• Graves-sjúkdómur í börnum og unglingum á Íslandi á árunum 2001-2021

   Þórbergur Atli Þórsson; Ragnar Bjarnason; Soffía Guðrún Jónasdóttir; Berglind Jónsdóttir; 1 Læknadeild Háskóla Íslands, 2 Barnaspítala Hringsins, Landspítala, 3 Domus Medica. (Læknafélag Íslands, 2022-03)
   INNGANGUR Graves-sjúkdómur er sjálfsónæmissjúkdómur þar sem sjálfsmótefni gegn viðtaka stýrihormóns skjaldkirtils (Thyroid-stimulating hormone, TSH) valda ofseytingu skjaldkirtilshormóna, og er hann algengasta orsök skjaldvakaofseytingar (Thyrotoxicosis) í börnum. Einkenni barna eru fjölbreytt og óljósari en hjá fullorðnum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna nýgengi Graves í börnum og unglingum á Íslandi síðastliðin 20 ár og gera grein fyrir meðferðarúrræðum og tíðni endurkomu sjúkdómsins. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Framkvæmd var afturskyggn lýsandi rannsókn. Rannsóknin náði til allra barna og unglinga sem greindust með Graves á árunum 2001-2021. Upplýsingar fengust úr lyfjagagnagrunni Embættis landlæknis og lista ICD10 greininga á Landspítala. NIÐURSTÖÐUR 57 börn og ungmenni greindust með Graves, 3,5 á hverja 100,000 íbúa yngri en 18 ára. Nýgengi jókst ekki á tímabilinu. Kynjahlutfall var 1:2,6 (strákar:stelpur) og meðalaldur við greiningu var 13,6 ár hjá strákum en 13,9 hjá stelpum. Lyfjameðferð er í gangi hjá 8 einstaklingum (14,5%), hjá 13 náðist að koma á eðlilegri starfsemi með lyfjum (23,7%), fjórir fengu sjúkdómsendurkomu og eru á lyfjameðferð (7,3%), 25 fengu meðferð með geislavirku joði (45,5%) og 5 skurðaðgerð (9,1%). Strákar fengu frekar sjúkdómsendurkomu en stúlkur, heildar sjúkdómsendurkoma á tímabilinu var 31,8%. UMRÆÐA Sjúkdómurinn var algengari í stelpum en þó var kynjahlutfall lægra en búist var við. Skjaldkirtilsbælandi lyf var fyrsta val í meðferð. Sjúkdómsendurkoma var algeng og meðferð með geislavirku joði var algengasta varanlega meðferðarúrræðið. Í framhaldi rannsóknarinnar mætti kanna mögulegt samband tímalengdar lyfjameðferðar og sjúkdómsendurkomu hjá bæði börnum og fullorðnum.
  • Meðferð háþrýstings í heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu

   Stefán Júlíus Aðalsteinsson; Jón Steinar Jónsson; Hannes Hrafnkelsson; Guðmundur Þorgeirsson; Emil Lárus Sigurðsson; 1 Læknadeild Háskóla Íslands, 2 Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, 3 Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. (Læknafélag Íslands, 2022-02)
   INNGANGUR Háþrýstingur er einn aðaláhættuþáttur hjarta- og æðasjúkdóma sem voru orsök þriðjungs allra dauðsfalla á heimsvísu árið 2010. Ómeðhöndlaður háþrýstingur getur valdið heilablóðfalli, hjartadrepi, hjartabilun, heilabilun, nýrnabilun, æðakölkun og sjónskerðingu. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna meðferð háþrýstings í heilsugæslu. EFNI OG AÐFERÐIR Rannsóknin var lýsandi afturskyggn þversniðsrannsókn og náði yfir þrjú ár: 2010, 2014 og 2019. Til skoðunar var meðferð háþrýstings hjá einstaklingum eldri en 18 ára með greininguna háþrýstingur samkvæmt flokkunarkerfinu ICD-10. Gögnum var safnað úr sjúkraskrárkerfi allra heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu, alls 19 heilsugæslustöðva. NIÐURSTÖÐUR Fjöldi einstaklinga með háþrýstingsgreiningu jókst á rannsóknartímabilinu og meðalaldur þeirra sem hafa greininguna hækkaði. Hlutfall kynja hefur einnig breyst. Hlutfall karla með greininguna hefur aukist en hlutfall kvenna að sama skapi lækkað. Af þeim 25.873 sem voru með greindan háþrýsting árið 2010 voru 63,4% á lyfjameðferð. Árið 2019 hafði hlutfall háþrýstingssjúklinga á lyfjameðferð lækkað í 60,9% (p<0,001). Meðal þeirra sem voru á lyfjameðferð hélst hlutfall notkunar eins, tveggja eða þriggja eða fleiri lyfjaflokka í háþrýstingsmeðferðinni svipuð á tímabilinu 2010-2019. Algengustu lyfjaflokkar sem notaðir voru við meðferð háþrýstings hér á landi voru þvagræsilyf (C03), betablokkar (C07), kalsíumgangalokar (C08) og lyf með verkun á RAAS (C09). Hlutdeild lyfjaflokkanna í meðferð við háþrýstingi breyttist marktækt á rannsóknartímabilinu. Notendum þvagræsilyfja (p<0,001) og beta-blokka (p<0,001) fækkaði hlutfallslega en á sama tíma fjölgaði þeim sem tóku kalsíumgangaloka (p<0,001) eða lyf með verkun á RAAS (p<0,001). Yfir allt rannsóknartímabilið náðu 44,1% meðferðarmarkmiðum. Hlutfall þeirra sem ná meðferðarmarkmiðum var skoðað eftir heilsugæslustöðvum fyrir árið 2019. Rúmlega 41% sjúklinga náðu meðferðarmarkmiðum það ár. Tvær stöðvar skáru sig hins vegar nokkuð úr með um þriðjung sjúklinga sem náði markmiðum á hvorri stöð. ÁLYKTUN Miðað við innlendar og erlendar algengistölur eru enn margir háþrýstingssjúklingar ógreindir á Íslandi. Ljóst er að enn má gera betur í greiningu sjúkdómsins. Ekki getur talist ásættanlegt að færri en helmingur sjúklinga nái meðferðarmarkmiðum. Umbætur eru því mikilvægar og aðkallandi enda til mikils að vinna.
  • Nýgengi stokkasega á Íslandi frá 2008 til 2020

   Dagný Ásgeirsdóttir; Ingvar H. Ólafsson; Ólafur Árni Sveinsson; 1 Læknadeild Háskóla Íslands, 2 taugaskurðdeild, 3 taugalækningadeild Landspítala (Læknafélag Íslands, 2022-02)
   INNGANGUR Stokkasegi er orsök um 0,5-1% allra heilablóðfalla. Stokkasegi getur valdið blæðingu og/eða heiladrepi auk hækkaðs innankúpuþrýstings. Erfitt getur reynst að greina stokkasega vegna fjölbreyttra einkenna og erfiðrar myndgreiningar á köflum. Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka nýgengi stokkasega á Íslandi á tímabilinu 2008-2020, áhættuþætti, einkenni, meðferð og horfur. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Framkvæmd var lýsandi afturskyggn rannsókn án viðmiðunarhóps þar sem upplýsingum úr sjúkraskrám einstaklinga sem greindust með stokkasega á tímabilinu frá 1. janúar 2008 til 31. desember 2020 var safnað. Eftirfarandi þættir voru skoðaðir: kyn, greiningarár, aldur við greiningu, einkenni, þekktir áhættuþættir, rannsóknarniðurstöður, meðferðir og afdrif. Úrvinnsla fór fram í Excel og Rstudio. NIÐURSTÖÐUR Alls greindist 31 einstaklingar (22 konur). Meðalnýgengið var 0,72/100.000 manns á ári. Meðalaldur var 34,3 ár (14-63 ára). Algengasta einkennið var höfuðverkur (87%), önnur voru staðbundin taugaeinkenni, flog og skert meðvitund. Algengasti áhættuþátturinn meðal kvenna var notkun getnaðarvarnarlyfja (73%). Fjórir sjúklingar höfðu engan þekktan áhættuþátt. Í 74% tilfella var seginn í þverstokki. Stokkasegi var í tveimur eða fleiri bláæðastokkum í 58% tilfella. Allir sjúklingarnir voru settir á blóðþynningarmeðferð. Langoftast var byrjað á heparíni/léttheparíni og síðan tók við meðferð á warfaríni eða NOAC-lyfjum. Eftir þrjá mánuði mældust 87% sjúklinganna með 0-2 á modified Rankin-skalanum (mRS) og höfðu því enga eða væga fötlun eftir stokkasegann. Einn sjúklingur lést vegna stokkasega. ÁLYKTANIR Nýgengi stokkasega á Íslandi er í samræmi við erlendar rannsóknir. Höfuðverkur var algengasta einkennið og getnaðarvarnarlyf algengasti áhættuþátturinn meðal kvenna. Flestir sjúklinganna náðu góðum bata sem bendir til tímanlegrar greiningar og viðeigandi meðferðar á Íslandi.
  • Hringormar í fólki á Íslandi árin 2004-2020

   Karl Skírnisson; Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum (Læknafélag Íslands, 2022-02)
   Á árabilinu 2004-2020 voru 18 hringormslirfur (Nematoda) sendar til rannsókna og tegundagreiningar á sníkjudýradeild Tilraunastöðvarinnar að Keldum. Fjórtán lirfanna höfðu lifað tímabundið í fólki og voru lifandi þegar þær fundust, þrjár fundust lifandi í fiski sem fólk var að borða, ein fannst dauð. Pseudoterranova decipiens fannst í 16 tilvikum (89%), Anisakis simplex í tveimur (11%). Annað Anisakis-tilfellið var lirfa sem fannst spriklandi í bleyju barns sem talið var að hefði fengið lirfuna úr vanelduðum fiski á barnaheimili. Í hinu tilvikinu fannst dauð lirfa í soðinni ýsutuggu, sem barn, sem verið var að mata, spýtti út úr sér. Pseudoterranova-lirfur sem lifað höfðu í fólki (n=13) fundust oftast í munni (11 tilvik), í einu tilfelli fann móðir spriklandi lirfu í ælu barns, í öðru fannst hringormur hreyfa sig við endaþarmsop við þrif eftir salernisferð. Lengd lirfanna var 30 mm til 47 mm og voru þær taldar hafa lifað allt frá einum upp í 9 daga í fólkinu. Níu lirfanna höfðu þegar náð að þroskast upp á fjórða stig (L4), fjórar voru enn á þriðja stigi (L3). Þorskur var oftast nefndur sem uppspretta lirfanna (5 tilfelli af 14), tvær manneskjur töldu lirfurnar komnar úr steinbít, einn nefndi báðar þessar tegundir. Sushi eða skarkoli voru álitin uppsprettan í einu tilviki, einn smitaðist í sushi-veislu. Uppruninn var óþekktur í fjórum tilvikum. Oftast töldu menn sig hafa smitast í heimahúsi, þrír álitu sig hafa smitast á veitingastað, sama barn smitaðist tvisvar á barnaheimili og hafnarstarfsmaður smitaðist við að borða hráan fisk.
  • Nýjungar í greiningu og meðferð lungnakrabbameins

   Hrönn Harðardóttir; Steinn Jónsson; Örvar Gunnarsson; Bylgja Hilmarsdóttir; Jurate Ásmundsson; Ingibjörg Guðmundsdóttir; Vaka Ýr Sævarsdóttir; Sif Hansdóttir; Pétur Hannesson; Tómas Guðbjartsson; et al. (Læknafélag Íslands, 2022-01)
   Lungnakrabbamein er annað algengasta krabbameinið á Íslandi hjá konum og þriðja hjá körlum. Þótt hægt hafi á nýgengi sjúkdómsins á undanförnum árum dregur ekkert krabbamein fleiri Íslendinga til dauða. Einkenni lungnakrabbameins geta verið staðbundin en eru oftar almenns eðlis og á það stóran þátt í hversu margir sjúklingar greinast með útbreiddan sjúkdóm. Á síðustu árum hafa orðið miklar framfarir í greiningu og meðferð lungnakrabbameins. Tilkoma jáeindaskanna og berkjuómspeglunar hafa bætt stigun sjúkdómsins og gert meðferð markvissari. Lungnaskurðaðgerðir með brjóstholssjá hafa stytt legutíma og fækkað fylgikvillum, auk þess sem nýjungar í geislameðferð nýtast betur sjúklingum sem ekki er treyst í skurðaðgerð. Mestar nýjungar hafa þó orðið í lyfjameðferð útbreidds lungnakrabbameins. Þar hafa öflug líftæknilyf komið til sögunnar sem gera kleift að klæðskerasauma meðferðina út frá mælingum á stökkbreytingum og lífmörkum í æxlunum. Loks hafa nýlegar skimunarrannsóknir með lágskammta tölvusneiðmyndum sýnt marktæka lækkun á dánartíðni. Hér eru helstu nýjungar í greiningu og meðferð lungnakrabbameins reifaðar með hliðsjón af þeim framförum sem orðið hafa og er sérstaklega vísað til íslenskra rannsókna.
  • Aukin notkun á erfðaheilbrigðisþjónustu á Íslandi árin 2012-2017

   Hákon Björn Högnason; Vigdís Fjóla Stefánsdóttir; Eirný Þöll Þórólfsdóttir1; Jón Jóhannes Jónsson; Hans Tómas Björnsson; 1 Erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala, 2 læknadeild Háskóla Íslands, 3 McKusick-Nathans Institute of Genetic Medicine, Johns Hopkins University (Læknafélag Íslands, 2022-01)
   INNGANGUR Formleg erfðaráðgjafareining hefur verið starfrækt á Landspítala við Hringbraut frá árinu 2006. Samhliða hefur áhugi og þörf á erfðalæknisfræði í almennri heilbrigðisþjónustu aukist til muna. Í þessari grein er starfsemi og útkoma erfðarannsókna hjá erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala á 5 ára tímabili (2012-2017) tekin saman. Sérstaklega var horft til fjölda einstaklinga, ástæðu komu, ástæðu erfðarannsókna án aðkomu erfðaráðgjafar Landspítala og eins var nýtni (heildarhlutfall rannsókna sem skila jákvæðri niðurstöðu) erfðarannsókna skoðuð. AÐFERÐIR Gögn um komur voru fengin upp úr sjúkraskrárkerfi erfðaráðgjafar, Shire og Sögu/Heilsugátt. NIÐURSTAÐA Fjöldi þeirra sem sóttu þjónustu erfðaráðgjafareiningarinnar jókst árlega allt tímabilið. Ástæður fyrir erfðaráðgjöf reyndust vera krabbameinstengdar í tveimur þriðju hlutum tilfella. Aðrir komu vegna fjölskyldulægra sjúkdóma sem eru algengir á Íslandi, ýmist sjúkdóma sem erfast ríkjandi (dæmi: vöðvaspennuvisnun og ofvaxtarhjartavöðvasjúkdómur) eða vegna víkjandi sjúkdóma (dæmi: mænuvöðvarýrnun og GM1-ganglio-síðkvilli). Algengast var að fólk færi í erfðarannsókn án aðkomu erfðaráðgjafar Landspítala vegna meðhöndlanlegra sjúkdóma, svo sem arfgengrar járnofhleðslu og bláæðasegatilhneigingar. Nýtni erfðarannsókna var metin fyrir a) leit að þekktum meinvaldandi breytingum, b) leit að meinvaldandi breytingum í stökum genum (eingenarannsóknir), c) fjölgenarannsóknir og d) tákn- og heilerfðamengisrannsóknir. Leit að þekktri breytingu skilaði jákvæðri niðurstöðu í 33% tilvika og leit í stöku geni í 46% tilvika. Nýtni fjölgenarannsókna vegna krabbameina var lægri (20%) samanborið við aðrar fjölgenarannsóknir (40%). Þá var nýtni tákn- og heilerfðamengisrannsókna 46%.
  • Garnasmokkun á botnlanga - Sjúkdómstilfelli

   Erla Þórdís Atladóttir; Kristján Óskarsson; Páll Helgi Möller; 1 Kviðarholsskurðdeild Landspítala, 2 barnaskurðdeild Landspítala, 3 læknadeild Háskóla Íslands. (Læknafélag Íslands, 2022-01)
   Garnasmokkun á botnlanga er sjaldgæft ástand og erfitt að greina. Við segjum frá garnasmokkun á botnlanga hjá 7 ára gömlum strák með sögu um kviðverki.
  • Faglegir mannkostir lækna og vinnuumhverfi

   Svanur Sigurbjörnsson; Vilhjálmur Árnason; 1 Læknadeild, 2 sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. (Læknafélag Íslands, 2021-12)
   INNGANGUR Greint er frá niðurstöðum könnunar um reynslu og upplifun kandídata og almennra lækna og reyndra sérfræðinga af klínísku starfi á Íslandi. Til samanburðar var höfð samskonar rannsókn við breskar sjúkrastofnanir þar sem reyndir sérfræðingar fengu spurningarnar. Rannsóknin beindist að því hvernig starfsumhverfi lækna hefur áhrif á mannkosti þeirra, upplifun af stuðningi, vinnuálagi, sjálfræði og tengingu við starfið. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Samtals 89 læknar tóku þátt og svöruðu 15 spurningum. Tíðni svara var borin saman úr klösum fjögurra efnisflokka. NIÐURSTÖÐUR Niðurstöður bentu til markverðs vanda á vinnustöðum lækna hérlendis. Upplifunin var neðarlega í öðrum fjórðungi (2,1-3,0) matsskala þess að vinnuumhverfið hamli því að fagleg manngerð þeirra njóti sín. Einnig vantaði upp á þætti stuðnings. Í samanburði við breska sérfræðinga var upplifun þeirra sambærileg en þó skárri hvað stuðning varðaði. Kandídatar og almennir læknar upplifa marktækt meiri streitu, minni stuðning og sjálfræði í vinnu sinni en reyndu sérfræðingarnir hérlendis. Í samanburði við bresku rannsóknina var upplifun íslensku sérfræðilæknanna jákvæðari varðandi sjálfsákvörðun og tilfinningaleg tengsl við starfið. Rannsókn okkar sýnir í fyrsta sinn samband vinnuumhverfis og álags á mikilvæga fagtengda mannkosti lækna hérlendis. UMRÆÐA Þessar niðurstöður endurspegla niðurstöður fræðigreina um mikilvægi þess að læknar geti nýtt mannkosti sína í starfi, því þeir tengist starfsánægju, langvarandi velfarnaði og tilfinningu fyrir tilgangi starfsins. Niðurstöðurnar styðja viðhorf í skrifum lækna hérlendis um óheyrilegt vinnuálag og manneklu. Rannsóknin sýnir upplifun lækna af því hvar skóinn kreppir í starfi og mikilvægi þess að þjóðfélagið bæti starfsskilyrðin til að gera þeim kleift að starfa eftir hugsjón sinni.
  • Sjúkdómsgreiningar, endurhæfing og þróun örorku 2000-2019

   Ólafur Ó. Guðmundsson; Guðmundur Hjaltalín; Haukur Eggertsson; Þóra Jónsdóttir; Tryggingastofnun ríkisins (Læknafélag Íslands, 2021-12)
   INNGANGUR Örorkumatsstaðall sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun var innleiddur 1999. Markmið þessarar rannsóknar er að skoða þróun úrskurða Tryggingastofnunar ríkisins vegna endurhæfingar- og örorkulífeyris á 20 ára tímabili frá innleiðingu hans. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Allar skráðar sjúkdómsgreiningar í læknisvottorðum Tryggingastofnunar vegna samþykktra nýrra endurhæfingar- eða örorkulífeyrisþega fyrir árin 2000-2019 voru skoðaðar. Gerð er grein fyrir kynjaskiptingu, aldursdreifingu og fjöldaþróun á tímabilinu. Jafnframt er skoðaður kostnaður sem hlutfall af ríkisútgjöldum. NIÐURSTÖÐUR Nýliðun yngri endurhæfingarlífeyrisþega hefur aukist hratt á undanförnum árum á sama tíma og lítillega hefur dregið úr hlutfallslegri fjölgun örorkulífeyrisþega. Geð- og stoðkerfissjúkdómar eru langalgengustu sjúkdómsflokkarnir sem leiða til skertrar starfsgetu. Geðsjúkdómar skera sig úr hvað varðar aldursdreifingu og fjölgun eftir því sem nær dregur í tíma. Hlutfall einstaklinga á aldrinum 18-66 ára með 75% örorkumat hefur aukist um þriðjung á tímabilinu, úr um 6% í 8%. Kynjaskipting örorkulífeyrisþega helst svipuð, konur eru um 62% hópsins í heildina. Konur eru mun líklegri til að verða öryrkjar vegna stoðkerfissjúkdóma, en karlar nokkru líklegri vegna geðsjúkdóma. Hlutfallsleg þróun ríkisútgjalda vegna heildargreiðslna til endurhæfingarog lífeyrisþega heldur áfram að vaxa sem hlutfall af ríkisútgjöldum. ÁLYKTUN Endurhæfingarlífeyrisþegum hefur fjölgað verulega frá árinu 2018 á sama tíma og dregið hefur úr nýliðun öryrkja og vísbendingar eru um að endurhæfing hafi skilað sér í fækkun nýrra öryrkja. Geð- og stoðkerfissjúkdómar eru langalgengustu sjúkdómsflokkarnir sem leiða til skertrar starfsgetu. Heldur lægra hlutfall öryrkja er með geðgreiningu sem fyrstu sjúkdómsgreiningu á tímabilinu 2000-2019 samanborið við þá sem áttu gildandi örorkumat 2005 en hlutfall stoðkerfissjúkdóma er heldur hærra. Engu að síður skera geðsjúkdómar sig úr hvað varðar aldursdreifingu og fjölgun eftir því sem nær dregur í tíma.
  • Langtímaáhrif brunaáverka á heilsu fullorðinna: lýsandi þversniðskönnun og forprófun spurningalista

   Lovísa Baldursdóttir; Sigríður Zoëga; Gunnar Auðólfsson; Vigdís Friðriksdóttir; Sigurður Ýmir Sigurjónsson; Brynja Ingadóttir; 1 Landspítala, 2 hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 3 lýtalækningadeild Landspítala. 4 Hrafnistu (Læknafélag Íslands, 2021-12)
   TILGANGUR Tilgangur rannsóknarinnar var að meta langtímaáhrif brunaáverka á heilsu og heilsutengd lífsgæði fullorðinna og meta próffræðilega eiginleika íslenskrar útgáfu matstækisins Burn Specific Health Scale-Brief (BSHS-B). EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Í þessari lýsandi þversniðsrannsókn var öllum 18 ára og eldri sem brenndust á húð á barns- eða fullorðinsaldri, og dvöldu á Landspítala í sólarhring eða lengur, á 15 ára tímabili, boðin þátttaka (N=196). Þátttakendur svöruðu spurningalista um heilsu (BSHS-B), um heilsutengd lífsgæði (EQ-5D-5), spurningum um brunatengd einkenni og um reynslu sína af sjúkrahúsdvölinni. NIÐURSTÖÐUR Þátttakendur voru 66 (svarhlutfall 34%), karlar voru 77%, meðalaldur var 45,7 ár (sf=18,3, spönn 18-82 ár) og meðalaldur við bruna 34,0 (sf=20,1, spönn 1-75) ár. Miðgildi tíma frá bruna var 11,5 ár (spönn 1-44) og voru 32% þátttakenda yngri en 18 ára þegar þeir brenndust. Áhrif bruna á heilsu samkvæmt kvörðum BSHS-B listans mældist á bilinu 4,4- 5,0 (miðgildi) og mældist heilsa (EQ-5Dvas) þeirra 80 (miðgildi, spönn 10-100). Þeir sem höfðu misst líkamshluta eða fengið húðágræðslu höfðu neikvæðari líkamsímynd og þurftu að sinna meiri sjálfsumönnun en hinir (p<0,05). Hópur brunasjúklinga glímir við íþyngjandi áhrif brunaslyssins, svo sem kláða (48%), verki (37%), kvíða/þunglyndi (29%) og neikvæða líkamsímynd (37%). Af þeim sem svöruðu spurningunni um hvað var erfiðast að glíma við eftir útskrift, nefndu 67% þeirra skort á upplýsingum, eftirliti og stuðningi. Íslensk þýðing BSHS-B spurningalistans reyndist áreiðanleg en gera þarf frekari rannsóknir á réttmæti hans. ÁLYKTUN Meirihluti þátttakenda taldi sig hafa náð góðri heilsu eftir brunaslysið og áleit lífsgæði sín ásættanleg. Þó glímir hluti hópsins við langvinnar líkamlegar og sálfélagslegar afleiðingar brunans. Huga þarf að vönduðum undirbúningi fyrir útskrift af sjúkrahúsi og byggja þarf upp heildræna og þverfaglega heilbrigðisþjónustu sem felur í sér langtímaeftirlit, ráðgjöf og stuðning
  • Risafrumuæðabólga – sjúkratilfelli með drepi í hársverði og skyndiblindu

   Berglind Árnadóttir; Gerður Gröndal; Þórður Tryggvason; Björn Guðbjörnsson; 1 Lyflækningadeild, 2 gigtlækningadeild, 3 rannsóknarstofu í gigtarsjúkdómum, 4 meinafræðideild Landspítala, 5 læknadeild Háskóla Íslands. (Læknafélag Íslands, 2021-12)
   Sumarið 2020 leitaði kona á níræðisaldri til læknis vegna höfuðverks og sjóntruflana. Greining var óljós og einkenni versnuðu hratt. Hún varð blind á báðum augum og fékk stórt drep í hársvörðinn. Um var að ræða hröð versnandi einkenni risafrumuæðabólgu sem er einn algengasti æðabólgusjúkdómurinn og getur haft ólíkar birtingarmyndir. Hér er tilfellinu lýst og fjallað um helstu einkenni, greiningaraðferðir og meðferð.
  • Að ná tökum á kvíðanum: reynsla kvenna með andlega vanlíðan af áhrifum hugrænnar atferlismeðferðar sem veitt er á heilsugæslu

   Þórunn Erla Ómarsdóttir; Sigfríður Inga Karlsdóttir; Sigríður Sía Jónsdóttir; 1) Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins 2)3) Háskólinn á Akureyri (Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, 2021-11)
   Tilgangur: Hugræn atferlismeðferð (HAM) er árangursrík meðferð sem er notuð við andlegri vanlíðan, streitu og kvíða. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna reynslu kvenna með andlega vanlíðan af áhrifum HAM-námskeiða sem haldin eru á heilsugæslunni og kanna hvaða áhrif námskeiðin hafði á líðan þeirra. Aðferð: Notast var við aðferð Vancouver-skólans í fyrirbærafræði. Þátttakendur voru átta konur valdar með tilgangsúrtaki á tveim heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu og notast við hálfstaðlaðan viðtalsramma. Konurnar voru á aldrinum 26-47 ára og glímdu við andlega vanlíðan og höfðu lokið sex vikna hópnámskeiði í HAM á heilsugæslustöð. Samtals voru tekin átta einstaklingsviðtöl. Niðurstöður: Yfirþema rannsóknarinnar var: að ná tökum á kvíðanum og láta hann ekki stjórna. Það lýsir reynslu kvenna með andlega vanlíðan af hugrænni atferlishópmeðferð. Alls voru greind fimm meginþemu; að reyna að gera það besta úr sínum aðstæðum; að ná tökum á kvíðanum og láta hann ekki stjórna; að hafa meiri stjórn á huganum og líkamanum; stuðningurinn og eftirfylgnin skiptir öllu máli; bjargráðin að nýta sér alls konar hluti. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa vísbendingu um að upplifun kvenna af gagnsemi námskeiðsins í hugrænni atferlismeðferð sé góð og flestar lýsa jákvæðri upplifun við að ná tökum á kvíðanum og láta hann ekki stjórna sér. Konurnar reyndu að nýta sér það sem þær höfðu lært á HAM-námskeiðunum og áframhaldandi stuðning heilbrigðisstarfsfólks til að bæta líðan sína og aðstæður. Eftir námskeiðin náðu þær margar meiri stjórn á líðan sinni og í kjölfar meðferðar voru þær einnig meðvitaðri um að grípa til eigin bjargráða til að bæta líðan sína og félagsleg virkni þeirra jókst. Ályktun: Mikilvægt er að heilsugæslan haldi áfram að bæta og styrkja geðheilsuverndina sem veitt er á heilsugæslustöðvum fyrir konur sem glíma við andlega vanlíðan eða kvíða en hugræn atferlismeðferð virðist vera árangursrík meðferð. Lykilorð: Hugræn atferlismeðferð (HAM), reynsla, konur, andleg vanlíðan, heilsugæsla.
  • Streita og kulnun hjúkrunarfræðinema á lokaári við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri

   Birna G. Flygenring; Herdís Sveinsdóttir; Rakel Dís Björnsdóttir; Salome Jónsdóttir; 1)2)Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands 3)Heilsugæslan Salahverfi 4)Landspítali (Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, 2021-11)
   Bakgrunnur: Sýnt hefur verið fram á að hjúkrunarfræðinemar sem finna fyrir einkennum streitu og kulnunar á námstímanum, eru líklegri til að glíma við streitu og kulnunareinkenni eftir útskrift og eru jafnframt líklegri til að hætta í starfi en þeir sem ekki finna fyrir þessum einkennum. Tilgangur: Að lýsa námi og framtíðaráformum, almennri og námstengdri streitu, bjargráðum og kulnun hjá lokaárs hjúkrunarfræðinemum á Íslandi; skoða samband almennrar streitu og kulnunar innbyrðis og við nám, framtíðaráform, og bakgrunnsbreytur; greina áhrifaþætti streitu, persónutengdrar og námstengdrar kulnunar og kulnunar tegndri samnemendum. Aðferð: Megindleg með lýsandi könnunarsniði. Mæltiækin Perceived Stress Scale (PSS) og Copenhagen Burnout Inventory (CBI) mældu einkenni streitu og kulnunar. Línuleg aðhvarfsgreining var notuð til að greina áhrifaþætti streitu og kulnunar. Niðurstöður: Þátttakendur voru 82 (72,6% svörun). Meðaltalsstig á PSS var 17,8 á kvarða frá 9-40, á persónutengdri kulnun 42,9, á námstengdri kulnun 56,9 og á kulnun tengdri samnemendum 31,2 á kvörðum frá 0-100. Meirihluti nemenda fann fyrir mikilli streitu sem tengdist háskólanáminu sjálfu (85%) og skorti á námsleiðbeiningum (57%). Fjórar aðhvarfsgreiningar voru unnar. Spálíkan 1 sýndi að nemendur sem telja sig fá lítinn/engan stuðning við námið og litlar/engar námsleiðbeiningar eru líklegri til að hafa hærra meðaltalsstig á PSS (r2=17,2). Spálíkan 2 sýndi að nemendur sem eru 30 ára og eldri eru líklegri til að hafa hærra meðaltalsstig á kvarðanum kulnun tengdri samnemendum (r2=8,1). Spálíkan 3 sýndi að nemendur með mikla/mjög mikla streitu tengda ástundun háskólanáms og samskiptum við kennara eru líklegri til að hafa hærra meðaltalsstig á kvarðanum um námstengda kulnun (r2=34,8). Líkan 4 sýnir að nemendur sem hafa fleiri stig á PSS eru líklegri til að hafa hærri meðaltalsstig á kvarðanum um persónutengda kulnun (r2=30,6). Ályktun: Hjúkrunarfræðinemar á lokaári upplifa streitu og kulnun í námi. Mikilvægt er finna leiðir til að fyrirbyggja og meðhöndla streitu og draga úr kulnun meðan á náminu stendur.
  • Smokkanotkun ungra karlmanna: Viðhalda reisn. Eigindleg rannsókn

   Sóley S. Bender; Katrín Hilmarsdóttir; Þóra Jenný Gunnarsdóttir; Háskóli Íslands og Landspítali (Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, 2021-11)
   Tilgangur: Rannsóknir hafa sýnt fram á ýmsa erfiðleika með smokkanotkun hjá ungum íslenskum karlmönnum. Tilgangur þessarar eigindlegu rannsóknar er að skyggnast inn í reynsluheim ungra karlmanna varðandi smokkanotkun og skoða sjónarmið þeirra gagnvart notkuninni. Aðferð: Rannsóknin byggist á eigindlegri aðferð, fyrirbærafræðilegri nálgun. Einstaklingsviðtöl voru tekin við 13 íslenska unga karlmenn á aldrinum 18-25 ára. Viðtölin voru þemagreind eftir rammaaðferð. Niðurstöður: Greind voru þrjú þemu, Óöryggi og öryggi, Athöfnin sterkari en orðin og Óttast að allt fari til fjandans. Fram komu margir áhrifaþættir á þá ákvörðun að nota smokka. Sumir þátttakenda voru óöruggir að nota smokka, aðrir voru öruggir en þeir gátu jafnframt verið á báðum áttum. Samskipti við kynlífsfélaga um smokkanotkun reyndust sumum auðveld en öðrum ekki, sem lýsti þeirra óvissu. Það var auðveldara að sleppa þeim og ganga beint til verks. Sjálf smokkanotkunin gat verið flókin og valdið þeim áhyggjum og ótta við neikvæðar afleiðingar. Sú athöfn að rjúfa augnablikið til að sækja smokkinn, setja hann á og viðhalda kynferðislegri reisn með smokk gat verið áhyggjuvaldandi og spennuþrungin. Sumir höfðu þó öðlast öryggi við smokkanotkun og lýstu jákvæðri reynslu. Ályktun: Rannsóknin sýndi fram á að upplifunin af smokkanotkuninni gat reynst erfið og skapað ótta gagnvart því að allt mundi klúðrast. Með aukinni vitneskju um upplifun ungra karlmanna af smokkanotkun má betur sníða kynfræðslu að þeirra þörfum, efla sjálfsöryggi þeirra varðandi þá notkun, auka þannig smokkanotkun sem mögulega gæti lækkað tíðni kynsjúkdóma. Lykilorð: Ungir karlmenn, smokkanotkun, eigindleg rannsókn, kynheilbrigði, áhættuhegðun.
  • Útköll Slysavarnafélagsins Landsbjargar vegna slysa og bráðra veikinda á árunum 2017-2018

   Ragna Sif Árnadóttir; Hjalti Már Björnsson; Bráðadeild Landspítala (Læknafélag Íslands, 2021-11)
   BAKGRUNNUR Slysavarnafélagið Landsbjörg (SL) eru öflug sjálfboðaliðasamtök sem sinna um 1200 útköllum á ári hverju. Hluti þeirra útkalla varðar björgun slasaðra eða veikra einstaklinga. Ekki liggja fyrir rannsóknir á þeirri þjónustu sem SL veitir við þessar aðstæður. MARKMIÐ Markmið rannsóknarinnar var að afla upplýsinga um heilbrigðisþjónustu sem SL veitti á árunum 2017-2018, hvort um slys eða veikindi var að ræða, hvort veitt hafi verið viðeigandi meðferð á vettvangi og hver afdrif einstaklinganna voru. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Upplýsingar voru fengnar úr rafrænum aðgerðagrunni SL. Skoðuð voru þau tilvik þar sem fólk þurfti flutning og meðferð á heilbrigðisstofnun. Út frá Björgum, skráningarkerfi Neyðarlínu, var hægt að nálgast kennitölur og voru endanlegar greiningar og afdrif viðkomandi fengnar úr SÖGUkerfi og Heilsugátt. NIÐURSTÖÐUR Alls voru 189 aðgerðir teknar inn í rannsóknina með 239 manns. Flestar aðgerðir voru skráðar á Suðurlandi. Í rúmlega helmingi tilfella var um karlmenn að ræða og meðalaldur var 44,4 ár. Slys voru mun algengari en veikindi, eða 86% tilvika. Algengast var að fólki skrikaði fótur, hrasaði eða félli sem leiddi til áverka á neðri útlim. Af þeim sem veiktust voru hjartatengd vandamál algengust. Í yfir 70% aðgerða var ekki skráð rafrænt hvaða meðferð var beitt á vettvangi eða hvaða búnaður var notaður. ÁLYKTANIR Björgunarsveitir þurfa reglulega að veita heilbrigðisþjónustu. Algengast er að björgunarsveitir sinni einstaklingum eftir slys sem oftast verða á neðri útlim. Veikindi sem sinnt er af björgunarsveitum eru oftast tengd hjartasjúkdómum. Skráning á notkun búnaðar og meðferðar á vettvangi er ónákvæm og má bæta.
  • Meðferð gjörgæslusjúklinga með sjálfsprottnar innanskúmsblæðingar - yfirlitsgrein

   Eyrún Arna Kristinsdóttir; Sigrún Ásgeirsdóttir; Halldór Skúlason; Aron Björnsson; Vilhjálmur Vilmarsson; Kristinn Sigvaldason; 1 Svæfinga- og gjörgæslulækningum, 2 heila- og taugaskurðlækningum, 3 inngripsröntgenlækningum Landspítala (Læknafélag Íslands, 2021-11)
   Sjálfsprottnar innanskúmsblæðingar eru blæðingar inn í innanskúmshol heilans sem ekki eru afleiðingar áverka. Algengasta orsökin er brostinn æðagúll í slagæðakerfi heilans. Þessum blæðingum geta fylgt alvarlegir fylgikvillar, svo sem endurblæðing, æðasamdráttur og heilablóðþurrð. Dánartíðni er há og stór hluti þeirra sem lifir af situr uppi með langtíma afleiðingar blæðingarinnar. Lokun á blæðingarstað er lykilatriði í meðferð þessara sjúklinga en slíkt inngrip ber að framkvæma sem allra fyrst, eða innan 72 klukkustunda. Þörf er á nánu eftirliti á gjörgæsludeild þar sem áhersla er lögð á nákvæma blóðþrýstingsstjórnun, vöktun á vökvajafnvægi og blóðsöltum og náið eftirlit með meðvitundarstigi. Allir sjúklingar með sjálfsprottna innanskúmsblæðingu ætti að meðhöndla með kalsíumhemlinum nímódipíni sem sýnt hefur verið fram á að minnki hættuna á æðasamdrætti og heilablóðþurrð sem er meðal alvarlegustu fylgikvillar þessara blæðinga.
  • Þættir sem hafa áhrif á ákvörðun lækna um lyfjameðferð: Rannsókn í heilsugæslu á Íslandi

   Yrsa Ívarsdóttir; Jón Steinar Jónsson; Kristján Linnet; Anna Bryndís Blöndal; 1 Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, 2 Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, 3 læknadeild Háskóla Íslands. (Læknafélag Íslands, 2021-11)
   INNGANGUR Markmið rannsóknarinnar var að kanna ýmis atriði sem geta haft áhrif á ákvarðanir lækna í heilsugæslu á Íslandi um lyfjameðferð. Jafnframt hvaða atriði kynnu að vera hindrun við ákvarðanatöku. Að lokum að greina hvaða þættir gætu frekar auðveldað ákvarðanatöku. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Sendur var rafrænn spurningalisti með tölvupósti til allra starfandi lækna í heilsugæslu á Íslandi. Spurningalistinn var samsettur úr lokuðum spurningum, opnum textaboxum og röðunarspurningum. Excel var notað við greiningu gagnanna. NIÐURSTÖÐUR Alls svöruðu 93 læknar spurningalistanum og var svarhlutfallið 40,7%. Niðurstöðurnar sýna að læknar telja að klínískar leiðbeiningar, upplýsingar í sérlyfjaskrá og eigin reynsla séu mikilvægastar við val á lyfjameðferð. Þá eru læknar mjög sammála um að skortur á milliverkanaforriti sem tengist sjúkraskrá sjúklings sé hamlandi þáttur við ákvarðanatöku. Þau atriði sem mikilvægast væri að laga til að styðja við ákvarðanir lækna eru innlendir lyfjalistar og milliverkanaforrit sem tengist sjúkraskrá sjúklings. ÁLYKTUN Niðurstöður benda á þætti sem gagnast læknum í heilsugæslu við ákvörðun um lyfjaval, svo sem lyfjalista, milliverkanaforrit, aðgengilegar upplýsingar um lyfjameðferð sjúklinga, mismunandi tímalengd viðtala, gagnreyndar upplýsingar um ný lyf, aðkomu klínískra lyfjafræðinga að starfi heilsugæslu.
  • Breytingar í lungnavef á tölvusneiðmyndum sjúklinga með kórónuveirusjúkdóm 2019 (COVID-19)

   Arnljótur Björn Halldórsson; Gísli Þór Axelsson; Helgi Már Jónsson; Jóhann Davíð Ísaksson; Hrönn Harðardóttir; Gunnar Guðmundsson; Sif Hansdóttir; 1 Myndgreiningardeild Landspítala, 2 Læknadeild Háskóla Íslands, 3 Lungnadeild Landspítala (Læknafélag Íslands, 2021-10)
   INNGANGUR Sýking af völdum kórónuveiru sem veldur kórónuveirusjúkdómi 2019 (COVID-19) getur leitt til lungnabólgu sem í sumum tilvikum er lífshættuleg eða jafnvel banvæn. Þekkt er að þeir sem fá alvarlegri sjúkdóm hafa meiri breytingar í lungnavef á tölvusneiðmyndum (TS) af brjóstholi. Tilgangur rannsóknarinnar var að lýsa myndbreytingum í lungum í bráðafasa COVID-19 og í eftirliti og um leið að meta hvort umfang lungnabreytinga á TS hefði tengsl við alvarleika sjúkdómsins, bakgrunnsþætti og fyrra heilsufar. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Rannsóknin náði til allra einstaklinga með staðfest COVID-19 sem komu í eftirlit á göngudeild og fóru í TS eftirlitsrannsókn af brjóstholi á Landspítala frá 6. maí 2020 til 24. september 2020. Upplýsingar um sjúkrasögu sjúklinga voru fengnar úr gagnagrunni Landspítala á afturskyggnan máta. Allar tölvusneiðmyndir voru endurskoðaðar og notað var við alþjóðlegt stigunarkerfi til að meta umfang lungnabreytinga. NIÐURSTÖÐUR Alls voru 85 þátttakendur í rannsókninni, meðalaldur var 59 ár og karlar í meirihluta (52%). Sextíu (71%) lögðust inn á sjúkrahús, þar af 18 (21%) á gjörgæslu. Útbreiddari lungnabreytingar sáust oftar hjá karlmönnum og sjúklingum sem voru inniliggjandi á gjörgæslu. Jafnframt voru þeir líklegri til að þurfa öndunarvélameðferð. Í eftirliti sáust marktæk tengsl færri TS-stiga við kvenkyn en marktæk tengsl fleiri TS-stiga voru við hækkandi aldur, gjörgæslulegu og lengd gjörgæslulegu. Lungnabreytingar voru horfnar hjá tæplega þriðjungi þátttakenda við eftirlit (að miðgildi 68,5 dögum eftir bráðarannsókn). ÁLYKTUN Einstaklingar með alvarlegan COVID-19 hafa umfangsmeiri lungnabreytingar í bráðum veikindum og við eftirlit en þeir sem fá vægari sjúkdóm. Eldri einstaklingar og karlmenn eru í aukinni áhættu.
  • Gagnsemi serum-tryptasamælinga hjá sjúklingum með möguleg einkenni bráðaofnæmiskasts á bráðamóttöku 2011–2018

   Karólína Hansen1; Hjalti Már Björnsson; María I. Gunnbjörnsdóttir; 1 Læknadeild Háskóla Íslands, 2 Bráðadeild Landspítala, 3 Ofnæmisdeild Landspítala (Læknafélag Íslands, 2021-10)
   INNGANGUR Tiltölulega einfalt er að greina bráðaofnæmiskast í dæmigerðum tilfellum en birtingarmyndin getur þó verið fjölbreytt. Sýnt hefur verið fram á að hjá einstaklingum með ódæmigerð einkenni getur mæling á s-tryptasa verið gagnleg til viðbótar við klíníska greiningu læknis. Einnig nýtist mæling á s-tryptasa til að greina sjúkdóminn mastfrumnager. Byrjað var að nota s-tryptasamælingar á bráðamóttöku Landspítala árið 2011. Markmið rannsóknarinnar var að meta tíðni og gagnsemi s-tryptasamælinga hjá sjúklingum á bráðamóttöku. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Með leyfi siðanefndar heilbrigðisrannsókna á Landspítala voru skoðuð öll þau tilvik þar sem blóðsýni var sent frá bráðamóttöku til mælingar á s-tryptasa á ónæmisfræðideild á árunum 2011-2018. Upplýsingum var safnað úr sjúkraskrám um uppvinnslu og meðferð sjúklinga á bráðamóttöku og hjá ofnæmislækni. NIÐURSTÖÐUR Alls voru 214 sýni send til s-tryptasamælingar. Tryptasi var hækkaður (>12 μg/L) í 36 tilvikum. Konur voru 131 (61,2%) og meðalaldur var 40,6 ár. Algengi einkenna voru: húð- og slímhúðareinkenni 86,4%, blóðrásareinkenni 48,1%, öndunarfæraeinkenni 49,5% og meltingarfæraeinkenni 36,0%. Af 126 endurkomusjúklingum mat ofnæmislæknir 65 tilfelli sem bráðaofnæmiskast. Af þeim uppfylltu fjórir einstaklingar ekki klínísk greiningarskilmerki bráðaofnæmiskasts en voru með hækkuð tryptasagildi. Næmi s-tryptasamælingar var 40,9% og sértæki 97,1%. Ekkert tilfelli leiddi til greiningar mastfrumnagers. ÁLYKTANIR Mælingar á s-tryptasa hjá sjúklingum á bráðamóttöku með möguleg einkenni bráðaofnæmiskasts virðast veita gagnlegar upplýsingar til greiningar sjúkdómsins til viðbótar við klínískt mat. Mælingin er sértæk en með lágt næmi. Mælingarnar hafa ekki leitt til fjölgunar greininga á mastfrumnageri.
  • Þróun lyfjaávísana á ópíóíðalyf í heilsugæslu á árabilinu 2008 til 2017

   Sigríður Óladóttir; Jón Steinar Jónsson; Margrét Ólafía Tómasdóttir1; Hannes Hrafnkelsson; Emil Lárus Sigurðsson; 1 Læknadeild Háskóla Íslands, 2 Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, 3 Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu (Læknafélag Íslands, 2021-10)
   BAKGRUNNUR Undanfarna áratugi hefur ávísunum á ópíóíðalyf fjölgað mikið á Vesturlöndum. Aukinni notkun fylgir hætta á aukaverkunum, fíkn í ópíóíðalyf og andlátum tengdum ópíóíðum. Aukning ávísana á ópíóíðalyf hefur meðal annars verið rakin til breyttra viðhorfa til verkjameðferðar. Rannsóknir hafa sýnt að verkir eru meðal algengustu ástæðna þess að fólk leitar til lækna og langvinnir verkir eru algengir. Samanborið við önnur norræn lönd eru ávísanir á ópíóíða hlutfallslega flestar á Íslandi. Tilgangurinn var að kanna þróun ávísana á ópíóíðalyf í heilsugæslunni fyrir alla aldurshópa á tímabilinu 2008–2017. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Rannsóknin náði til allra ávísana á ópíóíðalyf hjá öllum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu 2008–2017. Íbúafjöldi á höfuðborgarsvæðinu var á þessu tímabili um 201 til 222 þúsund. Gögn voru fengin úr Sögukerfi heilsugæslunnar og rúmlega 68.000 einstaklingar höfðu fengið ávísun á ópíóíðalyf á rannsóknartímabilinu. NIÐURSTÖÐUR Á rannsóknartímabilinu varð 17,2% (p<0,01) aukning á skilgreindum sólarhringsskömmtum/1000 íbúa/dag á ópíóíðum. Um þriðjungur þeirra sem fengu ávísun voru karlar og var hlutfallið óbreytt milli ára. Hlutfallslega varð mest aukning í SSS/1000 íbúa/dag í aldurshópnum 90 ára og eldri, eða 40,5% (p<0,01). Hlutfallslega fjölgaði mest einstaklingum sem fengu ópíóíðalyf í aldursflokknum 30–39 ára, eða um 25,5% (p<0,01). Ávísunum fjölgaði í öllum lyfjaflokkum, mælt í SSS/1000 íbúa/dag, um 15,3% (p<0,01) á parkódín, 20,7% (p<0,01) á parkódín forte, 4,7% (p<0,01) á tramadól og 85,6% (p<0,01) á mjög sterk ópíóíðalyf. ÁLYKTANIR Þróun lyfjaávísana á allar tegundir ópíóíðalyfja til skjólstæðinga heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu á árunum 2008–2017, þar sem ávísunum á mjög sterk ópíóíðalyf fjölgaði mest hlutfallslega, ætti að hvetja til endurskoðunar á verkjameðferð innan heilsugæslunnar og gæðaþróunar á því sviði. Jafnframt ættu niðurstöðurnar að hvetja til endurmats á vinnulagi við endurnýjum ávísana á ópíóíðalyf í heilsugæslu.