• „Ég ætla að taka þá sem eru háværastir, óþrifnastir og hættulegastir" : hugmyndir Christian Schierbecks um geðveikrahæli um aldamótin

      Illugi Jökulsson (Geðverndarfélag Íslands, 1999)
      Árið 1900 birtist í blaðinu Ísafold grein um geðsjúka á Íslandi þar sem fullyrt var - og áreiðanlega með réttu - að Íslendingar væru að minnsta kosti einni til tveimur öldum á eftir tímanum hvað snerti meðferð geðsjúkra. En þá voru líka á kreiki hugmyndir sem um tíma virtust geta orðið að veruleika um að bæta úr brýnustu þörfinni með nýju geðveikrahæli. Sá sem átti heiðurinn af þeim hugmyndum var Christian Schierbeck, danskur læknir sem aðsetur hafði á Íslandi um þær mundir. Rett er að vara við að honum sé ruglað saman við Hans Jacob George Schierbeck sem verið hafði landlæknir hér á landi um nokkurra ára skeið á síðasta áratug nítjándu aldar; ekki er getið um það í læknatali að þeir nafnarnir hafi verið skyldir, þótt ekki sé það fráleitt. Christian Schierbeck fæddist á Helsingjaeyri í Danmórku 3. apríl 1872 og virðist hafa verið námsmaður ágætur. Hann lauk fyrri hluta læknisprófs frá Kaupmannahafnarháskóla með fyrstu einkunn árið 1894, en síðan varð nokkur bið á því að hann kláraði seinni hluta prófsins, enda mun hann hafa veikst, þó hvergi sé þess getið hvers eðlis veikindi hans hafi verið. Ekki mun hann altént lengi hafa legið rúmfastur, heldur lagst í ferðalög og meðal annars dvalið um hríð í Argentínu. 1898 kom hann til Íslands og leist vel á sig, svo mjög að hann var innan fárra missera farinn að tala um sig sem Íslending og um Íslendinga sem ,,landa sína". Fyrsta veturinn hér á landi dvaldi hann á Höfn í Hornafirði og kleif síðan Öræfajökul um sumarið, en haustið 1899 fékk hann undanþágu til þess að setjast í Læknaskólann í Reykjavik og ljúka þar því læknanámi sem hann hafði hafið í Kaupmannahöfn. Skemmst er frá því að segja að um vorið 1900 lauk Christian Schierbeck læknisprófi í Reykjavik með fyrstu einkunn, 185 1/6 stigi, og hafði enginn íslenskur læknanemi lokið svo góðu prófi árum saman. Ári seinna sló Andres Fjeldsted honum að vísu við.