• Læknablaðið 100 ára. Rannsóknarstöð Hjartaverndar, fortíð og nútíð

      Vilmundur Guðnason; Nikulás Sigfússon; Gunnar Sigurðsson; Rannsóknarstöð Hjartaverndar (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2014-09)
      Rannsóknarstöð Hjartaverndar tók til starfa haustið 1967. Megintilgangur hennar var að kanna algengi hjarta- og æðasjúkdóma á Íslandi sem þá voru í miklum vexti og finna helstu áhættuþætti þeirra svo unnt yrði að beita árangursríkum forvörnum. Reykjavíkurrannsókn Hjartaverndar var sett af stað í þessum tilgangi sama ár og náði til allra karla og kvenna fæddra 1907-1935 sem bjuggu á stór-Reykjavíkursvæðinu. Alls tóku þátt í rannsókninni tæplega 20 þúsund manns, eða rúmlega 70% þeirra sem boðin var þátttaka. Eftirlifandi hópur, tæplega 6000 einstaklingar, er uppistaðan í Öldrunarrannsókn Hjartaverndar sem framkvæmd var 2002-2011. Niðurstöður úr rannsóknum Hjartaverndar hafa lagt grunninn að þekkingu á helstu áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma á Íslandi og verið undirstaða markvissra forvarna gegn þessum sjúkdómum. Öldrunarrannsóknin hefur einnig gefið möguleika á ítarlegum rannsóknum á öðrum langvinnum sjúkdómum meðal aldraðra. Í grein þessari verður einungis farið yfir helstu niðurstöður hjarta- og æðasjúkdóma Reykjavíkur- og Öldrunarrannsóknarinnar frá upphafi.