• Átraskanir og átröskunarmeðferð á Landspítala [ritstjórnargrein]

      Guðlaug Þorsteinsdóttir (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2010-12-01)
      Átraskanir eru geðsjúkdómar sem einkennast af sjúklegum ótta við mat og hræðslu við að þyngjast eða missa stjórn á mataræði og verða feit(ur). Þegar talað er um átraskanir í daglegu tali tengja flestir þær við lystarstol (anorexia nervosa) og sjá fyrir sér horaðar, veiklulegar ungar konur sem virðast lifa á loftinu. Flestum er það óskiljanlegt hvernig vannærður einstaklingur getur neitað sér um að borða þegar nóg framboð er af mat. En átraskanir eru fleiri en lystarstol og í heimi fræðimanna er deilt um flokkun átraskana. Sumir vilja aðeins hafa eina átröskunargreiningu, enda sé fleira sem sameinar átraskanir en aðgreinir þær.1 Lystarstol og lotugræðgi séu aðeins sitt hvor hliðin á sama teningi. Það sem viðhaldi átröskuninni, hvaða nafni sem hún nefnist, sé að minnsta kosti eitt af eftirtöldu: fullkomnunarárátta, lágt sjálfsmat, óþol gagnvart vanlíðan og erfiðleikar í samskiptum. Bent er á óstöðugleika greiningar, margir byrji til dæmis með lystarstol sem þróast síðar yfir í lotugræðgi,2 greiningarskilmerkin séu fremur stíf og flestir sem leiti meðferðar lendi í raun í „afgangsflokknum“; ódæmigerðar átraskanir. Aðrir vilja flokka átraskanir með kvíðasjúkdómum og benda á líkindi við fælni eða áráttuþráhyggjuröskun. Beðið er í ofvæni eftir DSM 5, sem kemur út 2013, en ljóst er að átraskanir verða áfram sérstakir sjúkdómar þar sem helstu flokkar halda sér: lystarstol, lotugræðgi og ódæmigerðar átraskanir, en talsverðar breytingar verða á greiningarskilmerkjum sem og undirflokkum.