Popular Works (Fræðslugreinar) > Articles in Icelandic

Recent Submissions
-
Á að framkalla fæðingu vegna aldurs kvenna?Barneignaraldur hefur farið hækkandi í þróuðum löndum síðustu áratugi. Hækkaður aldur kvenna á meðgöngu hefur verið tengdur við aukna tíðni meðgöngukvilla, sjúkdóma og verri útkomu fæðingar. Víða hafa verið settar fram vinnureglur um framköllun fæðingar til þess að bæta útkomu fæðingar meðal eldri kvenna. Framköllun fæðingar er mikið inngrip í eðlilegt fæðingarferli og hefur verið tengt við ýmsa fylgikvilla, því er mikilvægt að skoða ávinning hennar vel. Eldri konur á meðgöngu eru konur 35 ára og eldri en áhrif aldurs á meðgöngu og fæðingu er mest hjá 40 ára og eldri. Aukin meðgöngulengd hjá þeim er talin tengjast hlutfallslega fleiri andvana fæðingum. Framköllun fæðingar virðist réttlætanlegt við 39‒40 vikna meðgöngu hjá konum 40 ára og eldri. Niðurstöður eru byggðar á fræðilegri samantekt á rannsóknum um efnið en þó skal árétta að þörf er á frekari rannsóknum. Ávallt gildir einstaklingsbundið og upplýst val kvenna um framköllun fæðingar vegna aldurs. Þörf er á almennri umræðu í samfélaginu um barneignaraldur. Mikilvægt er að ljósmæður og annað heilbrigðisfagfólk veiti ungu fólki fræðslu vegna ákvörðunar um barneignir, og áhrif þess að seinka barneignum.
-
Læknablaðið 100 ára. Saga og þróun Krabbameinsfélags ÍslandsGott heilbrigðiskerfi telst til sjálfsagðra mannréttinda í vestrænum samfélögum og þar er vel menntað heilbrigðisstarfsfólk sá grunnur sem allt hvílir á, ásamt fjármagni frá hinu opinbera, en öflug félagasamtök geta einnig lagt lóð sitt á vogarskálarnar. Stórstígar framfarir urðu í heiminum á síðustu öld á sviði krabbameinsmeðferðar, greiningar, rannsókna og forvarna. Þessar framfarir skiluðu sér hratt og vel til Íslendinga og þar átti Krabbameinsfélagið drjúgan hlut að máli. Félagið vann brautryðjendastarf í fræðslu til almennings,bæði varðandi einkenni krabbameina og forvarnir gegn þeim. Það beitti yfirvöld þrýstingi og safnaði fé til kaupa á tækjum og byggingar húsnæðis fyrir krabbameinslækningar. Félagið hóf skráningu krabbameina, stundaði rannsóknir á orsökum og eðli þeirra og byggði upp þekkingu á faraldsfræði krabbameina. Grunnur var lagður að enn dýpri þekkingu þegar líffræðilegar rannsóknir bættust við hjá félaginu, auk styrkveitinga til vísindamanna utan þess. Félagið hefur í áratugi rekið vel skipulagða leit að krabbameinum og á vegum þess hófst líknarmeðferð á Íslandi með stofnun og rekstri Heimahlynningar. Alla tíð hefur félagið stutt dyggilega við krabbameinsgreinda einstaklinga og ættingja þeirra og rekur nú sérstaka Ráðgjafarþjónustu í því skyni.