• Upphringuð líkamshár [sjúkratilfelli]

      Þorsteinn Skúlason; Björn Guðbjörnsson (Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, 1998-02-01)
      Áttatíu og sjö ára gamall karlmaður var lagður inn á lyflækningadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri vegna vaxandi þreytu og slappleika. Matarlyst hans hafði einnig minnkað síðustu misserin. Dagana fyrir innlögn hafði sjúklingur hósta án uppgangs, en var hitalaus. Sjúklingur var án allra einkenna frá innri líffærum. Hann hafði áður verið hraustur, lifað reglusömu lífi og var lyfjalaus við komu á sjúkrahúsið. Við skoðun var tekið eftir upphringuðum líkamshárum í opi hársekkja, mest áberandi á baki, lærum og upphandleggjum (mynd 1). Engin útbrot eða blæðingar voru í húð eða slímhúðum. Sjúklingur hafði augasteinsbauga í báðum augum. Engar eitlastækkanir var að finna. Lungna- og hjartahlustun var eðlileg, blóðþrýstingu 160/90, púls var reglulegur, 88 slög á mínútu. Kviður var mjúkur, eymslalaus og án líffærastækkana, endaþarmsskoðun var eðlileg. Skoðun á taugakerfi með tilliti til snerti- og sársaukaskyns, vöðvakrafts og sinaviðbragða var eðlileg. Hins vegar var sjúklingur ekki fyllilega áttaður á tíma og skammtímaminni var skert og hann átti í erfiðleikum með einfaldan reikning. Blóðhagur var innan eðlilegra marka svo og fastandi blóðsykur, blóðsölt, lifrarpróf og skjaldkirtilspróf. Kreatínín var vægt hækkað, 118 mmól/L. Gildi fyrir fólat (7 nmól/L, viðmiðunarmörk 7-28,1) og B12 (203 pmól/L, 165-835) voru innan neðri viðmiðunarmarka, en prótín í sermi voru lækkuð 34,2 g/L (38-51). Þvagskimun var eðlileg og einnig lungnamynd. Vegna hækkunar á kreatíníni var framkvæmd ómskoðun af nýrum og sýndi hún merki um trefjafituíferð í nýrum. Hver er líklegasta skýringin á upphringuðum líkamshárum?