• Hvert stefnir íslensk læknisfræði? [ritstjórnargrein]

   Árni Björnsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 1992-08-01)
   Sumarið 1943 að loknu stúdentsprófi fékk ég vinnu í grjótnámu í Eskihlíðinni, þar sem nú er stundað keiluspil. Þetta var heldur óvistlegur vinnustaður, vinnuöryggi í slakara lagi og engan sem í slagviðri bograði þar yfir grjóti óraði fyrir því að á toppi bersköllóttrar hæðarinnar myndi rísa musteri, ekki reist á bjargi heldur á heitu vatni. Ég lenti með fingur á milli tveggja steina og særðist nokkuð. Landspítalinn, háborg íslenskrar læknislistar, var ekki langt undan og þangað leituðu þeir sem urðu fyrir líkamlegum skakkaföllum í þann tíð. Ég fór með minn særða fingur og var vel tekið af ungum og glaðlegum lækni sem saumaði saman sárið og batt um. Við tókum tal saman og þegar hann frétti að ég hefði nýlokið stúdentspróíi spturði hann um áform mín um framhaldsnám. Ég sagðist hafa í hyggju að læra læknisfræði. Það þótti unga lækninum hið mesta óráð, sagði að þegar væri offjölgun í íslenskri læknastétt og engar líkur til að stöðum fjölgaði á næstunni. Helsta von um starf væri að gerast héraðslæknir, sem þó væri ekki heldur vænlegt, því að minnsta kosti allar sæmilegar héraðslæknisstöður væru nú setnar. Íbúar á íslandi voru þá þá 121.579 og læknar 610, eða einn á hverja 1100 íbúa. Ungi læknirinn, sem tók þarna á móti mér og brá nokkrum skugga á bjartar vonir mínar um tækifæri til að líkna sjúkum á Íslandi, hét Gunnar Cortes. Þremur árum áður hafði hann komið með svo kölluðum Petsamoförum heim frá námi og starfi á Norðurlöndum. Í þeim hópi voru 11 læknar, en sex aðrir komu heim um svipað leyti eftir öðrum leiðum. Koma þessa unga hóps lækna olli nokkrum óróa hjá þeim sem fyrir voru og það svo, að ástæða þótti til að kalla saman fund í Læknafélagi Reykjavíkur til að ræða þann vanda, sem þessi mikla fjölgun í íslenskri læknastétt mundi valda.
  • Nota læknar heilbrigða skynsemi við sárameðferð [ritstjórnargrein]

   Árni Björnsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 1988-10-15)
   Vitur maður útlenskur hefur einhvers staðar sagt: »common sense is very uncommon« og sér þess víða stað. Hugtakið »common sense« hefur verið þýtt á íslensku sem heilbrigð skynsemi og án þess að viðurkenna, að það sem er »common« þurfi endilega að vera heilbrigt, þá mun ég nota íslensku þýðinguna í því sem hér fer á eftir. Einhver annar útlenskur maður eða ef til vill sá sami, hefur sagt að menntun og þó sérstaklega þröng sérfræðimenntun rugli öðru fremur þann þátt í mannlegu eðli sem menn kalla heilbrigða skynsemi. Það hefur hvarflað að mér, einkum upp á síðkastið, hvort þessi þróun sé ekki að verða í íslenskri læknastétt, en að loknu embættisprófi vita menn nær allt um sjaldgæfa sjúkdóma, djúphugsuð grunnvísindi og flóknar rannsóknir, en þau atriði í læknisfræðinni sem algeng eru og hægt er að leysa með heilbrigðri skynsemi virðast þvælast fyrir mönnum í fræðaþokunni. Sáralækningar eru fyrsta og enn í dag eitt algengasta viðfangsefni lækna. Samt er það svo, að þetta algenga viðfangsefni bögglast jafn mikið fyrir brjóstinu á læknum í dag og kannski ennþá meir en á dögum Hippokratesar heitins.
  • Um stjórnunarhlutverk lækna [ritstjórnargrein]

   Árni Björnsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 1992-01-15)
   Í því sem hér fer á eftir verður reynt að gera grein fyrir þeim breytingum, sem orðið hafa á áhrifum lækna í stjórnun heilbrigðismála og ástæðunum fyrir þessum breytingum. Bent er á hugsanlegar leiðir til að snúa þessari þróun við, meðal annars með því að auka hlut lækna í stjórnun sjúkrastofnana. Í því sambandi er lögð fram tillaga að skipuriti fyrir stjórn Ríkisspítalanna, en samsvarandi skipurit mætti gera fyrir aðrar sjúkrastofnanir.