• COVID-19. Eina vissan er óvissan

   Haraldur Briem; Embætti landlæknis (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2020-03)
  • Heilahimnubólga af völdum baktería hjá börnum [ritstjórnargrein]

   Haraldur Briem (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2002-05-01)
   Í þessu tölublaði Læknablaðsins er birt yfirgripsmikil og fróðleg grein um heilahimnubólgu af völdum baktería hjá börnum á Íslandi sem nær yfir næstum þrjá áratugi (1). Á þessu tímabili var alvarlegasta ógnin við heilsu barna sjúkdómur af völdum N. meningitidis sem er frábrugðin öðrum bakteríum sem valda heilahimnubólgu vegna hæfni sinnar til að valda stað- og farsóttum, einkum meðal barna og unglinga. Á árunum 1975-1977 gekk yfir landið faraldur af völdum N. meningitidis af gerð B með 79 skráðum tilfellum. Allar götur síðan hefur meningókokkasjúkdómur verið landlægur á Íslandi í hástaðsótt (high-endemic). Síðustu árin hefur meningókokkasjúkdómur af gerð C verið að sækja í sig veðrið og er um þessar mundir algengasta heilahimnubólga á Íslandi. Samkvæmt farsóttaskrá hefur árlegt nýgengi meningókokkasjúkdóms verið á bilinu 3-11/100.000 íbúa á undanförnum tveimur áratugum. Nýgengið hér á landi, líkt og á Írlandi og Bretlandi, hefur verið mun hærra en víða á meginlandi Evrópu. Dánarhlutfall á Íslandi hefur verið 8,9% á tímabilinu. Aldurstengt nýgengi meningókokkasjúkdóms af völdum gerðar C á árunum 1983-2000 var hæst hjá börnum eins til fjögurra ára (10/100.000) og 15-19 ára (7/100.000). Sjúkdómurinn er afar sjaldgæfur hér á landi hjá börnum undir sex mánaða aldri. Dánarhlutfallið var 9,9%, eða nokku hærra en af völdum N. meningitidis af gerð B. Hæst var dánarhlutfall hjá börnum undir fimm ára aldri (13,9%) og ungu fólki á aldrinum 15-19 ára (13,8%).
  • Hönnun spítala [ritstjórnargrein]

   Haraldur Briem (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2003-09-01)
   Í þessu hefti Læknablaðsins birtist athyglisverð grein um aðstöðu sjúklinga á Landspítala (1). Fram kemur að einungis 13% sjúkrarúma eru í einbýlum og 43% sjúkrarúma eru í þríbýlum eða fjölbýlum. Næstum þrír sjúklingar að meðaltali þurfa að deila með sér salerni og á einni deild þurftu 13 sjúklingar að deila með sér einu salerni. Handlaugar eru af skornum skammti á fjölbýlum og þurfa sjúklingar, gestir og starfsfólk að deila þeim með sér. Höfundur greinarinnar vekur einnig athygli á því að spítalasýkingum hefur fjölgað umtalsvert á undanförnum misserum sem leitt hefur til þess að loka hefur þurft deildum tímabundið vegna faraldra innan spítalans. Skyndilokanir sem þessar hafa valdið mikilli röskun á starfsemi spítalans. Ekki fer á milli mála að bágborin hreinlætisaðstaða sjúklinga og starfsfólks, mikil nálægð sjúklinga og síendurtekin tilfærsla þeirra grefur undan sýkingavarnastarfi, hversu vel sem reynt er að standa að því.
  • Hvers vegna viðbúnað við bólusótt? [ritstjórnargrein]

   Haraldur Briem (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2003-09-01)
   Atburðirnir 11. september 2001 og mánuðina þar á eftir höfðu djúpstæð áhrif á viðhorf manna til hryðjuverka. Hefðbundnar hugmyndir um varnar- og öryggismál hafa verið endurskoðaðar. Hryðjuverkum er nú á dögum beint gegn almenningi með þeim hætti að hefðbundinn hernaður kemur ekki að notum. Óttast er að sýkla- og eiturefnavopnum sem engan veginn hafa verið óþekkt verði nú beint gegn fólki. Markmiðið með hryðjuverkum, eða ofurhryðjuverkum eins og farið er að kalla þau, er núorðið að valda sem mestu manntjóni og skiptir þá líf hryðjuverkamannsins sjálfs engu máli. Eina raunhæfa leiðin til að bregðast við afleiðingum slíkra atburða af völdum sýkla og eiturefna er að efla heilbrigðisþjónustuna og þær sóttvarnir sem fyrir hendi eru. Í skýrslu Landlæknisembættisins til heilbrigðisráðherra um mat á áhrifum sýkla- og eiturefnavopna á lýðheilsuna (1) er bólusótt einn þeirra sjúkdóma sem talinn er koma til greina að beita sem vopni gegn mönnum. Þótt bólusótt sé ekki líklegasta vopnið sem beitt yrði í hernaði eða hryðjuverki er hún það skæðasta því sjúkdómurinn berst auðveldlega milli manna, dánartalan er há eins og sagan vitnar um.
  • Illkynja fuglainflúensa og áhrif hennar á menn [ritstjórnargrein]

   Haraldur Briem (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2004-04-01)
   Frá miðjum desember 2003 hefur geisað illkynja fuglainfúensa A (HPAI -highly pathogenic avian influenza) af H5N1 stofni í fiðurfé í Kambódíu, Kína, Indónesíu, Japan, Laos, Suður-Kóreu, Tælandi og Víetnam. Útbreiðsla sjúkdómsins er meiri en áður hefur þekkst og hefur hann haft víðtækar efnahagslegar afleiðingar fyrir þessi ríki (1). Hvað er fuglainflúensa? Vatnafuglar eru náttúrulegir hýslar fyrir alla hina 15 þekktu undirflokka inflúensuveiru A (H1-H15). Það eru einkum villtar endur sem bera veiruna í frumum garna án þess að þær valdi þeim einkennum. Aðrir fuglar hafa einnig þennan eiginleika, svo sem álftir og gæsir, en þeir hafa verið minna rannsakaðir. Á norðurhveli jarðar er stór hluti þessara farfugla smitaður af inflúensu A. Á haustin bera þeir inflúensuna með sér suður á bóginn. Samsvarandi atburðarás er á suðurhveli. Af og til berast inflúensuveirurnar til annarra dýrategunda og geta þá valdið sjúkdómi (2).
  • Laga- og reglugerðarbreytingar : og hvað svo? [ritstjórnargrein]

   Haraldur Briem (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2004-12-01)
   breytingar á sóttvarna­lögum nr. 19/1997 (1). Breytingarnar sneru að ákvæðum um skráningu sýklalyfjanotkunar. Enda þótt nefnd­ir alþingis sendi hagsmunaaðilum tillögur um lagabreytingar til umsagnar geta slíkar breytingar hæglega farið fram hjá mörgum þeim sem mál­ið varða, einkum ef þær eru ekki til þess fallnar að valda deilum. Mikilvægt er að læknar viti af slíkum breytingum og ekki er síður mikilvægt að mönnum sé kunnugt um ástæður fyrir lagasetningunni en þær eru jafnan skýrðar í greinargerð með frumvörpum.
  • Lærdómar dregnir af spænsku veikinni 1918 [ritstjórnargrein]

   Haraldur Briem (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2008-11-01)
   Í þessu tölublaði Læknablaðsins eru birtar tvær greinar um spænsku veikina 1918. Byggjast þær á góðri úttekt á samtímaheimildum. Margar af þessum heimildum hafa íslensk yfirvöld haft til hliðsjónar við gerð viðbragðsáætlunar gegn heimsfaraldi inflúensu (1). Heimsfaraldrar inflúensu eru misskæðir en hafa ávallt alvarlegri afleiðingar í för með sér en árlegir inflúensufaraldrar vegna þess að ónæmi er ekki til staðar hjá mönnum þegar nýr inflúensustofn berst um heiminn. Um 40 ár eru liðin frá síðasta heimsfaraldri og má því ætla að sá næsti sé yfirvofandi. Líklegt er að spænska veikin hafi verið með skæðustu farsóttum sem hafa gengið. Hún stafaði af inflúensu H1N1 sem virðist hafa borist frá fuglum til manna.
  • Matarsýkingar á nýrri öld [ritstjórnargrein]

   Haraldur Briem; Centre for Infectious Disease Control, Directorate of Health, Austurstrœnd 5, 170 Seltjarnarnesi, Iceland. hbriem@landlaeknir.is. (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2000-11-01)
   Smitsjúkdómar sem berast með fæðu hafa valdið vaxandi áhyggjum á undanförnum árum víða um heim. Faraldsfræði þessara sjúkdóma hefur tekið umtalsverðum breytingum. Sumir sjúkdómsvaldar hafa breiðst um heim allan enda hafa alþjóðleg viðskipti með matvæli færst mjög í vöxt. Breytingar hafa orðið á búskaparháttum og slátrun búfénaðar og stórframleiðsla færst í vöxt. Neytendur gera kröfur um ferskleika matvöru og lífræna ræktun. Vandamál sem tengjast matarsýkingum snerta heilbrigðisyfirvöld, eftirlitsstofnanir, matvælaframleiðsluna og þá sem sjá um dreifingu og framreiðslu matvæla.
  • Smitandi lifrarbólgur á Íslandi [ritstjórnargrein]

   Haraldur Briem (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 1993-08-01)
   Í þessu tölublaði Læknablaðsins birtast greinar um lifrarbólgu A (1) og B (2) á Íslandi. Þetta eru sjúkdómar sem valdið geta langvinnum veikindum og jafnvel dauða. Þá er mikilvægt að greina vegna þess að hægt er að koma í veg fyrir útbreiðslu þeirra og í sumum tilvikum er hægt að lækna viðvarandi lifrarbólgu B. Danski læknirinn Peter Anton Schleisner var trúlega fyrstur manna til að lýsa gulufaraldri á Íslandi sem gekk yfir árin 1837-1838 (3). Síðan var aftur lýst nokkrum slíkum faröldrum í lok síðustu aldar (4). Framan af þessari öld var gula tilkynnt til heilbrigðisyfirvalda á nánast hverju ári og gekk hún í stórum faröldrum á um það bil 10 ára fresti. Faraldrarnir hurfu upp úr miðri öldinni og eftir það voru einungis fá tilfelli skráð á ári hverju. Þessi sjúkdómur fór ekki fram hjá íslenskum læknum. Guðmundur Hannesson skrifaði um icterus epidemicus árið 1919 (5). Þar segir hann frá gulufaraldri sem kom upp í Reykjavik 1914 og hvernig hans varð vart næstu árin víða á landinu. Lögðust heilu fjölskyldurnar í þessum kvilla. Voru sumir allþungt haldnir, rúmfastir með talsverðan hita í eina til tvær vikur. Guðmundur kvartaði yfir sinnuleysi lækna í »þessum háskólabæ« (Reykjavik) við að rannsaka þennan sjúkdóm enda taldi hann að Íslendingar gættu frætt aðra um sjúkdóminn. Árið eftir lýsti Ingólfur Gíslason, héraðslæknir, gulusótt sem gekk í Vopnafjarðarhéraði 1918 (6). Sennilega var Ingólfur meðal fyrstu manna til að fara nærri um meðgöngutíma sjúkdómsins enda voru skilyrðin í fámennum byggðarlögum landsins ákjósanleg til að fylgjast með gangi hans. Taldi hann meðgöngutímann oftast vera eina til tvær vikur en gæti verið allt að fjórar vikur. Hann veitti því einnig athygli að ung börn og roskið fólk virtust ekki taka sjúkdóminn. Árinu áður en Ingólfur birti athuganir sínar hafði Svíinn Folke Lindstedt, trúlega fyrstur manna, lýst meðgöngutíma sjúkdómsins af nákvæmni og talið hann vera tvær til fjórar vikur og hugsanlega geta verið allt að sex vikur (7).