• Af rannsóknum og siðfræði [ritstjórnargrein]

   Sigurður Guðmundsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 1995-01-01)
   Hvað vegur þyngst þegar hæfni góðs starfsmanns í heilbrigðisþjónustu, læknis, hjúkrunarfræðings eða annars, ber á góma? Hann þarf að hafa til bera góða faglega þekkingu byggða á vísindalegum grunni, góða faglega þjálfun, haf a rétt viðbrögð við hvers kyns vanda á hraðbergi. Hann þarf líka og ekki síður að geta sýnt samhygð og samúð, geta talað við fólk án yfirlætis, geta tjáð sig um tilfinningar þess og sínar eigin og geta tekið ákvarðanir sem byggja á siðrænum grunni. Hann þarf að sameina raunvísindi og húmanisma. Siðrænar ákvarðanir á heilbrigðisstofnunum eru oft að nokkru byggðar á tilfinningum og vissulega þarf að taka tillit til tilfinninga fólks þegar siðrænar ákvarðanir eru teknar. Eigi að síður verður að hafa hemil á tilfinningunum. Ef tilfinningar réðu ferðinni, eða væru nægjanlegar til að taka ákvarðanir sem ekki lytu tæknilegum lögmálum, væri engin þörf á siðfræði eða siðfræðilegri rökræðu. Ákvarðanir væru teknar án umhugsunar, við brygðumst við aðstæðum í samræmi við líðan okkar hverju sinni. Siðferðilegar grundvallarreglur eru nauðsynlegt leiðarljós í þessum efnum.
  • Áramótaþankar um heilbrigðismál [ritstjórnargrein]

   Sigurður Guðmundsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2002-01-01)
   Öll berum við þá von í brjósti að 21. öldin verði verðugur arftaki hinnar 20., en aldrei hefur þekking eflst eins mikið og á síðustu öld. Ef til vill hefur okkur sjaldan miðað jafnlangt fram á við í hugsun um manngildi, mannréttindi og frelsi og mikilvægi samhyggðar og samhjálpar. Fyrsta ár nýrrar aldar byrjaði þó ekki vel, með hryðjuverkum og notkun sýklavopna gegn almenningi. Hliðstæð hryðjuverk hafa verið unnin, til dæmis í Þýskalandi nasismans, Rúanda-Búrúndi og gömlu Júgóslavíu, en hin nýju hryðjuverk eru hins vegar nálægari okkur Vesturlandabúum en hin fyrri. Afleiðingarnar innan Bandaríkjanna sem utan eru einkum ótti og skelfing, og þessi mál varða okkur Íslendinga. Í stuttum pistli við áramót vil ég nefna þrennt sem varðar okkur: uppbyggingu heilsugæslu, vöxt forvarna og lýðheilsuaðgerða og nýjan háskólaspítala.
  • Ebóla og við

   Sigurður Guðmundsson; Lyflækningasviði Landspítala‚ Læknadeild Háskóla Íslands (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2014-10)
  • Forvarnir - bót eða böl? [ritstjórnargrein]

   Sigurður Guðmundsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2004-03-01)
   Undanfarna mánuði hafa forvarnir gegn heilsuvanda og sjúkdómum verið nokkuð til umræðu í íslensku samfélagi. Meðal annars hefur verið teflt fram umdeildum sjónarmiðum sem fram hafa komið í nálægum löndum um að forvarnir leiði til oflækninga og hefur þeim jafnvel verið líkt við faraldur en það orð tengja flestir einhverju böli eða fári. Forvarnir og þá heilsueflingu sem í þeim felst má skilgreina sem ýmiss konar aðferðir til eflingar heilsu fólks og til að varna gegn tilteknum sjúkdómum eða vandamálum. Mjög miklu skiptir að þær aðferðir sem notaðar eru séu byggðar á traustum vísindalegum rannsóknum og heilbrigðri skynsemi, ekki lítt gagnreyndum hugdettum og vangaveltum. Öll umræða er að sjálfsögðu af hinu góða og reyndar mjög nauðsynleg. Hún þarf hins vegar að vera ábyrg því að í umræðu um forvarnir er verið að fjalla um ráð til almennings um heilsueflingu og sjúkdómavarnir, ráð sem hinn almenni borgari hefur venjulega lítil tök á að vega eða meta sjálfstætt og verður að hlíta upplýstu mati fagfólks. Eins og áður sagði verður þetta mat ávallt að vera grundvallað á þekkingu, ekki trú. Einar Benediktsson sagði á öndverðri síðustu öld að "þekkingin er ekki óvinur trúarinnar, en þær búa ekki saman".
  • Framhaldsnám lækna á Íslandi : hvert stefnir? [ritstjórnargrein]

   Sigurður Guðmundsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 1997-09-01)
   Meginhlutverk heilbrigðisþjónustu er að sinna sjúkum, koma í veg fyrir sjúkdóma, efla heilsufar og auka vellíðan. Hlutverk heilbrigðiskerfisins, einkum stærri sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva, er þó víðtækara og er í meginatriðum þríþætt: þjónusta við almenning, kennsla og menntun heilbrigðisstétta og vísinda- og þróunarstarfsemi. Eðlileg og hagkvæm þróun heilbrigðisþjónustunnar er mjög undir ofangreindum þáttum komin. Gæði sjúkrastofnana er alls staðar í heiminum mjög nátengd áherslu þeirra á kennslu- og vísindastörf. Þau sjúkrahús í nágrannalöndum okkar sem bestum árangri ná leggja öll þunga áherslu á þessi atriði, enda eru þau lykillinn að því að fá áhugasamt og hæfileikaríkt folk til starfa. Flestir íslenskir læknar hafa til þessa stundað framhaldsnám erlendis við góðar stofnanir, þar sem rík áhersla er lögð á tengingu þjónustu við vísindastarfsemi. Þeir hafa því getað flutt nýja, hagnýta og fræðilega þekkingu fljótt til landsins að framhaldsnámi loknu. Oft halda þeir ennfremur tengslum við hinar erlendu stofnanir eftir að þeir hefja störf hérlendis, leita þar fanga um samstarf og endurmenntun og veita yngri læknum brautargengi þangað. Fræðilegar áherslur eru oft mismunandi á hinum ýmsu stöðum og sumir telja að þetta víðtæka og fjölbreytilega alþjóðlega framhaldsnám íslenskra lækna og þau tengsl sem af því hljótast séu einn helsti styrkur íslensks heilbrigðiskerfis. Mest hafa unglæknar sótt til Norðurlanda, einkum Svíþjóðar, og Bandaríkjanna, í minna mæli til Bretlands og Kanada en sókn til Hollands hefur færst í aukana. Undanfarin ár hefur þó þrengst um hag íslenskra lækna að þessu leyti og er orðið erfiðara en áður að fá námsvist erlendis. Til dæmis er mjög erfitt að fá námsvist í Svíþjóð og nær útilokað í Kanada, þó enn sé nægilegt og jafnvel verulegt framboð á stöðum í Noregi.
  • Hrafn Sveinbjarnarson, fyrsti íslenski læknirinn. minning 800 árum síðar. Ráðstefna á Hrafnseyri við Arnarfjörð, 24. ágúst 2013

   Sigurður Guðmundsson; Lyflækningasvið Landspítala, læknadeild háskóli Íslands (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2013-07)
  • Hugleiðingar eftir Suðurlandsskjálfta [ritstjórnargrein]

   Sigurður Guðmundsson; Directorate of Health, Austurstrœnd 5, 170 Seltjarnarnesi, Iceland. sigurdur@landlaeknir.is. (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2000-07-01)
   Þegar Þetta er ritað er innan við vika frá því að seinni jarðskjálftinn reið yfir Suðurland. Ekki fer hjá því að menn velti því fyrir sér hvernig heilbrigðiskerfið hafi brugðist við og hvort einhverjar lexíur megi læra af þeirri reynslu sem fengist hefur. Búist er við fleiri skjálftum og því ekki úr vegi að reyna að meta ástand mála nú þó alllangur tími muni líða þar til við getum metið viðbrögðin endanlega. Ljóst er að við vorum heppin. Í fyrsta lagi varð nærfellt enginn fyrir líkamstjóni. Í öðru lagi stóðust stofnanir heilbrigðiskerfisins, bæði heilsugæslustöðvar og sjúkrahús á svæðinu, skjálftana og urðu þar litlar sem engar skemmdir. Í þriðja lagi urðu skjálftarnir á góðviðrisdögum um mitt sumar, ekki þarf að fara í grafgötur um hörmungarnar hefði Suðurland skolfið á óveðursnóttu í febrúar.
  • Hvenær verður heilbrigðisþjónusta að kosningamáli?

   Sigurður Guðmundsson; Lyflækningasvið Landspítala, læknadeild háskóli Íslands (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2013-04)
  • Inflúensa, quo vadis? [ritstjórnargrein]

   Sigurður Guðmundsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2008-01-01)
   Undanfarin ár hefur heimsbyggðin, að minnsta kosti þeir sem aflögufærir eru, búið sig undir heimsfaraldur inflúensu. Menn velkjast ekki í vafa um að hann mun yfir okkur ganga, spurningin er hvenær, hve stór og af hvaða stofni. Á undanförnum 300 árum hafa tíu faraldrar inflúensu A gengið yfir. Á síðastliðinni öld gengu þrír. Spænska veikin 1918-1919 dró 50-100 milljónir manns til dauða, en Asíuinflúensan 1957 og Hong Kong inflúensan 1968 voru sem betur fer mun smærri í sniðum. Allir þessir faraldrar hafa átt upptök sín í Suðaustur-Asíu. Þaðan má einnig vænta hins næsta, hvort sem hann verður fuglainflúensan H5N1 eða annar stofn, sem reyndar er orðinn tímabær miðað við gang þeirrar klukku sem tímasett hefur fyrri faraldra.
  • Mislingar - á hverfanda hveli?

   Sigurður Guðmundsson; Lyflækningasvið Landspítala (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2014-04)
  • Skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi [ritstjórnargrein]

   Sigurður Guðmundsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2002-10-01)
   Mikilvægi þess að geta fækkað dauðsföllum af völdum krabbameina er öllum ljóst. Krabbamein í ristli og endaþarmi valda miklu heilsutjóni og eru þriðja algengasta dánarorsök af völdum krabbameina meðal Íslendinga og tíðni sjúkdómsins hérlendis fer vaxandi. Nokkrar mjög stórar rannsóknir hafa sýnt óyggjandi að fækka má dauðsföllum af völdum þessara krabbameina um 15-33% með skimun þar sem leitað er að blóði í hægðum. Starfshópur á vegum landlæknis fékk það hlutverk að gera tillögur að leiðbeiningum um skimun fyrir ristilkrabbameini á Íslandi. Leiðbeiningarnar voru birtar sem drög og leitað var eftir ábendingum frá ýmsum fagfélögum. Eftir umfjöllun starfshópsins var ekki talin ástæða til breytinga á leiðbeiningunum og birtast þær í þessu tölublaði Læknablaðsins. Næsta skref er að meta hvort ástæða sé til að mæla með almennri skimun, líkt og við gerum nú í leit að krabbameini í brjóstum og leghálsi. Í kjölfar leiðbeininganna var ákveðið að stofnuð yrði framkvæmdanefnd sem huga ætti að því hvernig best væri að standa að framkvæmd skimunar. Mjög hefur verið vandað til þessarar vinnu af hálfu starfshópsins en það er síðan framkvæmdanefndar að meta hvort og hvernig framkvæma á fjöldaskimun og gera um það tillögur sem verða unnar í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið.
  • Taktur og tregi

   Sigurður Guðmundsson; Lyflækningasviði Landspítala (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2019-02)
  • Taktur og tregi

   Sigurður Guðmundsson; Lyflækningasviði Landspítala prófessor emeritus, læknadeild Háskóla Íslands (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2019-02)
  • Vioxx - víti til varnaðar? [ritstjórnargrein]

   Sigurður Guðmundsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2004-11-01)
   Þann 30. september síðastliðinn bárust þau óvenjulegu tíðindi að framleiðandi rófecoxíbs (Vioxx®), lyfja­fyrirtækið Merck, Sharp & Dohme hafi tekið lyfið af markaði vegna nýrra upplýsinga um aukna áhættu af völdum blóðsegamyndunar, kransæða­stíflu og heila­blóðfalla. Rófecoxíb er í flokki sýkló-oxýgenasa 2 hemla (coxíb) og var hið fyrsta þeirra á markaði. Þessi lyfjaflokkur kom fram fyrir fimm árum og fékk rófecoxíb markaðsleyfi á Íslandi í mars árið 2000. Lyfið naut strax mikillar hylli hér á landi sem annars staðar, enda var gengið fram af krafti við markaðssetningu lyfsins. Söluverðmæti lyfjaflokksins hér á landi árið 2003 var rúmlega 250 milljónir. Hélt rófecoxíb nokkuð öruggri forystu þótt celecoxíb (Celebra) hafi sótt á undanfarin tvö ár. Söluverðmæti lyfjaflokksins fyrstu sex mánuði ársins 2004 mun vera um 120 milljónir. Íslenskir læknar, og reyndar sjúk­lingar líka, tóku því mjög vel við sér í þessu efni. Við vorum reyndar ekki ein á báti þar, en stóðum mjög framarlega í flokki.