• Hlutverk lækna í hagræðingu innan heilbrigðiskerfisins [ritstjórnargrein]

   Sigurður Böðvarsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2010-04)
   Á Læknadögum í janúar 2010 stóð ég fyrir málþingi um hlutverk lækna í hagræðingu innan heilbrigðiskerfisins. Frummælendur á þinginu voru sex góðir kollegar sem komu úr hinum ýmsu sérgreinum læknisfræðinnar. Þetta voru þau Óskar Reykdalsson heilsugæslulæknir, Michael Clausen barnalæknir, Engilbert Sigurðsson geðlæknir, Helgi Sigurðsson krabbameinslæknir, Elísabet Benedikz bráðalæknir og Þorbjörn Guðjónsson hjartalæknir. Þingið var vel sótt og nú hefur Læknablaðið ákveðið að gera því góð skil með birtingu samantektar á framsögu hvers læknis í næstu tölublöðum. Óskar Reykdalsson ríður á vaðið að þessu sinni. Heilbrigðisþjónusta er um margt sérstæð þjónusta. Eftirspurn eftir henni er takmarkalaus en bjargir (resources) takmarkaðar. Því er það deginum ljósara að ekki er hægt að gera allt fyrir alla. Forgangsröðun á því hvernig við ætlum að verja fjármunum til heilbrigðisþjónustu er því óhjákvæmileg og því fyrr sem við gerum okkur grein fyrir því, því betra. Mörgum þykir óþægilegt að ræða forgangsröðun og á það jafnt við um lækna og stjórnmálamenn. Hvorum hópnum um sig þykir forgangsröðun eiginlega vera einkamál hins. Ég er þeirrar skoðunar að í þessu sem öðru eigi að fara saman þekking, reynsla og ábyrgð. Því sé forgangsröðun verkefni lækna. Læknar verða í þessu tilliti að hafa í huga aldagömul siðalögmál sín og heit við sjúklinga um leið og þeim ber að sýna ábyrgð gagnvart samfélagi, það er þriðja aðila sem stendur straum af kostnaði við þjónustuna að mestu leyti. Þessi hlutverk lækna eiga ekki að vera andstæð, heldur eiga hagsmunir sjúklinga og samfélags vel að geta farið saman og það er lækna að gæta hagsmuna þeirra beggja.
  • Reglugerðir og not S-merktra lyfja á sjúkrahúsum [ritstjórnargrein]

   Sigurður Böðvarsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2007-04-01)
   Árið 2001 tók gildi ný reglugerð varðandi svokölluð S-merkt lyf. Þau voru skilgreind sem lyf er eingöngu ætti að nota á eða í tengslum við sjúkrahús vegna sérhæfðrar meðferðar sjúklinga sem krefðist sérfræðiþekkingar eða sérstaks eftirlits sérfræðinga á sjúkrahúsum. Einnig voru í flokkinn sett ný og dýr lyf sem kröfðust fyrrnefndar sérfræðiþekkingar og loks var þess getið að um notkun þessara lyfja skyldi fara samkvæmt klínískum leiðbeiningum. Við breytinguna var flutt til fjármagn frá Tryggingastofnun ríkisins (TR) til Landspítala og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri vegna kostnaðar við notkun lyfjanna. Ýmsir vöktu á því athygli á þessum tíma að með þessari ráðstöfun væri sjúklingum mismunað eftir sjúkdómum. Ákveðnir sjúklingahópar fengju lyf sín greidd eftir sem áður af TR en eftir breytinguna ættu aðrir sjúklingahópar það undir fjárhagsgetu spítalanna hverju sinni hvort og þá hvaða lyf stæðu þeim til boða. Langvarandi fjárhagsvandi og niðurskurður á sjúkrahúsum var mönnum ekki að ástæðulausu áhyggjuefni í þessu tilliti. Þá var vakin athygli á því að í fæstum tilvikum ættu hlut að máli sjúklingar sem væru inniliggjandi á sjúkrahúsunum, heldur væri hér um göngudeilda- eða svokallaða ferli-sjúklinga að ræða sem þyrftu ekki endilega að sækja læknismeðferð sína til sjúkrahúsa.