• Mikilvægi mittismáls við eftirlit barna með offitu. Alvarleg frávik í blóðgildum hjá íslenskum börnum með offitu

      Ásdís Eva Lárusdóttir; Ragnar Bjarnason; Ólöf Elsa Björnsdóttir; Berglind Brynjólfsdóttir; Anna Sigríður Ólafsdóttir; Tryggvi Helgason; Læknadeild Háskóla Íslands, Barnaspítala Hringsins Landspítali (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavi­kur, 2015-09)
      Inngangur: Offita barna er vaxandi heilbrigðisvandamál í heiminum. Gegnum tíðina hefur líkamsþyngdarstuðull (Body Mass Index, BMI) verið helsti mælikvarði á offitu en ágæti hans hefur verið dregið í efa hjá börnum. Heilsuskólinn var stofnaður árið 2011 þegar þverfaglegt teymi var sett saman á Barnaspítala Hringsins til að aðstoða börn og fjölskyldur þeirra við að bæta lífsvenjur sínar. Markmið rannsóknarinnar var að finna þann mælikvarða á offitu barna sem hafði mest forspárgildi um frávik í blóðgildum auk þess að fá heildstæða mynd af frávikum í efnaskiptum barna með offitu í Heilsuskólanum. Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn, lýsandi og náði til allra barna sem leitað höfðu til Heilsuskóla Barnaspítalans á tímabilinu 1. janúar 2011 til 15. mars 2013 (n=181). Upplýsingatæknisvið Landspítalans tók saman upplýsingar um hæð, þyngd, BMI, mittismál og niðurstöður blóðrannsókna. Niðurstöður: Frávik í einu eða fleiri blóðgildum fundust hjá 54 börnum (47%). Af þeim börnum sem upplýsingar voru til staðar um höfðu fjögur (4%) staðfesta fitulifur og 28 (28%) höfðu insúlínhækkun, þar af átta (8%) að því marki að þörf væri á inngripi (hyperinsulinemia). Eitt barn hafði bæði fitulifur og marktæka insúlínhækkun. Ályktun: Frávik í blóðgildum barna með offitu eru algeng. Mittismál virðist hafa meira forspárgildi um frávik í efnaskiptum tengdum offitu en BMI-SDS. Mittismál mætti nota til að skima fyrir þeim börnum sem þurfa á reglulegu eftirliti að halda með tilliti til frávika í efnaskiptum. Mittismál bætir mikilvægum upplýsingum við í áhættumati á börnum með offitu. Rannsóknin sýnir því mikilvægi þess að heilbrigðisstarfsfólk mæli mittismál barna sem þeir hafa til meðferðar og eftirlits.