• Hinn dýri vegatollur [ritstjórnargrein]

   Karl Andersen; Department of Cardiology, Landspitali University Hospital, Hringbraut, 101 Reykjavík, Iceland. andersen@landspitali.is. (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2000-09-01)
   Á undanförnum vikum hafa fleiri ungmenni látið lífið og örkumlast í umferðarslysum hér á landi en dæmi eru um í annan tíma. Landsmenn eru slegnir óhug við þessa atburði, leita skýringa og jafnvel sökudólga í hverju einstöku tilviki og komast oftar en ekki að þeirri niðurstöðu að slysinu hefði mátt afstýra, ef einhver hefði hagað sér á annan veg en raunin varð. Síðan heldur lífið áfram sinn vanagang, það er að segja hjá þeim sem ekki eiga um sárt að binda. Eftirköstin eru sjaldan dregin fram í dagsljósið: þjáningar syrgjenda, langar sjúkrahúslegur fórnarlamba, endurhæfing, örkuml og örorka. Sú þrautaganga er sjaldan tilefni fréttaflutnings og gleymist fljótt. Öllum ber saman um það, að þessari vargöld verði að linna. Íslenska þjóðin hefur ekki efni á að gjalda vegatoll með æsku landsins. En hvað er til ráða? Sérstök átök Umferðarráðs og Dómsmálaráðuneytis virðast engum árangri skila. Hræðsluáróðurinn með illa leiknum bílhræjum við vegarkantinn hverfur í rykmekki baksýnisspegilsins. Kallað er eftir aukinni löggæslu, hertum viðurlögum við umferðarlagabrotum, öruggari umferðarmannvirkjum, hækkun lágmarksaldurs ökumanna, bættri ökukennslu. Einn bendir á annan.
  • Fótaskortur, forvarnir og félagsleg ábyrgð í hálkutíð [ritstjórnargrein]

   Elísabet Benedikz; Landspitali The National University Hospital, Reykjavík, Iceland. (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2012-02)
   Hreinsun gangstétta og hjólastíga er mikilvæg í hálkunni, ekki síður en góður skófatnaður og mannbroddar. Hér bera borgaryfirvöld mikla ábyrgð og borgararnir líka því margir detta á bílaplönum og einkalóðum við hús sín. Við berum umfram allt sjálf ábyrgð á eigin öryggi og velferð.
  • Syfja og akstur [ritstjórnargrein]

   Gunnar Guðmundsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2008-07-01)
   Í febrúar 2008 hóf Umferðarstofa kynningu á þeim hættum sem fylgja syfju við akstur. Var það gert með málþingi, kynningum og auglýsingum í fjölmiðlum ásamt sérstakri vefsíðu sem finna má á www.15.is Um er að ræða mjög lofsvert framtak hjá Umferðarstofu. Syfja við akstur er verulegt vandamál sem vert er að beina að kastljósi og huga að úrbótum. Akstur er athöfn sem krefst mikillar árvekni og samræmingar á margvíslegri heilastarfsemi og samvinnu augna og útlima (1). Fjölgun umferðaróhappa hjá ökumönnum sem tala í farsíma á meðan á akstri stendur er augljóst dæmi um hvaða afleiðingar einbeitingarskortur getur haft. Á árunum 1998 til 2006 létust 16 manns í 10 umferðarslysum þar sem ökumenn sofnuðu undir stýri á Íslandi. Mikilvægt er að læknar séu á varðbergi fyrir því vandamáli sem syfja við akstur er. Dagsyfja er algengt vandamál sem allt að þriðjungur fullorðinna finnur fyrir á einhverju stigi. Orsakir dagsyfju eru fjöldamargar. Algeng orsök er of stuttur svefntími. Talið er að ónógur svefn sé afar mikilvæg orsök umferðarslysa þar sem þreyta ökumanns vegur þungt. Aðrar algengar ástæður dagsyfju eru hávaði og verkir sem trufla svefn. Þá eru mörg lyf sem breyta svefnstigum og getur það stuðlað að dagsyfju. Kæfisvefn er mikilvæg orsök dagsyfju. Talið er að 4% miðaldra karlmanna sé með kæfisvefn og allt að 2% kvenna. Auðvelt er að greina kæfisvefn með svefnrannsókn og til er árangursrík meðferð með bitgómi eða svefnöndunartæki. Kæfisvefn á öllum stigum veldur aukinni hættu á umferðarslysum. Fjölrannsóknagreining á yfir 40 vísindagreinum sýndi vel aukna áhættu á umferðaróhöppum hjá fólki með kæfisvefn (2). Að meðaltali er áhættan aukin tvö- til þrefalt.