• Holsjáraðgerðir [ritstjórnargrein]

      Sigurgeir Kjartansson; Jónas Magnússon (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 1993-09-01)
      Holsjáraðgerðir (öðru nafni kögunaraðgerðir) eru afsprengi þróunar síðustu áratuga á sviði sjóntækja og myndvörpunar. Með tilkomu þessarar tækni hafa fjarlægar vonir ræst, sem blundað hafa með athafnamönnum, en aðeins birst í ævintýrum og lygisögum genginna kynslóða hér og erlendis. Sá hæfileiki að sjá í gegnum holt og hæðir, eða líkamshluta, var aðeins léður fjölkunnugum. Að fjarlægja líffæri ur djúpum líkamans um op á stærð við skráargat minnir óneitanlega á söguna um Jóhann Fást úti í Þýskalandi, en hann hafði gert samning við þann í neðra og var um síðir soginn út um skráragat á hurð þess herbergis er hann ætlaði að leynast í. Aðgerðir um holsjá hafa verið iðkaðar í vaxandi mæli síðustu tvo áratugi, en not þeirra hafa að mestu verið bundin við skoðun og aðgerðir í liðholum og í grindarholi kvenna. Lengst af hefur verið notast við beina speglun, þar sem læknirinn grúfir sig yfir sjúklinginn og gægist gegnum holsjána. Þannig hafa læknar náð undraverðum árangri með einföldum tækjabúnaði.