• Heilsuhagfræðilegt mat á þverfaglegri verkjameðferð á Reykjalundi - Ein króna í endurhæfingu – átta til baka

   Magnús Ólason; Héðinn Jónsson; Rúnar H. Andrason; Inga H. Jónsdóttir; Hlín Kristbergsdóttir; 1) Reykjalundi, endurhæfingarmiðstöð SÍBS, 2) Embætti landlæknis, 3) sálfræðideild Háskólans í Reykjavík. (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2020-01)
   TILGANGUR Fáar rannsóknir hafa metið langtímaárangur þverfaglegrar verkjameðferðar þó árangur til skemmri tíma sé vel þekktur. Hér er lýst árangri slíkrar meðferðar á Reykjalundi, endurhæfingarmiðstöð SÍBS, með þriggja ára eftirfylgd. Sérstaklega er fjallað um heilsuhagfræðilegan ávinning af meðferðinni. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Um kerfisbundið slembiúrtak var að ræða þar sem fimmta hver beiðni um meðferð á verkjasviði Reykjalundar var valin til þátttöku. Gagnasöfnun stóð yfir í fjögur og hálft ár og eftirfylgd lauk þremur árum síðar. Heilsuhagfræðileg úttekt var gerð að rannsókn lokinni. NIÐURSTÖÐUR Helstu niðurstöður eru þær að sjúklingar upplifa minni verki, minni ótta og hliðrun tengda vinnufærni, færri þunglyndis- og kvíðaeinkenni og upplifa meiri félagslega færni eftir meðferð. Vinnugeta hópsins í heild jókst og fór vinnufærni úr 36% í 47% eftir meðferðina og við þriggja ára eftirfylgd voru 57% vinnufærir. Heilsuhagfræðileg úttekt sýndi að meðferðin hafði borgað sig upp á þremur árum og ávinningurinn jókst út lífið. ÁLYKTANIR Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að þverfagleg endurhæfingarmeðferð gegn þrálátum verkjum skilar árangri varðandi færni, verki og sálfélagslegar afleiðingar þeirra. Heilsuhagfræðilegur ávinningur af meðferðinni er verulegur og miðað við vísitölu neysluverðs í október 2018 skilar kostnaður af meðferðinni sér áttfalt til baka til samfélagsins.
  • Fósturgreining og meðgöngusjúkdómar, undirsérgrein fæðingaog kvensjúkdómalækninga - Yfirlitsgrein

   Hildur Harðardóttir; Kvennadeild Landspítala og læknadeild Háskóla Íslands. (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2020-01)
   Læknisfræði fósturs er undirsérgrein fæðinga- og kvensjúkdómalækninga og lýtur að rannsóknum á þróun, vexti og sjúkdómum fóstra. Það má telja eðlilegt að hafa eina sérgrein fyrir þá órjúfanlegu heild sem móðir og fóstur mynda og er íslenska undirsérgreinin í samræmi við það og ber heitið fósturgreining og meðgöngusjúkdómar (FM). Stórstígar framfarir hafa átt sér stað í FM hvað varðar myndgreiningu fóstra með ómskoðun og segulómun. Einnig á sviði erfða- og sameindalæknisfræði við sjúkdómsgreiningar með kjarnsýrutækni auk þess sem aðgerðir á fóstrum eru nú mögulegar í vissum tilfellum. Í vinnu við fósturgreiningar er samstarf við fjölmarga aðra sérfræðinga mikilvægt, til dæmis nýburalækna, barnalækna í ýmsum undirsérgreinum, barnaskurðlækna, erfðalækna og lækna sem vinna á sviði myndgreiningar. Í stærri samfélögum starfa FM-læknar gjarnan sem ráðgefandi fyrir fæðingalækna og aðra sérgreinalækna auk þess að vinna við fósturskimanir, greiningar og meðferð. Hér á landi er sérhæfing styttra á veg komin. Hér eru tekin dæmi um verkefni FM-lækna og lýst hvernig tækniframfarir hafa breytt fósturskimun fyrir litningafrávikum, eftirliti og meðferð við rhesus-varnir auk aðgerða á fósturskeiði. Þá er sagt frá samstarfi norrænna FM-lækna.
  • Greining meðfæddra missmíða í miðtaugakerfi hjá fóstrum og nýburum á Íslandi 1992-2016

   Ásdís Björk Gunnarsdóttir; Sara Lillý Þorsteinsdóttir; Hulda Hjartardóttir; Hildur Harðardóttir; ¹Læknadeild Háskóla Íslands, ²fósturgreiningardeild kvennadeildar Landspítala. (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2019-12)
   INNGANGUR Nýgengi meðfæddra missmíða í miðtaugakerfi fóstra og nýbura á Íslandi 1992-2016 var skoðað, ásamt tímasetningu greiningar, búsetu mæðra, tíðni þekktra áhættuþátta og afdrifum fóstra/barna. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Rannsóknin var afturskyggn. Rannsóknarþýðið samanstóð af öllum fóstrum og nýburum sem greindust með meðfædda missmíð í miðtaugakerfi á rannsóknartímabilinu og mæðrum þeirra. Upplýsingar fengust úr Fæðingaskrá Embættis landlæknis og sjúkraskrám mæðra og barna. Við gagnaúrvinnslu var notuð lýsandi tölfræði og ályktunartölfræði. NIÐURSTÖÐUR Á rannsóknartímabilinu greindust árlega 3-12 tilfelli af meðfæddri missmíð í miðtaugakerfi. Árlegt nýgengi var skoðað og 5 ára tímabil borin saman. Nýgengi var á bilinu 1,4-2,4/1000 nýburar, hæst árin 2012-2016. Tæplega 90% tilfellanna greindust á fósturskeiði og af þeim enduðu 80% með meðgöngurofi. Greiningarhlutfall á fósturskeiði var marktækt hærra hjá mæðrum á höfuðborgarsvæðinu en annars staðar á landinu (94 á móti 80%; p=0,006). Meðalmeðgöngulengd við greiningu heilaleysis var 19,3 vikur 1992-1996 en 11,6 vikur 2012-2016 (p=0,006). Tíðni þekktra áhættuþátta meðal mæðra var lág, fyrir utan offitu mæðra á tímabilinu 2012-2016 (23%). Af 57 lifandi fæddum börnum voru 37 (65%) enn á lífi þegar rannsóknin fór fram. ÁLYKTUN Nýgengi meðfæddra missmíða í miðtaugakerfi var stöðugt og áhættuþættir sjaldnast þekktir. Um 90% tilfella greindust á fósturskeiði og heilaleysi greindist marktækt fyrr við lok rannsóknartímabilsins samanborið við upphaf þess. Það má skýra með tilkomu almennrar fósturskimunar við 11-14 vikur frá árinu 2003 auk bættrar þjálfunar heilbrigðisstarfsfólks og betri tækjabúnaðar. Munur á greiningarhlutfalli á fósturskeiði milli landshluta getur skýrst af færri ómskoðunum í minni heilbrigðisumdæmum sem hefur áhrif á sérhæfingu við greiningu fósturfrávika.
  • Blæðingar frá meltingarvegi í íslensku og erlendu samhengi – yfirlitsgrein

   Jóhann P. Hreinsson; Einar S. Björnsson; 1) Meltingarlækningum, lyflækningasviði Sahlgrenska sjúkrahússins í Gautaborg, Svíþjóð, 2) Læknadeild Háskóla Íslands og meltingarlækningum, lyflækningasviði Landspítala (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2019-12)
   Bráð blæðing frá meltingarvegi er algeng ástæða komu á bráðamóttöku og innlagnar á spítala. Þessum blæðingum er vanalega skipt í efri og neðri meltingarvegarblæðingar. Í þessari yfirlitsgrein verður farið yfir nýgengi þessara blæðinga, áhættuþætti, orsakir, þátt blóðþynningarlyfja, mat á alvarleika blæðinga, meðferðarúrræði og horfur. Reynt verður að varpa ljósi á þetta viðfangsefni í íslensku heilbrigðiskerfi en einnig í víðara samhengi.
  • Hæðarveiki og tengdir sjúkdómar

   Tómas Guðbjartsson; Engilbert Sigurðsson; Magnús Gottfreðsson; Ólafur Már Björnsson; Gunnar Guðmundsson; 1) Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2) Læknadeild Háskóla Íslands, 3) Geðsviði Landspítala, 4) Vísindadeild, 5) Smitsjúkdómadeild Landspítala, 6) Sjónlag augnlæknastöð, 7) Lungnadeild Landspítala (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2019-11)
   Þegar komið er yfir 2500 m hæð yfir sjávarmáli geta einkenni hæðarveiki gert vart við sig innan nokkurra daga. Áhættan ræðst einkum af hæð og hraða hækkunar og einkennin eru fjölbreytt. Háfjallaveiki er langalgengust en lífshættulegur hæðarheilabjúgur og hæðarlungnabjúgur geta einnig komið fram. Orsök hæðarveiki er súrefnisskortur og ófullnægjandi hæðaraðlögun, en meingerð sjúkdómanna sem hæðarveikin getur valdið ræðst af viðbrögðum líkamans við súrefnisskorti. Algengustu einkenni háfjallaveiki eru höfuðverkur, þreyta, slappleiki, ógleði og lystarleysi, en svefntruflanir og meltingaróþægindi eru sömuleiðis algengar kvartanir. Algengustu einkenni hæðarlungnabjúgs eru mæði og þróttleysi en helstu einkenni hæðarheilabjúgs eru jafnvægistruflanir auk þess sem ruglástand getur þróast og meðvitundarskerðing átt sér stað. Hér er fjallað um öll þessi þrjú birtingarform hæðarveiki, fyrirbyggjandi ráðstafanir og meðferð en einnig nýja þekkingu á meingerð.
  • Áhrif hjartaendurhæfingar á líkamlega afkastagetu einstaklinga með hjartabilun

   Kristín Elísabet Hólmgeirsdóttir; Brynjólfur Gauti Jónsson; Thor Aspelund; Gunnar Guðmundsson; Janus Guðlaugsson; 1) HL-stöðin í Reykjavík, 2) Endurhæfingardeild Landspítala, 3) Tölfræðiráðgjöf heilbrigðisvísindasviðs, 4) Læknadeild Háskóla Íslands, 5 Janus heilsuefling (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2019-11)
   TILGANGUR Takmarkaðar upplýsingar er að finna um árangur hjartaendurhæfingar fyrir hjartabilaða einstaklinga á Íslandi. Markmið þessarar rannsóknar var að greina hvort hjartaendurhæfing (stig ll) á HL-stöðinni í Reykjavík skilaði aukinni líkamlegri afkastagetu (w/kg) á hámarksþolprófi í lok þjálfunartímabils. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Þetta er afturskyggn gagnarannsókn frá janúar 2010 til júní 2018. Þátttakendur voru sjúklingar með hjartabilun og einnig sjúklingar með útstreymisbrot hjarta 45% eða minna. Aldur og aðrar sjúkdómsgreiningar takmörkuðu ekki þátttöku. Upplýsingar um útstreymisbrot hjarta og þolpróf við upphaf og lok þjálfunartímabils þurftu að vera skráðar. Hlutfallsleg breyting á þolprófunum var metin með almennum línulegum líkönum fyrir endurteknar mælingar. Á rannsóknartímabili voru skráðir 112 þátttakendur, 27 luku ekki þjálfunartímabili og 9 voru með ófullnægjandi gögn. Greind voru gögn 76 þátttakenda á aldrinum 36-83 ára. NIÐURSTÖÐUR Líkamleg afkastageta þátttakenda jókst að meðaltali um 16% (p<0,001; öryggisbil 13-18%). Þeir sem mættu í þjálfun að jafnaði oftar en tvisvar í viku bættu líkamlega afkastagetu sína um 18% sem er marktækt meira en þeir sem mættu tvisvar sinnum eða sjaldnar en þeir bættu sig um 6%. Eldri aldurshópurinn (65-83) bætti sig um 19% sem er marktækt meira en yngri aldurshópinn (36-64) sem bætti sig um 12%. Ekki reyndist marktækur munur á bætingu eftir því hvort útstreymisbrot hjarta var undir 40% eða 40% og hærra. ÁLYKTANIR Markviss hjartaendurhæfing fyrir einstaklinga með hjartabilun og einstaklinga með skert útstreymisbrot hjarta skilar sér í aukinni líkamlegri afkastagetu í lok æfingatímabils
  • Efnahagskreppur og tíðni sjálfsvíga á Íslandi 1911-2017

   Högni Óskarsson; Kristinn Tómasson; Sigurður Páll Pálsson; Helgi Tómasson; 1) Humus ehf., 2) Lækning, 3) Réttar- og öryggisdeild geðsviðs Landspítala, 4 Hagfræðideild Háskóla Íslands (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2019-11)
   INNGANGUR Sjálfsvíg eru í 16. sæti yfir dánarorsakir í veröldinni. Beinar orsakir eru ekki alltaf þekktar, en tengjast oft þunglyndi og ytri áföllum. Dregið hefur úr tíðni sjálfsvíga á heimsvísu undanfarna áratugi. Efnahagshrunið 2008 jók víða tíðni sjálfsvíga. Margir skekkjuvaldar hafa áhrif á samanburð milli landa. Markmið rannsóknarinnar er að kanna áhrif efnahagskreppna á sjálfsvíg á Íslandi. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Stuðst er við sjálfsvígstölur frá 1911 til 2017 og möguleg áhrif 6 efnahagskreppna á tíðni sjálfsvíga. Ísland hefur farið í gegnum 6 efnahagskreppur: 1918, 1931, 1948, 1968, 1991 og 2008. Reiknað er nýgengi 5 og 10 ár fyrir og eftir upphafsár hverrar kreppu. Til að reikna áhrif kreppna á öllu tímabilinu er stuðst við Poissonlíkan fyrir talningargögn. Tekið er tillit til þess að breytileiki geti verið umfram það sem Poisson-líkanið segir til um og er því umframdreifni metin. Þróun breytileika yfir tímabili er lýst með uppsafnaðri summu staðlaðra kvaðratfrávika (CUSUMSQ). NIÐURSTÖÐUR Tíðni sjálfsvíga jókst fram eftir síðustu öld en tók að lækka um 1990. Miklar sveiflur eru í tíðni, þó reiknuð séu meðaltöl 5 ára tímabila. Aukningu sjálfsvíga má sjá 1931 og 1948, litlar breytingar 1968 og 2008, og lækkun 1918 og 1991. Uppsveiflur koma líka utan krepputímabilanna. Sveiflur á tímabilinu eru í samræmi við það sem vænta má samkvæmt Poisson-líkani. ÁLYKTUN Samkvæmt niðurstöðunum er ekki samband milli sjálfsvígstíðni og sveiflna í efnahagslífi Íslands, samanber tölfræðilegar niðurstöður. Þess ber að geta að niðurstaðan byggir á tíðni þjóðar og útilokar ekki að efnahagsleg áföll hafi áhrif á einstaklinga.
  • Ávísanir á þunglyndislyf, róandi lyf og svefnlyf hjá ungu fólki fyrir og eftir bankahrun - Þversniðsrannsókn í Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

   Árni Arnarson; Jón Steinar Jónsson; Margrét Ólafía Tómasdóttir; Emil Lárus Sigurðsson; 1 Heimilislæknisfræði, læknadeild Háskóla Íslands, 2 Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, 3 Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu. (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2019-10)
   BAKGRUNNUR Haustið 2008 var efnahagskreppa hér á landi og hafa rannsóknir sýnt fram á bæði fjárhagslegar og heilsutengdar afleiðingar. Einnig er vel þekkt að lyfjanotkun hér á landi hefur verið meiri en á Norðurlöndunum og á það meðal annars við um þunglyndislyf, róandi lyf og svefnlyf. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna þróun ávísana á ofangreind lyf í Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á tímabilinu 2006-2016 hjá einstaklingum 18-35 ára. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Rannsóknin náði til allra ávísana á þunglyndislyf, róandi lyf og svefnlyf hjá 18-35 ára skjólstæðingum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á tímabilinu 2006-2016. Fjöldi íbúa á höfuðborgarsvæðinu í aldurshópnum var um 55.000 á tímabilinu. Gögn voru fengin úr „Sögu“, rafrænu sjúkraskrárkerfi heilsugæslunnar, fyrir tæplega 23.000 einstaklinga. NIÐURSTÖÐUR Á rannsóknartímabilinu fjölgaði ávísuðum dagsskömmtum róandi lyfja að meðaltali um 3,0% (p<0,001) milli ára, svefnlyfja um 1,6% (p<0,001) og þunglyndislyfja um 10,5% (p<0,001). Frá 2008-2009 fjölgaði ávísuðum dagsskömmtum róandi lyfja um 22,7% (p<0,001), þar af um 12,9% (p<0,001) hjá konum og 39,5% (p<0,001) hjá körlum. Af þeim körlum sem fengu ávísað róandi lyfjum árið 2009 höfðu 35% þeirra ekki fengið ávísað lyfjunum árið áður. Frá 2006-2008 var að meðaltali 13,6% (p<0,001) aukning á milli ára í útskrifuðum dagsskömmtum svefnlyfja, þar af 24,4% (p<0,001) aukning hjá körlum og 7,8% (p<0,001) hjá konum. ÁLYKTANIR Rannsóknin sýnir auknar ávísanir á svefnlyf og róandi lyf í aðdraganda efnahagshrunsins, sérstaklega til karla. Á sama tíma sést ekki samskonar aukning á ávísuðu magni þunglyndislyfja sem bendir til þess að skammvirkum fljótvirkum lyfjum hafi verið ávísað í tengslum við erfiðar persónulegar aðstæður í kringum hrunið.
  • Loftmengun á Íslandi og áhrif hennar á heilsu manna - Yfirlitsgrein

   Gunnar Guðmundsson; Ragnhildur Guðrún Finnbjörnsdóttir; Þorsteinn Jóhannsson; Vilhjálmur Rafnsson; 1 Lungnadeild Landspítala, 2 rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, læknadeild Háskóla Íslands, 3 Umhverfisstofnun, teymi loftslags og loftgæða, 4 lýðheilsustöð læknadeildar Háskóla Íslands (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2019-10)
   Í þessari grein er fjallað um loftmengun á Íslandi og áhrif hennar á heilsu manna. Loftmengun má lýsa sem ástandi þar sem styrkur efna eða efnasambanda í andrúmslofti er orðinn það hár að hann veldur óæskilegum eða skaðlegum áhrifum á heilsu almennings eða óæskilegum áhrifum á náttúru eða mannvirki. Loftmengun getur verið af manna völdum, svo sem vegna bruna jarðefnaeldsneytis, eða náttúruleg, til dæmis vegna eldgosa, frá jarðhitasvæðum og í foki jarðvegsefna. Loftmengun dregur úr lífsgæðum og lífslíkum manna. Áhrifum loftmengunar á heilsu manna má skipta annars vegar í bein heilsufarsleg áhrif þar sem loftmengunin veldur sjúkdómum og hins vegar óbein áhrif þar sem loftmengunin eykur einkenni undirliggjandi sjúkdóma. Heilsuverndarmörk eru skilgreind fyrir ákveðin loftmengunarefni í andrúmslofti. Þeim er ætlað að vera viðmið fyrir hvað telst skaðlaust fyrir einstaklinginn og eru sett til að tryggja heilsu manna til lengri tíma. Loftgæði utandyra hafa verið mæld reglubundið í Reykjavík síðan 1986. Fyrstu árin var eingöngu mælt svifryk á einni mælistöð sem þá var staðsett við Miklatorg. Með árunum hefur fjölgað þeim efnum sem mæld eru og bæst hafa við fleiri mælistöðvar. Loftgæði eru almennt talin mikil á Íslandi og er styrkur mengunarefna í andrúmslofti að jafnaði innan skilgreindra viðmiða. Þetta skýrist af margvíslegum þáttum eins og stærð landsins, legu þess og veðurfari. Náttúruhamfarir geta valdið loftmengun eins og sýndi sig í eldgosum síðustu ára. Rannsóknir hafa verið gerðar á tengslum loftmengunar við heilsufar Íslendinga og æskilegt er að fleiri rannsóknir verði framkvæmdar til að bæta þekkinguna á loftmengun á Íslandi enn frekar.
  • Heilsa og lifun íbúa fyrir og eftir setningu strangari skilyrða fyrir flutningi á hjúkrunarheimili 2007

   Ingibjörg Hjaltadóttir; Kjartan Ólafsson; Árún K. Sigurðardóttir; Ragnheiður Harpa Arnardóttir; 1 Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 2 flæðisviði Landspítala, 3 hugog félagsvísindasviði Háskólans á Akureyri, 4 heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri, 5 deild mennta og vísinda á Sjúkrahúsinu á Akureyri, 6 endurhæfingardeild Sjúkrahússins á Akureyri, 7 lungna-, ofnæmis- og svefnrannsóknasviði læknavísindadeildar Uppsalaháskóla, Svíþjóð. (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2019-10)
   INNGANGUR Fjölmargir þættir hafa áhrif á þjónustuþörf og lifun íbúa hjúkrunarheimila, meðal annars inntökuskilyrði fyrir flutningi á hjúkrunarheimili. Markmið rannsóknarinnar var að athuga hvort munur væri á heilsufari, lifun og forspárgildi mismunandi heilsufars- og færnivísa fyrir eins og tveggja ára lifun þeirra sem fluttu inn á íslensk hjúkrunarheimili á árunum 2003-2007 annars vegar og 2008-2014 hins vegar. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Lýsandi, afturskyggn samanburðarrannsókn. Gögnin fengust úr gagnagrunni á vegum Embættis landlæknis yfir allar interRAI-matsgerðir á íslenskum hjúkrunarheimilum frá 1. janúar 2003 til og með 31. desember 2014 (N=8487). NIÐURSTÖÐUR Marktækur munur var á heilsu og lifun nýrra íbúa hjúkrunarheimila fyrir og eftir 31. desember 2007. Á seinna tímabilinu var meðalaldur 82,7 ár, en 82,1 ár á hinu fyrra og tíðni Alzheimer-sjúkdóms, blóðþurrðarsjúkdóms í hjarta, hjartabilunar, sykursýki og langvinnrar lungnateppu jókst. Eins árs lifun lækkaði úr 73,4% í 66,5% eftir 1. janúar 2008 og tveggja ára lifun úr 56,9% í 49,1%. Sterkustu áhættuþættirnir fyrir dauðsfalli innan eins og tveggja ára frá komu á báðum tímabilum voru sjúkdómsgreiningarnar hjartabilun og langvinn lungnateppa, auk fleiri stiga á lífskvarðanum og langa ADL-kvarðanum. ÁLYKTUN Í kjölfar reglugerðarbreytingar 2007 voru þeir sem fluttu á hjúkrunarheimili eldri og veikari við komu og lifðu skemur eftir vistaskiptin en þeir sem fluttu inn fyrir breytingu. Niðurstöðurnar benda til að markmið reglugerðarbreytingarinnar, að forgangsraða þeim sem voru veikastir, hafi því náðst. Því má telja líklegt að umönnunarþörf íbúa sé önnur og meiri en áður.
  • Lotuofátskvarðinn. Athugun á réttmæti og klínísku gildi kvarðans.

   Jóhanna Vigfúsdóttir; Helma Rut Einarsdóttir; Ingunn Hansdóttir; 1) Háskóli Íslands 2) Reykjalundur Endurhæfingarmiðstöð SÍBS 3) Háskóli Íslands (Sálfræðingafélag Íslands, 2019-10)
   Tilgangur rannsóknarinnar var að meta próffræðilega eiginleika Lotuofátskvarðans (e. Binge Eating Scale) og tengsl hans við aðrar klínískar breytur (depurðareinkenni og lotugræðgi). Lotuofátskvarðinn er 16 atriða sjálfsmatslisti ætlað að meta vanda tengdan átköstum og hefur verið notaður til að skima fyrir lotuofátsröskun hjá fólki sem glímir við offitu. Kvarðinn var lagður fyrir fimm hópa: þrjá hópa einstaklinga í offitumeðferð (n=53), einstaklinga með lotugræðgi (n=12) og samanburðarhóp (n=26). Niðurstöður sýndu að hlutfall lotuofátsröskunar meðal skjólstæðinga í offitumeðferð var 24,5%. Kvarðinn reyndist hafa góðan innri áreiðanleika og styðja niðurstöður réttmæti túlkunar á niðurstöðum kvarðans. Skimunareiginleikar Lotuofátskvarðans voru góðir (næmi 77% og sérhæfni 98%) og gefa vendigildi 24–25 besta samspil næmis og sérhæfni. Niðurstöður sýna að próffræðilegir eiginleikar Lotuofátskvarðans eru viðunandi. Getur kvarðinn því nýst í klínísku starfi hérlendis en mikilvægt er að hafa mælitæki með raunprófaða eiginleika til að meta einkenni lotuofátsröskunar hjá þeim sem eru í offitumeðferð svo að bæta megi meðferðarárangur.
  • Nárakviðslit – yfirlitsgrein

   Marta Rós Berndsen; Tómas Guðbjartsson; Fritz H. Berndsen; 1 Sahlgrenska háskólasjúkrahúsið í Gautaborg, Svíþjóð, 2 skurðsviði Landspítala, 3 læknadeild Háskóla Íslands, 4 handlækningadeild Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, Akranesi. (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2019-09)
   Nárakviðslit eru algengust kviðslita og eru 90% sjúklinganna karlmenn en þriðjungur karla greinist einhvern tíma á ævinni með slíkt kviðslit. Algengast er að kviðslit greinist hjá börnum og eftir miðjan aldur, oftast vegna fyrirferðar og verkja á nárasvæði en í einstaka ­tilfellum í kjölfar garnastíflu. Skurðaðgerð er eina læknandi meðferðin við nárakviðsliti og er hún ein algengasta aðgerð sem framkvæmd er. Aðgerðin er oftast gerð sem valaðgerð annaðhvort í staðdeyfingu, mænudeyfingu eða svæfingu. Þá er bakveggur nárans styrktur, oftast með neti, og er bæði hægt að gera aðgerðina opið að framanverðu eða að innanverðu með holsjáraðgerð. Helstu vandamál eftir aðgerð eru endurtekin kviðslit og langvarandi verkir en með notkun neta og betri aðgerðartækni hefur tíðni endurtekinna kviðslita lækkað umtalsvert. Í þessari yfirlitsgrein er fjallað um tíðni, orsakir og meðferð nárakviðslita með áherslu á nýjungar í skurðmeðferð.
  • Algengi svefntruflana hjá fólki með MS

   Aðalbjörg Albertsdóttir; Árún K. Sigurðardóttir; Björg Þorleifsdóttir; 1 Taugasviði Reykjalundar, 2 heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri, 3 Sjúkrahúsinu á Akureyri, 4 Lífeðlisfræðistofnun læknadeildar Háskóla Íslands (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2019-09)
   INNGANGUR Samkvæmt erlendum rannsóknum eru svefntruflanir hjá fólki með MS algengar, stórlega vangreindar og hafa áhrif á heilsu. Tilgangur rannsóknarinnar var að afla upplýsinga um algengi skertra svefngæða og helstu svefntruflana hjá MS-greindum á Íslandi. AÐFERÐ Lýsandi þversniðsrannsókn. Þýðið var MS-greindir á Íslandi og úrtakið MS-greindir sem voru á netpóstlista MS-félagsins og/eða höfðu aðgang að Facebook-síðu MS-félagsins. Rafrænn spurningalisti með fjórum matskvörðum og bakgrunnsbreytum, auk spurninga um greinda svefnsjúkdóma, var útbúinn og starfsfólk MS-félagsins sendi vefslóðina á úrtakið. Matskvarðar: Svefngæðakvarðinn (Pittsburgh- Sleep-Quality-Index; PSQI), Svefnleysiskvarðinn (Insomnia-Severity-Index; ISI), STOP-Bang-spurningalistinn og greiningarskilmerki fótaóeirðar. Með matskvörðum og stökum spurningum var skimað fyrir algengi skertra svefngæða og algengi 7 mismunandi þátta sem geta truflað svefn. Gögn voru greind með lýsandi og greinandi tölfræði og SPSS-útgáfa 25 var notuð við tölfræðiútreikninga. NIÐURSTÖÐUR Tæp 40% MS-greindra á Íslandi tóku þátt. Þátttakendur voru 234, meðalaldur var 47 ár (aldursbil 20-92 ára) og 77% voru konur. Algengi skertra svefngæða (>5 stig á PSQI) var 68%. Fjórir algengustu þættirnir sem trufluðu svefn voru: salernisferðir (39%), verkir (37%), einkenni svefnleysis (30%) og einkenni kæfisvefns (24%). Í ljós kom að 79% þátttakenda höfðu minnst eina svefntruflun og að meðaltali höfðu þátttakendur tæpar tvær svefntruflanir hver. Einkenni svefnleysis höfðu sterk tengsl við lítil svefngæði. ÁLYKTANIR Bregðast þarf við hárri tíðni skertra svefngæða og svefntruflana hjá MS-greindum. PSQI getur gagnast við mat á svefngæðum og gefið vísbendingar um hvað þarfnast nánari skoðunar. Til að auka svefngæði MS-greindra almennt ætti sérstaklega að horfa til greiningar og meðferðar á svefnleysi.
  • Frumkomin trefjunargallgangabólga á Íslandi 1992-2012

   Hafsteinn Óli Guðnason; Jón Örvar Kristinsson; Óttar Már Bergmann; Sigurður Ólafsson; Jón Gunnlaugur Jónasson; Einar Stefán Björnsson; 1 Meltingardeild, 2 meinafræðideild Landspítala, 3 læknadeild Háskóla Íslands (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2019-09)
   INNGANGUR Frumkomin trefjunargallgangabólga er langvinnur bólgusjúkdómur í gallvegum innan og/eða utan lifrar sem getur valdið skorpulifur, lokastigs lifrarbilun og leitt til lifrarígræðslu. Bólgusjúkdómar í meltingarvegi, fyrst og fremst sáraristilbólga, er algengur áhættuþáttur. Hæsta nýgengi fullorðinna sem hefur verið birt var 1,2-1,3/100.000 í Noregi og Svíþjóð og 60-76% höfðu bólgusjúkdóm í meltingarvegi. Markmið þessarar fyrstu rannsóknar sjúkdómsins á Íslandi var að kanna faraldsfræði hans frá árunum 1992-2012 og afdrif sjúklinganna. AÐFERÐIR Leit var framkvæmd í gagnagrunnum Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri að sjúkdómsgreiningunni: K83.0, „Gallgangabólga“, frá 1992 til 2012. Að auki var gerð leit að sjúklingum með yfirferð á öllum gallvegaspeglunum og segulómunum af gallvegum sem framkvæmdar voru á Landspítala 1992-2012. Einnig var gerð textaleit bæði í gagnagrunnum beggja spítalanna og í gagnagrunni meinafræðinnar fyrir lifrarsýni. NIÐURSTÖÐUR Alls fundust 42 sjúklingar með sjúkdóminn innan umrædds tímabils. Miðgildi aldurs við greiningu var 34 ára, 67% voru karlkyns og 90% fullorðnir (≥18 ára). Meðalnýgengi á ári var 0,69/100.000 manns á rannsóknartímabilinu. Alls 88% sjúklinga reyndust vera með bólgusjúkdóm í meltingarvegi, þar af 89% sjúklinga með sáraristilbólgu. Sjö sjúklingar hafa verið greindir með krabbamein, þar af fjórir með meinið í gallgöngum og einn í gallblöðru. Innan tímabilsins dóu 5 sjúklingar (12%), 51 mánuði (miðgildi) frá greiningu og þar af þrír úr gallgangakrabbameini 51 mánuðum (miðgildi) frá greiningu. Þrír (7%) þurftu lifrarígræðslu, þar af einn í tvígang. ÁLYKTANIR Nýgengi á Íslandi reyndist lægra en í nágrannalöndum okkar í Skandinavíu. Það er óljóst hvort það stafar af vangreiningu tilfella og/eða að sjúkdómurinn sé sjaldgæfari á Íslandi en í Noregi og Svíþjóð. Alls 7% þurftu á lifrarígræðslu að halda og 12% dóu úr sjúkdómnum, aðallega vegna gallgangakrabbameins.
  • Engin marktæk tengsl offitu og lifunar eftir kransæðahjáveituaðgerð

   Þórdís Þorkelsdóttir; Hera Jóhannesdóttir; Linda Ósk Árnadóttir; Jónas Aðalsteinsson; Helga Rún Garðarsdóttir; Daði Helgason; Tómas Andri Axelsson; Sólveig Helgadóttir; Alexandra Aldís Heimisdóttir; Martin Ingi Sigurðsson; et al. (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2019-07)
   Inngangur: Markmið rannsóknarinnar var að kanna langtímaárangur kransæðahjáveituaðgerða hjá sjúklingum sem þjást af offitu. Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 1698 sjúklingum sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala 2001-2013. Sjúklingunum var skipt upp í fjóra hópa eftir líkamsþyngdarstuðli (LÞS); i) kjörþyngd=18,5-24,9 kg/m2 (n=393), ii) ofþyngd=25-29,9 kg/m2 (n=811), iii) offita=30-34,9 kg/m2(n=388) og iv) mikil offita ≥35 kg/m2 (n=113). Sjö sjúklingar með LÞS <18,5 kg/m2 voru útilokaðir úr rannsókninni. Snemmkomnir fylgikvillar og 30 daga dánartíðni voru skráð auk eftirfarandi langvinnra fylgikvilla: hjartaáfalls, heilablóðfalls, þarfar á endurhjáveituaðgerð, kransæðavíkkunar með eða án kransæðastoðnets og dauða (major adverse cardiac and cerebrovascular events, MACCE). Hóparnir voru bornir saman með áherslu á langtímalifun og MACCE-fría lifun (Kaplan-Meier) og forspárþættir lifunar fundnir með Cox-aðhvarfsgreiningu. Meðaltal eftirfylgdar var 5,6 ár. Niðurstöður: Sjúklingar með mikla offitu reyndust vera að meðaltali 6,0 árum yngri en sjúklingar í kjörþyngd, hlutfall karla var hærra og þeir höfðu oftar áhættuþætti kransæðasjúkdóms, auk þess sem EuroSCORE II þeirra var lægra (1,6 sbr. 2,7, p=0,002). Tíðni alvarlegra snemmkominna fylgikvilla og 30 daga dánartíðni (2%) var sambærileg milli hópa, líkt og langtímalifun (í kringum 90% eftir 5 ár, log-rank próf, p=0,088) og lifun án MACCE (í kringum 80% eftir 5 ár, log-rank próf, p=0,7). Í aðhvarfsgreiningu reyndist LÞS hvorki sjálfstæður forspárþáttur langtímalifunar (HH: 0,98 95% ÖB: 0,95–1,01) né MACCE-frírrar lifunar (HH: 1,0 ÖB: 0,98-1,02). Ályktun: Sjúklingar með offitu sem gangast undir kransæðahjáveitu á Landspítalanum eru yngri en með fleiri áhættuþætti kransæðasjúkdóms en samanburðarhópur. Líkamsþyngdarstuðull spáir þó hvorki fyrir um langtímalifun né tíðni fylgikvilla. Árangur kransæðahjáveituaðgerða hjá sjúklingum sem þjást af offitu er góður hér á landi.
  • Asbest og áhrif þess á heilsufar Íslendinga - Yfirlitsgrein

   Gunnar Guðmundsson; Kristinn Tómasson; 1 Lungnadeild Landspítala, 2 Rannsóknastofa í Lyfja- og eiturefnafræði, Læknadeild Háskóla Íslands, 3 Lækning, Lágmúla (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2019-07)
   Asbest eru þráðlaga kristölluð sílikat-steinefni sem hafa mismunandi byggingu og eiginleika. Asbestþræðir eru mjög slitsterkir og þola mjög mikinn hita. Það var því algengt að asbest væri notað sem brunavarnarefni, hitaeinangrun og þar sem mikill hiti er notaður. Asbest hefur verið bannað á Íslandi frá 1983 en enn er mikið magn af því í byggingum, skipum og í hitaveituleiðslum. Innflutningur á Íslandi var mikill árin fyrir bann en minnkaði svo ört og er nánast enginn í dag.Við vinnu með asbest myndast nálar- eða þráðlaga asbestryk. Það er þetta ryk sem er hættulegt heilsunni. Biðtími frá útsetningu að sjúkdómi getur verið allt að 40 ár. Asbest berst í lungun við innöndun og getur valdið asbestveiki sem er lungnatrefjunarsjúkdómur með hæga framþróun. Asbest getur einnig valdið góðkynja fleiðruvökva, fleiðruskellum og dreifðum fleiðruþykknunum. Asbest er líka krabbameinsvaldandi. Algengast er lungnakrabbamein en asbest er áhættuþáttur fyrir krabbameinum í fleiri líffærum. Illkynja miðþekjuæxli er algengast í lungnafleiðru en getur sést í fleiri himnum. Nýgengi þessara æxla er hátt á Íslandi og er enn vaxandi hjá körlum. Dánartíðni er hæst á Íslandi af Evrópulöndum. Mikilvægt er fyrir lækna að hafa asbestútsetningu í mismunagreiningu við sjúkdómum í lungum og fleiðru og við greiningu krabbameina.
  • Hið ófyrirséða — fyrirbyggjandi aðgerðir gegn ofbeldi á geðdeildum

   Jón Snorrason; Guðrún Úlfhildur Grímsdóttir; Geðsviði Landspítalans (Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, 2019-06-06)
   Tilgangur. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvað kveikti á árásargjarnri hegðun sjúklinga á geðdeildum og hvaða aðferðum starfsfólk beitti til að koma í veg fyrir hana. Aðferð. um var að ræða eigindlega rannsókn þar sem stuðst var við aðferðafræði grundaðrar kenningar. Viðtöl voru við níu einstaklinga sem starfa við hjúkrunarstörf á geðdeildum Landspítala, þrjá karlmenn og sex konur. Meginflokkur hugtaka var greindur og undirflokkar. Niðurstöður.helsta áhyggjuefni viðmælenda var hið ófyrirséða, annars vegar að sjúklingar gætu á hvaða tímapunkti sem er sýnt árásargjarna hegðun og hins vegar að sjúklingar eða starfsmenn meiddust ef til átaka kæmi. Viðmælendur nefndu nokkrar aðferðir til að fyrirbyggja árásargjarna hegðun eða draga úr líkum á henni: að starfsfólk væri í líkamlegu og andlegu jafnvægi, að draga þyri úr vinnuálagi starfsmanna, starfsmenn þyru að læra að róa sjúklinga, þeir þyru að kunna að afstýra aukinni spennu hjá sjúklingum, vinna vel saman og stjórna umhverfinu. Ályktun. Þó aldrei verði hægt að koma alveg í veg fyrir árásargjarna hegðun sjúklinga á geðdeildum eru ýmsar leiðir sem starfsfólk getur farið til að draga úr líkum á að hún eigi sér stað. Lykilorð: árásargjörn hegðun, grunduð kenning, hið ófyrirséða.
  • Þróun skimunartækisins HEILUNG

   Sóley Sesselja Bender; Hjúkrunarfræðideild háskóla Íslands (Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, 2019-06-06)
   Tilgangur: Þegar ungt fólk byrjar í framhaldsskóla er það líklegra til að stunda áhættuhegðun, eins og að neyta áfengis, heldur en þeir sem yngri eru. Tilgangurinn með því að þróa þetta skimunartæki er að meta á heildrænan hátt heilbrigði ungs fólks ásamt undirliggjandi áhættuþáttum, áhættuhegðun og verndandi þáttum. Tækið er ætlað skólahjúkrunarfræðingum í framhaldsskólum. Aðferð: Þróun skimunartækisins hEiLung byggðist á kenningu um seiglu, fræðilegri úttekt á rannsóknum um heilbrigði unglinga og ungs fólks og skoðun á matstækjum og skimunartækjum sem notuð hafa verið til að meta heilbrigði (áhættuhegðun, áhættuþætti og verndandi þætti) ungs fólks. Á undirbúningsstigi voru spurningar metnar af fjórum sérfræðingum og var það auk þess lagt fyrir sex ungmenni. Niðurstöður: Þegar undirbúningsvinna hEiLung var komin á lokastig innihélt það 34 spurningar. Spurningarnar komu inn á andlega, líkamlega, félagslega og kynferðislega þætti voru en einnig um lífsstíl ungs fólks og gefa þannig heildræna sýn á heilbrigði þess. Það tekur 2–4 mínútur að svara spurningunum. Skimunartækið var byggt upp þannig að fyrst komu spurningar um verndandi þætti, því næst fylgdu spurningar um áhættuþætti og áhættuhegðun. Svarmöguleikar á skimunartækinu voru settir fram þannig að auðvelt væri fyrir skólahjúkrunarfræðing í klínísku starfi að lesa úr því. Ályktanir: Skimunartækið byggist á gagnreyndri þekkingu. Ekkert skimunartæki fannst sem bæði metur áhættuþætti og áhættuhegðun en jafnframt verndandi þætti. Þegar hEiLung var útbúið var ekkert slíkt skimunartæki í notkun meðal skólahjúkrunarfræðinga sem störfuðu í framhaldsskólum hér á landi. Eins og önnur skimunartæki þá er hEiLung ætlað að gefa grófa mynd af viðfangsefninu, í þessu tilfelli heilbrigði ungs fólks. næsta skref er að forprófa skimunartækið við klínískar aðstæður.
  • Sálfélagsleg líðan fullorðinna einstaklinga eftir innanskúmsblæðingu: kerfisbundið fræðilegt yfirlit

   Inga Steinþóra Guðbjartsdóttir; Helga Jónsdóttir; Marianne E. Klinke; 1) Heila- og taugaskurðdeild B6, Landspítali – háskólasjúkrahús 2) 3) Kennslu- og rannsóknardeild LSH (Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, 2019-06-06)
   Tilgangur: Sjálfsprottin innanskúmsblæðing (SIB) er kölluð heila - blóðfall yngra fólksins. Sálfélagsleg vanlíðan einstaklinga sem fengið hafa SIB getur valdið þeim erfiðleikum með að ná takti í lífnu, jafnvel mörgum árum eftir áfallið. Þrátt fyrir fjölda rannsókna skortir kerfisbundna samantekt á þeim vanda sem einstaklingar með SIB standa frammi fyrir auk þekkingar á bestu hugsanlegu úrræðum. Tilgangur þessa kerfisbundna fræðilega yfirlits var þríþættur: Að samþætta þekkingu um þætti sem hafa áhrif á sálfélagslega líðan SIB-sjúklinga meira en þremur mánuðum eftir áfallið; að lýsa tíðni algengra sálfé lagslegra einkenna; koma auga á nýja þekkingu og hugsanlegar íhlutanir fyrir hjúkrun. Aðferð: Kerfisbundið fræðilegt yfirlit. Stuðst var við aðferð stofnunar Joanna Briggs (JBI) og PRISMA-yfirlýsinguna við framsetningu niðurstaðna. Leitað var í PubMed og CINAHL að birtum greinum frá janúar 2007 til nóvember 2017. Gátlistar frá JBI voru notaðir til þess að meta veikleika frumrannsókna. Niðurstöður voru samþættar með „matrix“-aðferðinni. Niðurstöður: Þrjátíu og þrjár greinar voru teknar með í yfirlitið þar sem 5073 einstaklingar með SIB voru rannsakaðir. Sálfélagsleg vandamál voru til staðar hjá yfir 50% þátttakenda á öllum tímapunktum: frá þremur mánuðum og upp í 20 ár eftir áfallið. Fjögur megin viðfangsefni voru greind: (1) Skert lífsgæði, (2) kvíði/þunglyndi, (3) áfallastreituröskun, ótti og sálfélagsleg vanlíðan og (4) breytt atvinnuþátttaka, félagslíf og samfélagslegar þarfir. Þættir tengdir við SIB voru meðal annars skortur á nánd við maka, tjáskiptavandamál, endurtekin upprifjun á áfalli, vitsmunaleg skerðing og hegðunartruflanir. Forspárgildi sálfélagslegra vandamála voru meðal annars kvenkyn, yngri aldur við áfallið, minni menntun og óstöðug hjú skaparstaða. Ályktanir : Niðurstöður samantektarinnar má nýta við gerð kerfisbundins mats, eftirfylgni og upplýsingagjafar til sjúklinga með SIB og fjölskyldna þeirra . Vegna hárrar tíðni og alvarlegra afleiðinga sálfélagslegra vandamála er þörf á að heilbrigðisstarfsfólk bregðist markvisst við þeim vanda sem sjúklingar með SIB standa frammi fyrir.
  • Nýsköpun: Getur gervigreind gert endurhæfingu skilvirkari?

   Kristín Siggeirsdóttir; Ragnheiður D. Brynjólfsdóttir; Sæmundur Ó. Haraldsson1; Ómar Hjaltason; Vilmundur Guðnason; 1) Janus endurhæfing, Skúlagötu 19, 2) Hjartavernd, 3) Lancaster University, Bailrigg, Englandi, 4) Lækning, Lágmúla 7, 5) Háskóla Íslands. (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2019-06)
   Eftirspurn eftir starfsendurhæfingu á Íslandi hefur aukist síðastliðin ár og aðsókn ungs fólks þar hlutfallslega mest. Miklu máli skiptir að fjármunum samfélagsins sé vel varið án þess að gæði og þjónusta skerðist. Sú spurning vaknar því hvort gervigreind geti stuðlað að aukinni skilvirkni þessa geira. Nýsköpunarverkefni um þróun, prófun og innleiðingu á gervigreindarhugbúnaðinum Völvunni var innleitt í starfsemi Janusar endurhæfingar. Spár Völvunnar gefa meðal annars vísbendingar um hvar einstaklingur gæti hugsanlega þurft aðstoð og gefa sérfræðingum tækifæri til að bregðast við og gera viðeigandi ráðstafanir í meðferð. Nákvæmni, næmi og hittni Völvunnar hefur reynst vera framúrskarandi í tveimur rannsóknum þar sem tekist hefur að koma auga á dulin mynstur í aðstæðum skjólstæðinga sem gætu haft áhrif á endurhæfingarferlið. Völvan virðist því lofa góðu sem verkfæri í einstaklingsmiðaðri endurhæfingu þar sem fólk glímir við þung og flókin vandamál. Innan Janusar endurhæfingar er verið að innleiða Völvuna sem hlutlausan teymismeðlim. Markmið greinarinnar er að kynna Völvuna og rannsóknir tengdar henni.