• Um bótarétt þeirra sem verða fyrir slysum

      Eiríkur Elís Þorláksson; Heimir Örn Herbertsson (Félag íslenskra sjúkraþjálfara, 2006)
      Á ári hverju verða hátt í tvö þúsund slys á Íslandi sem leiða til varanlegrar örorku. Algengust eru umferðarslys, vinnuslys eða slys í frístundum manna. Bætur til slasaðra nema milljörðum króna á ári hverju. Hagsmunir þeirra sem slasast eru einatt mjög miklir um að fá skaðabætur, einkum til að mæta tekjuskerðingu sem slys kann að hafa í för með sér, tímabundið og til framtíðar. Margir hinna slösuðu þurfa að leita til sérhæfðra meðferðaraðila, svo sem sjúkraþjálfara áður en mál klárast. Þá er algengt að slasaðir leiti aðstoðar lögmanna við hagsmunagæslu gagnvart greiðsluskyldum aðilum. Er því ljóst að oft eiga lögmenn og sjúkraþjálfarar sameiginlega umbjóðendur þó aðkoma þessara sérfræðinga sé auðvitað ólík gagnvart viðskiptavininum. Áður en bótauppgjör til slasaðs einstaklings á sér stað fer fram mat á afleiðingum slyssins, svokallað örorkumat. Við slíkt mat fara læknar (stundum ásamt lögfræðingum) yfir gögn málsins og leggja mat á tímabil tímabundinnar örorku og hve mikil varanleg örorka og miski hefur hlotist af slysi. Við slíkt mat er mikilvægt að fyrir liggi ítarlegar upplýsingar meðferðaraðila á hinum slasaða, þar á meðal frá sjúkraþjálfara sem hefur komið að endurhæfingu viðkomandi. Með grein þessari er leitast við að skýra réttarstöðu fólks sem slasast. Þá er fjallað um hvaða bætur það eru sem slasaðir eiga almennt tilkall til. Loks er farið yfir þau atriði sem að mati greinarhöfunda skipta máli við vottorðagerð sjúkraþjálfara.