• Læknar og lyf [ritstjórnargrein]

   Magnús Jóhannsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2002-04-01)
   Læknar eru nær einráðir um það hvort lyf eru notuð í hverju sjúkdómstilviki fyrir sig og þá hvaða lyf eru notuð. Þessu fylgir mikil ábyrgð gagnvart sjúklingnum sem á rétt á góðri meðferð og samfélaginu sem þarf oft að greiða hluta kostnaðarins. Til þess að geta sinnt þessu hlutverki sem best er mikilvægt að læknar hafi mjög greiðan aðgang að vönduðum og hlutlausum upplýsingum um lyf. Slíkar upplýsingar veita lyfjaframleiðendur því miður ekki heldur eru þær oft villandi og stundum beinlínis rangar. Sem dæmi um þetta má nefna að Lyfjastofnun, en lyfjaauglýsingar heyra undir hana, bárust um 50 kvartanir vegna lyfjaauglýsinga eða kynninga á síðasta ári. Flestar þessara kvartana eru frá samkeppnisaðilum, sumar frá læknum og aðrar verða til innan Lyfjastofnunar við lestur auglýsinga. Í langflestum tilvikum leiðir athugun til þess að gerðar eru athugasemdir við viðkomandi auglýsingu, hún bönnuð eða auglýsanda jafnvel gert að senda frá sér leiðréttingu. Tekið skal fram að lyfjaframleiðendur eru mjög misheiðarlegir að þessu leyti. Upplýsingar frá lyfjaframleiðendum á öðru formi, til dæmis í fréttabréfum, bæklingum og á netinu eru ekki betri. Í allar þessar auglýsingar og kynningar er eytt ótrúlega miklum fjármunum og samkvæmt opinberum tölum er um að ræða um 20% af veltu fyrirtækjanna að meðaltali, en kunnugir segja að ef allt er talið sé þetta hlutfall mun hærra hjá sumum fyrirtækjum, eða á bilinu 30-40%. Opinberir aðilar, sem hér á landi eru einkum Lyfjastofnun og Landlæknisembættið, geta auðvitað seint keppt við þetta mikla fjármagn en eru af veikum mætti að stunda ýmiss konar upplýsingagjöf og leiðbeiningar til lækna.
  • Siðfræði lækna og lyfjaframleiðendur [ritstjórnargrein]

   Magnús Jóhannsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 1998-10-01)
   Hagsmunir lækna og lyfjafyrirtækja fara ekki alltaf saman og þess vegna eru fjárhagsleg tengsl þessara tveggja aðila viðkvæm og oft umdeilanleg. Lyfjaframleiðendur styrkja á ýmsan hátt rannsóknir, ráðstefnur, útgáfufyrirtæki og menntun lækna en hvort og á hvern hátt slíkt hefur áhrif á skoðanir og hegðun lækna er nánast óþekkt. Allt bendir til að lyfjaframleiðendur telji sig geta haft áhrif á lyfjaávísanir lækna með því að styrkja þá á ýmsan hátt. Að styrkir lyfjaframleiðenda geti haft áhrif á rannsóknarniðurstóður eða að minnsta kosti túlkun rannsóknarniðurstaðna er enn viðkvæmara mál. Þeir sem óttast slík áhrif og hafa varað við of miklum fjárhagslegum tengslum lækna og lyfjaframleiðenda hafa hingað til ekki haft mikið í höndunum því að rannsóknir á þessu sviði hafa verið af skornum skammti.