• Áfangaskýrsla [ritstjórnargrein]

   Jóhannes Björnsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2007-11-01)
   Lesendur Læknablaðsins munu greina nokkrar útlitsbreytingar í þessu hefti. Sá sem þetta ritar er enginn sérstakur fylgismaður breytinga breytinganna einna vegna. Sumir eru vafalaust annarrar skoðunar, og er hugsanlegt að tími einhvers konar fataskipta sé upp runninn. Sú ritstjórn Læknablaðs­ins sem lauk ferli sínum í nóvember 2005 breytti útliti blaðsins verulega og voru allar þær breytingar til framfara, ekki sízt umbreytingin í A-4 stærð. Önnur nýjung fyrri ritstjórna var sömuleiðis lofsverð, þ.e.a.s. nýtt listaverk á hverri forsíðu. Tiltekinn aðili, sérmenntaður á sviðinu, velur forsíðuna, upplýsir um listamanninn og skýrir verkið fyrir þeim okkar sem minna mega sín í sjónlistadeildinni. Undirritaður bíður forsíðunnar í hverjum mánuði með nokkurri eftirvæntingu enda ekki ólíklegt að sum þeirra listaverka sem fyrst birtust hér gætu öðlazt frægð og útbreiðslu, t.d. að því marki, að falsarar fengju á þeim augastað. Er þá sízt verra að geta leitað uppruna og forvarið verkið á forsíðu félagsrits íslenzkra lækna.
  • Drög að áfangaskýrslu [ritstjórnargrein]

   Jóhannes Björnsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2008-06-01)
   Um þessar mundir eru þrjú ár frá því að Læknablaðið var skráð á gagnagrunn National Library of Medicine (NLM/Medline) í Bandaríkjunum. Eins og áður hefur komið fram í þessum dálkum ábyrgðist ritstjórn Læknablaðsins af þessu tilefni ákveðið vinnulag við meðhöndlun innsendra fræðigreina, það er að segja frumgreina ("original articles"), yfirlitsgreina og sjúkratilfella. Í umsókn um skráningu í gagnagrunninn lýsti ritstjórnin þannig vinnuferlum sem hún hefði þegar tekið upp eða myndi taka upp ef Læknablaðið fengist fært í gagnagrunninn. Forsenda skráningarinnar voru meðal annars nákvæmar upplýsingar um menntun, þjálfun og rannsóknir ritnefndarmanna. Auk þess, og í sem stytztu máli er ferli innsendra fræðigreinar eftirfarandi: ritstjórnarfulltrúa berst fræðigrein sem framsend er til ritstjóra/ábyrgðarmanns sem úthlutar einum ritnefndarmanni greininni til frekari ákvörðunar. Viðkomandi ritnefndarmanni er samtímis oftast fenginn annar ritnefndarmaður (,,secunder?), þeim fyrri til aðstoðar ef þurfa þykir. Á þessu stigi getur ábyrgur ritnefndarmaður stöðvað ferlið og mælt með höfnun greinarinnar án frekari umfjöllunar og tekur ritstjórnin öll þá ákvörðun sameiginlega. Sýnu algengast er þó að viðkomandi fræði­grein sé send áfram til ritrýni. Það er skilyrði við umfjöllun um frum- og yfirlitsgreinar, að fyrir liggi að minnsta kosti tvær bitastæðar umsagnir ritrýna. Getur þá oft flýtt fyrir að leita til þriggja aðila strax í upphafi. Dýpt og lengd umsagnanna er mjög mismunandi og ritrýni sem er ein eða tvær málsgreinar almenns eðlis kemur ritstjórn og höfundum að takmörkuðu gagni varðandi framhaldið.
  • Enn um hlutverk Læknablaðsins [ritstjórnargrein]

   Jóhannes Björnsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2009-10-01)
   Löng hefð er fyrir því að íslenzkir læknar birti niðurstöður vísindarannsókna sinna í Læknablaðinu, reyndar aftur til ársins 1915. Það einkennir þó þessar birtingar, að niðurstöðurnar höfðu oft birzt í erlendum tímaritum áður og birting í Læknablaðinu var ætluð til þess að kynna íslenzkum kollegum niðurstöðuna sérlega. Við þessi vinnubrögð er ekkert að athuga. Í fyrsta lagi er öldungis ljóst, að til lítils er að stunda rannsóknavinnu ef vísindasamfélagið í sem stærstum skilningi þess orðs nýtur ekki niðurstöðunnar. Í öðru lagi er tvíbirting greina fyllilega heimil undir tilteknum kringumstæðum, sem tilgreindar eru í leiðbeiningum alþjóðasamtaka ritstjóra læknarita (http://www.icmje.org). Á þetta sérstaklega við þegar lesendahópar ritanna eru ólíkir og þá fyrst og fremst ef um er að ræða birtingu á tveimur óskyldum tungumálum. Undantekningar eru til frá því sem áður greinir um fyrstu birtingar íslenzkra greina í erlendum tímaritum og í Læknablaðinu frá 20. öldinni leynast nokkrar vísindagreinar, sem náðu seint eða ekki til alþjóðasamfélagsins og hefðu þó átt að gera það. Ritstjórnir Læknablaðsins hafa lengi áttað sig á mikilvægi þess að vísindahluti Læknablaðsins nái til alþjóðasamfélagsins. Reyndar má spyrja þeirrar spurningar, hvort máli skipti hvar vísindaniðurstöður birtist, hin svokallaða hnatt-/alþjóðavæðing hafi brotið niður múra milli þjóða. Það hefur hins vegar verið sannfæring ritstjórna Læknablaðsins og vafalaust meirihluta íslenzkra lækna að alþjóðasamfélaginu væri ljóst að um væri að ræða vísindavinnu íslenzkra lækna og að sú vinna hefði verið unnin á Íslandi. Það er reyndar hluti af sjálfsímynd okkar og viðhaldi hennar, að okkur sjálfum og alþjóðasamfélaginu sé ljóst að Íslendingar hafi unnið þessa vinnu og það á Íslandi.
  • Lokagreining [ritstjórnargrein]

   Jóhannes Björnsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2010-12-01)
   Núverandi ritstjórn Læknablaðsins á fimm ára afmæli um þessar mundir, þótt sumir sem nú eru í ritstjórninni hafi ekki setið allan þann tíma. Minnugir lesendur Læknablaðsinsvita að haustmánuðir 2005 voru erfiðir blaðinu og þáverandi ritstjórn tvístraðist í nóvember það ár. Fram að hausti 2005 hafði fyrri ritstjórn unnið gott starf, m.a. lokið færslu Læknablaðsins á Medline á fyrri hluta þess árs. Ný ritstjórn bætti við tveimur gagnagrunnum, ISI Web of Knowledge og Scopus. Þá hefur viðmót blaðsins á netinu hefur verið uppfært og leitarvél endurbætt. Fræðigreinar í Læknablaðinuvega nú jafnþungt í innlendu mati á fræðastarfi og greinar birtar í erlendum ritrýndum tímaritum. Þau læknablöð sem við berum okkur helzt saman við, það er að segja læknablöð Norðurlandanna, eru flest í þessum gagna-grunnum, þó ekki öll. Engan veginn er gefið að Læknablaðið haldist í þessum skráningum. Ritnefndir verða áfram að kappkosta að sækjast eftir góðum fræðigreinum og gæta þess þannig að tilvitnanafjöldi í greinar Læknablaðsins haldist þokkalegur. Til þess að svo verði, þurfa ritnefndir að halda áfram að fylgja alþjóðlegum leiðbeiningum um meðferð innsendra handrita, sem oft reynist þungt í vöfum. Þessi skarpari vinnubrögð endurspeglast meðal annars í hærra höfnunarhlutfalli innsendra handrita en áður. Það hlutfall liggur nú nálægt 15%. Í íslenzku fámenni getur oft reynzt erfitt að fá nægilega vandaða ritrýni. Oftast gengur það mæta vel, og Læknablaðiðþakkar sérstaklega hópi ritrýna, sem bregðast fljótt við og ritrýna af þekkingu og nákvæmni. Ritrýni er tæpast eftirsóknarvert starf, gefur rýninum lítið í aðra hönd, bæði í veraldlegum og akademískum verðmætum. Skiljanlega getur þannig stundum æxlazt, að ritrýniferlið hjá Læknablaðinutaki sýnu lengri tíma en í ritum sem birtast á stærri tungumálasvæðum. Ritstjórn Læknablaðsins getur hins vegar augljóslega aðeins leitað til íslenzkumælandi ritrýna, sem í smærri sérgreinum læknisfræðinnar eru fáir. Höfundar verða að gera sér grein fyrir þessum vanda, ef vanda skyldi kalla, og sýna biðlund.
  • Læknablaðið á nýju ári [ritstjórnargrein]

   Jóhannes Björnsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2007-01-01)
   Þegar þetta er ritað er um það bil eitt ár liðið frá skipun nýrrar ritstjórnar Læknablaðsins. Ritstjórnin hefur eytt umtalsverðum tíma í að skilgreina og skrásetja sem flesta þætti er lúta að starfsemi blaðsins. Afrakstur þessarar vinnu verða nokkur skjöl sem prentuð verða í blaðinu og/eða birt á vefsíðu þess, sum einu sinni, önnur með vissu millibili. Skjöl þessi fjalla um verklag ritstjórnar, innri vinnureglur, skilgreiningu og dreifingu ábyrgðar o. fl. Enn fremur verður skerpt á flokkun innsends efnis, lengd þess o.s.frv. Sömuleiðis verður fjallað um aðferðafræði ritrýni, skyldur ritstjórnar gagnvart ritrýnum og vinnulag ritrýna sjálfra. Fyrsta skjalið fjallar um ritstjórn og annað starfsfólk Læknablaðsins, í reynd vinnureglur þessa hóps, og birtist á bls. 68 í þessu tölublaði. Ekki er ætlunin að birta þessar tilteknu vinnureglur nema í þetta skipti enda eru þær vinna einnar ritstjórnar og óvíst að hin næsta kjósi sér sama vinnulag.
  • Ristilkrabbamein í Íslendingum [ritstjórnargrein]

   Jóhannes Björnsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2002-06-01)
   Lokið er yfirgripsmikilli rannsókn á ristilkrabbameini í Íslendingum og eru í grein Lárusar Jónassonar og fleiri í þessu tölublaði Læknablaðsins birtar niðurstöður síðari hluta hennar (1). Rannsóknarhópurinn um þetta verkefni, sem Jón Gunnlaugur Jónasson, yfirlæknir, hefur stjórnað, lýsti í fyrri hluta almennum meinafræðilegum þáttum ristilkrabbameins, svo sem vefjaafbrigðum, stigi og nýgengi (2). Sú rannsókn, sem nú birtist lýsir fjöldamörgum meinafræðiþáttum, tengslum þeirra við lífhegðan sjúkdómsins og forspárgildi um horfur einstakra sjúklinga. Rannsóknin tekur til árabilsins 1955-1989, en byrjunarárið var fyrsta starfsár Krabbameinsskrár Krabbameinsfélags Íslands. Alls greindust 1205 Íslendingar með krabbamein í ristli á þessu 35 ára tímabili. Vefefni, nýtanlegt til meinafræðilegs endurmats, fannst frá 1109 þeirra (92%). Dreifing milli kynja var næsta jöfn, 47% karlar, 53% konur. Aldursstaðlað nýgengi tvöfaldaðist meðal kvenna og nánast þrefaldaðist meðal karla á þessum 35 árum. Þessi tíðniaukning er keimlík því sem sézt hefur hjá nágrannaþjóðum á svipuðu tímabili (3). Hvað meinafræðilegar breytur áhrærir, kemur ekki á óvart, að kirtilmyndandi krabbamein (adenocarcinoma) er ráðandi æxlisgerð í ristli. Sömuleiðis, að yfirgnæfandi hluti ristilkrabbameina er svonefnt "hefðbundið" adenocarcinoma, þannig að smásætt útlit flestra æxla er næsta svipað. Flest kirtilmyndandi krabbamein í ristli eru að auki meðalvel sérhæfð, það er að segja gráða II (af III). Þessa einsleitni ristilkrabbameina þekkja allir þeir, sem daglega fást við greiningu sjúkdómsins. Er ristillinn að þessu leyti ólíkur ýmsum öðrum þekjulíffærum, svo sem maga, lungum og brjóstum, þar sem fjölbreytnin í krabbameinsafbrigðum er sýnu meiri.
  • Útrás í gagnagrunna [ritstjórnargrein]

   Jóhannes Björnsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2008-12-01)
   Um það leyti sem íslenzkir bankar hrundu og gjaldmiðill okkar féll bárust þær fregnir að gengi Læknablaðsins hefði breytzt, innan lands og utan. Til upprifjunar: Fyrri hluta árs 2005 var Læknablaðið, í þriðju eða fjórðu tilraun, skráð í gagnagrunn National Library of Medicine (Medline) í þjóðarbókasafni læknisfræði í Bandaríkjunum, National Library of Medicine, NLM (www.nlm.nih.gov). Með þessu ábyrgðist Læknablaðið að vinnubrögð þess yrðu öguð, skýr, réttlát og öllum aðgengileg til skoðunar og gagnrýni. Ritstjórnin heldur áfram þessari vinnu, sem reyndar mun aldrei ljúka. Stöðnun og sjálfbirgingur myndi fljótlega endurspeglast í kröfuafslætti til okkar sjálfra og höfunda og þannig gjaldfella fræðigildi blaðsins gagnvart höfundum og þeim sem með okkur fylgjast, hérlendis og erlendis. Skráningin á NLM hefur þegar borið árangur, til dæmis með þeim hætti að erlendir rannsakendur hafa náð sambandi og jafnvel tekið upp samvinnu við íslenzk starfssystkini, eftir lestur enskra útdrátta fræðigreina Læknablaðsins í gagnagrunni NLM.