• Alzheimers-sjúkdómur

   Jón Snædal (Öldrunarfræðifélag Íslands, 2004)
   Hvað er Alzheimers-sjúkdómur? Alzheimers-sjúkdómur er hrörnunarsjúkdómur í heila og er án þekktrar ástæðu í flestum tilfellum. Hann felur í sér að taugafrumur í heila rýrna smám saman og deyja svo ein af annarri. Sjúkdómurinn kemur ekki fram í öðrum líffærum. Fyrstu einkenni sjúkdómsins koma oftast fram á efri árum þótt þekkt séu tilvik fyrir miðjan aldur. Tíðni hans eykst með hækkandi aldri. Þrátt fyrir miklar rannsóknir á síðustu tveimur áratugum hefur ekki tekist að finna hvað veldur sjúkdómnum nema í sjaldgæfum tilvikum þar sem orsökin er tilteknar stökkbreytingar og er hann þá arfgengur með ríkjandi mynstri, þ.e. hafi einstaklingurinn gallann fær hann sjúkdóminn. Miklar vonir voru því bundnar við að frekari erfðarannsóknir myndu gefa svar við spurningunni en svo hefur ekki orðið. Hugmyndir um aðrar orsakir hafa ekki náð fótfestu en þó hefur vakið athygli að áhættuþættir Alzheimerssjúkdóms eru svipaðir áhættuþáttum fyrir heilaæðakölkun
  • Aromaþerapy – Hvað er það?

   Þorsteinn Guðmundsson (Öldrunarfræðifélag Íslands, 2004)
   Oft kemur það fyrir að ég er spurður að því hvað það sé eiginlega sem ég starfa við. Orðið „aromatherapy“ hljómar ekki kunnuglega í eyrum okkar og flestir hvá því þegar þeir heyra það. En hér er um að ræða aldagamla meðferð á sviði náttúrulækninga, sem aðlöguð hefur verið að þörfum nútímans og er oft stórlega vanmetin, að mati þeirra sem til þekkja. Aromaþerapy er skilgreind sem „markviss meðhöndlun með ilmkjarnaolíum undir eftirliti fagmanns, til að viðhalda og bæta líkamlega og andlega heilsu auk þess að vera fyrirbyggjandi“. Orðið er samsett úr aroma sem þýðir góð lykt og therapy sem þýðir meðferð. Aroma vísar til ilmkjarnaolíunnar sem alltaf er notuð við meðferð, en meðferðarform eru mismunandi eftir þörfum einstaklingsins og þarf að sérsníða fyrir hvern og einn.
  • Aðgengi í íbúðarhúsnæði fyrir 50 ára og eldri

   Anne G. Hansen; Anna Emilía Emma Pétursdóttir (Öldrunarfræðifélag Íslands, 2005)
   Þótt aðgengismál hafi í auknum mæli verið í brennidepli síðastliðin ár, hefur lítið verið rætt um aðgengi í húsnæði aldraðra og sárafáar rannsóknir hafa farið fram á því hér á landi. Iðjuþjálfarnir Anne G. Hansen og A. Emma Pétursdóttir gerðu rannsókn á aðgengi í íbúðum sem auglýstar eru fyrir 50 ára og eldri vorið 2005. Staðlað matstæki var notað til að meta aðgengi í íbúðarhúsnæðinu hlutlægt og spá fyrir um aðgengisvandamál sem gætu hugsanlega skapast. Niðurstöður bentu til þess að fólk með skerta líkamlega færni myndi rekast á aðgengisvandamál í öllum íbúðunum fimm sem metnar voru.
  • Aðlögun að stofnanalífi

   Hanna Lára Steinsson (Öldrunarfræðifélag Íslands, 2004)
   Það hefur lengi loðað við íslenska öldrunarþjónustu að biðtíminn eftir plássi á vist- og hjúkrunarheimilum í þéttbýli hefur verið allt of langur. Það er þó tilfinning okkar sem störfum í þessum geira að biðtíminn hafi verið að styttast á undanförnum misserum. Um þessar mundir eru um 75 manns á Landspítala-háskólasjúkrahúsi sem bíða eftir úrlausn á öldrunarstofnun, en mörg undanfarin ár hefur þessi hópur verið yfir 100 manns. Það hefur afar slæm áhrif á fólk, þegar meðferð og endurhæfingu er lokið, að þurfa að bíða mánuðum saman á sjúkrahúsi, án þess að vita fyrir víst á hvaða stað það endar.
  • Endurhæfing eftir ísetningu gerviliðar í mjöðm

   Harpa Hrönn Sigurðardóttir (Öldrunarfræðifélag Íslands, 2005)
   Endurhæfingin Niðurstöður rannsókna sýna að helstu vöðvahópar sem eru slappir hjá einstaklingum bæði fyrir og eftir gerviliðsaðgerð á mjöðm eru réttivöðvar mjaðmar (extensorar), beygjuvöðvar mjaðmar (flexorar), fráfærsluvöðvar mjaðmar (abductorar) og beygju- og réttivöðvar í hné. Einnig geta verið styttingar í vöðvum kringum mjöðm og hné (Shih, Du, Lin, og Wu, 1994). Hreyfingarleysi samfara stórum aðgerðum og sjúkrahúslegu veldur m.a. vöðvarýrnun (Suetta, o.fl., 2004). Þá hafa verkir einnig áhrif á að hreyfigeta minnkar og vöðvarýrnun eykst.
  • Gerviliðsaðgerðir á mjöðm

   Þorvaldur Ingvarsson (Öldrunarfræðifélag Íslands, 2005)
   Algengasta orsök þess að settur er gerviliður í mjöðm er vegna slitgigtar, þó kemur fyrir að settur er gerviliður vegna annarra sjúkdóma svo sem liðagigtar eða vegna afleiðinga brota. Mjaðmarslitgigt er algengur sjúkdómur á Íslandi sem og í öðrum vestrænum löndum. Tíðni eykst með aldri og er talið að tíundi hver Íslendingur sem er 70 ára eða eldri hafi slitgigt. Orsakir þessa sjúkdóms eru óþekktar en þó er vitað að erfðir eiga stóran þátt í þróun sjúkdómsins, en atvinna og álag á liðinn svo og umhverfisþættir skipta máli. Þegar liðurinn slitnar, springur brjóskið sem klæðir liðinn að innan og molnar. Við það eyðist brjóskið og liðurinn aflagast. Fyrstu einkennin sem fólk finnur fyrir eru stirðleiki og verkur í nára sem oft leiðir fram lærið, niður í hné eða aftur í rasskinn. Fólk verður vart við það að það á erfitt með að klæða sig í skó og sokka. Eftir því sem brjóskið eyðist stirðnar liðurinn og verkir aukast og breytast. Í byrjun sjúkdómsins eru verkir oft verstir fyrst á morgnana en lagast þegar fólk gengur nokkur skref. Síðan aukast verkirnir við alla hreyfingu og loks fær fólk mikil óþægindi í hvíld svo sem á nóttunni og missir svefn vegna þessa. Í dag eru engin lyf þekkt sem hafa áhrif á gang sjúkdómsins, en þau lyf sem gefin eru slá á verki og óþægindi. Fyrsta meðferð við sjúkdómnum eru æfingar, verkjalyf og bólgueyðandi lyf. Smám saman getur dregið úr hreyfifærni og þrátt fyrir hjálpartæki á fólk erfitt með að bera sig um. Þegar lyfjameðferð dugar ekki lengur til að halda sjúkdómseinkennum niðri og sjúkdómurinn hefur orðið mikil áhrif á lífsgæði fólks er yfirleitt valið að gera gerviliðsaðgerð.
  • Heilabilun : öðruvísi fötlun

   Svava Aradóttir (Öldrunarfræðifélag Íslands, 2003)
   Þegar Sigga í númer 17 kom út á götu á sokkaleistunum, klædd undirkjól og tveimur peysum, brosti fólk í kampinn og sagði: „Hún er orðin kölkuð hún Sigga“! Þegar Ásbjörn fyrrverandi þingmaður kom inn til kaupmannsins og spurði eftir mömmu sinni sem var dáin fyrir 20 árum, urðu allir hálfsmeykir. „Hvað hefur gerst með hann Ásbjörn, er hann að verða kalkaður“? Eitt var, að hún Sigga, sem alltaf hafði nú verið svolítið undarleg, færi að kalka. En hann Ásbjörn þingmaður! Það vakti ugg í brjósti fólks að sjá og heyra að jafnvel betri borgarar áttu á hættu að verða kölkuninni að bráð. Þetta var áður fyrr. Núna er ný öld og önnur og meiri þekking á hvað var að gerast í heilanum á Siggu og Ásbirni. Þau hafa bæði verið veik af einhverjum heilabilunarsjúkdómi og fengið einkenni sem þá voru kölluð „kölkun“. Þessi einkenni geta verið afar mismunandi, allt eftir um hvaða tegund heilabilunarsjúkdóms er að ræða, allt eftir um hvaða einstakling er að ræða, allt eftir hver persónuleg lífssaga hins sjúka einstaklings er.
  • Heilabilunareining : þjónustukeðja fyrir aldraða með heilabilun og aðstandendur þeirra

   Hanna Lára Steinsson (Öldrunarfræðifélag Íslands, 2002)
   Þann 6. mars árið 1998 var formlega stofnuð sérstök heilabilunareining innan öldrunarsviðs Sjúkrahúss Reykjavíkur, síðar Landspítala háskólasjúkrahúss. Einingin er staðsett á Landakoti og skiptist hún í nokkra þætti sem nýtast sjúklingum og aðstandendum á mismunandi stigum sjúkdómsins. Má þar nefna minnismóttöku, tvær legudeildir, stuðningshópa fyrir aðstandendur og þjónustusamninga við þrjár dagvistanir og eitt stoðbýli. Þessi þjónustukeðja er hugsuð út frá því markmiði að veita sjúklingum og aðstandendum þeirra meðferð, stuðning og fræðslu frá sömu aðilum í gegnum allt sjúkdómsferlið, eða frá greiningu til stofnanavistunar.
  • Hjúkrun gigtarsjúklinga á Íslandi

   Ingibjörg E. Ingimarsdóttir (Öldrunarfræðifélag Íslands, 2008)
   Gigtarsjúkdómar eru meðal algengustu sjúkdóma hér á landi. Talið er að einn af hverjum fimm landsmönnum fái gigt af einhverju tagi. Hér er því um mjög stóran sjúklingahóp að ræða og vegna þessa þurfa flestir hjúkrunarfræðingar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn að sinna gigtarsjúklingum með einhverjum hætti - ekki síst þeir sem tengjast öldrunarmálum. Í þessari grein eru kynntar sérhæfðar deildir hér á landi þar sem hjúkrunarfræðingar sinna gigtarsjúklingum auk þess sem fjallað verður stuttlega um áhrif gigtarsjúkdómsins á sjúklinginn og gefin innsýn í þá hjúkrunarmeðferð sem notuð er hér á landi
  • Hjúkrun sjúklinga vegna aðgerða á mjöðm

   Ingibjörg S. Guðmundsdóttir (Öldrunarfræðifélag Íslands, 2005)
   Sjúklingar sem njóta hjúkrunar vegna aðgerða á mjöðm hafa annaðhvort gengist undir gerviliðsaðgerð á mjöðm eða fengið beinbrot á mjöðm. Slitgigt er algengasta ástæða gerviliðsaðgerðar á mjöðm hjá öldruðum. Algengar ástæður fyrir broti á mjöðm er fall sem orsakast af lélegu næringarástandi, hreyfingarleysi, heilabilun eða öðrum sjúkdómum. Um 95% mjaðmarbrota verða hjá fólki sem er 50 ára og eldra. Hjúkrun við gerviliðsaðgerðir felst í góðum undirbúningi með tilliti til fyrra heilsufarsástands, getu sjúklings og aðstæðna og að fyrirbyggja mögulega fylgikvilla aðgerðar. Við beinbrot skiptir miklu að meta næringarástand og annað heilsufar sjúklinga og bregðast við því. Hjúkrun eftir aðgerðir felst í að fyrirbyggja mögulegar aukaverkanir og auka hæfni sjúklings til endurhæfingar. Gerviliðsaðgerðir gefa oft góðan árangur og bæta heilsu. Þar sem vitað er að mjaðmarbrot á efri árum minnkar lífsgæði er mjög mikilvægt að vinna að forvörnum á breiðum grundvelli og gera allt sem hægt er til að koma í veg fyrir beinbrot.
  • Iðjuþjálfun og gigt

   Guðbjörg Guðmundsdóttir (Öldrunarfræðifélag Íslands, 2008)
   Tilgangurinn með þessari grein er að kynna stuttlega þá þjónustu sem iðjuþjálfi Gigtarfélags Íslands (GÍ) býður upp á. Fjallað verður almennt um færniskerðingu, iðjuþjálfun Gigtarfélags Íslands, liðverndarfræðslu, hjálpartæki og spelkur. Fólk á öllum aldri fær gigtsjúkdóma og eru slitgigt, vöðva- og vefjagigt og iktsýki algengastir. Slitgigt er algengasti sjúkdómur í liðum og eykst tíðni hans með aldrinum. Þó nokkuð margir greinast með slitbreytingar í hrygg eða útlimaliðum á röntgenmyndum eða um 20% einstaklinga þó allur sá fjöldi beri ekki mikil einkenni slitgigtar. Um það bil 1% Íslendinga er með iktsýki
  • Kynlíf og eldra fólk : byggt á fyrirlestri, sem fluttur var á Landakoti 14. nóvember 2002

   Berglind Magnúsdóttir (Öldrunarfræðifélag Íslands, 2003)
   Á hinum síðari árum hefur umræðan um kynlíf fólks tekið miklum og hröðum breytingum. Kynlíf er til umfjöllunar í öllum helstu fjölmiðlum. Á Netinu er mikið af upplýsingum um allar tegundir kynlífs og í raun má segja að kynlífsumræðu síðustu ára hafi tekist að svala forvitnisþörf margra, þar sem umfjöllunarefnið er aðgengilegt og auðvelt er að verða sér úti um hugmyndir, þekkingu og staðreyndir. Þrátt fyrir þessa miklu útbreiðslu á kynlífsumræðu er einn þáttur hennar sem lítið hefur verið athugaður og skoðaður þrátt fyrir að stór og sífellt stækkandi hópur neytenda tilheyri honum, en það er kynlíf fólks á efri árum. Viðhorf á þann veg að kynlíf tilheyri eingöngu þeim sem yngri eru og að fólk sem komið er yfir fimmtugt sé í raun orðið kynlaust, er því miður nokkuð útbreitt. Afleiðingin er sú, að margt eldra fólk er farið að trúa því að þetta sé satt og efast um að það geti notið kynlífs né upplifað sig sem kynferðislega aðlaðandi vegna aldurs (Grigg, 1999). En staðreyndin er hins vegar sú að kynlífsþörf eldra fólks er lítið frábrugðin kynlífsþörf þeirra sem yngri eru.
  • Minningavinna með öldruðum

   Sigrún Huld Þorgrímsdóttir (Öldrunarfræðifélag Íslands, 2005)
   Ásíðari hluta nýliðinnar aldar hefur orðið mikil breyting á lífi og högum aldraðra á Íslandi, og ekki síst á viðhorfi til þeirra í samfélaginu. Fram að seinni heimsstyrjöld má segja að í grófum dráttum væri staða aldraðra svipuð og verið hafði um aldir í tiltölulega kyrrstæðu bændasamfélagi. Aldrað fólk naut ákveðinnar virðingar vegna reynslu og veraldarvisku og hafði hlutverk svo lengi sem það gat sinnt verki, en eftir það var það skylda heimilisins að annast hinn karlæga einstakling, vel eða illa eftir atvikum.
  • Ofvirk þvagblaðra hjá eldri konum

   Sigrún Hjartardóttir (Öldrunarfræðifélag Íslands, 2003)
   Vandamál tengd þvaglátum eru algeng meðal kvenna og fer tíðni þeirra vaxandi með hækkandi aldri. Konum finnst erfitt að ræða þessi vandamál og telja jafnvel að þau séu eðlileg í kjölfar barneigna og við hækkandi aldur. Hjá eldri konum eru einkenni um ofvirka þvagblöðru algengust. Með einföldum aðferðum er hægt að greina á milli mismunandi tegunda vandamála við þvaglát. Við ofvirka blöðru er hægt að beita þjálfun og lyfjameðferð sem eykur lífsgæði kvenna.
  • Öldrunargeðlækningar

   Hallgrímur Magnússon (Öldrunarfræðifélag Íslands, 2007)
   Greinin er stutt yfirlit yfir aðdraganda þess að öldrunargeðlækningar urðu sérgrein innan geðlæknisfræðinnar. Einnig er lýst hlutverki og verkefnum öldrunargeðlækna. Þekkingu þeirri sem liggur að baki sérgreinarinnar er stuttlega lýst.
  • Öldrunarinnsæi : ný kenning í öldrunarfræðum

   Helga S. Ragnarsdóttir (Öldrunarfræðifélag Íslands, 2006)
   Þessari grein er ætlað að kynna kenningu sem sænskur prófessor í öldrunarfræðum, Lars Tornstam hefur nýlega sett fram. Gerð er grein fyrir kenningunni í bók Tornstams Gerotranscendence sem er núna aðgengileg á bókasafni LSH á Landakoti. Efni greinarinnar er allt úr þeirri bók nema annars sé sérstaklega getið. Þetta er ekki vísindaleg umfjöllun, heldur einungis til þess gerð að vekja áhuga á kenningunni og þeim möguleikum sem hún opnar til nýs skilnings á hegðun og viðhorfum aldraðra. Þess vegna er saga hugmyndanna ekki rakin, ekki farið yfir rannsóknirnar sem kenningin byggir á og ekki heldur farið í tengingar við aðrar kenningar í öldrunarfræðum eða að hvaða leyti þessi nýja kenning er frábrugðin þeim. Um þetta allt vísast til bókarinnar. Vonandi munu sem flestir fá áhuga á að skoða efni hennar nánar.
  • Öldrunarlækningar á Íslandi : þróun og framtíðarsýn

   Aðalsteinn Guðmundsson; Ársæll Jónsson (Öldrunarfræðifélag Íslands, 2007)
   Öldrunarlækningar litu fyrst dagsins ljós um miðbik síðustu aldar þegar læknar í Bretlandi og í Bandaríkjunum sýndu fram á að hægt væri að koma fólki aftur til sjálfstæðrar tilveru eftir vistun á langlegustofnun á grundvelli hrumleika eða ástands sem var talið óafturkræft. Þessu dæmi var snúið við með heildrænni nálgun, bættri greiningu sjúkdóma, fjölþættri endurhæfingu en ekki síst með breytingu á hugarfari. Aldurstengdir sjúkdómar voru betur skilgreindir, meðferð þeirra bætt og komið á verklagi með matsskölum, forvörnum og þverfaglegri teymisvinnu. Með árunum hefur þörfin fyrir öldrunarlækningar aukist mikið vegna framfara í læknisfræði, mikillar fjölgunar aldraðra og einstaklinga með fötlun eða færniskerðingu af völdum langvinnra sjúkdóma. Heilbrigðisþjónustan á hinsvegar ennþá talsvert í land með að koma til móts við þessa þróun, enda býr hún við takmörkuð fjárráð, miðstýrt og flókið skipulag sem er fremur sniðið að þörfum yngri hópa með færri og samþættari vandamál.
  • Sjón á efri árum

   Guðmundur Viggósson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 2002)
   Langalgengasta orsök sjóndepru hérlendis er aldurstengd rýrnun í miðgróf sjónu (gulablettinum), sem á enska tungu er nefnd Age-related Macular Degeneration (AMD). Í daglegu tali gengur hún oft undir nafninu kölkun í augnbotni, sem er raunar rangnefni. Þeir sem henni eru haldnir eru alls ekki að kalka, hvorki andlega né líkamlega. Láta mun nærri að annar hver Íslendingur finni fyrir sjóndepru af hennar völdum eftir áttrætt. Af öllum skjólstæðingum Sjónstöðvar Íslands bæði blindum og sjónskertum, 1.250 að tölu, eru 700 (54%) sjónskertir af hennar völdum. Tveir þriðju hlutar þeirra eru komnir yfir sjötugt og enginn er alblindur. Langflestir eru reyndar í besta sjónskerðingarflokki, blinduflokki 1, þar sem sjónin er á bilinu 6/18 - 6/60 en með slíka sjón getur fólk yfirleitt lesið venjulegt letur með sérútbúnum sjónhjálpartækjum. Næstalgengasta orsök sjónskerðingar meðal Íslendinga er arfgeng sjónuhrörnun eða Retinitis Pigmentosa (RP) en með hana sem frumorsök blindu eða sjónskerðingar eru þó aðeins 70 manns eða tæp 6%. Í þriðja sæti kemur svo gláka með 5,2% og sjóntaugarrýrnun í því fjórða, 3,8%.
  • Sjúkraþjálfun parkinsonssjúklinga á Æfingastöð styrktarfélags lamaðra og fatlaðra

   Jóna Þorsteinsdóttir (Öldrunarfræðifélag Íslands, 2006)
   Parkinsonsveiki er taugasjúkdómur sem greinist hjá fólki að öllu jöfnu eftir fimmtugt. Helstu einkenni eru hreyfitregða, vöðvastífni og skjálfti. Allir hafa þörf fyrir reglulega hreyfingu til að viðhalda góðri heilsu og færni, en rannsóknir hafa sýnt að Parkinsonssjúklingar eru minna virkir en heilbrigðir jafnaldrar. Rannsóknir sýna að regluleg hreyfing er til góðs og að hægt er að bæta hreyfifærni Parkinsons-sjúklinga með æfingum. Með því að þjálfa líkamann léttum við einnig lundina. Á Æfingastöð SLF er hópþjálfun fyrir Parkinsonssjúklinga, leiðbeinendur eru sjúkraþjálfarar. Þjálfun fer fram bæði í æfingasal og í laug. Lögð er áhersla á þætti eins og líkamsstöðu, liðleika, færni við athafnir daglegs lífs, vöðvastyrk, þrek og úthald, jafnvægi, samhæfingu, snerpu og raddstyrk. Nýlegar rannsóknir benda til að regluleg hreyfing geti hægt á sjúkdómsferlinu og einnig hugsanlega haft fyrirbyggjandi áhrif, samkvæmt rannsóknum í Pittsburgh, Harvard School of Public Health og víðar.
  • Svefnvenjur aldraðra

   Björn Einarsson (Öldrunarfræðifélag Íslands, 2001-02-01)
   Þýðing svefnsins Víst er að við verðum að sofa til þess að geta vakað og liðið vel. Hitt er ekki eins ljóst hvers vegna. Líklegast er að líkaminn noti svefntíman til einhvers konar uppbyggingar og endurnýjunar. Alla vega myndast vaxtarhormonið að mestu leyti meðan við sofum. Það stjórnar ekki aðeins vexti barna og unglinga heldur tekur þátt í margvíslegri efnaskiptastarfsemi. Svefnþörfin Svefnþörf manna er mjög misjöfn, allt frá 4-10 klukkustundum á dag, en flestir þurfa 6-8 klukkustundir. Holdugir einstaklingar hafa yfirleytt meiri svefnþörf en grannir. Þeir sem hafa litla svefnþörf reynast vera þolinmóðari og félagslyndari en aðrir. Hægt er að venjast stuttum svefni, ef svefntíminn er styttur hægt og bítandi, en skyndileg truflun á svefni veldur önuglyndi, skertri athygli, sinnuleysi, áhugaleysi, dómgreindarskerðingu, vöðvabólgu og úthaldið skerðist. Svefnleysi í marga daga í röð veldur ruglástandi meðal aldraðra.