• Astmameðferð á krepputímum [ritstjórnargrein]

   Davíð Gíslason (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2010-04-01)
   Þegar kreppir að í þjóðfélaginu, eins og nú gerir, er leitað allra leiða til að draga úr útgjöldum ríkissjóðs. Við sem vinnum í heilbrigðiskerfinu finnum áþreifanlega fyrir því. Í sambandi við útgjöld til heilbrigðismála hefur lyfjakostnaður lengi verið í brennidepli. Í þeirri umræðu vill oft gleymast mikilvægi lyfja í nútíma læknisfræði. Sú var tíðin að astmasjúklingar voru tíðir gestir á bráðamóttökum og legudeildum spítalanna. Þetta hefur breyst með tilkomu nýrra astmalyfja þótt orðið hafi þreföldun á algengi astma hjá ungu fólki hér á landi eftir 1990 (óbirtar heimildir). Finnar voru með sérstakt átaksverkefni varðandi astma á árnum 1994-2004.1 Frá 1980-1999 varð nærri fjórföldun á algengi astma þar í landi, en þrátt fyrir það fækkaði innlögnum á sjúkrahús um 36% og dauðsföllum af völdum astma fækkaði enn meira. Kostnaður vegna astma var kannaður í 11 Evrópulöndum árin 2000-2002. Hann var eðlilega minnstur hjá þeim sem hvorki misstu úr vinnu eða lentu á sjúkrahúsi, en átta sinnum meiri hjá þeim sem misstu úr vinnu og þurftu að leggjast á sjúkrahús.2 Langmestur kostnaður var fólginn í vinnutapi. Virkari lyf við astma hafa sparað miklar fjárhæðir fyrir samfélagið og bætt lífsgæði fjölda fólks.
  • Fæðuofnæmi á Íslandi [ritstjórnargrein]

   Davíð Gíslason (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2011-01)
   Í þessu tölublaði Læknablaðsins er fróðleg grein um fæðuofnæmi íslenskra barna á fyrsta ári.1 Greinin er ávöxtur yfirgripsmikillar fjölþjóðlegrar rannsóknar á fæðuofnæmi, sem kostuð er af Evrópusambandinu og hefur fengið nafnið EuroPrevall (www.euro-prevall.org). Rannsóknin hófst árið 2005 og gagnasöfnun lauk 2009. Auk Evrópuþjóða voru Nýja-Sjáland, Ástralía, Rússland, Indland og Kína einnig þátttakendur. Þátttaka Landspítalans er fjórþætt: Að kanna algengi og þróun fæðuofnæmis frá fæðingu og upp að 24 mánaða aldri, að kanna algengi fæðuofnæmis hjá 7-10 ára börnum og kanna algengi fæðuofnæmis hjá fullorðnum frá 20 til 54 ára aldurs. Auk þess voru valdir einstaklingar sem leituðu til lækna vegna gruns um fæðuofnæmi og þeir rannsakaðir ítarlega með húðprófum fyrir fjölda fæðutegunda, mælingum á sértækum IgE-mótefnum og tvíblindum þolprófum til að staðfesta fæðuofnæmi. Með því var aflað mikilvægra upplýsinga um notagildi húðprófa og sértækra IgE-mælinga við greiningu á fæðuofnæmi. Í þessum þætti rannsóknarinnar var safnað stórum hópi einstaklinga með vel skilgreint fæðuofnæmi, og þeir lögðu til sermi fyrir sameiginlegan evrópskan gagnabanka til að staðla ofnæmisvaka fyrir húðpróf og IgE-mótefni.
  • Lífshættuleg ofnæmisviðbrögð [ritstjórnargrein]

   Davíð Gíslason (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2002-08-01)
   Á öðrum stað hér í blaðinu er grein um bráðalost. Bráðalost kemur í kjölfar losunar boðefna úr mastfrumum og basofílum og er annaðhvort vegna IgE miðlaðra ofnæmisviðbragða (Insect Bites and Stingsanaphylaxis), til dæmis hnetuofnæmis eða latexofnæmis, eða ofnæmislíkra viðbragða (anaphylactoid). Dæmi þar um eru viðbrögð vegna röntgenskuggaefna og aspiríns. Einnig kemur fyrir að engin skýring finnst (idiopathic anaphylaxis). Sýna má fram á losun boðefna með mælingu á tryptasa í sermi. Taka þarf sýnið sem fyrst eftir að einkenni ná hámarki því helmingunartími fyrir tryptasa í sermi er innan við tvær klukkustundir. Einnig getur verið gott að endurtaka mælinguna, til dæmis eftir fjórar og átta klukkustundir til að fylgjast með breytingum á honum í sermi. Mæling á tryptasa er sérstaklega mikilvæg við losti í tengslum við svæfingu, þar sem mörg lyf eru gefin og óvíst hvort um ofnæmisviðbrögð er að ræða eða hvort aðrar orsakir séu fyrir lostinu.