• Lærdómur lækna af efnahagshruni [ritstjórnargrein]

      Hjördís Þórey Þorgeirsdóttir (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2010-05-01)
      Samtímis því að sjálfskoðun íslensku þjóðarinnar liggur fyrir með skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hefur náttúra Íslands tekið að gjósa ösku yfir þjóðirnar sem vöruðu okkur við hruninu og þær sem síðar hafa boðið fram hjálparhönd. Það liggur við að þörf sé á afsökunarbeiðni fyrir hönd íslenskra náttúruafla, þeirra sömu og framgöngu svokallaðra útrásarvíkinga var gjarnan líkt við. Vonandi tekur umheimurinn þessari samlíkingu þjóðarinnar við náttúru sína ekki of bókstaflega og telur að við séum enn að „dissa“ umheiminn, að við höfum ekkert lært. Með tilkomu skýrslunnar eru skjalfest hin fjölmörgu feilspor, fjallað er um mistök ráðamanna, embættismanna og eftirlitsstofnanna, en einnig um íslenska menningu og hlutverk þjóðarinnar. Ljóst er að yfirvöld brugðust, hitt er ekki síður mikilvægt að almenningur stóð sig ekki heldur sem skyldi, það er í hlutverki sínu að veita yfirvöldum aðhald. Í nýrri aðalnámsskrá grunnskólanna stendur til að bæta inn svokallaðri lýðræðismenntun. Spurningin er hvort við hin þyrftum endurmenntun í lýðræðisþátttöku, til að gera okkur hæfari þátttakendur í nýju og betra samfélagi. Það er að minnsta kosti vert að líta í eigin barm og spyrja sig hvaða lærdóm maður sjálfur skuli draga af efnahagshruni landsins. ...