímabilin. Sjúklingar fá ráðleggingar um töku fæðubótarefna við útskrift og við endurkomur á móttöku efnaskiptaaðgerða á Landspítala. NIÐURSTÖÐUR Meðalstyrkur 25(OH)D fyrir aðgerð var 51 nmól/L (SF 30 nmól/L) og reyndust 278 (52%) vera með ófullnægjandi D-vítamínstöðu, þar af fjórðungur með D-vítamínskort. Styrkur 25(OH)D hækkaði eftir aðgerð hjá meirihluta einstaklinga (85%). Um þriðjungur einstaklinga sem mældist með ófullnægjandi D-vítamínstöðu fyrir aðgerð mældist einnig undir viðmiðum allt að 18 mánuðum eftir aðgerð. Þegar borin eru saman tímabilin 2001-2012 annars vegar og 2013-2018 hins vegar sést að ófullnægjandi D-vítamínstaða var óalgengari á síðara tímabilinu, en þó enn til staðar í um það bil 25% tilvika fyrir aðgerð og 8,5% 18 mánuðum eftir aðgerð. ÁLYKTUN Nokkuð algengt er að D-vítamínstaða einstaklinga á leið í efnaskiptaaðgerð sé ófullnægjandi, en styrkur 25(OH)D hækkar eftir aðgerð hjá meirihluta þeirra í kjölfar ráðlegginga um töku bætiefna. Niðurstöðurnar benda til þess að ástæða sé til að leggja aukna áherslu á leiðréttingu D-vítamínskorts fyrir efnaskiptaaðgerðir.
  • Heysjúkdómar á Íslandi II. Sjúkdómavaldar í heyi og rannsóknir á Íslandi

   Davíð Gíslason; Tryggvi Ásmundsson; Þórarinn Gíslason; 1 Lyfjadeild Landspítala, 2 læknadeild Háskóla Íslands (Læknafélag Íslands, 2021-03)
   Sjúkdómar tengdir vinnu í heyryki hafa lengi verið þekktir á Íslandi. Árið 1981 hófust rannsóknir á heysjúkdómum að beiðni bændasamtakanna og eru helstu niðurstöður þeirra dregnar saman í þessari grein. Í ljós kom að mikið magn af heymítlum, myglu og hitakærum geislagerlum (micropolyspora faeni) fannst í heyinu, auk ofnæmisvaka frá músum og frjókornum. Einkenni af heyryki voru oftast frá nefi og augum hjá þeim sem voru jákvæðir á húðprófum, en hósti, mæði og hitaköst voru álíka algeng hjá þeim sem voru neikvæðir á húðprófum. Algengustu ofnæmisvaldar meðal bændafjölskyldna voru heymítlar og nautgripir, en ofnæmi fyrir köttum, hundum og grasfrjóum var sjaldgæfara í sveitunum en á Reykjavíkursvæðinu. Þegar borin voru saman áhrif þess að vinna í miklu heyryki og litlu voru jákvæð fellipróf fyrir micropolyspora faeni, hitaköst eftir vinnu og lungnateppa algengari meðal þeirra sem unnu í miklu heyryki. Sýnt hefur verið fram á að íslenskir bændur fá oftar lungnaþembu en aðrir Íslendingar og er það óháð reykingum. Nánast engir mítlar fundust við umfangsmikla rannsókn á heimilum á Reykjavíkursvæðinu. Eigi að síður sýndi rannsókn að sértæk IgE-mótefni fyrir rykmítlum voru jafn algeng þar og í Uppsölum í Svíþjóð þar sem rykmítlar fundust á 16% heimila. Þegar nánar var að gætt höfðu 57% þeirra sem þátt tóku í rannsókninni haft meiri eða minni snertingu við heyryk, ýmist alist upp í sveit, verið send í sveit sem börn eða sinnt um hesta. Höfum við fært rök fyrir því að krossnæmi við heymítla geti átt þátt í nokkuð algengu næmi fyrir rykmítlum. Nýleg rannsókn á miðaldra einstaklingum hefur leitt í ljós að næmi fyrir heymítlum er heldur algengara á Reykjavíkursvæðinu en í Árósum, Bergen og Uppsölum, sem vafalítið skýrist af því hve algengt er að þeir séu eða hafi verið í snertingu við heyryk.
  • Tengsl þrálátra líkamlegra einkenna við þunglyndi og kvíða hjá þeim sem leituðu til heilsugæslu

   Sigrún Ólafsdóttir Flóvenz; Elín Broddadóttir; Sturla Brynjólfsson; Agnes Sigríður Agnarsdóttir; Paul M. Salkovskis; Jón Friðrik Sigurðsson; 1 Sálfræðideild Háskólans í Reykjavík, 2Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, 3 sálfræðideild háskólans í Oxford, 4 læknadeildHáskóla Íslands. (Læknafélag Íslands, 2021-02)
   INNGANGUR Þrálát líkamleg einkenni sem ekki eiga sér þekktar líkamlegar orsakir geta skert færni til að sinna athöfnum daglegs lífs. Markmið rannsóknarinnar var að meta algengi slíkra einkenna meðal fólks sem sækir heilsugæsluþjónustu á höfuðborgarsvæðinu, tengsl þeirra við færniskerðingu og einkenni þunglyndis, almenns kvíða og heilsukvíða, og meta hlutfall sjúklinga sem líklega hafi gagn af sálfræðimeðferð við þrálátum líkamlegum einkennum. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Spurningalistar sem meta þrálát líkamleg einkenni, færniskerðingu og einkenni þunglyndis, almenns kvíða og heilsukvíða voru lagðir fyrir 106 þátttakendur á tveimur heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu. NIÐURSTÖÐUR Tuttugu og níu (27,4%) þátttakendur reyndust vera með þrálát líkamleg einkenni og voru sterk tengsl á milli þeirra og einkenna geðraskana. Þátttakendur með þrálát líkamleg einkenni voru 8 sinnum líklegri til að vera með einkenni þunglyndis og almenns kvíða en þátttakendur án þeirra, fjórum sinnum líklegri til að vera með einkenni heilsukvíða og 13 sinnum líklegri til að vera með færniskerðingu yfir klínískum viðmiðunarmörkum. Rúmlega helmingur þátttakenda með þrálát líkamleg einkenni voru með tvær eða fleiri gerðir einkenna en þreyta og vöðvavandamál var algengasta gerðin. 65% þátttakenda greindu frá þrálátum líkamlegum einkennum og sálrænum einkennum yfir klínískum viðmiðunarmörkum. ÁLYKTUN Algengi þrálátra líkamlegra einkenna meðal notenda heilsugæsluþjónustu á höfuðborgarsvæðinu samræmist niðurstöðum erlendra rannsókna. Sama má segja um tengsl þeirra við einkenni þunglyndis og kvíða. Líklegt er að tveir þriðju heilsugæslusjúklinga með slík einkenni myndu njóta góðs af sálfræðilegri meðferð. Hugræn atferlismeðferð við þrálátum líkamlegum einkennum gæti gert þessum hópi gagn en í slíkri meðferð er unnið sérstaklega með samspil sálrænna og líkamlegra einkenna
  • Eldri heimildir um heyöflun og heysjúkdóma á Íslandi

   Davíð Gíslason1; Einar G. Pétursson; Tryggvi Ásmundsson; 1 Lyfjadeild Landspítala, 2 læknadeild Háskóla Íslands, 3 Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, (Læknafélag Íslands, 2021-02)
   Heysjúkdómar hafa vafalaust fylgt búskaparháttum Íslendinga alveg frá landnámi í lok 9. aldar. Þó hafa aðstæður til heyöflunar verið betri á fyrstu öldum eftir landnám en seinna varð, þegar veðurfar kólnaði og landgæði versnuðu. Greinin fjallar um það sem skrifað hefur verið um heysjúkdóma á Íslandi frá byrjun 17. aldar og fram á miðja 20. öldina.
  • Heilkenni skammvinns höfuðverkjar með brottfallseinkennum og eitilfrumuhækkun í mænuvökva · Tvö sjúkratilfelli og yfirlit ·

   Helgi Kristjánsson; Ólafur Árni Sveinsson; 1 Taugalækningadeild Landspítala, 2 læknadeild Háskóla Íslands (Læknafélag Íslands, 2021-02)
   Hér er lýst tveimur tilfellum af HaNDL (Headache with Neurological Deficits and cerebrospinal fluid Lymphocytosis) eða heilkenni skammvinns höfuðverkjar með brottfallseinkennum og eitilfrumuhækkun í mænuvökva. Fyrra tilfellið var þrítugur maður sem fékk endurtekin köst með höfuðverk, helftareinkennum og mikilli óáttun. Hið síðara var 41 árs maður sem fékk höfuðverk, skyndilegt málstol og hægri helftareinkenni. Í báðum tilfellum var töluverð hækkun á eitilfrumum í mænuvökva. Leit að sýkingarvöldum var neikvæð og segulómskoðanir af höfði sýndu engar meinsemdir. Einkenni gengu að fullu til baka hjá báðum sjúklingum. Orsök HaNDL er óþekkt en sumir telja ástandið orsakast af bólguviðbrögðum í kjölfar veirusýkingar. Horfur eru góðar og sjúklingar verða einkennalausir á einni til þremur vikum. Mikilvægt er að útiloka alvarlegri orsakir eins og heilaslag, innanskúmsblæðingu eða sýkingar í miðtaugakerfi.
  • Algengi og þróun geðraskana og geðlyfjanotkunar meðal íbúa íslenskra hjúkrunarheimila frá 2003 til 2018

   Páll Biering; Ingibjörg Hjaltadóttir; 1)Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 2)meðferðarsviði Landspítala. (Læknafélag Íslands, 2021-01)
   INNGANGUR Faraldsfræðilegar rannsóknir sýna mikla útbreiðslu geðræns vanda og geðlyfjanotkunar meðal aldraðra í þróuðum löndum, ekki síst meðal þeirra sem búa á hjúkrunarheimilum. Þekkingu á geðrænum vanda og geðlyfjanotkun íbúa íslenskra hjúkrunarheimila er ábótavant, en mikilvæg fyrir stefnumótun í geðheilbrigðisþjónustu á heimilunum. Því var tilgangur rannsóknarinnar að kanna algengi geðsjúkdómsgreininga og geðlyfjanotkunar meðal íbúa íslenskra hjúkrunarheimila, samspil þessara þátta og hvernig þeir hafa þróast frá 2003 til 2018. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Rannsóknargögnin voru fengin úr niðurstöðum matsgerða með annarri útgáfu interRAI mælitækisins á tímabilinu frá 2003 til 2018. Í rannsókninni var stuðst við síðasta mat hvers árs (N=47,526). NIÐURSTÖÐUR Á tímabilinu hafði um það bil helmingur íbúanna kvíða- og/eða þunglyndisgreiningu; 49,4% árið 2003, en 54,5% 2018. Þessi tíðni jókst til ársins 2010 er hún var 60,9%. Hún hefur síðan farið hægt minnkandi. Neysla geðlyfja jókst úr 66,3% í 72,5%. þunglyndislyf eru algengust og jókst neysla þeirra úr 47,5% í 56,2. Neysla geðrofslyfja hefur haldist nær óbreytt, eða í kringum 26%. Nokkurt ósamræmi var á milli geðsjúkdómagreininga og geðlyfjanotkunar. Þannig fengu að meðaltali 18,2% geðlyf að staðaldri án þess að hafa greiningu og 22,3% tóku geðrofslyf í öðrum tilfellum en mælt er með. ÁLYKTANIR Aldursbreytingar hafa áhrif á verkun geðlyfja og rannsóknir hafa ekki staðfest jákvæða langtímaverkun þeirra fyrir aldraða. Þeir eru einnig viðkvæmir fyrir skaðlegum aukaverkunum lyfjanna sem aukast enn með fjöllyfjanotkun. Því er mikilvægt að geðlyfjanotkun aldraðra sé byggð á nákvæmri geðskoðun. Eins er mikilvægt að þróa önnur úrræði til að efla geðheilsu íbúa íslenskra hjúkrunarheimila.
  • Viðhorf hjúkrunarfræðinga og almenn viðhorf til ákæru vegna alvarlegra sjúklingaatvika í heilbrigðisþjónustu: Eru blikur á lofti?

   Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir; Elísabet Benedikz; Anna María Þórðardóttir; 1) Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, 2) gæða- og sýkingarvarnadeild Landspítala (Læknafélag Íslands, 2021-01)
   INNGANGUR Markmið rannsóknarinnar er að stuðla að upplýstri umræðu um öryggi sjúklinga og viðbrögð við óvæntum atvikum í heilbrigðisþjónustu. Í þessum tilgangi leitast rannsóknin við að varpa ljósi á þá spurningu hvað einkenni viðhorf til þess hvort kæra eigi fyrir slík atvik eða ekki. Tildrögin eru ákæra fyrir manndráp af gáleysi á hendur hjúkrunarfræðingi í maí 2014 og áhrif þeirrar ákæru á heilbrigðisstarfsfólk. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR I þessari lýsandi samanburðarrannsókn var kannað hvort munur væri á viðhorfum til ákæru vegna atvika í heilbrigðisþjónustu milli slembiúrtaks úr Þjóðskrá (Þjóðgátt) og allra félagsmanna í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga. Báðir hópar voru spurðir hvort ákæra ætti heilbrigðisstarfsmann sem veldur alvarlegum skaða eða andláti vegna mannlegra mistaka, slysni, vanrækslu eða af ásetningi. Svör voru gefin á Likert- kvarða. NIÐURSTÖÐUR Marktækur munur reyndist á svörum hópanna um það hvort ákæra ætti fyrir skaða eða andlát af völdum mannlegra mistaka eða slysni, þar sem hjúkrunarfræðingar voru líklegri til að vera mjög eða frekar ósammála ákæru en Þjóðgáttarhópurinn var líklegri til að vera mjög eða frekar sammála. Munurinn milli hópanna minnkaði með hærra menntunarstigi Þjóðgáttarhópsins. Þegar spurt var um hvort ákæra ætti heilbrigðisstarfsmann fyrir skaða eða andlát vegna vanrækslu eða ásetnings var munurinn ekki marktækur. ÁLYKTANIR Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að viðhorf hjúkrunarfræðinga endurspegli ekki tilhneigingu til að víkjast undan ábyrgð á óvæntum atvikum í heilbrigðisþjónustu, heldur mikilvægi þess að gera greinarmun á eðli slíkra atvika. Þessar niðurstöður sýna að þörf er á upplýstri opinni umræðu um óvænt atvik í heilbrigðisþjónustu og viðeigandi ráðstafanir og viðbrögð sem best tryggja öryggi bæði sjúklinga og starfsfólk
  • Tíðatengt loftbrjóst vegna endómetríósu í lunga - sjúkratilfelli

   Ásdís Kristjánsdóttir; Gunnar Mýrdal; Margrét Sigurðardóttir; Reynir Tómas Geirsson; 1 Læknadeild Háskóla Íslands, 2skurðlækningar, aðgerðasviði Landspítala, 3 rannsóknastofu í meinafræði, rannsóknasviði Landspítala, 4 kvennadeild, aðgerðasviði Landspítala. (Læknafélag Íslands, 2021-01)
   Endómetríósa getur verið langvinn orsök verkja, blæðingaóreglu og ófrjósemi meðal kvenna. Sjúkdómurinn er vanalega í grindarholi, en getur birst á óvenjulegum stöðum. Hér er lýst tilfelli 39 ára konu með gamla endómetríósugreiningu sem leitaði á heilsugæslu og sjúkrahús í þrígang á öðrum degi blæðinga vegna andþyngsla, takverks og mæði. Myndgreining sýndi loftbrjóst hægra megin í öll skiptin. Við brjóstholsspeglun voru endómetríósu-líkir blettir á yfirborði hægra lunga. Vefjagreining sýndi merki um endómetríósu. Konan hefur verið einkennalaus eftir kemíska fleiðruertingu og hormónameðferð. Greining tíðatengds loftbrjósts þarf að byggjast á samhliða brjósthols- og kviðarholsspeglun með vefjasýnatöku til að fá staðfestingu á sjúkdómnum og tryggja grundvöll meðferðar.
  • Validity and reliability of the Icelandic translation and transcultural adaptation of the Prosthetic Mobility Questionnaire in individuals with lower limb amputations

   Anna Lára Ármannsdóttir; Kristín Briem; Rannsóknarstofa í hreyfivísindum, læknadeild, Háskóla Íslands (Félag sjúkraþjálfara, 2021)
   Abstract: Background: An evidence-based documentation of an amputee’s mobility is a vital part of the rehabilitation setting as well as in research and in the development of new prosthetic devices. The Prosthetic Mobility Questionnaire (PMQ) has undergone several iterations to reach its current form, successfully addressing the mobility capabilities of a broad spectrum of amputees. Objectives: The aim of this study was to analyze the psychometric properties of an Icelandic translation and transcultural adaptation of the PMQ. Methods: Following standardized procedures of translation, the questionnaire was tested for validity and reliability. Participants (n=28) were transtibial and -femoral amputees recruited from prosthetic clinics or outpatient rehabilitation centers. Reliability of PMQ was tested by analyzing the internal consistency with Cronbach´s alpha. Convergent and discriminant validity were tested using the Spearman´s rank correlation coefficient and the Mann-Whitney test, respectively. Results: The internal consistency was high for the PMQ, indicating a high reliability. Moderate to strong correlation of the PMQ to other measures related to mobility indicate a high convergent validity, and the questionnaire was able to differentiate between age groups and between Medical Functional Classification Levels 2 and 3. Conclusions: This study presents the results of the first Icelandic translated questionnaire with validated transcultural adaptation procedures, specifically designed to address the needs of amputees. This version of the PMQ is a reliable and valid measure for Icelandic speaking amputees and can be used in the realm of the amputee rehabilitation, research, or development of prosthetic devices to evaluate mobility. Keywords: Prosthetic Mobility Questionnaire (PMQ), psychometric properties, lower limb amputation, mobility
  • MS og barnsburður: Sjúkdómsvirkni og útkoma meðgöngu og fæðingar

   Bryndís Björk Bergþórsdóttir; Rebekka Lísa Þórhallsdóttir; Þóra Steingrímsdóttir; Haukur Hjaltason; 1 Læknadeild Háskóla Íslands, 2 kvennadeild, 3 taugadeild Landspítala. (Læknafélag Íslands, 2020-12)
   INNGANGUR MS (multiple sclerosis) er langvinnur bólgusjúkdómur í miðtaugakerfi sem einkennist af köstum, einkum hjá ungu fólki, konum frekar en körlum. Meðgöngu- og fæðingarsaga íslenskra kvenna með MS hefur ekki verið rannsökuð áður. Markmið rannsóknarinnar var tvíþætt, annars vegar að skoða sjúkdómsmynd MS á meðgöngu og fyrstu mánuðum eftir fæðingu og hins vegar að kanna útkomu meðgöngu og fæðingar kvenna með MS og bera saman við hóp kvenna sem ekki hafa greinst með MS eða annan langvinnan sjúkdóm. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Afturskyggn rannsókn á gögnum úr sjúkraskrá Landspítala og Fæðingaskráningu Embættis landlæknis sem náði til kvenna með greininguna MS (ICD-10: G35) á árunum 2009-2018 og fæðinga þeirra á tímabilinu 1999-2018, alls 91 konu og 137 fæðinga. NIÐURSTÖÐUR Köstum fækkaði á fyrsta og öðrum þriðjungi meðgöngu miðað við árið fyrir þungun. Rúmlega helmingur kvennanna var á fyrirbyggjandi lyfjameðferð fyrir meðgöngu og hættu þær allar meðferðinni um eða fyrir getnað. Konur með MS fæddu oftar með keisaraskurði án fæðingarsóttar. Meðgöngulengd kvenna með MS var sambærileg við samanburðarhóp þegar sótt hófst sjálfkrafa. Ekki var munur á fjölda léttbura eða þungbura milli hópa. Apgar-stigun var sambærileg milli hópa. ÁLYKTUN Við teljum að rannsókn okkar endurspegli vel meðgöngu- og fæðingarsögu kvenna með MS á Íslandi og að niðurstöður sýni að þær skeri sig lítt úr almennu þýði. Niðurstöður okkar samrýmast erlendum rannsóknum um lægri kastatíðni á meðgöngu en munurinn er þó sá að í okkar rannsókn eru þau áhrif bundin við fyrsta og annan þriðjung meðgöngu
  • Áhrif lungnasjúkdóma, reykinga og rafrettunotkunar á alvarleika einkenna við greiningu COVID-19

   Gísli Þór Axelsson; Elías Sæbjörn Eyþórsson; Hrönn Harðardóttir; Gunnar Guðmundsson; Sif Hansdóttir; 1 Læknadeild Háskóla Íslands, 2 lyflæknisþjónusta, 3 lungnalækningar Landspítala. (Læknafélag Íslands, 2020-12)
   INNGANGUR Heimsfaraldur COVID-19-sjúkdóms af völdum SARS-CoV-2 hefur valdið miklu álagi á heilbrigðiskerfi um allan heim og aðgerðir vegna hans valdið miklu efnahagstjóni. Alvarlegum sjúkdómi fylgir yfirleitt lungnabólga og fylgikvillar frá lungum eru algengir í alvarlega veikum sjúklingum. Tengsl lungnasjúkdóma, reykinga og rafrettunotkunar við algengi og alvarleika COVID-19-sjúkdóms eru óljós. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Notuð voru gögn úr fyrstu viðtölum á COVID-19-göngudeild Landspítala við 1761 sjúkling með COVID-19 sem fylgt var eftir af spítalanum. Reiknuð var tíðni reykinga, rafrettunotkunar og undirliggjandi lungnasjúkdóma í þessum hópi, eftir aldursflokkum og klínískri flokkun lækna á alvarleika sjúkdómseinkenna. Kannað var hvort munur væri á tíðni þessara áhættuþátta milli aldurshópa og milli einkennaflokka. NIÐURSTÖÐUR Flestir sjúklingar voru á aldrinum 35-54 ára og langflestir höfðu vægan sjúkdóm við greiningu. Tíðni reykinga var um 6%, hæst í aldurshópi 35-54 ára. Rafrettunotendur voru 4%, flestir 18-34 ára. Ekki var munur á tíðni reykinga eða rafrettunotkunar eftir alvarleika einkenna. Lungnasjúkdóm höfðu 9% sjúklinga, fleiri með hækkandi aldri og sjúklingar með alvarlegan COVID-19-sjúkdóm höfðu oftar lungnasjúkdóm en þeir sem höfðu vægari sjúkdóm. ÁLYKTUN Hér er því lýst aldursdreifingu og áhættuþáttum lungnasjúkdóma í samhengi við alvarleika einkenna hjá öllum COVID-19 sjúklingum á Íslandi. Hópurinn er yngri og tíðni alvarlegra einkenna lægri en í mörgum rannsóknum um COVID-19. Athyglisvert er að tíðni reykinga og rafrettunotkunar er heldur lægri en lýst hefur verið í almennu íslensku þýði sem og að tengsl fundust ekki milli þessara þátta og alvarlegs COVID-19-sjúkdóms við greiningu. Niðurstöðurnar sýna því ekki fram á aukið algengi eða alvarleika COVID-19-sjúkdóms meðal notenda reyktóbaks eða rafrettna en benda til tengsla lungnasjúkdóma við alvarlegri einkenni.
  • Stoðnet vegna þrengsla í ristli og endaþarmi af völdum krabbameins

   Margrét Guðrún Ásbjarnardóttir; Elsa Björk Valsdóttir; Helgi Kjartan Sigurðsson; Páll Helgi Möller; 1) Skurðlækningadeild Landspítala, 2) læknadeild Háskóla Íslands (Læknafélag Íslands, 2020-12)
   INNGANGUR Sjálfþenjandi málmstoðnet eru þekkt meðferð við þrengingum vegna ristil- og endaþarmskrabbameins. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna notkun slíkra stoðneta hérlendis fyrir tímabilið 2000-2018. Skoðuð var þróun fjölda sjúklinga sem fengu stoðnet, ýmist sem brú yfir í aðgerð eða sem líknandi meðferð, og mat lagt á fylgikvilla og árangur. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Afturskyggn rannsókn á sjúklingum sem fengu sjálfþenjandi málmstoðnet á Landspítala vegna illkynja garnastíflu af völdum krabbameins í ristli og endaþarmi. Leitað var eftir greiningar- og aðgerðalyklum í sjúkraskrárkerfi Landspítala. NIÐURSTÖÐUR Alls fengu 43 sjúklingar með ristil- og endaþarmskrabbamein 53 stoðnet vegna þrengingar, sá fyrsti árið 2005. Fleiri sjúklingar fengu stoðnet sem líknandi meðferð (n=27) en brú yfir í aðgerð (n=16). Rof á ristli varð hjá 5 sjúklingum (12%). Meirihluti þeirra sjúklinga sem fékk stoðnet sem brú yfir í aðgerð fór í aðgerð þar sem framkvæmd var bein endurtenging (69%). Meirihluti sjúklinga sem fékk stoðnet sem líknandi meðferð fór ekki í aðgerð (63%). Varanlegt stómahlutfall hjá brúar-hópi var 27% og 22% hjá sjúklingum í líknandi meðferð. ÁLYKTUN Á rannsóknartímabilinu fóru flestir þeir sjúklingar, sem fengu stoðnet sem brú yfir í aðgerð, í aðgerð með beinni endurtengingu og þeir sjúklingar sem fengu stoðnet í líknandi tilgangi þurftu flestir ekki aðgerð. Tíðni rofs var nokkuð há í erlendum samanburði. Skortur var á rafrænum skráningum um tæknilegan og klínískan árangur. Í ljósi þess að um afturskyggna rannsókn og fáa sjúklinga var að ræða, verður að túlka allar niðurstöður með fyrirvara.
  • Hvað á ég að gera — hvert á ég að snúa mér? Reynsla dætra af því að annast aldraða foreldra: Margþætt umönnunarálag og óvissa

   Fjóla Sigríður Bjarnadóttir; Kristín Þórarinsdóttir; Margrét Hrönn Svavarsdóttir; 1) Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og Heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri 2)3) Hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri (Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, 2020-11-16)
   Tilgangur: Öldruðum fjölgar og óformlegir umönnunaraðilar, makar eða dætur veita um þriðjungi eldri borgara á Íslandi aðstoð. Umönnunarálag getur gert vart við sig hjá aðstandendum og haft neikvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu en rannsóknir hafa sýnt að draga má úr því með stuðningi og fræðslu. Tilgangur rannsóknarinnar var að lýsa reynslu dætra af því að vera aðstandendur aldraðra foreldra með minnkaða færni og lýsa þörf þeirra fyrir fræðslu. Aðferð: Rannsóknin var eigindleg. Þátttakendur voru 12 fullorðnar dætur sem voru aðstandendur aldraðra foreldra sem misst höfðu færni og bjuggu í heimahúsum. Gagna var aflað með hálfstöðluðum einstaklingsviðtölum. Greining gagna fór fram með kerfisbundinni textaþéttingu (e. systematic text condensation) samkvæmt aðferð Malterud. Niðurstöður: Greind voru tvö meginþemu. Fyrra þemað, margþætt umönnunarálag, skiptist í þemun sálræn vanlíðan, svo sem kvíða; líkamleg vanlíðan, sem birtist meðal annars í orkuleysi, og skert félagsleg þátttaka, en ein birtingarmynd þess var tilætlunarsemi foreldris. Seinna meginþemað, óvissa, skiptist í þrjú þemu. Hið fyrsta var erfið upplýsingaleit en í því kom fram flókið aðgengi að upplýsingum. Annað þemað var þörf fyrir fræðslu, ráðgjöf og stuðning, þar sem því var lýst að stuðningur frá fjölskyldu og vinum hjálpaði þátttakendum mest. Þriðja þemað var þörf fyrir upplýsingaveitu, þar sem lýst var þörf fyrir aðgengi að fagfólki og upplýsingum á einum stað sem hægt væri að veita rafrænt að hluta til. Ályktanir: Niðurstöðurnar benda sterklega til þess að dætur aldraðra finni fyrir sálrænni, líkamlegri og félagslegri vanlíðan tengdri umönnun foreldra sinna. Einnig höfðu dæturnar mikla þörf fyrir fræðslu og ráðgjöf þar sem þær fundu til óvissu vegna vanþekkingar á kerfinu og erfiðs aðgengis að upplýsingum. Lykilorð: Aldraðir, dætur, umönnunaraðilar, fræðsla, líðan, umönnunarálag.
  • „Ég er einhvern veginn með metnaðinn í botni“ Reynsla ungra aðstoðardeildarstjóra í hjúkrun af stjórnunarstarfi sínu

   Sandra Sif Gunnarsdóttir; Sigríður Halldórsdóttir; 1) Landspítala 2) Háskólanum á Akureyri (Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, 2020-11-16)
   Tilgangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að auka þekkingu og dýpka skilning á reynslu ungra hjúkrunarfræðinga, sem tilheyra Ykynslóðinni (fæddir 1980–2000), af aðstoðardeildarstjórastarfi. Aðferð: Í þessari fyrirbærafræðilegu rannsókn voru tekin 1–2 viðtöl við níu unga aðstoðardeildarstjóra, samtals 12 viðtöl. Niðurstöður: „Ég er einhvern veginn með metnaðinn í botni“ er yfirþema rannsóknarinnar og lýsir vel þeim metnaði og krafti sem einkenndi þátttakendur. Meginþemun voru þrjú, „ég sá fleiri kosti út úr þessu en galla“: hvetjandi þættir, „verkefnin eru óteljandi einhvern veginn“: hindrandi þættir og „[Ég] vil vera aðgengileg en þetta er líka truflun“: vegið að samræmi milli einkalífs og vinnu. Þátttakendum fannst mikil tækifæri fólgin í stöðu aðstoðardeildarstjóra, sem þeim fannst skemmtilegt en krefjandi starf. Áberandi var hve litla aðlögun þátttakendur fengu en það olli auknu álagi. Þá skorti verulega stuðning í starfi, hlutverk þeirra var illa skilgreint og tímaskortur mikill. Lítill tími gafst til að sinna verkefnum á vinnutíma vegna skorts á starfsfólki og fjölda verkefna og það varð til þess að þau voru oft unnin heima. Margir þátttakenda greindu frá því að þeir væru að keyra sig út fyrir starfið vegna verkefna sem ekki gefst tími til að sinna. Þátttakendum fannst mikilvægt að hafa jafnvægi milli vinnu og einkalífs, en með togstreitunni sem myndaðist raskaðist það. Sumir urðu fyrir aldursfordómum og að fólk leyfði sér að vera mjög gagnrýnið og jafnvel dónalegt við þá eftir að þeir tóku við stöðu aðstoðardeildarstjóra. Ungu hjúkrunarfræðingunum fannst þeir búa yfir persónueiginleikum sem hjálpuðu þeim að takast á við krefjandi stjórnunarhlutverk en samt var um helmingur þeirra kominn með heilsutengda kvilla, eins og kvíða, of háan blóðþrýsting og kulnun, sem rekja má til álags. Ályktanir: Mikilvægt er að styðja vel við unga aðstoðardeildarstjóra með góðri aðlögun og skýru hlutverki en jafnframt að hjálpa þeim að takast á við álagið og stuðla að góðri heilsu. Lykilorð: Aðstoðardeildarstjórar í hjúkrun, Y-kynslóð, stuðningur, álag, fyrirbærafræði
  • Heimili hrumra eldri borgara sem þiggja heilbrigðisþjónustu: yfirlitsgrein

   Kristín Björnsdóttir; Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands (Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, 2020-11-16)
   Inngangur: Tilgangur þessarar greinar er að endurskoða hugmyndir um heimilið sem umhverfi sem mótar vellíðan og möguleika hrumra eldri borgara til að líða vel. Greinin byggist á fjölfaglegri umfjöllun um heimili þar sem hugmyndir, hugtök og skilningur sem mótað hafa umfjöllun um heimili fólks, sérstaklega hrumra eldri borgara, voru greindar og skýrðar. Gerð var leit í eftirtöldum gagnasöfnum: Google Scholar, Scopus, PubMed, CINAHL og Leitir.is á árinu 2019 og að auki voru heimildalistar og tilvitnanir í lykilgreinar kannaðar. Fram komu 1052 titlar sem voru skoðaðir nánar, en alls voru notuð 40 ritverk sem endurspegluðu lykilhugmyndir og hugtök sem tengdust tilgangi greinarinnar. Gögn voru greind með hliðsjón af hugtökum sem tengjast þessu fræðasviði, umhverfi, rými, stað, „að eiga heima“ og verndun einkalífs. Niðurstöður: Tvær meginhugmyndir voru greindar. Hin fyrri endurspeglar heimilið sem efnislegt og manngert umhverfi og hin síðari fjallar um það hvernig fólk tengist og skynjar heimili sitt sem stað með ríka merkingu. Rannsóknir um heimili fólks sem nýtur heilbrigðisþjónustu heima mótast annars vegar af skoðun rýmis, hönnunar og skipulags og því hve vel hið efnislega umhverfi fellur að þörfum og óskum einstaklingsins. Hins vegar fjalla rannsóknir sem beinast að tengslum fólks við heimilið og merkingu, um áhrif þess að „eiga heima“ á sjálfsmynd og líðan. Lokaorð: Þessi rannsókn samþættir fjölfaglegan skilning, kenningar og rannsóknir um áhrif hönnunar heimila, og tilfinninga og reynslu heimilismanna á möguleika fólks til að lifa góðu lífi heima. Niðurstöðurnar geta nýst til að skipuleggja og veita hjúkrun á einkaheimilum. Lykilorð: umhverfi, heimili, rými, staður, „að eiga heima“, heimahjúkrun
  • Starfsánægja hjúkrunarfræðinga og viðhorf til þjónandi forystu í fari yfirmanna á umbreytingartímum í heilbrigðisþjónustu

   Kristín Þórarinsdóttir; Hjördís Sigursteinsdóttir; Kristín Thorberg; Háskólinn á Akureyri (Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, 2020-11-16)
   Tilgangur: Árið 2014 voru gerðar breytingar á heilbrigðisþjónustu hér á landi sem leiddu til fækkunar á heilbrigðisumdæmum og samruna stofnana. Við breytingarnar varð til Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) með sex starfsstöðvar. Slíkar stjórnvaldsákvarðanir geta haft áhrif á starfsánægju starfsmanna og því skiptir máli hvernig stjórnendur bregðast við og innleiða þær. Tilgangurrannsóknarinnar var að skoða starfsánægju hjúkrunarfræðinga á HSN skömmu eftir skipulagsbreytingar, meta viðhorf þeirra til þjónandi forystu í fari yfirmanna sinna í hjúkrun ásamt því að kanna hvort tengsl væru milli þessara tveggja þátta. Aðferð: Gögnum var safnað með könnun um starfsánægju og spurningalista um þjónandi forystu, Servant Leadership Survey (SLS) í íslenskri þýðingu. Spurningalistinn leiðir í ljós heildartölu þjónandi forystu og átta undirþætti hennar. Þátttakendur voru hjúkrunarfræðingar á HSN (N=104) sem fengu spurningalistann í tölvupósti. Svarhlutfall var 47,1%. Við úrvinnslu gagna var notuð lýsandi tölfræði og ályktunartölfræði. Niðurstöður: Starfsánægja mældist há og fram komu sterk jákvæð tengsl milli starfsánægju og þjónandi forystu. Heildarvægi þjónandi forystu mældist 4,62 af 6,0 mögulegum (SD = 0,65). Meðalstigafjöldi undirþátta lá á bilinu 3,39 til 5,01. Þrír af átta þáttum þjónandi forystu (hugrekki, forgangsröðun í þágu annarra og falsleysi) voru undir viðmiðunarmörkum (α < 0,7). Undirþáttur með hæsta gildið var fyrirgefning en það gefurtil kynna að persónulegur ágreiningurtrufli ekki samskipti hjúkrunarfræðinga og yfirmanna í hjúkrun á HSN. Ályktanir: Niðurstöðurnar gefa til kynna að hjúkrunarfræðingar á HSN, sem var nýlega stofnuð þegar rannsóknin fór fram, hafi verið ánægðir í starfi og einkenni þjónandi forystu hafi verið til staðar hjá yfirmönnum í hjúkrun á stofnuninni. Þá gefa þessar niðurstöður vísbendingar um að yfirmenn í hjúkrun á HSN hafi ráðið vel við þær skipulagsbreytingar sem urðu á heilbrigðisþjónustunni á þjónustusvæði HSN.
  • Geðræn líðan íslenskra ungmenna: Tengsl við vinnu með skóla?

   Margrét Einarsdóttir; Ásta Snorradóttir; 1 Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands, 2 félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands. (Læknafélag Íslands, 2020-11)
   INNGANGUR Geðræn vanlíðan ungmenna hefur aukist á undanförnum árum. Hætta er á að geðræn vanlíðan og veikindi á unglingsárum þróist yfir í langvarandi veikindi á fullorðinsárum. Þá hefur vinna ungmenna með skóla aukist á síðustu áratugum. Rannsóknir skortir hins vegar á tengslum geðrænnar líðanar ungmenna og vinnu með skóla. MARKMIÐ Markmið rannsóknarinnar var að skoða tengsl 6 einkenna geðrænnar líðanar (þreyta eftir fullan nætursvefn, þunglyndi, kvíði/spenna, áhyggjur/dapurleiki og fjölþætt geðræn vanlíðan) við umfang vinnu með skóla meðal íslenskra ungmenna eftir kyni, aldri og fjárhagsstöðu foreldra. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Rannsóknin byggðist á norrænum spurningalista um sjálfsmat geðrænnar líðanar. Rannsóknin var lögð fyrir 2800 ungmenni á aldrinum 13-19 ára, slembivalin úr Þjóðskrá. Svarhlutfall var 48,6%. Spurt var hversu oft ungmennin fundu fyrir geðrænum einkennum síðasta árið og þeim skipt niður í þrjá hópa þeirra sem ekki vinna með skóla, eru í hóflegri vinnu með skóla og í mikill vinnu. Marktækni var mæld með tvíbreytuprófum (Pearsons kí-kvaðrat). NIÐURSTÖÐUR Niðurstöður rannsóknarinnar sýna kynjamun í tengslunum milli umfangs vinnu með skóla og geðrænnar líðanar. Stelpur sem vinna mikið með skóla eru líklegri til að finna stundum eða oft fyrir geðrænni vanlíðan en stelpur sem vinna ekki með skóla en engin tengsl mælast í hópi drengja. Einnig koma fram tengsl við aukna geðræna vanlíðan í hópi 13-15 ungmenna ára og í hópi þeirra sem eiga foreldra sem eru vel stæðir fjárhagslega. ÁLYKTUN Mikilvægt er að allir hagsmunaaðilar stuðli að því að vinna ungmenna með skóla sé hófleg og að ungmennin sjálf fái vinnuverndarfræðslu og geti þannig betur áttað sig á tengslum vinnunnar við geðræna heilsu.
  • Má bæta árangur af meðferð hjarta- og æðasjúkdóma með aukinni áherslu á svefngæði? – yfirlitsgrein

   Sólveig Dóra Magnúsdóttir; Erla Gerður Sveinsdóttir; 1 MyCardio, Colorado, 2 Heilsugerðin, Sporthúsinu (Læknafélag Íslands, 2020-11)
   Þrátt fyrir víðtæka þekkingu á mikilvægi svefns fyrir heilsu og vellíðan gleymist oft að huga að svefni og svefngæðum í meðferð langvinnra sjúkdóma. Markmiðið með þessari samantekt er að vekja athygli á nýjum rannsóknum sem undirstrika þátt svefnraskana í tilurð og framgangi langvinnra sjúkdóma og er hér lögð áhersla á þessi tengsl við hjarta- og æðasjúkdóma. Mikilvægt er að greina svefnraskanir hjá sjúklingum með langvinna sjúkdóma og veita viðeigandi meðferð samhliða annarri meðferð til að hámarka árangur og auka lífsgæði. Til að tryggja viðeigandi meðferð svefnraskana er hlutlæg greining á svefngæðum og svefnsjúkdómum nauðsynleg. Slík greining er einnig mikilvæg til að hægt sé að meðhöndla svefnsjúkdóma líkt og aðra langvinna sjúkdóma, með reglulegu mati á árangri af meðferð. Í ljósi þekkingar á þeim neikvæðu áhrifum sem stuttur svefn og/eða léleg svefngæði og svefnsjúkdómar hafa á hjarta- og æðasjúkdóma má færa rök fyrir því að mat á svefngæðum ætti að vera þáttur í áhættumati og meðferð hjarta- og æðasjúkdóma.