Case of the month (Sjúkratilfelli mánaðarins) Articles in Icelandic
Recent Submissions
-
Ópíóíðaeitrun í kjölfar vórikónazólmeðferðar - Sjúkratilfelli67 ára gömul kona, sem tók langverkandi ópíóíðalyf (oxýkódon) vegna langvarandi brjóstverkja, varð fyrir bráðri ópíóíðaeitrun eftir að hafin var meðferð með vórikónazóli. Vórikónazól er sveppalyf sem getur bælt virkni CYP3A4 sem er niðurbrotsensím í lifur og gegnir lykilhlutverki í umbroti ýmissa lyfja. Í þessu tilfelli jókst sermisstyrkur oxýkódons sem olli alvarlegri ópíóíðaeitrun.
-
Pisa-heilkenni – sjúkratilfelliSextíu og sex ára kona með Parkinson-sjúkdóm leitaði til bæklunarlækna vegna erfiðra bakverkja. Konan hafði á skömmum tíma fengið hryggskekkju og göngugeta hennar hafði samtímis skerst. Konan var greind með hryggþröng (spinal stenosis) og hið sjaldgæfa Pisa-heilkenni sem stundum er fylgifiskur Parkinson-sjúkdóms. Í skurðaðgerð var hryggskekkjan rétt af og tveimur árum síðar var konan verkjalaus og göngugeta hennar hafði batnað verulega. Vandamál tengd bakskurðaðgerðum hjá fólki með Parkinson-sjúkdóm eru flókin og mikilvægt er að rétt aðgerð sé framkvæmd frá byrjun. Hér er lýst skurðmeðferð hjá konu með Parkinson-sjúkdóm og Pisa-heilkenni.
-
Loftbrjóst beggja vegna eftir nálastungumeðferð á meðgöngu - sjúkratilfelliHér er lýst tilfelli konu á fertugsaldri sem leitaði á bráðamóttöku vegna vaxandi takverks og mæði nokkrum klukkustundum eftir nálastungumeðferð. Nálastungurnar fékk hún vegna meðgönguógleði og uppkasta en hún var þá komin tæpar 15 vikur á leið. Við komu var hún með hvíldarmæði, aukna öndunartíðni og hjartsláttarhraða en súrefnismettun og blóðþrýstingur innan viðmiðunarmarka. Við hlustun voru skert öndunarhljóð yfir lungnatoppum og lungnamynd sýndi nánast algjört samfall á báðum lungum. Komið var fyrir brjóstholskerum beggja vegna sem fjarlægðir voru einum og tveimur dögum síðar og hún útskrifuð heim. Konunni heilsaðist vel eftir útskrift og meðgangan gekk vel í kjölfarið. Þetta tilfelli sýnir að loftbrjóst getur hlotist af nálastungumeðferð ef nálunum er stungið of djúpt í brjóstkassann. Í þessu tilviki hlaust af loftbrjóst beggja vegna sem getur reynst lífshættulegt.
-
Drep í fingrum í kjölfar ísetningar slagæðaleggja - sjúkratilfelliInngangur: Notkun slagæðaleggja er algeng hjá gjörgæslusjúklingum vegna þarfar fyrir rauntímaupplýsingar um blóðþrýsting og vökvaástand sem notaðar eru til að stýra meðferð ásamt því að vera notaðir til blóðsýnatöku. Alvarlegir fylgikvillar eru afar sjaldgæfir, en varanlegur blóðþurrðarskaði kemur fyrir hjá færri en 0,1% sjúklinga. Tilfelli: Hér er sagt frá sjúklingi í sýklasóttarlosti á gjörgæsludeild sem gekkst undir aðgerð vegna rofs á skeifugörn. Á annarri viku komu fram einkenni blóðþurrðar í öllum fingrum vinstri handar. Sjúklingurinn var fjölveikur, hafði þurft háa skammta af æðavirkum lyfjum og þurfti endurtekið að skipta um slagæðaleggi í mismunandi slagæðum, meðal annars í sveifarslagæð og ölnarslagæð vinstri handar. Beitt var blóðþynnandi meðferð sem sjúklingurinn þoldi ekki vegna blæðinga frá meltingarvegi og því dregið úr henni. Átta vikum síðar hafði afmarkast drep í öllum fingrum vinstri handar og í kjölfarið var framkvæmd aðgerð þar sem hluti af fingrum II-V voru fjarlægðir en ekki þurfti að gera aðgerð á þumli. Orsök drepsins er talin vera margþætt, meðal annars undirliggjandi ástands sjúklings, blóðsegi eða blóðþurrð í kjölfar ísetningar slagæðaleggja. Ályktun: Hér er lýst vel þekktum en mjög sjaldgæfum fylgikvilla slagæðaleggsísetningar og lögð fram tillaga að meðferðarferli sjúklinga með einkenni um blóðþurrðardrep í fingrum.
-
Risafituæxli á kvið - sjúkratilfelliFituæxli eru algeng góðkynja mjúkvefjaæxli, oftast lítil, hægvaxandi og einkennalaus. Hér er lýst tilfelli 52 ára konu í mikilli yfirþyngd sem leitaði læknis vegna stækkandi æxlis ofan við lífbein sem var á stærð við fótbolta. Æxlið hafði farið vaxandi síðustu 8 mánuði. Uppvinnsla gaf vísbendingu að um fituæxli væri að ræða. Sjúklingurinn undirgekkst aðgerð þar sem æxlið var fjarlægt. Vefjagreiningin sýndi fituæxli án illkynja vaxtar. Fituæxli eru fjarlægð þegar stærð þeirra er farin að valda einkennum eða útiloka þarf illkynja mein. Risafituæxli eru skilgreind sem fituæxli yfir 10 cm í þvermál eða sem vega meira en 1000 grömm.
-
Truflun á starfsemi heiladinguls vegna ópíóíða - SjúkratilfelliSjötíu og sjö ára kona með flöguþekjukrabbamein í endaþarmsopi var lögð inn vegna slappleika, niðurgangs og ógleði, en hún hafði einnig glímt við bakverki vegna samfallsbrots. Vegna verkjanna var hún meðhöndluð með sterkum ópíóíðum en hrakaði klínískt í kjölfarið með lækkandi blóðþrýstingi, versnandi öndunarstarfsemi og brenglun á blóðsöltum. Gildi kortisóls, TSH og LH mældust lækkuð og prólaktíns vægt hækkað, en nýrnahettuörvunarpróf (Synacthen-próf) og segulómskoðun af heila reyndust eðlileg. Vaknaði þá grunur um að ópíóíðameðferð hefði valdið truflun á starfsemi heiladinguls. Var því hafin sykursterauppbót með hýdrókortisóni með góðum klínískum árangri. Hér er tilfellinu lýst og greint frá alvarlegri en minna þekktri aukaverkun ópíóíða.
-
Endurtekin krampaköst hjá ungri konu – sjúkratilfelli18 ára hraust stúlka kom endurtekið á slysadeild á 6 vikna tímabili vegna krampakasta. Engin fyrri saga var um flogaveiki og hún tók engin lyf. Myndrannsóknir og heilalínurit bentu ekki til flogaveiki. Hún mældist með lækkaðan blóðsykur í tvígang á slysadeild, 1,3 mmól/L og 1,7 mmól/L (4,0-6,0 mmól/L). Vaknaði þá grunur um insúlínmyndandi æxli. Gerð var víðtæk leit að æxlisvexti sem bar engan árangur. Var hún því send erlendis í frekari uppvinnslu, meðal annars í jáeindaskanna og sérhæfða æðamyndatöku. Hún var að lokum greind með nesidioblastosis. Hér verður fjallað um sjúkratilfellið auk yfirferðar um þennan sjaldgæfa sjúkdóm og uppvinnslu á honum.
-
Brátt blóðþurrðarslag hjá unglingsstúlku - sjúkratilfelliFimmtán ára stúlka fann fyrir skyndilegum verkjum vinstra megin í hálsi og hneig niður á knattspyrnuæfingu. Reyndist hún vera með hægri helftarlömun og tjáningarmálstol við komu á bráðamóttöku. Tölvusneiðmynd með skuggaefni vakti í fyrstu grun um flysjun í vinstri innri hálsslagæð. Einkenni bötnuðu fyrstu dagana en versnuðu svo aftur á fjórða degi og sýndi tölvusneiðmynd þá drep í heila. Æðarannsókn sýndi skert flæði á svæði vinstri miðlægrar heilaslagæðar en engin merki um flysjun eða blóðsega. Grunur vaknaði um heilkenni afturkræfs samdráttar í heilaæðum og var hafin meðferð með kalsíumgangahindrum. Hér verður fjallað um sjúkratilfellið auk yfirferðar yfir sjúkdóminn.
-
Sjaldgæft tilfelli af vöðvabandvefsæxli með bólgufrumuíferð í hægri kinnkjálkaKarlmaður með æxlisvöxt í hægri kinnkjálka af vöðvabandvefsgerð með bólgufrumuíferð fór í á annan tug aðgerða vegna síendurtekins æxlisvaxtar yfir fjögurra ára tímabil og er án einkenna um endurkomu sjúkdóms í dag. Frumur ræktaðar úr æxlinu sýna stofnfrumueiginleika sem gæti verið þáttur í endurteknum æxlisvexti. Mikilvægt er að fylgja sjúklingum með þessa sjúkdómsmynd vel eftir og ekki er hægt að útiloka frekari staðbundnar endurkomur þó svo að skurðbrúnir séu fríar af æxlisfrumum.
-
Próteinútfellingar í lungnablöðrum meðhöndlaðar með lungnaskoliPróteinútfellingar í lungnablöðrum (pulmonary alveolar proteinosis, PAP) eru oftast af óþekktum orsökum en meingerð sjúkdómsins er rakin til skertrar átfrumuvirkni í lungnablöðrum sem veldur því að lípóprótein sem líkjast lungnablöðruseyti safnast fyrir í lungnablöðrum og smærri loftvegum.1 Fyrsta tilfellinu var lýst af Rosen og félögum árið 1958.1,2 Algengustu einkenni útfellinganna eru frá lungum, aðallega mæði og hósti. Á lungnamynd og tölvusneiðmyndum sjást dreifðar þéttingar í báðum lungum en greiningin er staðfest með sýnatöku við berkjuspeglun, annaðhvort með vefjasýni eða berkjuskoli og í einstaka tilfellum með opinni sýnatöku. Hér er lýst tilfelli þar sem lungnaskolun í svæfingu reyndist mjög árangursrík. Um er að ræða fyrsta tilfellið sem lýst hefur verið hér á landi.---------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------
-
Kalkkirtlablaðra í miðmæti – sjúkratilfelliAlgengustu fyrirferðir í framanverðu miðmæti eru góðkynja æxli í hóstarkirtli en illkynja fyrirferðir eru líka vel þekktar. Hér er lýst tæplega sextugri konu með vaxandi kyngingaróþægindi og fyrirferð á hálsi. Tölvusneiðmyndir sýndu tæplega 6 cm stóra vel afmarkaða vökvafyllta blöðru ofarlega í framanverðu miðmæti. Blaðran var fjarlægð með skurðaðgerð og reyndist vera góðkynja kalkkirtlablaðra. Kyngingareinkenni hurfu en mælingar á kalkvaka og kalsíum í sermi bæði fyrir og eftir aðgerð voru eðlilegar. Kalkkirtlablöðrur í miðmæti eru afar sjaldgæfar en innan við 100 tilfellum hefur verið lýst í heiminum. Lýst er fyrsta íslenska tilfellinu.____________________________________