• Hvernig er fræðsluþörfum aðstandenda gerviliðasjúklinga á Íslandi sinnt?

      Árún K. Sigurðardóttir; Brynja Ingadóttir; Háskólanum á Akureyri, kurðlækningasviði Landspítala, hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands (Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, 2014-02)
      Aðstandendur gegna mikilvægu hlutverki í bataferli sjúklinga sem fá gerviliði. Með styttri legutíma á sjúkrahúsum er meiri ábyrgð lögð á sjúklinga og aðstandendur hvað varðar umönnun sem heilbrigðisstarfsfólk sinnti áður. Til að sinna þessu hlutverki vel þurfa aðstandendur fræðslu en lítið hefur verið rannsakað hverjar fræðsluþarfir þeirra eru. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna hvernig fræðsluþarfir aðstandenda gerviliðasjúklinga eru uppfylltar á Íslandi og bera niðurstöður saman við sambærilegar niðurstöður frá sjúklingum. Rannsóknin var framvirk, lýsandi samanburðarrannsókn með úrtaki sjúklinga (n=279) sem fóru í skipulagðar gerviliðaaðgerðir á mjöðm eða hné frá nóvember 2009 til júní 2011 og aðstandenda þeirra (n=212) á þeim þremur sjúkrahúsum á Íslandi sem framkvæma slíkar aðgerðir. Mælipunktar voru þrír: tími 1 (T1) fyrir aðgerð og fyrir formlega fræðslu um aðgerðina; tími 2 (T2) við útskrift eftir aðgerð á sjúkrahúsinu, eftir útskriftarfræðslu, og tími 3 (T3) 6 mánuðum eftir aðgerð. Notuð voru stöðluð matstæki sem mæla væntingar sjúklinga og aðstandenda til fræðslu. Fengin fræðsla og aðgengi aðstandenda að upplýsingum frá heilbrigðisstarfsfólki var metið með fjórum spurningum úr Good Care Scale. Á T1 svöruðu 212 aðstandendur, á T2 svöruðu 141 og á T3 svöruðu 144 spurningalistum. Meðalaldur var 58 ár (sf 13,5) og spönn frá 19 til 89 ára, flestir voru makar eða 72%. Niðurstöður sýndu að bæði aðstandendur og sjúklingar höfðu meiri væntingar til fræðslu fyrir aðgerðina en þeir töldu sig hafa fengið bæði þegar spurt var strax eftir aðgerð sjúklings og sex mánuðum síðar. Eftir því sem aðstandendur höfðu betra aðgengi að upplýsingum frá hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum og læknum var væntingum um fræðslu betur sinnt. Álykta má að þörf sé á að meta fræðsluþarfir aðstandenda markvisst og nýta betur tímann til fræðslu meðan sjúklingur dvelur á sjúkrahúsinu. -------------------------------------------------------------------------------------------