• LR 100 ára : læknar og samfélagið

      Högni Óskarsson; Gestur Þorgeirsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2009-10-01)
      Eitt hundrað ár eru ekki langur tími í sögu læknisfræðinnar almennt, enda nær sú saga örugglega langt aftur fyrir elstu skrifuðu heimildir. Mannskepnan hefur örugglega reynt að bæta heilsu sína og græða sár sín frá því hún fór að ganga um á þessari jörð. Í sögu lækninga á Íslandi eru eitt hundrað ár ekki heldur svo langur tími. Skráðar heimildir um lækningar á Íslandi er að finna í Íslendingasögum og í annálum. Óhætt er að fullyrða að frá næstsíðustu aldamótum hafi framfarir í læknisfræði orðið hvað stórstígastar; sama hvort litið er til rannsókna á uppruna og eðli sjúkdóma, greiningar þeirra eða meðferðar. Bætt heilsa, auknar lífslíkur og lífslengd, eru vissulega ekki aðeins afrakstur þessa heldur ráða hér miklu almennir hollustuhættir, mataræði og betri félagslegur aðbúnaður borgaranna. Það er því ánægjulegt að hugsa til þess að allt frá stofnun Læknafélags Reykjavíkur á haustmánuðum 1909 og á fyrstu áratugunum í sögu þess var félaginu ekki aðeins beitt til þess að bæta alla starfsaðstöðu lækna og þjónustu við sjúklinga, heldur lagði það einnig mikla áherslu á almenningsfræðslu um heilbrigði og hollustu, á sóttvarnir almennt og varnir gegn kynsjúkdómum. Læknafélag Reykjavíkur tók líka frumkvæði í eða hvatti til stofnunar félaga eins og Berklavarnafélags Íslands og Rauðakrossdeildar Alþjóða Rauða krossins á Íslandi, svo að fátt eitt sé nefnt.