• Lífslíkur fyrirbura [ritstjórnargrein]

      Þórður Þórkelsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2009-02-01)
      Árið 1959 sýndi Mary Ellen Avery fram á að glærhimnusjúkdómur (hyaline membrane disease) stafar af skorti á lungnablöðruseyti (pulmonary surfactant), sem á þeim tíma var aðaldánarorsök fyrirbura.1 Þó svo hulunni hafi verið svipt af meintilurð sjúkdómsins voru meðferðarmöguleikar fáir og dánartíðni fyrirbura há. Þegar forsetahjón Bandaríkjanna, Jacqueline og John F. Kennedy, eignuðust dreng árið 1963 eftir 35 vikna meðgöngu sem lést tveggja daga gamall úr glærhimnusjúkdómi, fengu vandamál fyrirbura óvænta athygli, sem varð hvati að auknum rannsóknum á því sviði. Á næstu árum var farið að nota öndunarvélar og síðan síblástur (CPAP, continous positive airway pressure) í vaxandi mæli við lungnasjúkdómum á nýburaskeiði og lífslíkur fyrirbura bötnuðu.2 Á níunda áratug síðustu aldar náðist að framleiða lungnablöðruseyti sem lyf og um 1990 var notkun þess orðin almenn. Við það jukust lífslíkur fyrirbura mikið, einkum minnstu barnanna.3 Þar með varð glærhimnusjúkdómur ekki lengur helsta ástæða burðarmáls- og nýburadauða. Á undanförnum árum hafa einnig orðið framfarir á öðrum sviðum nýburagjörgæslu, svo sem bætt öndunarvélameðferð, sem aukið hafa lífslíkur fyrirbura enn frekar. Jafnframt hafa orðið miklar framfarir í fæðingahjálp, sem einnig hafa átt mikilvægan þátt í bættum lífslíkum fyrirbura. Má þar nefna notkun barkstera fyrir fæðingu í þeim tilgangi að flýta fyrir lungnaþroska fóstursins, sem sýnt hefur verið að minnkar líkur á glærhimnusjúkdómi og gerir hann mildari.4 Nú er svo komið að meirihluti minnstu fyrirburanna lifir, eftir allt að 23-24 vikna meðgöngulengd.