• Nárakviðslit – yfirlitsgrein

   Marta Rós Berndsen; Tómas Guðbjartsson; Fritz H. Berndsen; 1 Sahlgrenska háskólasjúkrahúsið í Gautaborg, Svíþjóð, 2 skurðsviði Landspítala, 3 læknadeild Háskóla Íslands, 4 handlækningadeild Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, Akranesi. (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2019-09)
   Nárakviðslit eru algengust kviðslita og eru 90% sjúklinganna karlmenn en þriðjungur karla greinist einhvern tíma á ævinni með slíkt kviðslit. Algengast er að kviðslit greinist hjá börnum og eftir miðjan aldur, oftast vegna fyrirferðar og verkja á nárasvæði en í einstaka ­tilfellum í kjölfar garnastíflu. Skurðaðgerð er eina læknandi meðferðin við nárakviðsliti og er hún ein algengasta aðgerð sem framkvæmd er. Aðgerðin er oftast gerð sem valaðgerð annaðhvort í staðdeyfingu, mænudeyfingu eða svæfingu. Þá er bakveggur nárans styrktur, oftast með neti, og er bæði hægt að gera aðgerðina opið að framanverðu eða að innanverðu með holsjáraðgerð. Helstu vandamál eftir aðgerð eru endurtekin kviðslit og langvarandi verkir en með notkun neta og betri aðgerðartækni hefur tíðni endurtekinna kviðslita lækkað umtalsvert. Í þessari yfirlitsgrein er fjallað um tíðni, orsakir og meðferð nárakviðslita með áherslu á nýjungar í skurðmeðferð.
  • Algengi svefntruflana hjá fólki með MS

   Aðalbjörg Albertsdóttir; Árún K. Sigurðardóttir; Björg Þorleifsdóttir; 1 Taugasviði Reykjalundar, 2 heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri, 3 Sjúkrahúsinu á Akureyri, 4 Lífeðlisfræðistofnun læknadeildar Háskóla Íslands (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2019-09)
   INNGANGUR Samkvæmt erlendum rannsóknum eru svefntruflanir hjá fólki með MS algengar, stórlega vangreindar og hafa áhrif á heilsu. Tilgangur rannsóknarinnar var að afla upplýsinga um algengi skertra svefngæða og helstu svefntruflana hjá MS-greindum á Íslandi. AÐFERÐ Lýsandi þversniðsrannsókn. Þýðið var MS-greindir á Íslandi og úrtakið MS-greindir sem voru á netpóstlista MS-félagsins og/eða höfðu aðgang að Facebook-síðu MS-félagsins. Rafrænn spurningalisti með fjórum matskvörðum og bakgrunnsbreytum, auk spurninga um greinda svefnsjúkdóma, var útbúinn og starfsfólk MS-félagsins sendi vefslóðina á úrtakið. Matskvarðar: Svefngæðakvarðinn (Pittsburgh- Sleep-Quality-Index; PSQI), Svefnleysiskvarðinn (Insomnia-Severity-Index; ISI), STOP-Bang-spurningalistinn og greiningarskilmerki fótaóeirðar. Með matskvörðum og stökum spurningum var skimað fyrir algengi skertra svefngæða og algengi 7 mismunandi þátta sem geta truflað svefn. Gögn voru greind með lýsandi og greinandi tölfræði og SPSS-útgáfa 25 var notuð við tölfræðiútreikninga. NIÐURSTÖÐUR Tæp 40% MS-greindra á Íslandi tóku þátt. Þátttakendur voru 234, meðalaldur var 47 ár (aldursbil 20-92 ára) og 77% voru konur. Algengi skertra svefngæða (>5 stig á PSQI) var 68%. Fjórir algengustu þættirnir sem trufluðu svefn voru: salernisferðir (39%), verkir (37%), einkenni svefnleysis (30%) og einkenni kæfisvefns (24%). Í ljós kom að 79% þátttakenda höfðu minnst eina svefntruflun og að meðaltali höfðu þátttakendur tæpar tvær svefntruflanir hver. Einkenni svefnleysis höfðu sterk tengsl við lítil svefngæði. ÁLYKTANIR Bregðast þarf við hárri tíðni skertra svefngæða og svefntruflana hjá MS-greindum. PSQI getur gagnast við mat á svefngæðum og gefið vísbendingar um hvað þarfnast nánari skoðunar. Til að auka svefngæði MS-greindra almennt ætti sérstaklega að horfa til greiningar og meðferðar á svefnleysi.
  • Frumkomin trefjunargallgangabólga á Íslandi 1992-2012

   Hafsteinn Óli Guðnason; Jón Örvar Kristinsson; Óttar Már Bergmann; Sigurður Ólafsson; Jón Gunnlaugur Jónasson; Einar Stefán Björnsson; 1 Meltingardeild, 2 meinafræðideild Landspítala, 3 læknadeild Háskóla Íslands (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2019-09)
   INNGANGUR Frumkomin trefjunargallgangabólga er langvinnur bólgusjúkdómur í gallvegum innan og/eða utan lifrar sem getur valdið skorpulifur, lokastigs lifrarbilun og leitt til lifrarígræðslu. Bólgusjúkdómar í meltingarvegi, fyrst og fremst sáraristilbólga, er algengur áhættuþáttur. Hæsta nýgengi fullorðinna sem hefur verið birt var 1,2-1,3/100.000 í Noregi og Svíþjóð og 60-76% höfðu bólgusjúkdóm í meltingarvegi. Markmið þessarar fyrstu rannsóknar sjúkdómsins á Íslandi var að kanna faraldsfræði hans frá árunum 1992-2012 og afdrif sjúklinganna. AÐFERÐIR Leit var framkvæmd í gagnagrunnum Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri að sjúkdómsgreiningunni: K83.0, „Gallgangabólga“, frá 1992 til 2012. Að auki var gerð leit að sjúklingum með yfirferð á öllum gallvegaspeglunum og segulómunum af gallvegum sem framkvæmdar voru á Landspítala 1992-2012. Einnig var gerð textaleit bæði í gagnagrunnum beggja spítalanna og í gagnagrunni meinafræðinnar fyrir lifrarsýni. NIÐURSTÖÐUR Alls fundust 42 sjúklingar með sjúkdóminn innan umrædds tímabils. Miðgildi aldurs við greiningu var 34 ára, 67% voru karlkyns og 90% fullorðnir (≥18 ára). Meðalnýgengi á ári var 0,69/100.000 manns á rannsóknartímabilinu. Alls 88% sjúklinga reyndust vera með bólgusjúkdóm í meltingarvegi, þar af 89% sjúklinga með sáraristilbólgu. Sjö sjúklingar hafa verið greindir með krabbamein, þar af fjórir með meinið í gallgöngum og einn í gallblöðru. Innan tímabilsins dóu 5 sjúklingar (12%), 51 mánuði (miðgildi) frá greiningu og þar af þrír úr gallgangakrabbameini 51 mánuðum (miðgildi) frá greiningu. Þrír (7%) þurftu lifrarígræðslu, þar af einn í tvígang. ÁLYKTANIR Nýgengi á Íslandi reyndist lægra en í nágrannalöndum okkar í Skandinavíu. Það er óljóst hvort það stafar af vangreiningu tilfella og/eða að sjúkdómurinn sé sjaldgæfari á Íslandi en í Noregi og Svíþjóð. Alls 7% þurftu á lifrarígræðslu að halda og 12% dóu úr sjúkdómnum, aðallega vegna gallgangakrabbameins.
  • Engin marktæk tengsl offitu og lifunar eftir kransæðahjáveituaðgerð

   Þórdís Þorkelsdóttir; Hera Jóhannesdóttir; Linda Ósk Árnadóttir; Jónas Aðalsteinsson; Helga Rún Garðarsdóttir; Daði Helgason; Tómas Andri Axelsson; Sólveig Helgadóttir; Alexandra Aldís Heimisdóttir; Martin Ingi Sigurðsson; et al. (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2019-07)
   Inngangur: Markmið rannsóknarinnar var að kanna langtímaárangur kransæðahjáveituaðgerða hjá sjúklingum sem þjást af offitu. Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 1698 sjúklingum sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala 2001-2013. Sjúklingunum var skipt upp í fjóra hópa eftir líkamsþyngdarstuðli (LÞS); i) kjörþyngd=18,5-24,9 kg/m2 (n=393), ii) ofþyngd=25-29,9 kg/m2 (n=811), iii) offita=30-34,9 kg/m2(n=388) og iv) mikil offita ≥35 kg/m2 (n=113). Sjö sjúklingar með LÞS <18,5 kg/m2 voru útilokaðir úr rannsókninni. Snemmkomnir fylgikvillar og 30 daga dánartíðni voru skráð auk eftirfarandi langvinnra fylgikvilla: hjartaáfalls, heilablóðfalls, þarfar á endurhjáveituaðgerð, kransæðavíkkunar með eða án kransæðastoðnets og dauða (major adverse cardiac and cerebrovascular events, MACCE). Hóparnir voru bornir saman með áherslu á langtímalifun og MACCE-fría lifun (Kaplan-Meier) og forspárþættir lifunar fundnir með Cox-aðhvarfsgreiningu. Meðaltal eftirfylgdar var 5,6 ár. Niðurstöður: Sjúklingar með mikla offitu reyndust vera að meðaltali 6,0 árum yngri en sjúklingar í kjörþyngd, hlutfall karla var hærra og þeir höfðu oftar áhættuþætti kransæðasjúkdóms, auk þess sem EuroSCORE II þeirra var lægra (1,6 sbr. 2,7, p=0,002). Tíðni alvarlegra snemmkominna fylgikvilla og 30 daga dánartíðni (2%) var sambærileg milli hópa, líkt og langtímalifun (í kringum 90% eftir 5 ár, log-rank próf, p=0,088) og lifun án MACCE (í kringum 80% eftir 5 ár, log-rank próf, p=0,7). Í aðhvarfsgreiningu reyndist LÞS hvorki sjálfstæður forspárþáttur langtímalifunar (HH: 0,98 95% ÖB: 0,95–1,01) né MACCE-frírrar lifunar (HH: 1,0 ÖB: 0,98-1,02). Ályktun: Sjúklingar með offitu sem gangast undir kransæðahjáveitu á Landspítalanum eru yngri en með fleiri áhættuþætti kransæðasjúkdóms en samanburðarhópur. Líkamsþyngdarstuðull spáir þó hvorki fyrir um langtímalifun né tíðni fylgikvilla. Árangur kransæðahjáveituaðgerða hjá sjúklingum sem þjást af offitu er góður hér á landi.
  • Asbest og áhrif þess á heilsufar Íslendinga - Yfirlitsgrein

   Gunnar Guðmundsson; Kristinn Tómasson; 1 Lungnadeild Landspítala, 2 Rannsóknastofa í Lyfja- og eiturefnafræði, Læknadeild Háskóla Íslands, 3 Lækning, Lágmúla (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2019-07)
   Asbest eru þráðlaga kristölluð sílikat-steinefni sem hafa mismunandi byggingu og eiginleika. Asbestþræðir eru mjög slitsterkir og þola mjög mikinn hita. Það var því algengt að asbest væri notað sem brunavarnarefni, hitaeinangrun og þar sem mikill hiti er notaður. Asbest hefur verið bannað á Íslandi frá 1983 en enn er mikið magn af því í byggingum, skipum og í hitaveituleiðslum. Innflutningur á Íslandi var mikill árin fyrir bann en minnkaði svo ört og er nánast enginn í dag.Við vinnu með asbest myndast nálar- eða þráðlaga asbestryk. Það er þetta ryk sem er hættulegt heilsunni. Biðtími frá útsetningu að sjúkdómi getur verið allt að 40 ár. Asbest berst í lungun við innöndun og getur valdið asbestveiki sem er lungnatrefjunarsjúkdómur með hæga framþróun. Asbest getur einnig valdið góðkynja fleiðruvökva, fleiðruskellum og dreifðum fleiðruþykknunum. Asbest er líka krabbameinsvaldandi. Algengast er lungnakrabbamein en asbest er áhættuþáttur fyrir krabbameinum í fleiri líffærum. Illkynja miðþekjuæxli er algengast í lungnafleiðru en getur sést í fleiri himnum. Nýgengi þessara æxla er hátt á Íslandi og er enn vaxandi hjá körlum. Dánartíðni er hæst á Íslandi af Evrópulöndum. Mikilvægt er fyrir lækna að hafa asbestútsetningu í mismunagreiningu við sjúkdómum í lungum og fleiðru og við greiningu krabbameina.
  • Hið ófyrirséða — fyrirbyggjandi aðgerðir gegn ofbeldi á geðdeildum

   Jón Snorrason; Guðrún Úlfhildur Grímsdóttir; Geðsviði Landspítalans (Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, 2019-06-06)
   Tilgangur. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvað kveikti á árásargjarnri hegðun sjúklinga á geðdeildum og hvaða aðferðum starfsfólk beitti til að koma í veg fyrir hana. Aðferð. um var að ræða eigindlega rannsókn þar sem stuðst var við aðferðafræði grundaðrar kenningar. Viðtöl voru við níu einstaklinga sem starfa við hjúkrunarstörf á geðdeildum Landspítala, þrjá karlmenn og sex konur. Meginflokkur hugtaka var greindur og undirflokkar. Niðurstöður.helsta áhyggjuefni viðmælenda var hið ófyrirséða, annars vegar að sjúklingar gætu á hvaða tímapunkti sem er sýnt árásargjarna hegðun og hins vegar að sjúklingar eða starfsmenn meiddust ef til átaka kæmi. Viðmælendur nefndu nokkrar aðferðir til að fyrirbyggja árásargjarna hegðun eða draga úr líkum á henni: að starfsfólk væri í líkamlegu og andlegu jafnvægi, að draga þyri úr vinnuálagi starfsmanna, starfsmenn þyru að læra að róa sjúklinga, þeir þyru að kunna að afstýra aukinni spennu hjá sjúklingum, vinna vel saman og stjórna umhverfinu. Ályktun. Þó aldrei verði hægt að koma alveg í veg fyrir árásargjarna hegðun sjúklinga á geðdeildum eru ýmsar leiðir sem starfsfólk getur farið til að draga úr líkum á að hún eigi sér stað. Lykilorð: árásargjörn hegðun, grunduð kenning, hið ófyrirséða.
  • Þróun skimunartækisins HEILUNG

   Sóley Sesselja Bender; Hjúkrunarfræðideild háskóla Íslands (Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, 2019-06-06)
   Tilgangur: Þegar ungt fólk byrjar í framhaldsskóla er það líklegra til að stunda áhættuhegðun, eins og að neyta áfengis, heldur en þeir sem yngri eru. Tilgangurinn með því að þróa þetta skimunartæki er að meta á heildrænan hátt heilbrigði ungs fólks ásamt undirliggjandi áhættuþáttum, áhættuhegðun og verndandi þáttum. Tækið er ætlað skólahjúkrunarfræðingum í framhaldsskólum. Aðferð: Þróun skimunartækisins hEiLung byggðist á kenningu um seiglu, fræðilegri úttekt á rannsóknum um heilbrigði unglinga og ungs fólks og skoðun á matstækjum og skimunartækjum sem notuð hafa verið til að meta heilbrigði (áhættuhegðun, áhættuþætti og verndandi þætti) ungs fólks. Á undirbúningsstigi voru spurningar metnar af fjórum sérfræðingum og var það auk þess lagt fyrir sex ungmenni. Niðurstöður: Þegar undirbúningsvinna hEiLung var komin á lokastig innihélt það 34 spurningar. Spurningarnar komu inn á andlega, líkamlega, félagslega og kynferðislega þætti voru en einnig um lífsstíl ungs fólks og gefa þannig heildræna sýn á heilbrigði þess. Það tekur 2–4 mínútur að svara spurningunum. Skimunartækið var byggt upp þannig að fyrst komu spurningar um verndandi þætti, því næst fylgdu spurningar um áhættuþætti og áhættuhegðun. Svarmöguleikar á skimunartækinu voru settir fram þannig að auðvelt væri fyrir skólahjúkrunarfræðing í klínísku starfi að lesa úr því. Ályktanir: Skimunartækið byggist á gagnreyndri þekkingu. Ekkert skimunartæki fannst sem bæði metur áhættuþætti og áhættuhegðun en jafnframt verndandi þætti. Þegar hEiLung var útbúið var ekkert slíkt skimunartæki í notkun meðal skólahjúkrunarfræðinga sem störfuðu í framhaldsskólum hér á landi. Eins og önnur skimunartæki þá er hEiLung ætlað að gefa grófa mynd af viðfangsefninu, í þessu tilfelli heilbrigði ungs fólks. næsta skref er að forprófa skimunartækið við klínískar aðstæður.
  • Sálfélagsleg líðan fullorðinna einstaklinga eftir innanskúmsblæðingu: kerfisbundið fræðilegt yfirlit

   Inga Steinþóra Guðbjartsdóttir; Helga Jónsdóttir; Marianne E. Klinke; 1) Heila- og taugaskurðdeild B6, Landspítali – háskólasjúkrahús 2) 3) Kennslu- og rannsóknardeild LSH (Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, 2019-06-06)
   Tilgangur: Sjálfsprottin innanskúmsblæðing (SIB) er kölluð heila - blóðfall yngra fólksins. Sálfélagsleg vanlíðan einstaklinga sem fengið hafa SIB getur valdið þeim erfiðleikum með að ná takti í lífnu, jafnvel mörgum árum eftir áfallið. Þrátt fyrir fjölda rannsókna skortir kerfisbundna samantekt á þeim vanda sem einstaklingar með SIB standa frammi fyrir auk þekkingar á bestu hugsanlegu úrræðum. Tilgangur þessa kerfisbundna fræðilega yfirlits var þríþættur: Að samþætta þekkingu um þætti sem hafa áhrif á sálfélagslega líðan SIB-sjúklinga meira en þremur mánuðum eftir áfallið; að lýsa tíðni algengra sálfé lagslegra einkenna; koma auga á nýja þekkingu og hugsanlegar íhlutanir fyrir hjúkrun. Aðferð: Kerfisbundið fræðilegt yfirlit. Stuðst var við aðferð stofnunar Joanna Briggs (JBI) og PRISMA-yfirlýsinguna við framsetningu niðurstaðna. Leitað var í PubMed og CINAHL að birtum greinum frá janúar 2007 til nóvember 2017. Gátlistar frá JBI voru notaðir til þess að meta veikleika frumrannsókna. Niðurstöður voru samþættar með „matrix“-aðferðinni. Niðurstöður: Þrjátíu og þrjár greinar voru teknar með í yfirlitið þar sem 5073 einstaklingar með SIB voru rannsakaðir. Sálfélagsleg vandamál voru til staðar hjá yfir 50% þátttakenda á öllum tímapunktum: frá þremur mánuðum og upp í 20 ár eftir áfallið. Fjögur megin viðfangsefni voru greind: (1) Skert lífsgæði, (2) kvíði/þunglyndi, (3) áfallastreituröskun, ótti og sálfélagsleg vanlíðan og (4) breytt atvinnuþátttaka, félagslíf og samfélagslegar þarfir. Þættir tengdir við SIB voru meðal annars skortur á nánd við maka, tjáskiptavandamál, endurtekin upprifjun á áfalli, vitsmunaleg skerðing og hegðunartruflanir. Forspárgildi sálfélagslegra vandamála voru meðal annars kvenkyn, yngri aldur við áfallið, minni menntun og óstöðug hjú skaparstaða. Ályktanir : Niðurstöður samantektarinnar má nýta við gerð kerfisbundins mats, eftirfylgni og upplýsingagjafar til sjúklinga með SIB og fjölskyldna þeirra . Vegna hárrar tíðni og alvarlegra afleiðinga sálfélagslegra vandamála er þörf á að heilbrigðisstarfsfólk bregðist markvisst við þeim vanda sem sjúklingar með SIB standa frammi fyrir.
  • Nýsköpun: Getur gervigreind gert endurhæfingu skilvirkari?

   Kristín Siggeirsdóttir; Ragnheiður D. Brynjólfsdóttir; Sæmundur Ó. Haraldsson1; Ómar Hjaltason; Vilmundur Guðnason; 1) Janus endurhæfing, Skúlagötu 19, 2) Hjartavernd, 3) Lancaster University, Bailrigg, Englandi, 4) Lækning, Lágmúla 7, 5) Háskóla Íslands. (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2019-06)
   Eftirspurn eftir starfsendurhæfingu á Íslandi hefur aukist síðastliðin ár og aðsókn ungs fólks þar hlutfallslega mest. Miklu máli skiptir að fjármunum samfélagsins sé vel varið án þess að gæði og þjónusta skerðist. Sú spurning vaknar því hvort gervigreind geti stuðlað að aukinni skilvirkni þessa geira. Nýsköpunarverkefni um þróun, prófun og innleiðingu á gervigreindarhugbúnaðinum Völvunni var innleitt í starfsemi Janusar endurhæfingar. Spár Völvunnar gefa meðal annars vísbendingar um hvar einstaklingur gæti hugsanlega þurft aðstoð og gefa sérfræðingum tækifæri til að bregðast við og gera viðeigandi ráðstafanir í meðferð. Nákvæmni, næmi og hittni Völvunnar hefur reynst vera framúrskarandi í tveimur rannsóknum þar sem tekist hefur að koma auga á dulin mynstur í aðstæðum skjólstæðinga sem gætu haft áhrif á endurhæfingarferlið. Völvan virðist því lofa góðu sem verkfæri í einstaklingsmiðaðri endurhæfingu þar sem fólk glímir við þung og flókin vandamál. Innan Janusar endurhæfingar er verið að innleiða Völvuna sem hlutlausan teymismeðlim. Markmið greinarinnar er að kynna Völvuna og rannsóknir tengdar henni.
  • Fæðingarsaga kvenna með alvarlega liðbólgusjúkdóma: Niðurstöður frá ICEBIO og Fæðingaskrá

   Signý Rut Kristjánsdóttir; Þóra Steingrímsdóttir; Gerður Gröndal; Ragnheiður I. Bjarnadóttir; Kristjana Einarsdóttir; Björn Guðbjörnsson; 1 Læknadeild Háskóli Íslands, 2 kvennadeild, 3 gigtardeild, 4 Rannsóknarstofu í gigtarsjúkdómum, Landspítala, 5 Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, 6 Miðstöð í lýðheilsuvísindum, Háskóla Íslands. *ICEBIO-hópurinn: Arnór Víkingsson, Árni Jón Geirsson, Björn Guðbjörnsson, Björn Rúnar Lúðvíksson, Gerður Gröndal, Guðrún Björk Reynisdóttir, Gunnar Tómasson, Helgi Jónsson, Kristján Erlendsson, Kristján Steinsson, Ragnar Freyr Ingvarsson, Sigríður Valtýsdóttir, Þorvarður Jón Löve og Þórunn Jónsdóttir (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2019-06)
   Inngangur: Mikilvægt er að leita frekari þekkingar á meðgöngu og fæðingu hjá konum með liðbólgusjúkdóma. Staðan hérlendis er óþekkt og höfum við því samkeyrt ICEBIO og Fæðingaskrá Embættis landlæknis til að kanna hugsanleg áhrif alvarlegra liðbólgusjúkdóma á meðgöngur og fæðingar íslenskra kvenna. Efniviður og aðferðir: Skoðuð voru gagnlíkindahlutföll fyrir áhættu fyrirburafæðingar, keisaraskurðar, lágrar Apgar-einkunnar nýbura við 5 mínútur og lágrar fæðingarþyngdar, fyrir hvern sjúkdómshóp (iktsýki, sóragigt, hryggikt og óskilgreinda liðbólgu) miðað við viðmiðunarhópa. Meðgöngur og fæðingar eftir upphaf TNFα-hemlameðferðar (TNFi) voru bornar saman við fæðingar fyrir TNFi-meðferð og viðmiðunarhóp, með tilliti til sömu þátta. Niðurstöður: Í lok árs 2016 voru 723 konur sem hafa fengið meðferð með TNFi skráðar í ICEBIO. Af þeim höfðu 412 fætt samtals 801 barn. Þar af fæddust 597 börn fyrir sjúkdómsgreiningu móður og 53 börn eftir að meðferð með TNFi hófst. Hlutfallsleg hætta á keisaraskurði meðal þessara kvenna var 1,47 (95% ÖB: 1,19-1,82; p<0,001), hæst meðal kvenna með sóragigt, eða 2,06 (1,41-3,02; p<0,001). Ekki mældist aukin hætta á fyrirburafæðingu eða lágri Apgar-einkunn. Hætta á lágri fæðingarþyngd var minni meðal kvenna með liðbólgusjúkdóma, eða 0,37 (0,36-0,37; p<0,05). Ekki fengust marktækar samanburðarniðurstöður fyrir fæðingar eftir að TNFi-meðferð hófst vegna fárra fæðinga (n=53). Ályktun: Íslenskar konur með alvarlega liðbólgusjúkdóma eru líklegri til að fæða með keisaraskurði en heilbrigður viðmiðunarhópur. Nýburum þeirra vegnar jafn vel og nýburum annarra kvenna. Ekki liggja fyrir næg gögn um fæðingar eftir upphaf TNFi-meðferðar til þess að hægt sé að álykta um áhrif TNFi á meðgöngur og fæðingar íslenskra kvenna með alvarlega liðbólgusjúkdóma.
  • Visna Egils Skallagrímssonar

   Halldór Bjarki Einarsson; Mikkelsen, Ronni; Jón Torfi Gylfason; Holten Lützhøft, Jan; 1) Heila- og taugaskurðdeild, 2) taugamyndgreiningardeild, Háskólasjúkrahúsinu í Árósum, 3) Lækningu, Lágmúla 5, Reykjavík, 4) geðrofssviði geðdeildar Háskólasjúkrahússins í Árósum (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2019-05)
   Ein sögufrægasta persóna Íslendingasagna er Egill Skallagrímsson. Um árabil hafa margir fræðimenn sett fram þá tilgátu að Egill hafi þjáðst af Pagets-sjúkdómi. Byggist sú tilgáta á túlkun þeirra á Egils sögu. Spurningin um sannleiksgildi sögunnar vefst hins vegar fyrir og verður ekki svarað en á síðustu áratugum hefur sagnfræðigildi Íslendingasagna verið dregið mjög í efa. Því er vert að undirstrika takmarkað sagnfræðigildi Egils sögu sem og annarra sagna. Hinn einstaki frásagnarstíll höfundar Egils sögu leynir sér þó ekki. Í norrænni bókmenntasögu og goðafræði koma fyrir frásagnir af hervæddri skjaldmey sem kölluð var Visna. Lýsingin minnir á Egil, en höfundur þeirrar frásagnar var Saxo Grammaticus sem dáðist að frásagnarstíl höfunda Íslendingasagna. Textatúlkun á Egils sögu sem getið er um í greininni hér fyrir neðan, beinist að tvíeðli og líkamsbyggingu Egils Skallagrímssonar. Túlkunin er á þá leið að litlar líkur séu á að Egill hafi verið þjakaður af Pagets-sjúkdómi. Því kemur öllu heldur til kastanna ástand sem höfundar kjósa að kalla Visnu Egils Skallagrímssonar.
  • Snemmkominn árangur opinna ósæðarlokuskipta við ósæðarlokuþrengslum hjá konum á Íslandi

   Anna Guðlaug Gunnarsdóttir; Kristján Orri Víðisson; Sindri Aron Viktorsson; Árni Johnsen; Daði Helgason; Inga Lára Ingvarsdóttir; Sólveig Helgadótti; Arnar Geirsson; Tómas Guðbjartsson; 1) 2) 4) 9) Læknadeild Háskóla Íslands, 3) 9) hjarta- og lungnaskurðdeild LSH, 5) lyflækningasviði Landspítala, 6) svæfinga- og gjörgæsludeildum Sahlgrenska háskólasjúkrahússins í Gautaborg, 7) svæfinga- og gjörgæsludeild Akademíska háskólasjúkrahússins í Uppsölum 8) hjartaskurðdeild Yale-háskólasjúkrahússins, New Haven. (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2019-05)
   Inngangur: Ósæðarlokuskipti er önnur algengasta hjartaskurðaðgerðin á Íslandi. Markmið rannsóknarinnar er að meta í fyrsta sinn á Íslandi snemmkominn árangur opinna ósæðarlokuskipta vegna ósæðarlokuþrengsla hjá konum. Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 428 sjúklingum sem gengust undir opin ósæðarlokuskipti vegna ósæðarlokuþrengsla á Íslandi 2002-2013. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og voru skráðir fylgikvillar aðgerðar og farið var yfir hjartaómanir fyrir og eftir aðgerð. Forspárþættir dauða innan 30 daga voru metnir með lógistískri aðhvarfsgreiningu og heildarlifun áætluð (Kaplan-Meier). Miðgildi eftirfylgdartíma var 8,8 ár (0-16,5 ár). Niðurstöður: Af 428 sjúklingum voru 151 konur (35,3%) og voru þær að meðaltali tveimur árum eldri en karlar (72,6 ± 9,4 ára á móti 70,4 ± 9,8, p=0,020). Einkenni fyrir aðgerð voru sambærileg milli kynja en konur höfðu marktækt hærra EuroSCORE II fyrir aðgerð (5,2 ± 8,8 á móti 3,2 ± 4,6, p=0,002). Hámarks-þrýstingsfall yfir ósæðarlokuna var hærra hjá konum (74,4 ± 29,3 mmHg á móti 68,0 ± 23,4 mmHg, p=0,013) en tíðni snemmkominna fylgikvilla, bæði minniháttar og alvarlegra, var sambærileg milli kynja líkt og 30 daga dánartíðni (8,6% á móti 4,0%, p=0,076) og 5 ára lifun (80,1% á móti 83,0% fyrir karla, p=0,49). Kvenkyn reyndist ekki vera forspárþáttur fyrir dauða innan 30 daga þegar leiðrétt var fyrir öðrum þekktum forspárþáttum dauða (ÁH: 1,54, 95%-ÖB: 0,63-3,77) svo sem aldri. Ályktanir: Á Íslandi eru konur um þriðjungur þeirra sem gangast undir ósæðarlokuskipti vegna ósæðarlokuþrengsla. Þær eru rúmlega tveimur árum eldri en karlar þegar kemur að aðgerð og virðast hafa lengra gengin ósæðarlokuþrengsli. Tíðni fylgikvilla eftir aðgerð, 30 daga dánartíðni og langtímalifun var engu að síður sambærileg hjá kynjunum.
  • Lyfjameðferð gláku og hugsanlegar milliverkanir við meðferð annarra sjúkdóma

   Valgerður Dóra Traustadóttir; Elín Björk Tryggvadóttir; Ólöf Birna Ólafsdóttir; Aðalsteinn Guðmundsson; María Soffía Gottfreðsdóttir; 1)Augndeild Landspítala 2)Háskólasjúkrahúsið í Malmö/Lundi 3)Háskóla Íslands‚ öldrunarlækningadeild Landspítala 4)Augndeild Landspítala‚ Háskóla Íslands (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2019-04)
   Inngangur: Gláka er alvarlegur augnsjúkdómur og var algengasti blinduvaldur á Íslandi fram á miðja síðustu öld. Þar sem tíðni gláku hækkar með aldri eru sjúklingar með gláku oft einnig með aðra sjúkdóma og á margs konar lyfjum. Mikilvægt er að hafa gláku í huga þegar lyfjameðferð þessara sjúklinga er ákveðin þar sem augndropameðferð og lyf til inntöku geta haft milliverkanir og aukaverkanir sem skipta sköpum fyrir öryggi og líðan. Markmið rannsóknarinnar var að kanna lyfjameðferð sjúklinga með langt gengna gláku. Aðferðir: Fram fór afturskyggn rannsókn þar sem skoðuð voru gögn 100 einstaklinga sem gengust undir fyrstu hjáveituaðgerð við gláku á Landspítala árin 2013-2017. Skráð voru lyf til inntöku á 6 mánaða tímabili fyrir og eftir aðgerð, glákumeðferð fyrir aðgerð, helstu sjúkdómsgreiningar ásamt aldri og kyni. Niðurstöður: Meðalaldur við aðgerð var 75 ár og voru 53 konur í hópnum. Af 100 sjúklingum voru 87 á lyfjum við öðrum sjúkdómum og meðalfjöldi lyfja til inntöku var 5,3 lyf á mann. Meðalfjöldi augnþrýstingslækkandi lyfja var 3,0 á mann. Prostaglandín-hliðstæður voru algengasta augnþrýstingslækkandi lyfið. Algengasti lyfjaflokkurinn vegna annarra sjúkdóma var blóðþrýstingslækkandi lyf sem 57 sjúklingar tóku að staðaldri, þar af voru 30 sjúklingar á beta-blokkum. Zópíklón var algengasta einstaka lyfið, 29 sjúklingar tóku það. Ályktun: Sjúklingar með gláku taka ýmis lyf vegna annarra sjúkdóma sem geta haft áhrif á glákuna og milliverkanir við glákulyf. Þegar lyfjameðferð er ákveðin fyrir einstakling með gláku þarf að hafa í huga hugsanlegar milliverkanir annarra lyfja við gláku og hins vegar milliverkanir gláku­lyfja við aðra sjúkdóma.
  • Skurðsýkingar eftir opnar hjartaaðgerðir – yfirlitsgrein

   Tómas Guðbjartsson; Anders Jeppsson; 1)Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala‚ læknadeild Háskóla Íslands 2)Hjarta- og lungnaskurðdeild Sahlgrenska sjúkrahússins (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2019-04)
   Skurðsýkingar eru algengir fylgikvillar opinna hjartaaðgerða, bæði í bringubeinsskurði og þegar bláæðagræðlingar eru teknir úr ganglimum fyrir kransæðahjáveitu. Oftast er um að ræða yfirborðssýkingar sem svara sýklalyfjameðferð og sárahreinsun, en í 1-3% hjartaaðgerða ná sýkingar í bringubeinsskurði dýpra og valda miðmætisbólgu sem er lífshættulegt ástand. Skurðsýkingar eftir töku bláæðgræðlinga eru algengustu skurðsýkingar eftir opnar hjartaaðgerðir og tefja bata sjúklinga. Flestar sárasýkingar greinast á fyrsta mánuði eftir aðgerð en síðbúnar sýkingar í bringubeini geta komið fyrir og eru flóknar í meðferð.
  • Ísetning á kera við gallblöðrubólgu á Landspítala 2010-2016

   Katrín Hjaltadóttir; Kristín Huld Haraldsdóttir; Pétur Hörður Hannesson; Páll Helgi Möller; 1)Skurðdeild Landspítala 2)4)Skurðdeild Landspítala‚ læknadeild Háskóla Íslands 3)Röntgendeild Landspítala‚ læknadeild Háskóla Íslands (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2019-04)
   Inngangur: Bráð gallblöðrubólga er ein algengasta ástæða bráðainnlagnar á kviðarholsskurðdeild. Meðferðin er gallblöðrutaka en þegar aðgerð er ekki talin fýsileg er gefin íhaldssöm meðferð með sýklalyfjum. Svari sjúklingur ekki meðferð er lagður keri í gallblöðru gegnum húð. Markmið rannsóknarinnar var að skoða ísetningu gallblöðrukera og fylgikvilla þeirrar meðferðar á Landspítala. Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn. Farið var í gegnum sjúkraskrár allra með sjúkdómsgreiningar K80-85 árin 2010-2016 og breytur skráðar í Excel sem einnig var notað við úrvinnslu. Notuð var lýsandi tölfræði. Niðurstöður: Alls fengu 4423 sjúklingar galltengdar sjúkdómsgreiningar á tímabilinu. Þar af voru 1255 (28%) með bráða gallblöðrubólgu og meðalaldur þeirra 58 ár (bil: 18-99). Alls fengu 88 (14%) gallblöðrukera og var meðalaldur þeirra 71 ár (bil: 28-92). Hjá 62 (70%) var kerinn lagður í gegnum lifur. Meðaltímalengd kera var 12 dagar (bil: 0-87). Gerð var gallvegamyndataka um kerann hjá 71 sjúklingi. Sautján sjúklingar voru útskrifaðir heim með kera. Helmingur sjúklinga (n=45, 51%) fór síðar í gallblöðrutöku í kviðsjá, að meðaltali 101 degi frá keraísetningu (bil: 30-258). Breytt var í opna aðgerð hjá 5 sjúklingum (12%). Meðal­aðgerðartími kviðsjáraðgerða var 96 mínútur. Tuttugu og sjö sjúklingar (31%) fengu 28 fylgikvilla og voru flestir minniháttar. Algengasti fylgikvillinn var að keri dróst út (n=20) en aðrir voru gallleki (n=3), verkir (n=3) og endurtekin gallblöðrubólga (n=2). Fimm sjúklingar (6%) létust innan 30 daga frá keraísetningu, þrír vegna sýklasóttarlosts en tveir af ástæðum ótengdum sjúkdómnum eða meðferðinni. Ályktun: Ísetning gallblöðrukera er ekki algeng meðferð við bráðri gallblöðrubólgu á Landspítala. Meðferðin er örugg og getur gagnast vel eldri sjúklingum sem ekki er treyst í skurðaðgerð.
  • Áhrif framköllunar fæðingar eftir 41. viku meðgöngu á fæðingarmáta og útkomu fæðinga

   Ásta Hlín Ólafsdóttir; Daði Már Kristófersson; Sigfríður Inga Karlsdóttir; 1)Björkin 2)Félagsvísindasvið Háskóla Íslands 3)Heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2019-03)
   Inngangur: Framkölluðum fæðingum hefur fjölgað mikið hér á landi sem og víða í nágrannalöndunum. Niðurstöður rannsókna á áhrifum framköllunar fæðinga á útkomu hafa sýnt að slíkt inngrip geti haft áhrif á fæðingarmáta og útkomuþætti kvenna og barna. Efniviður og aðferðir: Markmið þessarar rannsóknar er að kanna hvort framköllun fæðingar eftir 41 viku meðgöngu hafi áhrif á fæðingarmáta og útkomu kvenna og barna. Rannsóknin er afturskyggn ferilrannsókn á útkomu fæðinga kvenna sem fæddu eftir 41 viku meðgöngu þar sem bornar voru saman fæðingar sem fóru sjálfkrafa af stað og framkallaðar fæðingar. Gögnum var safnað fyrir konur sem fæddu eftir 41. viku meðgöngu á Landspítala á árunum 2013 til 2016. Aðhvarfsgreiningum var beitt við greiningu gagnanna. Niðurstöður: Af 2419 konum fóru 61,8% sjálfkrafa af stað en 38,2% fæðinga voru framkallaðar. Meginniðurstöður rannsóknarinnar eru að framköllun fæðingar hjá frumbyrjum eykur líkur á keisaraskurði samanborið við sjálfkrafa sótt (p<0,01). Sama á ekki við um fjölbyrjur. Framköllun fæðingar eykur notkun á mænurótardeyfingu hjá frumbyrjum (p<0,001) og fjölbyrjum (p<0,05). Framköllun fæðingar hafði ekki marktæk áhrif á helstu útkomubreytur barna. Lengd meðgöngu eykur marktækt líkur á áhaldafæðingu (p<0,05), keisaraskurði (p<0,01) og mænurótardeyfingu (p<0,01) sem og Apgar <7 við 5 mínútna aldur (p<0,01) og fósturstreitu (p<0,01). Ályktanir: Framköllun fæðinga hefur nokkur neikvæð áhrif á útkomu fæðinga en leiðir einnig til styttri meðgöngu, sem dregur úr neikvæðu áhrifunum. Mikilvægt er að vega saman ávinning og áhættu af framköllun fæðingar áður en ákvörðun er tekin um hvenær fæðing skuli framkölluð.
  • Líkamsskynjunarröskun - Helstu einkenni, algengi, greining og meðferð

   Hrefna Harðardóttir; Arna Hauksdóttir; Andri Steinþór Björnsson; 1)2) Miðstöð í lýðheilsuvísindum við læknadeild Háskóla Íslands 3) Sálfræðideild Háskóla Íslands (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2019-03)
   Líkamsskynjunarröskun er geðröskun sem einkennist af áleitnum hugsunum um útlitsgalla sem er þó ekki til staðar. Röskunin kemur að jafnaði fram á unglingsárum og er kynjahlutfall nokkuð jafnt. Þeir sem þjást af röskuninni eyða oft mörgum tímum á dag í að hugsa um útlit sitt og fylgir hugsununum yfirleitt áráttukennd hegðun, svo sem að líta endurtekið í spegil eða bera útlit sitt saman við útlit annarra. Vegið algengi röskunarinnar í almennu þýði er um 2% en er talsvert hærra í klínísku samhengi og á stofum húð- og lýtalækna. Hún hefur oft alvarlegar afleiðingar í för með sér, eins og mikla vanvirkni, skert lífsgæði, þunglyndi og mikla sjálfsvígshættu. Lítið er vitað um orsakir röskunarinnar og hvaða þættir spá fyrir um framvindu hennar. Hugræn atferlismeðferð og SRI-lyfjameðferð skila mestum árangri, en ljóst er að fegrunaraðgerðir skila litlu og geta verið skaðlegar fyrir þessa skjólstæðinga. Í greininni eru upplýsingar um hvernig hægt sé að skima fyrir röskuninni og greina hana. Þörf er á frekari rannsóknum á líkamsskynjunarröskun og meðferð við henni.
  • Tengsl stoðkerfiseinkenna íslenskra ungmenna við vinnu með skóla

   Margrét Einarsdóttir; Félagsfræði‚ mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2019-02)
   Inngangur: Einkenni frá stoðkerfi eru algeng meðal unglinga og vitað er að slík einkenni á unglingsárum geta leitt til langvarandi stoðkerfisvandamála á fullorðinsárum. Stoðkerfisvandamál eru vaxandi meðal vinnandi fullorðins fólks og með algengari orsakaþáttum örorku, sérstaklega meðal kvenna. Rannsóknir skortir hins vegar á tengslum stoðkerfiseinkenna ungmenna og vinnu með skóla. Markmið: Rannsóknin skoðar tengsl milli fjögurra tegunda stoðkerfisvandamála (verkja í baki, í vöðvum og liðum, í hálsi og herðum og vöðvabólgu) við umfang vinnu með skóla meðal íslenska ungmenna eftir kyni, aldri og menntunarstöðu foreldra. Efniviður og aðferðir: Rannsóknin byggir á spurningakönnun sem var framkvæmd á fyrri hluta árs 2018. Tilviljunarkennt úrtak 2800 ungmenna á aldrinum 13-19 ára var valið úr Þjóðskrá. Svarhlutfall var 48,6%. Ungmennin voru spurð hversu oft þau hefðu fundið fyrir verkjum síðasta árið og skipt í þrjá hópa þeirra sem ekki vinna með skóla, eru í hóflegri vinnu með skóla (≤12 klst./viku og/eða hafa ekki fastan vinnutíma) og í mikill vinnu (>12 klst./viku með skóla og hafa fastan vinnutíma). Kí-kvaðrat próf var notað til að mæla marktækni. Niðurstöður: Rannsóknin sýnir að ungmenni sem vinna mikið með skóla eru líklegri til að finna stundum eða oft fyrir öllum tegundum stoðkerfiseinkennanna en þau sem vinna ekki með skóla. Tengslin haldast við bakverki óháð lýðfræðilegum þáttum og við öll stoðkerfiseinkennin fjögur hjá stúlkum. Ályktun: Bæta þarf vinnuaðstæður íslenskra ungmenna þannig að þær ýti ekki undir einkenni frá stoðkerfi. Huga þarf sérstaklega að vinnuaðstæðum stúlkna og að þáttum sem ýta undir bakverki.
  • Lyme sjúkdómur á Íslandi – Faraldsfræði á árunum 2011-2015

   Hannes Bjarki Vigfússon; Hörður Snævar Harðarson; Björn Rúnar Lúðvíksson; Ólafur Guðlaugsson; 1) Sýkla- og veirufræðideild Landspítala 2) Sýkla- og veirufræðideild Landspítala‚ barnadeild Hringsins 3) Ónæmisfræðideild Landspítala‚ læknadeild Háskóla Íslands 4) Smitsjúkdómadeild Landspítala (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2019-02)
   Inngangur: Lyme-sjúkdómur stafar af sýkingu með Borrelia burgdorferi sensu latu (B. burgdorferi sl.) og smitast með biti Ixodes mítla. Sjúkdómurinn hefur ekki verið talinn landlægur á Íslandi og aldrei hefur verið lýst tilfelli af innlendum uppruna. Engar rannsóknir hafa verið gerðar á Lyme-sjúkdómi hérlendis. Markmið rannsóknarinnar var að skoða faraldsfræði Lyme-sjúkdóms á Íslandi með sérstakri áherslu á það hvort innlent smit hafi átt sér stað. Efniviður og aðferðir: Rannsóknin náði til allra einstaklinga á Íslandi sem áttu mælingu á mótefnum gegn B. burgdorferi sl. eða höfðu fengið greininguna Lyme-sjúkdómur (ICD-10, A69.2) á Landspítala á árunum 2011-2015. Klínískum upplýsingum var safnað úr rafrænni sjúkraskrá og gagnagrunni sýkla- og veirufræðideildar Landspítala. Niðurstöður: 501 einstaklingur átti mælingu á mótefnum gegn B. burgdorferi sl. á rannsóknartímabilinu og 11 einstaklingar voru greindir með Lyme-sjúkdóm á klínískum forsendum eingöngu. 33 einstaklingar uppfylltu greiningarskilmerki fyrir staðfestu tilfelli af Lyme-sjúkdómi. 32 (97%) einstaklingar voru með erythema migrans og einn (3%) einstaklingur var með Lyme-sjúkdóm í taugakerfi. Að meðaltali greindust 6,6 tilfelli á ári (tvö tilfelli á 100.000 íbúa/ári) og áttu öll tilfellin sér erlendan uppruna. Ályktanir: Lyme-sjúkdómur er sjaldgæfur á Íslandi. Árlega greinast að meðaltali 6-7 tilfelli af sjúkdómnum hérlendis og er fyrst og fremst um að ræða staðbundnar sýkingar með erythema migrans útbrotum. Ekki fannst neitt tilfelli sem hægt er að segja að eigi sér innlendan uppruna og virðist tilfellum af sjúkdómnum ekki hafa farið fjölgandi seinustu árin.
  • Bráð kransæðaheilkenni á Landspítala á árunum 2003-2012

   Gestur Þorgeirsson; Birna Björg Másdóttir; Þórarinn Guðnason; María Heimisdóttir; 1)3) Hjartadeild Landspítala‚ læknadeild Háskóla Íslands 2) fjármálasviði Landspítala 4) læknadeild Háskóla Íslands‚ fjármálasviði Landspítala (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2019-02)
   Inngangur: Á síðustu áratugum hafa orðið miklar breytingar á faraldsfræði kransæðasjúkdóms á Vesturlöndum. Með þessari rannsókn er kannað nýgengi bráðra kransæðaheilkenna á Landspítala árin 2003-2012. Efniviður og aðferðir: Allir sjúklingar með bráð kransæðaheilkenni innlagðir á Landspítala voru rannsakaðir á tímabilinu. Bráð kransæðaheilkenni eru hvikul hjartaöng, brátt hjartadrep án ST-hækkana (NSTEMI) og brátt hjartadrep með ST-hækkun (STEMI). Upplýsinga var aflað úr sjúkraskrám og gagnagrunnum Landspítala og breytingar á tímabilinu skoðaðar. Niðurstöður: Sjúklingar með bráð kransæðaheilkenni voru 7502. STEMI-tilfelli voru 98/100.000 íbúa árið 2003 en 63 árið 2012 sem er fækkun um tæp 36%. Leiðrétt fyrir aldri kom fram marktæk árleg lækkun (p<0,05) á nýgengi STEMI hjá körlum um 5,5% og konum 5,3%. Nýgengi NSTEMI var 54/100.000 íbúa árið 2003 en 93 árið 2012. Sjúklingar með hvikula hjartaöng voru 56/100.000 íbúa árið 2003, 115 árið 2008 og 50 árið 2012. Breytingar á tíðnitölum fyrir NSTEMI og hvikula hjartaöng voru ekki tölfræðilega marktækar. Konur voru um 35% sjúklinga með NSTEMI en um 30% sjúklinga með STEMI og hvikula hjartaöng. Meðalaldur NSTEMI-sjúklinga var 72 ár, um 5 árum hærri en sjúklinga með STEMI og hvikula hjartaöng. Um 30% bráðra kransæðatilfella komu af landsbyggðinni. Ályktun: Á árunum 2003-2012 varð 5% árleg tölfræðilega marktæk lækkun í nýgengi STEMI en á sama tíma var tilhneiging til aukningar á nýgengi NSTEMI, sem í lok tímabilsins var orðið algengasta heilkennið. Nýgengi hvikullar hjartaangar þróaðist með óvenjulegum hætti og er umhugsunarefni hvort andlegt álag í þjóðfélaginu á rannsóknartímabilinu hafi haft þar áhrif.