• Læknadagar - fyrir hverja? [ritstjórnargrein]

   Arnór Víkingsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2003-12-01)
   Enn á ný er kominn desember. Jól og áramót framundan en undanfarin ár hefur þessi tími ársins einnig markað önnur tímamót í mínum huga: Undanfari Læknadaga. Nú veit ég að fáir aðrir hugsa á þessum nótum í desember og er það gott og rétt. Samt vona ég að allmargir læknar muni eyða nokkrum mínútum í jólamánuðinum til að hugleiða ofangreindan titil: Fyrir hverja eru Læknadagar? Fræðsla og menntun eru þættir svo samofnir læknisstarfinu að flestum kollegum þykir óhugsandi annað en að vera síleitandi að nýrri þekkingu. Ég fullyrði að sú virðing sem almennt er borin fyrir læknum í samfélaginu er ekki síst tilkomin vegna þeirrar löngunar flestra lækna að reyna ætíð að veita skjólstæðingum sínum þá bestu mögulegu læknisþjónustu sem þekking hvers tíma býður upp á. Sú árþúsunda þróun fræðslustarfsemi lækna sem kannski hófst með Hippókratesi 400 árum fyrir Kristsburð og lifir enn dágóðu lífi er mögnuð og ótrúleg saga og til þess fallin að gera mann hreykinn af því að tilheyra þessari stétt fræðara. Manni finnst á stundum að þessi þörf lækna til að fræðast og miðla þekkingu sinni til annarra hljóti að vera greypt í einhver "fræðslugen" sem hafi þróast á þessu tímabili. Engu að síður hefur ýmsum samtökum lækna þótt tilhlýðilegt að setja þetta augljósa mikilvægi fræðslustarfsemi í lög og reglur. Til dæmis segir í Codex Ethicus, 3. gr: "Læknir skal líta á fræðslustarf sem ljúfa og sjálfsagða skyldu." og í lögum Læknafélags Íslands er einn megintilgangur félagsins sagður vera að "stuðla að aukinni menntun lækna" meðal annars með Fræðslustofnun lækna sem skal "styrkja símenntun og fræðslustarf lækna".
  • Sjúkdómsgreining fyrr og nú : tímalaus læknislist í stöðugri framþróun [ritstjórnargrein]

   Arnór Víkingsson; Department of internal medicine, Landspitali University Hospital, Hringbraut, 101 Reykjavík, Iceland. arnor@landspitali.is. (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2001-06-01)
   Sú var tíðin að eiginleg læknavísindi og læknislist voru tæpast til. Örlög sjúkra voru á valdi grískra guða þar sem Eskulapíus ríkti með snákastafinn í hendi og naut aðstoðar barna sinna Hýgeu og Panakeu. En grískir læknar með "föður læknisfræðinnar", Hippókrates, í broddi fylkingar breyttu viðhorfinu til sjúkdóma, þeir reyndu að skilja eðli þeirra og lögðu þar með grunninn að síðari tíma lækningahefð. Í stað yfirnáttúrulegra afla leituðu þeir skýringa á vanheilsu í manninum sjálfum. Ójafnvægi í líkamsvessunum, blóði, gulu galli (frá lifur), svörtu galli (frá milta) og slími var talið skýra flesta sjúkdóma. Með eigin skynfæri og hugsun að vopni skráðu grísku læknarnir sjúkrasögu og skoðun af mikilli kostgæfni. Skilningarvitin fimm, snerting, sjón, heyrn, lykt og bragð nýttust til sjúkdómsgreiningar. Yfirbragð sjúklings, útlit húðar eða hárs og mýkt kviðar þótti skipta máli. Ennfremur lyktin af þvagi, saur, svita og andadrætti. Þeir létu einskis ófreistað til að fá sem bestar upplýsingar um ástand hins sjúka, til dæmis "efnagreindu" þeir líkamsvessa með bragðlaukunum. Sætan í þvaginu benti til sykursýki (mellitus = sætur). Eldhugur þessara frumkvöðla var aðdáunarverður.