• Sumarþankar af slysadeild [ritstjórngrein]

      Kristín Sigurðardóttir (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2003-07-01)
      Ég var beðin um sumarhugleiðingu af slysadeildinni. Var þá nýkomin á kvöldvakt og þykir við hæfi að byrja þar ... Strax á leið inn í húsið - í gegnum biðstofuna á Slysa- og bráðadeildinni - sé ég að sumarið er komið með öllu tilheyrandi. Börnin með skrapsár í andliti og á útlimum, sárin full af möl og sandi og stundum líka beinbrot. Þegar dyrnar opnast þeysast þeir hvítklæddu um, skoðunarstofurnar fullar og sumir skjólstæðingar því á göngunum. Á bekkjunum liggja þeir sem hafa meiðst á neðri útlimum eða fengið alvarlegri áverka og höfuðhögg. Áfram geng ég inn, heyri að von sé á fólki úr umferðarslysi. Mér dettur strax í hug Kringlumýrarbraut ef slysið varð í bænum, en annars Reykjanesbraut, Vesturlandsvegur eða Hellisheiði. En slysin geta svo sem átt sér stað hvar sem er. Það flögrar í gegnum huga minn hvernig það geti gerst að verið sé að tvöfalda Reykjanesbraut í báðar áttir, kostnaður á hvern kílómetra litlar 125 milljónir króna. Á meðan er lítið eða ekkert verið að gera til dæmis fyrir Vesturlands- eða Suðurlandsveg. Ég óttast að með fleiri akreinum verði bara meiri hraði og því verri slys. Mér skilst að fyrir svipaða upphæð og á að fara í tvöföldun Reykjanesbrautar mætti aðskilja akstursstefnur og gera 2+1 veg (ein akrein í hvora akstursstefnu og þriðju akreininni víxlað fyrir framúrakstur) til Selfoss, Reykjaness og að Hvalfirði. Eins skil ég ekki, fyrst fjármunir hins opinbera eru takmarkaðir, af hverju ekki var frekar úthlutað 50 milljónum króna til að halda uppi löggæslu við Reykjanesbraut allan sólarhringinn, allan ársins hring. Þessi upphæð samsvarar kostnaði við að tvöfalda um 400 metra af Reykjanesbraut. Með löggæslu allan sólarhringinn myndi draga úr hraða og með því fækka slysum og vegurinn yrði öruggari. Auk þess sem allt að 3700 milljónir myndu sparast og nota mætti til úrbóta víðsvegar í vegakerfi landsins, meðal annars á Reykjanesbraut.