• Aldarafmæli Háskóla Íslands og læknadeildar [ritstjórnargrein]

   Guðmundur Þorgeirsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2010-10-01)
   Stofnun Háskóla Íslands, 17. júní 1911, var ekki aðeins kjarninn í hátíðahöldum Íslendinga á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar, heldur stórt og mikilvægt skref á vegferð þjóðarinnar til stjórnarfarslegs og efnahagslegs sjálfstæðis. Nú er blásið til aldarafmælis og full ástæða til að hvetja alla þá sem Læknablaðið lesa að taka virkan þátt í fjölmörgum atburðum, málþingum og hátíðafyrirlestrum, sem haldnir verða á þessum tímamótum. Læknadeild var ein af fjórum stofndeildum Háskóla Íslands ásamt heimspekideild, lagadeild og guðfræðideild. Hún tók við læknakennslunni af Læknaskólanum sem starfað hafði frá 1876. Hins vegar er formleg læknakennsla á Íslandi jafngömul formlegri læknisþjónustu því í erindisbréfi Bjarna Pálssonar, okkar fyrsta landlæknis, frá 1760 er það skilgreindur hluti af hans embættisskyldum að kenna læknisefnum og yfirsetukonum.1 Fyrsta embættisprófið í læknisfræði þreytti Magnús Guðmundsson, síðar fjórðungslæknir Norðlendinga, árið 1763. Prófið var haldið í heyranda hljóði á Þingvöllum og verður ekki annað sagt en að prófstaðurinn hafi hæft mikilvægi atburðarins. Saga íslenskrar læknakennslu er þannig samofin sögu íslenskrar læknisþjónustu. Segja má að þar sé byggt á elstu arfleifð stéttarinnar því í eiðnum sem kenndur er við Hippókrates frá Kos og er um 2400 ára gamall segir svo í þýðingu Valdimars Steffensen, læknis:2 „Ég vil virða læknisfræðikennara minn sem foreldra mína, taka þátt í lífskjörum hans ef nauðsyn krefur, ala önn fyrir honum; enn fremur vil ég virða afkvæmi hans sem bræður, og kenna þeim læknisfræði, ef þeir æskja þess, endurgjaldslaust.“
  • Endurlífgun utan sjúkrahúsa [ritstjórnargrein]

   Guðmundur Þorgeirsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2001-10-01)
   Í september 1950 millilenti flugvél, sem var á leiðinni frá Lúxembourg til Nýfundnalands, á Reykjavíkurflugvelli en þaðan hélt hún áfram til Fíladelfíu í Bandaríkjunum. Tæpast er þessi atburður í frásögur færandi flugsögunnar vegna en varðar efni þessa greinarstúfs því um borð var ungur austurrískur læknir, Peter J. Safar, sem átti eftir að vinna gagnmerkt brautryðjendastarf í endurlífgun og þróa aðferðir sem enn eru í fullu gildi (1). Nokkrum árum síðar var hann orðinn yfirlæknir á svæfingadeild Baltimore City Hospital og í desember 1956 hóf hann að rannsaka áhrif og virkni munn við munn öndunar á fólki. Byggði hann á nýlegri athugun kollega síns James Elam á hundum og í kjölfarið kom uppgötvun Kouwenhovens, Judes og Knickerbrockers á ytra hjartahnoði (2). Safar og félagar tengdu þessa þætti saman í samhæfða aðgerð (3) sem sigraði heiminn undir skammstöfuninni CPR (cardiopulmonary resuscitation) enda byggð á traustum lífeðlisfræðilegum grunni og vönduðum rannsóknum brautryðjendanna. Vegna þess hve skyndidauði er stórt og mikilvægt viðfangsefni um heim allan hefur þróast alþjóðlegt samstarf um reglubundna endurskoðun á endurlífgunaraðferðum og tengdri lyfjameðferð sem byggist á nýjustu rannsóknum hvers tíma. Síðustu ráðleggingar birtust síðastliðið ár ásamt ítarlegri greinargerð um nánast allar hliðar málsins, ekki síst hinn vísindalega grundvöll og veilurnar sem í honum eru (4).
  • Forvarnir gegn hjarta- og æðasjúkdómum á tímum gagnreyndrar læknisfræði [ritstjórnargrein]

   Guðmundur Þorgeirsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2010-02-01)
   Það hefur lengi verið haft fyrir satt að betra sé heilt en vel gróið og enginn efast um stórkostlegan ávinning af því að koma í veg fyrir sjúkdóma eins og barnaveiki, bólusótt eða mænusótt sem lögðu heil samfélög í rúst áður en bóluefni fundust. Virðist augljóst að æskilegra sé að forðast sjúkdóm en treysta á lækningu með tilheyrandi þjáningu, áhættu og kostnaði. Engu að síður er það rökrétt krafa að forvarnarúrræði lúti sönnunarkröfum gagnreyndrar læknisfræði rétt eins og meðferðarúrræði. Efasemdarmenn um forvarnir benda á að hroki og forsjárhyggja kunni að felast í því að þrýsta á heilbrigt fólk að breyta lífsháttum sínum í von um að með því minnki líkur á sjúkdómum í framtíðinni. Forvarnastarfið geti snúist upp í andhverfu sína, valdið tilefnislausum áhyggjum og vanlíðan, breytt heilbrigðum einstaklingi í sjúkling.1 Loks er bent á að ekki sé heppilegt að fylla heilsugæslustöðvar af heilbrigðu fólki sem komist fram fyrir þá veiku í biðröð heilsugæslunnar. Allar þessar ábendingar ber að taka alvarlega en í reynd eru álitamálin í forvarnastarfi hliðstæð þeim sem við er að fást í meðferð sjúkra. Það þarf að forgangsraða, vega ávinning á móti áhættu og kostnaði og það má ekki setja líf einstaklinga eða samfélags á annan endann. Og jafnvel árangursríkt forvarnastarf leysir okkur ekki undan þeim skyldum sem við höfum við sjúkt fólk.
  • Rekstrarform sjúkrahúsa

   Guðmundur Þorgeirsson; Landspitali University Hospital, and University of Iceland (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2017-03-03)
  • Þögull kransæðasjúkdómur [ritstjórnargrein]

   Emil L. Sigurðsson; Guðmundur Þorgeirsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 1996-07-01)
   Hver þegir? Er það hjartað eða úttaugakerfið, miðtaugakerfið eða sjúklingurinn sjálfur? Þótt brjóstverkur hafi löngum verið talinn helsta einkenni kransæðasjúkdóms hafa þögul eða verkjalaus form sjúkdómsins verið kunn allt frá því að James B. Herrick lýsti fyrst þöglu hjartadrepi árið 1912 (1). Þögul blóðþurrð (silent myocardial ischemi) er blóðþurrðarkast sem getur endurspeglast í ST-T breytingum á hjartarafriti eða skertri slökunar- eða samdráttarhæfni hjartavöðvans án þess að valda brjóstverk eða annarri vanlíðan. Slík köst eru algeng meðal kransæðasjúklinga og er talið að á milli 60-100% sjúklinga með hjartaöng fái slík einkennalaus köst (2) en þau koma einnig fyrir hjá einstaklingum sem fengið hafa hjartadrep sem og hjá þeim sem ekki hafa þekktan kransæðasjúkdóm. Rannsóknir hafa sýnt að um 70% blóðþurrðarkasta hjá sjúklingum meö hjartaöng eru þögul (3) og eins og önnur blóðþurrð hafa þau slæm áhrif á horfur (4). Þessi þöglu blóðþurrðarköst virðast hafa sama lífeðlisfræðilega bakgrunn (3) og þau sem einkenni gefa og þau láta undan hefðbundinni meðferð við hjartaöng (5, 6). Það er hins vegar óvíst hvort sú meðferð hefur áhrif á horfur og flestar rannsóknir hafa miðast við sjúklinga með þekktan kransæðasjúkdóm. Það er því enn umdeilt hvort lyfjameðferð eigi að beinast gegn þessum þöglu blóðþurrðarköstum (7). Niðurstöður íslenskra rannsókna hafa staðfest að að minnsta kosti 30% hjartadrepa meðal karlmanna eru þögul (8).