• Endurskipulagning náms við sjúkraþjálfunarskor Háskóla Íslands

   Árni Árnason (Félag íslenskra sjúkraþjálfara, 2005)
   Árið 1976 hófst kennsla í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands. Þó kennslan tæki nokkrum breytingum þegar árin liðu, var kennsluskráin lítið breytt. Á árunum 1994–1999 komu oft upp hugmyndir um að endurskipuleggja þyrfti námið, með það að markmiði að tengja betur saman einstaka þætti námsins, samþætta námskeið í stærri heildir og þar með takmarka fjölda lítilla og oft einangraðra námskeiða á ýmsum stigum námsins. Fyrsti vinnufundur kennara um endurskipulagningu námsins var haldinn í janúar árið 2000. Eftir það voru haldnir kennarafundir nær vikulega um einstaka málefni endurskipulagningarinnar ásamt stærri vinnufundum. Haustið 2002 hófst svo kennsla á fyrsta ári samkvæmt nýrri námsskrá. Þar sem um miklar breytingar og tilfærslur námskeiða milli ára var að ræða, var ákveðið að nemendur á öðru til fjórða ári lykju námi í gamla kerfinu.
  • Gildi þjálfunar við langvarandi óskilgreindum mjóbaksbakvandamálum og önnur meðferðarúrræði

   Oddný Sigsteinsdóttir (Félag íslenskra sjúkraþjálfara, 2005)
   Stoðkerfisvandamálum frá mjóbaki er gjarnan skipt niður í bráðavandamál og langvarandi vandamál. Ástæðan er sú að orsök, einkenni og meðferðarúrræði eru ekki þau sömu. Langvarandi mjóbaksvandi er mjög algengur og hefur greining og meðferðarúrræði verið óljós. En greining er forsenda hnitmiðaðrar meðferðar. Einungis hjá 15–20% fólks með langvarandi mjóbaksvanda er möguleiki á að sýna sérstaka vefjaskemmd með myndgreiningu sem orsök einkenna eins og til dæmis hryggjarliðaskrið, þrengsli í mænugangi eða brjósklos. Í 80–85% tilfella er enga orsök að finna með myndgreiningu.
  • Um bótarétt þeirra sem verða fyrir slysum

   Eiríkur Elís Þorláksson; Heimir Örn Herbertsson (Félag íslenskra sjúkraþjálfara, 2006)
   Á ári hverju verða hátt í tvö þúsund slys á Íslandi sem leiða til varanlegrar örorku. Algengust eru umferðarslys, vinnuslys eða slys í frístundum manna. Bætur til slasaðra nema milljörðum króna á ári hverju. Hagsmunir þeirra sem slasast eru einatt mjög miklir um að fá skaðabætur, einkum til að mæta tekjuskerðingu sem slys kann að hafa í för með sér, tímabundið og til framtíðar. Margir hinna slösuðu þurfa að leita til sérhæfðra meðferðaraðila, svo sem sjúkraþjálfara áður en mál klárast. Þá er algengt að slasaðir leiti aðstoðar lögmanna við hagsmunagæslu gagnvart greiðsluskyldum aðilum. Er því ljóst að oft eiga lögmenn og sjúkraþjálfarar sameiginlega umbjóðendur þó aðkoma þessara sérfræðinga sé auðvitað ólík gagnvart viðskiptavininum. Áður en bótauppgjör til slasaðs einstaklings á sér stað fer fram mat á afleiðingum slyssins, svokallað örorkumat. Við slíkt mat fara læknar (stundum ásamt lögfræðingum) yfir gögn málsins og leggja mat á tímabil tímabundinnar örorku og hve mikil varanleg örorka og miski hefur hlotist af slysi. Við slíkt mat er mikilvægt að fyrir liggi ítarlegar upplýsingar meðferðaraðila á hinum slasaða, þar á meðal frá sjúkraþjálfara sem hefur komið að endurhæfingu viðkomandi. Með grein þessari er leitast við að skýra réttarstöðu fólks sem slasast. Þá er fjallað um hvaða bætur það eru sem slasaðir eiga almennt tilkall til. Loks er farið yfir þau atriði sem að mati greinarhöfunda skipta máli við vottorðagerð sjúkraþjálfara.