• Fárveikir sjúklingar með inflúensu A (H1N1)v 2009 og skjót birting greina hjá Læknablaðinu [ritstjórnargrein]

   Gunnar Guðmundsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2010-02-01)
   Það hefur ekki farið fram hjá neinum að á seinni hluta ársins 2009 gekk faraldur inflúensu A (H1N1)v 2009 yfir Ísland og talið er að tugþúsundir manna hafi veikst. Fram fór fjöldabólusetning og tilfellum fækkaði mikið. Búist er við að faraldurinn geti farið aftur af stað á vormánuðum 2010 en verði mun vægari en síðasta hluta árs 2009 vegna fjölda bólusetninga sem framkvæmdar hafa verið. Síðastliðið haust veiktust nokkrir einstaklingar alvarlega af inflúensu og þörfnuðust innlagnar á gjörgæslu og sumir öndunarvélameðferðar. Gísli H. Sigurðsson og félagar segja frá þessum sjúklingum í grein í þessu tölublaði Læknablaðsins sem nefnist: Gjörgæslusjúklingar með inflúensu (H1N1) á Íslandi 2009.1 Þetta voru 16 sjúklingar og var meðalaldur þeirra 48 ár. Hluti hópsins var ekki með neina alvarlega undirliggjandi sjúkdóma en 13 einstaklingar reyktu, voru of þungir eða höfðu háþrýsting. Tólf af sjúklingunum voru lagðir í öndunarvél og tveir fóru síðar í hjarta- og lungnavél. Enginn sjúklinganna lést á gjörgæslu en einn aldraður fjölveikur maður lést á gjörgæslu. Höfundar álykta að tíðni alvarlegra sjúkdómseinkenna á Íslandi sé há og einkennist af alvarlegri öndunarbilun sem láti ekki alltaf undan hefðbundinni öndunarvélameðferð. Ljóst er að starfsfólk gjörgæsludeild vann mikil afrek með því að koma öllum þessum sjúklingum í gegnum þetta erfiða sjúkdómsferli á þessum stutta tíma. Þessar niðurstöður eru að sumu leyti svipaðar og þær sem sagt hefur verið frá í öðrum löndum.2-4 Höfundar bæta einnig við með grein sinni nýjum og mikilvægum upplýsingum um sjúkdómsgang og meðferð bráðveikra sjúklinga með inflúensu A (H1N1)v 2009. Eins og Gísli og félagar benda á er ekki ljóst af hverju tíðni alvarlegra einkenna er hærri á Íslandi en í Ástralíu, Nýja-Sjálandi og Kanada miðað við höfðatölu. Hugsanlega skýringu telja þeir geta verið að um sé að ræða hlutfallslega stærri faraldur, en erfðafræðilegir þættir gætu líka skipt máli. Þetta gæti verið fróðlegt að rannsaka nánar.
  • Hlutverk innúðastera í meðferð langvinnra lungnateppusjúkdóma er að skýrast [ritstjórnargrein]

   Gunnar Guðmundsson; Department of Respiratory Medicine and Allergy, Landspitali University Hospital, Fossvogi, 108 Reykjavík, Iceland. ggudmund@landspitali.is. (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2001-09-01)
   Langvinnir lungnateppusjúkdómar, á ensku chronic obstructive pulmonary diseases (COPD), eru sjúkdómaflokkur með vaxandi tíðni í heiminum (1). Þeir einkennast af skerðingu á loftflæði sem er lítt viðsnúanlegt og versnar oftast með tímanum. Tengd loftflæðisskerðingunni er viðvarandi bólgusvörun í lungunum. Þessum sjúkdómum má skipta í þrjá hópa sem eru langvinn berkjubólga, lungnaþemba og langvinnur astmi. Allir hafa þeir mismunandi meingerð og geta verið til staðar samtímis eða staðið einir sér (2). Lítið er til af meðferð sem stöðvar framþróun langvinnra lungnateppusjúkdóma. Í rauninni hefur einungis reykleysi sýnt sig að stöðva framþróunina (3). Önnur meðferð, svo sem berkjuvíkkandi lyf, eru aðeins til að draga úr einkennum, til dæmis mæði og uppgangi (3). Súrefnisgjöf lengir þó líf sjúklinga með sjúkdóminn á háu stigi og lág súrefnisgildi í blóði.
  • Öndunarmælingar í heilsugæslu : tækifæri og takmarkanir [ritstjórnagrein]

   Gunnar Guðmundsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2005-09-01)
   Almennt er viðurkennt að öndunarmælingar (e. spirometry) eigi að fara fram á heilsugæslu­stöðvum. Þar eru þær notaðar til greiningar og til að fylgjast með framvindu og meðferð sjúkdóma í öndunarfærum og lungum. Óeðlileg öndunarmæling er merki um aukna áhættu á ótímabærum dauðsföllum ekki síður en hár blóðþrýstingur eða hækkað kólesteról. Öndunarmælingar hafa ekki náð eins mikilli útbreiðslu í heilsugæslu eins og blóðþrýstingsmælingar og hjartalínurit hafa gert. Segja má að öndunarmælingar hafi verið sveipaðar ákveðinni dulúð sem hafi haldið læknum frá því að framkvæma þær.
  • Syfja og akstur [ritstjórnargrein]

   Gunnar Guðmundsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2008-07-01)
   Í febrúar 2008 hóf Umferðarstofa kynningu á þeim hættum sem fylgja syfju við akstur. Var það gert með málþingi, kynningum og auglýsingum í fjölmiðlum ásamt sérstakri vefsíðu sem finna má á www.15.is Um er að ræða mjög lofsvert framtak hjá Umferðarstofu. Syfja við akstur er verulegt vandamál sem vert er að beina að kastljósi og huga að úrbótum. Akstur er athöfn sem krefst mikillar árvekni og samræmingar á margvíslegri heilastarfsemi og samvinnu augna og útlima (1). Fjölgun umferðaróhappa hjá ökumönnum sem tala í farsíma á meðan á akstri stendur er augljóst dæmi um hvaða afleiðingar einbeitingarskortur getur haft. Á árunum 1998 til 2006 létust 16 manns í 10 umferðarslysum þar sem ökumenn sofnuðu undir stýri á Íslandi. Mikilvægt er að læknar séu á varðbergi fyrir því vandamáli sem syfja við akstur er. Dagsyfja er algengt vandamál sem allt að þriðjungur fullorðinna finnur fyrir á einhverju stigi. Orsakir dagsyfju eru fjöldamargar. Algeng orsök er of stuttur svefntími. Talið er að ónógur svefn sé afar mikilvæg orsök umferðarslysa þar sem þreyta ökumanns vegur þungt. Aðrar algengar ástæður dagsyfju eru hávaði og verkir sem trufla svefn. Þá eru mörg lyf sem breyta svefnstigum og getur það stuðlað að dagsyfju. Kæfisvefn er mikilvæg orsök dagsyfju. Talið er að 4% miðaldra karlmanna sé með kæfisvefn og allt að 2% kvenna. Auðvelt er að greina kæfisvefn með svefnrannsókn og til er árangursrík meðferð með bitgómi eða svefnöndunartæki. Kæfisvefn á öllum stigum veldur aukinni hættu á umferðarslysum. Fjölrannsóknagreining á yfir 40 vísindagreinum sýndi vel aukna áhættu á umferðaróhöppum hjá fólki með kæfisvefn (2). Að meðaltali er áhættan aukin tvö- til þrefalt.