Recent Submissions

 • Nýjar leiðbeiningar í endurlífgun 2010

  Hildigunnur Svavarsdóttir; Hrafnhildur Lilja Jónsdóttir (Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, 2010-12)
  18. október sl. gaf Evrópska endurlífgunarráðið (ERC) út nýjar leiðbeiningar í endurlífgun í stað þeirra sem komu út árið 2005 en nýjar leiðbeiningar eru gefnar út á fimm ára fresti. Eins og áður byggjast leiðbeiningarnar á niðurstöðum nýjustu rannsókna á meðferð og árangri í endurlífgun á alþjóðlega vísu (International Consensus on CPR Science with Treatment Recommendations (CoSTR)). Rannsóknarvinnan fól meðal annars í sér ýtarlega yfirferð vísindarannsókna sem tengjast endurlífgun. Endurlífgunarfræðin eru í stöðugri þróun og er nauðsynlegt að uppfæra klínískar leiðbeiningar sem endurspegla þessa þróun svo heilbrigðisstarfsmenn og aðrir geti ávallt unnið samkvæmt nýjustu leiðbeiningum. Nýju leiðbeiningarnar eru að mestu óbreyttar frá síðustu útgáfu þeirra árið 2005. Ástæðan er annars vegar sú að lítið er um birtingu á nýjum rannsóknaniðurstöðum og hins vegar er ástæðan sú að nýjar niðurstöður styrkja einfaldlega fyrri rannsóknarniðurstöður (Nolan o.fl., 2010). Inn í eftirfarandi umfjöllun um endurlífgun fullorðinna (grunnendurlífgun, notkun hjartastuðtækja og sérhæfða endurlífgun) er fléttuð kynning á nýjum leiðbeiningum og þeim breytingum sem hafa orðið frá útgáfu síðustu leiðbeininga árið 2005 (tafla 1).
 • Hringja - hnoða : tillaga að einfölduðum viðbrögðum almennings við hjartastoppi utan sjúkrahúss

  Davíð O. Arnar,; Svanhildur Þengilsdóttir; Bjarni Torfason; Felix Valsson; Gestur Þorgeirsson; Hildigunnur Svavarsdóttir; Jón Baldursson; Jón Þór Sverrisson; Þórður Þórkelsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2002-09-01)
  Hjartastopp hjá fullorðnum er í miklum meirihluta tilfella orsakað af sleglahraðtakti (ventricular tachycardia) eða sleglatifi (ventricular fibrillation). Ef sleglatif er orsökin er rafstuð á brjóstholið það eina sem dugar til að koma aftur á reglulegum sínustakti. Þegar hjartastopp verða utan sjúkrahúss líður hins vegar oft einhver tími þar til rafstuðsgjafi kemur á vettvang, yfirleitt með sjúkrabifreið. Ef vitni eru að hjartastoppi utan sjúkrahúss skiptir gríðarlega miklu máli að hefja grunnendurlífgun sem allra fyrst eftir að kallað hefur verið á aðstoð. Slík viðbrögð geta lengt þann tíma sem sjúklingur er í sleglatifi eða sleglahraðtakti og auka þannig líkur á að mögulegt sé að koma aftur á sínustakti með rafstuði (1). Jafnframt getur þetta dregið úr hættu á heilaskaða ef einstaklingurinn lifir hjartastoppið af (2). Mikilvægi þess er augljóst þar sem hæfni þeirra sem lifa af hjartastopp fer að miklu leyti eftir því hvort heilastarfsemi hefur orðið fyrir varanlegum skaða eða ekki.
 • Hreinar hendur hindra smit : handhreinsun í heilbrigðisþjónustu

  Ása St. Atladóttir (Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, 2007-04-01)
  Samtökin World Alliance for Patient Safety starfa á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) og er breski landlæknirinn, sir Liam Donaldson, formaður þeirra. Samtökin stýra fjölþjóðlegu verkefni sem lýtur að því að efla öryggi í heilbrigðisþjónustunni, m.a. með því að vinna gegn sýkingum, og hefur verkefnið verið kallað á íslensku Hreinlæti og örugg heilbrigðisþjónusta haldast í hendur (Clean care is safer care). Sir Liam heimsótti Ísland fyrir skömmu til kynningar á verkefninu og við það tækifæri undirritaði Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, samkomulag um að Ísland taki þátt í verkefninu og yfirlýsingu um að Ísland takist á hendur skuldbindingar til að vinna að fækkun sýkinga innan heilbrigðisþjónustunnar. Um 40 aðrar þjóðir hafa undirritað sams konar yfirlýsingu.