• Nýtt segavarnarlyf eftir 50 ár : sportif III rannsóknin [ritstjórnargrein]

      Árni Kristjánsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2003-05-01)
      Vestur-Íslendingar ræktuðu steinsmára til jarðbóta um næstsíðustu aldamót eins og sumir landar nota lúpínu nú til dags. Sumir settu smárann í súrhey, gáfu hann nautpeningi og uppskáru blæðingar í skepnunum. Orsökin reyndist vera lækkun á próthrombíni vegna myndunar dicoumaróls í súrheyinu. Þetta leiddi til framleiðslu warfarins í rannsóknarstofu eftir lok síðari heimsstyrjaldar og var það notað til að útrýma nagdýrum. Skömmu síðar sannaði náungi nokkur ágæti efnisins til blóðþynningar þegar hann reyndi að fyrirfara sér með því að taka inn risaskammt af efninu. Síðustu hálfa öld hafa Íslendingar fengið fyrst dicoumaról og síðan warfarin í síauknum mæli til blóðsegavarna gegn heilaslögum og alls konar segareki í kjölfar ýmissa sjúkdóma. Warfarin hemur áhrif K-vítamíns í lifur og kemur þannig í veg fyrir framleiðslu ýmissa storkuþátta. Það tekur þrjá til fimm daga að ná fullum áhrifum og þau hverfa á jafnlöngum tíma. Skammtar eru mjög einstaklingsbundnir, mæla þarf áhrifin jafnaðarlega og fjöldi lyfja hefur milliverkanir við lyfið. Blæðingar vegna þess eru tíðar og ósjaldan alvarlegar, jafnvel banvænar, og loks getur warfarin valdið fósturvanskapnaði eða dauða. Ekki mundi nýtt lyf með þvílíka eiginleika fást skráð á bækur lyfjayfirvalda nú til dags.