Icelandic Journal Editorials
Recent Submissions
-
Notkun lyfja, fæðubótarefna og náttúruvara á meðgönguInngangur: Lyfjanotkun á meðgöngu er talin algeng og oft nauðsynleg, þrátt fyrir að skortur sé á rannsóknum og gagnreyndum upplýsingum um notkun lyfja á meðgöngu. Markmið rannsóknarinnar var að kanna lyfjanotkun þungaðra kvenna fyrstu 20 vikur meðgöngu. Einnig að kanna notkun vítamína, steinefna, fitusýra og náttúruvara. Viðhorf kvenna til slíkrar notkunar á meðgöngu var einnig kannað ásamt upplýsingaöflun þeirra. Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var framkvæmd á fósturgreiningardeild Landspítala á tímabilinu janúar til apríl 2017. Konum sem mættu í 20 vikna ómskoðun var boðin þátttaka og spurningalisti þá lagður fyrir konurnar í kjölfar skoðunar. Niðurstöður: Af 213 þátttakendum notuðu 90% lyf einhvern tíma á fyrstu 20 vikum meðgöngu. Um 80% lyfjanna falla í FASS-öryggisflokka A og B og samkvæmt því talið óhætt að nota þau á meðgöngu. Aðeins 14% kvennanna notaði ekki fólínsýru fyrstu 12 vikurnar og voru tengsl við ungan aldur (p=0,019) og búsetu utan höfuðborgarsvæðisins (p=0,03). Hlutfall kvenna sem notuðu náttúruvörur var 14% en upplýsingar skortir um notkun þeirra á meðgöngu. Mikill meirihluti kvennanna (81%) taldi sig hafa fengið fullnægjandi upplýsingar þegar lyfi var ávísað og 94% þeirra taldi sig hafa aðgengi að fullnægjandi upplýsingum um lyf á meðgöngu. Algengast var að leita á netið (51%) eða til ljósmóður (44%). Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að algengt er að konur taki lyf og fæðubótarefni á meðgöngu. Notkun flestra lyfjanna telst örugg á meðgöngu. Meirihluti barnshafandi kvenna tekur fólínsýru. Barnshafandi konur hafa rökrétt og allajafna jákvætt viðhorf til lyfjanotkunar á meðgöngu.