• Svæfingar í 150 ár [ritstjórnargrein]

      Ólafur Þ. Jónsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 1996-10-01)
      „ There shall be no pain." Þessi sigurvissa fullyrðing er áletrun á minnisvarða um einn frumherja svæfinganna, Bandaríkjamanninn Horace Wells (1815— 1848), en um þessar mundir eru 150 ár frá því að svæfingar við skurðaðgerðir hófust. Tilkoma þeirra var merkur áfangi í sögu mannkynsins og þróun lækninga. Þykir við hæfi aö þessara tímamóta sé að nokkru getið á þessum vettvangi. Fyrir tíma svæfinganna voru gerðar ýmsar aðgerðir í einhverjum mæli, svo sem setning beinbrota, aflimanir, aðgerðir á höfuðkúpu, steinar í þvagfærum sóttir eða brotnir. Helstu ráö til þess að koma í veg fyrir sársaukann voru þulu- og bænalestur, sjúklingar voru látnir anda að sér gufum af jurtaseyði eða drekka áfengi. Hraði og leikni skurðlæknisins skipti mestu máli. Þannig var það þegar fyrsta svæfingin fór fram í Englandi í desember 1846, að skurðlæknirinn Robert Liston (1794-1847) var aðeins 25 sekúndur að aflima fótlegg (1). Upphaf svæfinganna átti sér nokkurn að-draganda. Valerius Cordus (1515-1544), þýskur jurtafræðingur, uppgötvaði eter árið 1540. Joseph Priestley (1733-1804), enskur prestur og áhugamaður um efnafræði, uppgötvaði súrefni árið 1771 og glaðloft árið 1772. Hann gerði sér þó ekki grein fyrir hinum verkjastillandi eiginleikum þess síðarnefnda. Englendingurinn Humphrey Davy (1778-1829) rannsakaði glaðloft á sjálfum sér árið 1800, gaf því nafnið og ritaði um eiginleika þess. Honum tókst þó ekki að vekja áhuga annarra á þessu efni. Sama er að segja um landa hans Henry Hill Hickman (1800-1830) sem gerði tilraunir með koltvísýring til svæfinga. Klóróform var uppgötvað árið 1831 samtímis af Bandaríkjamanninum Samuel Guthrie, Frakkanum Eugene Soubeiran og Þjóðverjanum Justus Liebig. Þær uppgötvanir sem að framan greinir urðu þó ekki til þess að svæfingar við skurðaðgerðir hæfust. Það varð ekki fyrr en síðar. Aftur á móti urðu menn varir við þá eiginleika sumra þessara efna, að hægt væri að komast í annarlegt ástand með því að anda þeim að sér og voru þau vegna þess notuð í samkvæmum til skemmtunar, einkum á árunum eftir 1830.