• Engin sátt enn um gagnagrunn á heilbrigðissviði [ritstjórnargrein]

   Vilhjálmur Rafnsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2000-03-01)
   Gagnagrunnur á heilbrigðissviði er til umræðu í Læknablaðinu. Í þetta sinn er reynt að gefa yfirlit yfir það nýjasta; greint er frá viðbrögðum við veitingu rekstrarleyfisins til handa Íslenskri erfðagreiningu og fyrirhugaðri málsókn Mannverndar og ýmissa einstaklinga á hendur íslenska ríkinu. Á síðustu tímum hafa hlutirnir gerst svo hratt að erfitt er fyrir Læknablaðið, sem kemur mánaðarlega, að velja til frásagnar það sem lesendur hafa enn áhuga á jafnframt því reyna að upplýsa lækna um heildarstöðu mála. Þótt allmargir læknar hafi lýst afdráttarlausri skoðun sinni á gagnagrunninum, til lasts eða lofs, hefur Læknablaðið einnig orðið þess vart að til eru þeir sem vilja tjá sig af mikilli varfærni um málið, og bera ýmsu við. Klínískum læknum finnst ef til vill að þeir séu staddir í átökum milli hagsmuna sjúklinga og vilja heilbrigðisyfirvalda, og að þeir eigi að sýna báðum aðilum hollustu, en það kann að reynast torratað. Margir eru búnir að gera upp hug sinn um hvernig brugðist muni við og væntir Læknablaðið þess að fá að heyra og birta skoðanir lækna um málið.
  • Gagnagrunnur á heilbrigðissviði [ritstjórnargrein]

   Vilhjálmur Rafnsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 1998-05-01)
   Ritstjórn Læknablaðsins hefur ákveðið að helga þetta tölublað sérstaklega umfjöllun um frumvarp til laga um gagnagrunna á heilbrigðissviði sem lagt hefur verið fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997-1998. Það er gert til þess að efasemdarraddir nái að koma fram um þetta alvarlega mál sem virðist eiga að hraða gegnum Alþingi. Frumvarpið hefur skyndilega komið fram án þess að átt hafi sér stað almenn umræða um efni þess, kosti málsins og galla, meðal lækna eða annarra. Að auki virðist sem afgreiðslu þess verði ef til vill flýtt. Hér er um að ræða stórt mál og margbrotið sem fullyrða má að geti ekki einungis bætt heilbrigðisþjónustuna eða gagnast við rannsóknir heldur hefur fleiri hliðar. í frumvarpinu er gert ráð fyrir einokun starfsleyfishafa á gerð gagnagrunna en slíkt gæti takmarkað frelsi annarra til vísindarannsókna. Hvers konar hömlur á frjálsa vísindastarfsemi hafa ávallt í lengdina leitt til stöðnunar, ekki einungis á sviði vísindanna heldur og í samfélaginu öllu.
  • Hagsmunaárekstrar og heilbrigðisfræði [ritstjórnargrein]

   Vilhjálmur Rafnsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 1995-09-01)
   Samkvæmt gögnum sem komin eru frá einum stærsta tóbaksframleiðanda í heimi (Brown og Williamson tóbaksfyrirtækinu) og birst hafa í Bandaríkjunum frá því á haustmánuðum 1993 þykir sýnt að: 1. Rannsóknir sem tóbaksframleiðendur létu gera á skaðsemi tóbaks voru oft á tíðum betri og nákvæmari en svipaðar rannsóknir sem unnar voru í heilbrigðisgeiranum. 2.Framkvæmdastjórn Brown and Williamson tóbaksfyrirtækisins var ljóst fyrir löngu að tóbaksneysla er skaðleg heilsu manna og aö nikótín er vanabindandi. Innan framkvæmdastjórnarinnar var rætt hvort upplýsa ætti almenning um þessa vitneskju. 3.Tóbaksframleiðendur ákváðu að halda sannleikanum um þetta leyndum. 4.Tóbaksframleiðendur földu rannsóknirnar fyrir dómstólum með því að senda niðurstöðurnar til lögfræðideilda sinna, og lögfræðingar þeirra héldu því fram að niðurstöðurnar ættu að liggja í þagnargildi í málaferlum, þar sem um væri að ræða sérstök skjöl sem vörðuðu trúnað milli lögfræðinga og skjólstæðinga þeirra. 5.Þrátt fyrir framangreinda vitneskju hafa tóbaksframleiðendur haldið því fram (og halda enn fram) að tengslin milli reykinga og heilsutjóns væru ósönnuð. Gagnvart almenningi hafa þeir látið sem þeir hefðu áhuga á að slík tengsl væru rannsökuð, og einnig að æskilegt væri að skoða hvort nikótín væri ávanamyndandi.
  • Hryðjuverk með smitefnum og eiturefnum [ritstjórnargrein]

   Vilhjálmur Rafnsson; Department of Preventive Medicine, University of Iceland, Neshaga 16, 107 Reykjavík, Iceland. vilraf@hi.is. (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2001-11-01)
   Heilbrigisyfirvöld í Bandaríkjunum hafa nú þegar þetta er skrifað staðfest áreiðanlega að 13 hafi sýkst af miltisbrandi og þar af hafi þrír dáið. Tilfellin eru öll á austurströndinni, Flórída, New York borg, New Jersey og í höfuðborginni Washington. Auk þess leikur grunur á því að sex einstaklingar til viðbótar hafi fengið miltisbrandssmit. Hryðjuverkamenn hafa sent miltisbrandsgró í pósti og þeir sem hafa sýkst hafa opnað póstsendingar eða handfjallað póst sem hefur innihaldið gró. Miltisbrandur hefur lengi verið til í vopnabúrum víða um heim, ætlaður til dreifingar yfir byggðir og borgir óvinarins en dreifingin með pósti nú er ef til vill enn áhrifameiri vegna þeirrar skelfingar sem þetta hefur valdið meðal almennings.
  • Húsasótt

   Vilhjálmur Rafnsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 1991-03-01)
   Húsasótt er safn einkenna sem margir verða varir við en gætir oftar hjá starfsmönnum í sumum húsum en öðrum. Fólk finnur að einkennin koma þegar það er í húsunum en dregur úr þeim aftur þegar farið er úr byggingunum. Einkennin hafa verið athuguð með spurningalistum eða viðtölum. Það má skipta þeim í tvennt. Algengust eru almennu einkennin þreyta, slappleiki og höfuðverkur. Ógleði gerir einnig vart við sig. Oft er litið á þurrk, sviða eða önnur óþægindi í nefi og augum sem eina heild, en einnig koma fyrir þorsti og þurrkur í hálsi ásamt þurri húð og astma einkennum. Ekki er víst að hægt verði að rekja einkennin til einnar orsakar. Þegar orsaka þessara einkenna hefur verið leitað með faraldsfræðilegum rannsóknum hefur verið unnt að útiloka með mælingum í andrúmsloftinu að eftirfarandi þættir séu algengir eða venjulegir skýringarþættir: hraði loftskipta, mengun formaldihýðs, ósóns, loftjóna, kolmónoxíðs, koldíoxíðs, tölvur, hermannaveiki og smitsjúkdómar. Aftur á móti hafa margar athuganir sýnt að í húsum sem menguð eru af örverum vegna raka frá kælikerfum eða rakagjöfum hafa starfsmenn meira af einkennum en annars staðar. Oftast hafa þó ekki fundist tengsl einkenna um húsasótt við örverur í andrúmsloftinu en stundum hafa slík tengsl fundist við leysanlega mótefnavaka í andrúmsloftinu. Þeir sem mest hafa lagt sig fram um að leysa gátuna um húsasótt telja að í framtíðinni verði unnt að komast hjá hluta vandamálsins í tempruðu loftslagi, með því að byggja einföld hús sem loftræst eru um glugga og þeir sem í húsinu dveljast geti sjálfir stjórnað að nokkru umhverfinu. Þetta eru þó aðferðir sem vart munu duga fyrir byggingar í borgarkjörnum eða í öðru loftslagi.
  • Hvernig unnið er með fræðilegar greinar sem berast Læknablaðinu [ritstjórnargrein]

   Vilhjálmur Rafnsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 1994-12-01)
   Þessi pistill lýsir ritstjórnarferli greina sem berast Læknablaðinu og er ætlaður til upplýsingar fyrir lesendur og verðandi höfunda. Ég geng út frá því að klókir höfundar kynni sér leiðbeiningar til höfunda um ritun og frágang fræðilegra greina í Læknablaðið sem birtist í Fréttabréfi lækna 7. tölublaði 12. árgangs, 1994, bls. 12-16. Efni þessara leiðbeininga verður ekki endurtekið hér, heldur gengið út frá því að þær hafi verið lesnar. Síðustu mánuði hafa þrír starfmenn unnið við Læknablaðið og ritstjórn heldur mánaðarlega fundi. Milli funda er náið samstarf ritstjórnarfulltrúa og ritstjórnar. Þegar handrit berst Læknablaðinu les ritstjórnarfulltrúi það þegar í stað og ef því er mjög ábótavant hvað varðar frágang eða með tilliti til ofannefndra leiðbeininga er það sent höfundi aftur með beiðni um lagfæringar. Venjulega þarf ekki að visa handritum til höfunda á þessu stigi heldur velur ritstjórnarfulltrúi tvo ritstjórnarmenn, að nokkru með hliðsjón af efni greinarinnar, til að lesa yfir handritið og annar þeirra tekur að sér að visa handritinu til yfirferðar og gagnrýni hjá einum eða fleiri ritrýnum. Þegar hér er komið sögu hafa liðið einn eða tveir dagar.
  • Hversu hættulegar eru óbeinar reykingar? [ritstjórnargrein]

   Vilhjálmur Rafnsson; Department of Preventive Medicine, University of Iceland, Neshaga 16, 107 Reykjavík, Iceland. vilraf@hi.is. (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2000-05-01)
   Umræður um heilsufarshættur af völdum óbeinna reykinga eða með öðrum orðum vegna umhverfismengunar tóbaksreyks halda áfram. Í nýbirtum leiðara í Lancet er hvatt til þess að Alþjóðlega krabbameinsrannsóknarstofnunin (International Agency for Research on Cancer, IARC) láti taka saman yfirlit og meti krabbameinshættur af umhverfismengun tóbaksreyks (1). Ekki koma fram efasemdir í leiðaranum um að umhverfismengun tóbaksreyks sé hættuleg heilsu manna. Í sama tölublaði Lancets skýra andstæðingar tóbaksreykinga frá því hvernig tóbaksiðnaðurinn gerði átak, og sparaði hvergi til, í því augnarmiði að gera ályktanir í rannsóknarskýrslu IARC um hættur óbeinna reykinga ótrúverðugar (2). Fjölþjóðleg rannsókn sem IARC skipulagði og birt var fyrir tveimur árum sýndi að makar reykingamanna voru í meiri hættu að fá lungnakrabbamein heldur en þeir sem áttu reyklausan maka og lungnakrabbameinshættan var líka aukin meðal þeirra sem urðu fyrir tóbaksreyk á vinnustað (3). Þessi evrópska rannsókn var hins vegar of fámenn til að geta sýnt fram á tölfræðilega marktækan mun en niðurstöðurnar komu engu að síður heim við það sem áður hefur birst um hættur vegna umhverfismengunar af völdum tóbaksreyks. Andstæðingar tóbaksreykinga halda því fram að vísindamenn og stjórnvöld verði að gera sér grein fyrir að við lifum í heimi, sem er undir sterkum áhrifum tóbaksiðnaðarins. Tóbaksiðnaðurinn beitir sér af afli til að trufla það að teknar séu rökréttar ákvarðanir í forvarnarmálum (2). Menn eru hvattir til að kynna sér nánar skrifin í Lancet.
  • Kembileit að krabbameini í brjósti með myndatöku [ritstjórnargrein]

   Vilhjálmur Rafnsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2003-02-01)
   Kembileit byggir á þeirri forsendu að greinist sjúkdómur áður en einkenni hans koma fram þá eru horfur sjúklinganna betri vegna þess að meðferð sem hafin er áður en sjúkdómur er farinn að valda veikindum er árangursríkari en meðferð sem er veitt seinna. Við kembileit er beitt tilteknu prófi á einkennalaust fólk í þeim tilgangi að flokka það eftir líkindunum á því að það hafi ákveðinn sjúkdóm. Kembileitarprófið sjálft greinir ekki sjúkdóminn sem leitað er að og þeir sem koma jákvætt út á prófinu þurfa að fara í nákvæma rannsókn til þess að hægt sé að ákvarða hvort þeir hafi sjúkdóminn eða ekki. Ef kembileit að krabbameini virkar rétt og gerir gagn þá á dánartíðni vegna sjúkdómsins að lækka í hópnum sem boðaður er til kembileitar. Þegar kembileit miðar að því að finna fyrirboða eða undanfaraástand alvarlegs sjúkdóms og síðan er beitt meðferð sem kemur í veg fyrir að sjúkdómurinn komi fram er hægt að meta árangur og gagnsemi kembileitarinnar í lækkuðu nýgengi áður en verður lækkun á dánartíðni vegna sjúkdómsins. Kembileit getur haft neikvæðar hliðar sem tengjast til dæmis falskt jákvæðum og falskt neikvæðum niðurstöðum úr kembileitarprófinu (1).
  • Krabbameinsvaldur færist skör hærra [ritstjórnargrein]

   Vilhjálmur Rafnsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 1997-06-01)
   Hvernig vitum við hvort efni eru krabbameinsvaldar? Getum við flett slíku upp í textabókum og fengið að vita vissu okkar í eitt skipti fyrir öll? Samband ákveðinnar mengunar og krabbameins er í sumum tilvikum orðin svo augljós að það nægir að glugga í barnabækurnar eftir dæmum og má hér nefna að tóbaksreykur leiðir til lungnakrabbameins. Það er með réttu hægt að halda því fram krabbameinsvaldandi efni séu mismunandi. Nokkur efni hafa sýnt sig að því að geta valdið krabbameinum eingöngu í dýratilraunum og stundum aðeins í einni dýrategund. Önnur efni eru talin geta valdið krabbameini í mönnum. Sum efni geta leitt til krabbameina þótt menn verði fyrir lítilli mengun, en um önnur efni virðist gilda að mengunin þurfi að vera mikil og vara lengi þar til aukin krabbameinshætta kemur fram. Einföldustu forvarnir við krabbameinum sem rekja má til mengunar efna gætu virst vera að banna notkun og meðferð slíkra efna. Þetta er oft og tíðum ekki hægt af hagnýtum ástæðum því að slík efni geta verið okkur gagnleg, svo sem eldsneyti og smurolíur, þannig að forvarnirnar þurfa að beinast að því aö vernda einstaklinga sem vinna með eða komast í snertingu við efnin. Þess vegna er þörf á flokkun og mati á efnunum með tilliti til hversu mikil krabbameinshætta stafar af þeim og hvar þau koma heist fyrir.
  • Langtímaáhrif kannabisneyslu

   Vilhjálmur Rafnsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2003-04-01)
   Fjöldi rannsókna hafa verið gerðar á fíkniefninu kannabis og hafa flestar beinst að fíkninni sjálfri og taugaeitrunareinkennum hjá þeim sem nota kannabis. Að undanförnu hafa birst niðurstöður rannsókna sem sýna annars vegar að kannabisreykingar valdi eiturverkun á erfðaefnið og framkalli þannig krabbamein og hins vegar að kannabisneysla tengist geðröskunum. Neysla kannabis jókst mjög á síðustu tugum seinustu aldar meðal ungs fólks í iðnþróuðum löndum. Það sem ýtti undir þessa auknu neyslu var ekki síst það hversu auðvelt var að verða sér úti um þennan vímugjafa en einnig auknar hömlur gegn áfengisneyslu og akstri bifreiða. Samfara þessu var það ef til vill hald manna að neysla kannabis væri hættulaus og gerði ekkert til eða að hún væri í það minnsta ekki eins skaðleg og reykingar og áfengisneysla. Fljótlega fór neysla kannabis að valda áhyggjum því talið var að hún gæti leitt til neyslu annarra og hættulegri vímuefna, einsog síðar var staðfest (1, 2).
  • Læknablaðið á netinu [ritstjórnargrein]

   Vilhjálmur Rafnsson; Védís Skarphéðinsdóttir (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2004-02-01)
   Læknablaðið hefur vaxið, eflst og dafnað að visku, þroska og getu einsog vera ber á þeim 90 árum sem það hefur verið gefið út. Þessi aldur er sannarlega virðulegur en blaðið hefur líka kappkostað að fylgja tíðarandanum hverju sinni og árið 2004 er blaðið sterkur fjölmiðill sem dagblöð og ljósvakafjölmiðlar vitna til, einkum hvað varðar nýjar íslenskar rannsóknir og fræðilegt efni. Þar eru meðal annars til umfjöllunar sjúkdómar sem áður voru taldir afar sjaldgæfir en sem nú er hægt að meðhöndla á nýjan og árangursríkan hátt, og er hér í þessu tilviki átt við lungnaslagæðaháþrýsting. Nýgengi sjúkdómsins er mjög lágt, um eitt til tvö tilfelli á milljón íbúa á ári, en í síðasta tölublaði Læknablaðsins á árinu 2003 var sagt frá þremur mjög nýlegum tilfellum sjúkdómsins á Íslandi. Skýringanna getur verið að leita í meiri þekkingu lækna, betri greiningartækni og nýjum meðferðarúrræðum, og eru þetta ánægjulegar fréttir þótt sumir myndu kalla þetta sjúkdómsvæðingu. Útgáfa Læknablaðsins á netinu www.laeknabladid.is er um það bil tveggja ára um þessar mundir.
  • Mikilvægi skráningar Læknablaðsins í Medline [ritstjórnargrein]

   Vilhjálmur Rafnsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2005-12-01)
   Fyrr á þessu ári var sagt frá því að Læknablaðið hefði verið samþykkt til skráningar í Medline sem er gagnabanki alríkislæknisfræðibókasafns Bandaríkjanna (National Library of Medicine, NLM). Þegar þetta er skrifað er búið að skrá í Medline nánast allt það sem birst hefur í Lækna­blaðinu það sem af er árinu. Vilyrði hefur fengist fyrir því að allt efni sem birst hefur í Læknablaðinu frá og með árinu 2000 geti fengist skráð í Medline, en það er allur sá tími sem Læknablaðið hefur verið til á rafrænu formi á netinu.
  • Náttúrulegur gangur krabbameina og sjúkdómsvæðingin [ritstjórnargrein]

   Vilhjálmur Rafnsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2003-06-01)
   Aukinni þekkingu er vandstýrt og eru mörg dæmi þess. Þau nærtækustu eru ef til vill úr eðlisfræðinni og verður ofarlega í huga notkun kjarnorkunnar, einkum þegar Bandaríkjamenn vörpuðu kjarnorkusprengjunum á Hírósíma og Nagasaki í Japan í lok síðustu heimstyrjaldar. Meðal eðlisfræðinga sem og annarra er enn deilt um hvort að í því ferli þegar kjarnorkan var beisluð og notuð í hernaði hafi siðvitið beðið lægri hlut fyrir bók- og verkviti. Stefán Hjörleifsson skrifaði leiðara í síðasta Læknablað og gerir að umræðuefni skyldu lækna og nauðsyn þess að læknisfræðilegri þekkingu sé ætíð beitt til góðs og bendir á að tal um sjúkdómsvæðingu sé þörf áminning um að varast beri oflækningar (1) og hér með er þakkað fyrir þá brýningu.
  • Nýr stjórnunarstíll [ritstjórnargrein]

   Vilhjálmur Rafnsson; Department of Preventive Medicine, University of Iceland, Neshaga 16, 107 Reykjavík, Iceland. vilraf@hi.is. (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2001-03-01)
   Sameining stóru sjúkrahúsanna gekk í orði kveðnu skjótt og greiðlega fyrir sig en þegar farið var að hagræða og sameina einstaka deildir komu erfiðleikarnir í ljós. Mörg er þau mál sem enn eru óljós. Mjög er enn á huldu hvernig samvinnan við Háskólann verður, en staðfesting á því, að hin nýja stofnun skyldi hafa með kennslu og rannsóknir að gera, virtist þó ein af skærustu nýjungunum í upphafi.
  • Nýtt Læknablað [ritstjórnargrein]

   Vilhjálmur Rafnsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 1994-08-01)
   Læknablaðið og Fréttabréf lækna hafa nú verið sameinuð í eitt blað, Læknablaðið. Jafnframt er blaðið nú sett, prentað og því dreift frá prentsmiðju á Íslandi, en blaðið var áður unnið í Danmörku, í samvinnu við útgáfu danska læknablaðsins. Með þessu móti verður útgáfa blaðsins hagkvæmari og útkomutími reglulegri. Fyrst um sinn mun blaðið koma mánaðarlega eins og verið hefur með Fréttabréfið en vel er hugsanlegt að síðar fjölgi eintökum á ári. Flutningur blaðsins heim þýðir aukna vinnu við gerð þess hér á landi og gæti komið í ljós að meiri mannafla þurfi við blaðið og verður tekin afstaða til þess þegar frekari reynsla hefur fengist af breytingunni.
  • Persónuvernd og vísindasiðferði [ritstjórnargrein]

   Vilhjálmur Rafnsson; Department of Preventive Medicine, University of Iceland, Neshaga 16, 107 Reykjavík, Iceland. vilraf@hi.is. (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2000-02-01)
   UMRÆÐUR UM PERSÓNUVERND OG SIÐFERÐI í vísindum hafa verið áberandi og ef til vill tekið meira rými undanfarið en áður. Breytingar og ný viðhorf á þessum sviðum hafa komið svo ört fram nýverið að læknar sem og aðrir hafa haft fullt í fangi með að fylgjast með í hverju nýjungarnar felast. Á haustdögum var lagt fram lagafrumvarp sem felur í sér breytingar á persónuverndarlögunum. Nýverið hafa verið gerðar breytingar á reglum um vísindasiðanefndir og skipan þeirra.
  • Sjálfstæði ritstjórna [ritstjórnargrein]

   Vilhjálmur Rafnsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 1999-03-01)
   Snar þáttur í flóknum undirstöðum nútíma þjóðfélags eru tímaritin í læknisfræði sem stýrt er af sjálfstæðum óháðum ritstjórnum. Vinnureglur ritstjórnanna eru að láta þar til hæfa aðila utan ritstjórnanna ritrýna innsent efni fyrir birtingu og læknar og vísindamenn, almenningur, fjölmiðlar og sjúklingar geta treyst þessum tímaritum. Lesendur eiga að geta litið svo á að það sem þeir lesa í þessum útgáfum sé eins nærri staðreyndum og mannlegt er að ná á þeim tíma sem birting á sér stað. Lesendur eiga einnig að geta treyst því að eigendur tímaritanna hafi ekki í eiginhagsmuna skyni haft áhrif á það sem birtist og að ritstjórarnir hafi ekki í meðferð lesefnisins sveigt inn á brautir hinna mörgu auglýsenda.
  • Sláum vörð um málfrelsið [ritstjórnargrein]

   Vilhjálmur Rafnsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 1997-09-01)
   Læknablaðið vekur athygli á málfrelsinu sem einum af hornsteinum mannréttinda. í nágrannalöndum okkar, Danmörku, Noregi og Svíþjóð eru nýleg dæmi um að vinnuveitendur lækna eða yfirvöld hafi reynt að hefta tjáningarfrelsi lækna sem af ýmsum ástæðum hafa gagnrýnt sparnað í heilbrigðiskerfinu og afleiðingar takmarkaðra fjárveitinga til heilsugæslu og umönnunar sjúklinga og aldraðra. Þó að dæmin séu ljós erlendis um að reynt hafi verið að þagga niður í læknum sem blöskrað hafi niðurskurðurinn gætu tilvikin verið fleiri en þau sem komast í hámæli. Hvernig er þessum málum háttað hér á landi?
  • Staða Læknablaðsins meðal annarra fjölmiðla [ritstjórnargrein]

   Vilhjálmur Rafnsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 1995-06-01)
   Fátt er mönnum jafn mikilvægt og heilsan og því þykja fréttir af nýjum uppgötvunum á sviði læknisfræðinnar spennandi. Almennur áhugi er ríkjandi á niðurstöðum nýrra rannsókna á heilsufari þjóðarinnar eða einstakra hópa hennar, til dæmis ákveðinna sjúklingahópa. Almenningur fær oftast upplýsingar um vísindi og heilbrigðismál í gegnum sjónvarp, útvarp, dagblöð og tímarit, en einnig er rætt um nýjustu fæðuóþolsskýrslurnar á kaffíhúsum, í líkamsræktarstöðvum og reyndar út um allar trissur. Læknablaðið er vísindarit, auk þess að vera félagslegur miðill fyrir lækna og fjalla um heilbrigðismál almennt. Í blaðinu birtast reglulega greinar um læknisfræði. Oftast eru þær byggðar á rannsóknum sem íslenskir læknar hafa framkvæmt á Íslandi, þar sem sjúklingarnir eða viðfangsefnin eru íslensk. Til fræðilegu greinanna eru gerðar sömu kröfur um gæði og framsetningu og hjá viðurkenndum, erlendum vísindatímaritum um læknisfræði, eins og áður hefur verið greint frá (1,2).
  • Tölfræði er nauðsynleg lífvísindunum [ritstjórnargrein]

   Vilhjálmur Rafnsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2004-07-01)
   Mikilvægi stærðfræði, sérstaklega tölfræði, í lífvísindum fer vaxandi (1). Umfang vísindarannsókna lækna og líffræðinga hafa aukist verulega á síðustu áratugum og hefur þessi aukning haldist í hendur við vaxandi fjölda lífvísindamanna hér á landi og bætta aðstöðu til vísindastarfa. Gagnsemi þessara rannsókna snerta mörg svið, allt frá því að bæta meðferð sjúklinga til þess að skjóta stoðum undir arðvænleg fyrirtæki og árangur rannsóknarstarfs hefur fengið mikla umfjöllun í fjölmiðlum síðustu árin.